29.02.1968
Efri deild: 64. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla að segja hér aðeins örfá orð og fylgja úr hlaði þeirri brtt., sem ég hef flutt ásamt þremur öðrum hv. þdm. á þskj. 285, en þessi till. hljóðar á þá leið, að 1. gr. frv., 5. mgr., verði breytt og orðist hún þannig:

„Heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og aðalskrifstofa skal vera á Siglufirði.“

Eins og hv. þdm. er kunnugt, fluttum við fjórir, þeir sömu þingmenn, sem að þessari brtt. stöndum, sérstakt frv. um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd. Þetta frv. var flutt, að mig minnir, um mánaðamótin nóv.-des. Það eru liðnir þrír mánuðir síðan það frv. kom fram hér í d. og var rætt og vísað til n., en síðan hefur ekkert til þessa frv. spurzt og ekkert komið frá hv. sjútvn. um það, hvernig hún afgreiði þetta frv. eða hvort hún ætli sér að afgreiða það.

Þessi brtt., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru alveg samhljóða þessu frv., sem við fluttum þarna fyrir jólin, og þetta er kannske nokkuð óvenjulegur háttur, að vera að flytja brtt. alveg sama efnis og frv., sem liggur fyrir frá okkur, þessum sömu flm., en við gerum það til þess að reyna að koma þessum sjónarmiðum okkar á framfæri og fá um þau atkvgr. í d., eins og við teljum okkur eiga rétt á, úr því að frv. hefur ekki komizt lengra áleiðis. Ég vil taka það fram um efni þessa frv., eins og hér kemur fram í þessari brtt., að það er tiltölulega einfalt. Um þetta mál urðu einmitt miklar umræður á opinberum vettvangi um það leyti, sem þetta frv. var flutt, þannig að ég vil segja, að öll aðalatriði þess máls lágu frá upphafi nokkuð ljóst fyrir, þannig að ég held, að það hefði ekki átt að taka hv. sjútvn. langan tíma að komast að niðurstöðu um, hvernig hún vildi afgreiða áðurgreint frv.

Um efni þessarar brtt. skal ég ekki orðlengja hér, ég get algerlega vísað til framsöguræðu minnar, sem ég hélt hér fyrir jólin, þegar frv., sem er samhljóða þessari brtt., var flutt. Það skýtur nokkuð skökku við, ef ætti að fara að flytja aðalskrifstofu síldarútvegsnefndar frá Siglufirði og hér í þéttbýlið að þarflausu, að því er séð verður, og einmitt á þeim tíma, þegar verið er að undirbúa byggðaáætlanir fyrir landsbyggðina, þannig að hér væri vissulega stigið skref aftur á bak, og reyndar, eins og kom fram í fyrri framsöguræðu minni, er skv. gildandi reglugerð skylt að hafa heimili síldarútvegsnefndar á Siglufirði. Og maður á erfitt með að átta sig á, hvað í því felst, að ríkisstofnun skuli hafa heimili á tilteknum stað, ef það er ekki ætlazt til þess, að aðalskrifstofa stofnunarinnar sé þar.

Ég vil aðeins undirstrika það, að með þessu orðalagi hér í brtt., að heimili síldarútvegsnefndar, varnarþing og aðalskrifstofa skuli vera á Siglufirði, er ekki á nokkurn hátt verið að mæla gegn því, að síldarútvegsnefnd hafi einnig skrifstofur annars staðar, þar sem nefndin telur henta, svo sem eins og í Reykjavík og á Seyðisfirði, en aðeins undirstrikað, að aðalskrifstofan eigi að vera á Siglufirði, eins og hún hefur verið í áratugi og ekki hefur komið að sök.