17.04.1968
Neðri deild: 100. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það er e. t. v. gert heldur meira veður úr þessu máli en ástæða er til. Hér er að nokkru leyti um orðaleik að ræða, og ég er nú satt að segja dálítið undrandi á því, hvað formaður sjútvn. Nd. hefur haft mikið fyrir að safna saman þessum mótmælum og láta prenta þau, því að þegar maður les þetta, virðist nú ekki vera um mikið deilt. Allir leggja þeir til, að skrifstofur séu á Austfjörðum, Siglufirði og Reykjavík. Það er bara þetta aðal-, sem fer í taugarnar á þeim, og þeir geta ekki þolað, að frv. sé samþ. vegna þess. Það hlýtur öllum að vera ljóst, að það skiptir ekki öllu máli, hvort þetta aðal- stendur framan við í einhverjum af þessum stöðum eða ekki. Þeir hafa nú ráðið öðru eins í þessum málum, þessir menn, eins og því, hvar þeir hafa nú möppurnar, sem þeim ríður mest á, og eins hafa þeir nú einhver ráð með að halda hér fundi, hvort sem aðalskrifstofan er hér í Reykjavík eða ekki, svo að ég held, að þetta sé nú meira deila um keisarans skegg. En það var þannig um aldamótin og fyrst eftir það og raunar töluvert langt fram á þessa öld, að Siglufjörður var forustubær í síldarsöltun og ýmiss konar síldarvinnslu. Ríkisstj. reisti þarna verksmiðjur, stórar verksmiðjur og fullkomnar eftir því, sem þá gerðist, og fólkið, sem þarna var, leit þannig á, að það hefði þarna forustuhlutverki að sinna. Síldarverkunin var þeirra metnaðarmál, fólkið lærði þetta og hafði áhuga fyrir þessu, vissi og áleit, að bærinn mundi falla og standa með þessari þróun síldarmála. Og þeir hafa alltaf haft mjög mikinn áhuga fyrir þeim málum.

Nú er það svo með gömul höfuðból, að menn finna dálítið til þess, ef þau hætta að vera höfuðból og verða að miðlungsjörðum. Og auðvitað hafa Siglfirðingar fundið til þess, þegar síldin fjarlægðist þeirra byggðarlag og farið var að vinna meira annars staðar, og það hefur komið hart niður á þeim efnalega. Þeir hafa dálitlar áhyggjur af því, að þeir missi iðnskólann líka, hann verði færður annað. Ég skal ekki segja, hvenær það verður. Þeir hafa þar góð skilyrði hvað húsnæði snertir, en þeim finnst þetta dálítið erfitt að missa þetta hvort tveggja í einu, og það er að athuga það, að þetta hefur sálræn áhrif á fólkið. Við vitum það um gamla fjörhesta, sem alltaf hafa verið á undan, þegar þeir hafa verið reyndir við aðra, að þeir finna til þess, þegar þeir geta ekki verið fyrstir. Og einn mikill hestamaður sagði mér, að hesturinn hans dróst aftur úr 17 eða 18 ára gamall, og hann fann svo mikið til þess, hesturinn, sagði hann, að hann lét lóga honum. En hestar hafa nú tilfinningar eins og við. En þetta er nú meira tilfinningamál heldur en þetta sé efnisatriði, ofurkappið, sem allt í einu er hlaupið í síldarútvegsnefnd, landssambandið og saltendafélögin um allt Ísland, að þetta megi ómögulega vera aðalskrifstofa á pappírnum á Siglufirði. Það er dálítið hlægilegur hlutur. Ég hef nú víst ekkert verið frekari eða meiri áróðursmaður að flytja nefndir eða annað út um land en aðrir, en í þessu tilfelli finnst mér alveg ástæðulaust að vera að taka þetta af Siglfirðingum, ef þeir hafa ánægju af að halda því. Til hins treysti ég síldarútvegsnefnd ósköp vel — og ég held, að við þurfum ekkert að eggja hana á það — að halda fundi hér og að þeir eigi heima hérna. Þeir hafa yfirleitt verið duglegir að færa sig, menn, sem eru svona að koma sér dável fyrir í félagsmálum og hafa fengið einhverja bitlinga og laun, að flytja hingað, og ég hygg, að þeim verði ekkert óglatt að gera það áfram, þó að aðalskrifstofan verði á Siglufirði að nafninu til.

Viðvíkjandi þessu símasambandi, sem sé svo slæmt við Siglufjörð, þá get ég ómögulega skilið það. Það er beint símasamband héðan og ekkert seinlegra að hringja þangað heldur en hér á milli húsa. Ég hef komið inn á skrifstofu þeirra hérna og verið að biðja um upplýsingar. Þeir hafa bara stutt á takka, búnir að fá allt að norðan, ef það er þar. Sama er með greiðslur. Þeir geta afgreitt þær símleiðis. Ef skrifstofur eru á öllum stöðunum, er þetta bara hlægilegur hlutur að vera að rífast um þetta, og ég held, að síldarútvegsnefnd geti eytt orku sinni í eitthvað annað frekar en að reyna að hafa þessa ánægju af íbúum Siglufjarðar. Þeim finnst stolt í því, að þarna eigi að vera meginskrifstofan. Þetta hefur nú haft ákaflega mikla þýðingu, þegar lífið er þessi síldarvinnsla. Hitt er annað mál, að í þessu frv. er verið að tala um að fjölga um einn mann. Það var upphaflega gert eftir ósk síldarsaltendanna. Það var farið að þeirra óskum. En allt í einu virðast þeir ekki farnir að hafa neinn sérstakan áhuga fyrir þessu, heldur bara ef þetta óþægilega aðal- á að standa þarna framan við, þá vilja þeir bara ekkert láta eiga við þetta frv., fella það bara eða svæfa það. Ég get nú gengið inn á það kannske, að þetta hafi ekki sérstaklega mikla þýðingu að vera að bæta við þessum manni, en það var þeirra mál. Þeir áttu þessar till., óskuðu eftir þessu og við fórum bara eftir því. En þegar þeir semja þessi mótmæli, er eins og það sé einhver ósvífni af Alþ. að láta þetta vera eins og það hefur verið, að varnarþingið sé þarna. Austfirðingar fá skrifstofu núna samkv. lögum. Áður átti hún að vera bara í Reykjavík eða Siglufirði. Nú fá þeir þarna fasta skrifstofu fyrir austan. Undan hverju hafa þeir að kvarta? Ef þeir þurfa að fá einhverjar upplýsingar á hinum skrifstofunum, geta þeir símað bæði hingað og til Siglufjarðar. Ég sé ekki, að nokkur ástæða sé til þess að vera með meinsemdir við, að þetta sé orðað svona og Siglufjörður, — það hefur alltaf verið miklu meiri síld þar heldur en hér. Það er orðin lítil síld hér fyrir Suðvesturlandinu. Það er verið að flytja þetta langar leiðir, held ég. Ég sé bara ekki nokkra einustu ástæðu til þess að fara að hafa það hér af þeirri ástæðu. Það er verið að kaupa stór síldarflutningaskip. Það er líklegt, að það verði stóraukin söltun vegna ýmissa breyttra aðstæðna, og þá mun hlutur Siglufjarðar vaxa miðað við Reykjavík.

Það er allt vel um það, að hér eru nógar nefndir, nógir skólar, og Reykjavík er ekkert snauðari fyrir það, þó að Siglfirðingar fái að hafa þarna eitthvert forustuhlutverk, sem aðallega verður náttúrlega á pappírnum í framkvæmd, þannig að ég skil nú ekki, þegar þessir stóru og öflugu menn í öllum þessum nefndum fara nú allir að leggjast á eitt að mótmæla þessum hættulega hlut, að þarna megi nú vera á pappírnum aðalskrifstofa. Ég held, satt að segja, að það sé engum til meins. Og ég vona nú það, að þó að hér sé kannske einhver smáágreiningur, þá séum við nú ekkert að hryggja Siglfirðinga með því að vera að breyta þessu. Þeir óska þess arna eindregið.

Hv. formaður meiri hl. n. var að lesa hér upp einhverjar óskir frá saltendum á Siglufirði. Hvar ætli þeir eigi heima, þessir saltendur? Það hefur nefnilega verið þannig á Siglufirði, að megnið af söltunarstöðvunum hefur verið í eigu manna, sem eiga heima hér og þar annars staðar á landinu. Og það er þetta, sem Siglfirðingar hafa fundið ákaflega mikið til. Þeir hafa sjálfir ekki haft fjármagn til þess að leggja í stórar síldarsöltunarstöðvar, en meðan vel áraði hvað síldina snerti og hægt var að græða á þessu, þá ruddust þarna að menn, sem hafa haft aðstöðu til að ná í eitthvert fjármagn, byggðu síldarplön sín, fóru burt með ágóðann. Siglufjörður sat eftir með eitthvað smávegis af rekstrarútsvörum. Svo koma þessir menn núna, ef þeir eiga heima einhvers staðar annars staðar — ég býst við, að þeir eigi allir heima einhvers staðar annars staðar; ég hef ekki séð þennan lista og skal ekki fullyrða það og óska eftir því, að aðalskrifstofan sé nú hérna, en bara einhver aukaskrifstofa fyrir norðan. Ætli það skipti þá ákaflega miklu máli? Ætli þeir hafi ekki lyst á að fara norður og salta, þar sem aðalskrifstofan er, ef þeir halda, að þeir græði á því? Nei, ég sé ekki, að þetta hafi neina þýðingu, og ég tel alveg ástæðulaust fyrir okkur, úr því að fólkinu á Siglufirði er þetta mikið áhugamál, alveg ástæðulaust fyrir okkur að vera að breyta þessu frv., og ég vona þess vegna, að það gangi í gegn. Þetta er ekki stórmál, sem neinu skiptir fyrir einn eða neinn, en þetta er þeim áhugamál og þá getum við vel orðið við þeirra óskum í þessu efni.