07.03.1968
Efri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir nýrri brtt. á þskj. 345, sem liggur hérna frammi. Þessi brtt. er flutt af okkur hinum sömu og fluttu brtt. um þetta mál á þskj. 285, og má segja, að þessi síðari brtt. okkar sé eiginlega endurbætt útgáfa af hinni fyrri, og er fyrri till. á þskj. 285 dregin til baka. Það sem telst nýtt í þessari brtt. á þskj. 345 er það, að það er berum orðum tekið fram, að síldarútvegsnefnd skuli einnig hafa skrifstofur í Reykjavík og á Austurlandi. Þetta er gert til að undirstrika það, að það var aldrei hugsun okkar, sem að þeirri brtt. stóðum, að hrófla neitt við því, að síldarútvegsnefnd hefði heimild til að hafa skrifstofur á þessum stöðum. Þvert á móti teljum við það eðlilegt, að síldarútvegsnefnd hafi skrifstofur bæði í Reykjavík og á Austurlandi og að nefndin geti ákveðið eðlilega verkaskiptingu milli þessara þriggja skrifstofa, eftir því sem henta þykir. Hins vegar viljum við halda fast við það eftir sem áður, að aðalskrifstofa nefndarinnar verði kyrr á Siglufirði og verði ekki flutt til Reykjavíkur. Við teljum það bæði byggjast á sögulegum forsendum, og eins teljum við, að með því móti verði komið í veg fyrir, að víxlspor verði stigið í eðlilegri byggðaþróun í landinu.