17.04.1968
Sameinað þing: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1947 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

Almennar stjórnmálaumræður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Að venju undanfarinna ára eru hinar almennu stjórnmálaumr., eldhúsdagsumr., nú hafðar í þinglokin. Við þetta tækifæri mun ég sérstaklega gera að umræðuefni athafnir og stefnu ríkisstj. gagnvart launþegum og verkalýðshreyfingunni. Haustið 1966 greip ríkisstj. til hinnar svonefndu verðstöðvunarstefnu til styrktar „viðreisninni“, sem þá var alvarlega farin að láta á sjá. Verðstöðvunarstefnan fól það í sér, að verðhækkunum var haldið niðri með stórauknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði, og var þetta kallað viðnám gegn verðbólgunni. Þegar þetta gerðist, var ½ ár til alþingiskosninga og ríkisstj. var að sjálfsögðu mikið í mun að halda hylli kjósenda fram yfir kosningar.

Fyrir kosningarnar í fyrravor sögðum við Alþb.-menn, að verðstöðvunin leysti engin vandamál, hún þýddi aðeins að fresta vandanum fram yfir kosningar, og við töldum stjórnarflokkana vera að blekkja kjósendur, reyna að veiða atkvæði þeirra á röngum forsendum, því að eftir kosningarnar hlyti að koma að skuldadögum, kosningavíxlarnir að falla.

Stjórnarflokkarnir sögðu hins vegar í málflutningi sínum fyrir kosningar, að kosið væri um framhald verðstöðvunar, og þótt á bjátaði í búskapnum, kæmi það ekki að sök, því að varasjóðir væru gildir. En eftir kosningar kom annað hljóð í strokkinn. Á s. l. hausti taldi ríkisstj. nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að bæta hag ríkissjóðs og flutti frv. hér á Alþ., sem fólu í sér 750–800 millj. kr. nýjar álögur á ári. Stærsti hluti þessara ráðstafana var að lækka niðurgreiðslu ríkissjóðs á vöruverði um röskar 400 millj. kr. Þar lauk verðstöðvuninni, og nýju dýrtíðarflóði var boðið heim. Sérfræðingar ríkisstj. reiknuðu út, að afleiðingar þeirra verðhækkana, sem fylgdu í kjölfar þessara ráðstafana, hækkuðu vísitöluna um 7½%, en það var ekki ætlunin, að kaup hækkaði sem því næmi, eins og landslög sögðu þó fyrir um. Nú átti að slíta tengslin milli verðlags og launa, og vísitöluuppbótin, sem koma átti samkv. l. 1. desember, skyldi falla niður, og launafólk taka á sig bótalaust verðhækkanir á brýnustu lífsnauðsynjar. Verkalýðshreyfingin mótmælti þessum ráðstöfunum mjög eindregið og einróma. Hún taldi það algert samningsrof við sig, því að með þeim væri júní-samkomulagið frá 1964 um verðtryggingu launa, sem ríkisstj. var beinn aðili að, úr gildi numið með einhliða ráðstöfunum hennar. Verkalýðsfélögin létu ekki sitja við mótmælin ein. Þau kröfðust fullrar vísitölu 1. desember, og boðuðu að segja má allsherjarverkfall til að framfylgja þeirri kröfu sinni. En áður en til þessa víðtæka verkfalls kæmi, höfðu málin tekið nýja stefnu. Á fjörur ríkisstj. hafði rekið gengisfellingu Wilsons hins brezka á sterlingspundinu, og það tækifæri notaði ríkisstj. til að lækka gengi ísl. krónunnar um nærri 25%, og var það þriðja gengisfelling stjórnarflokkanna á 8 árum. Ekki var hægt að skrifa nema lítinn hluta þessarar gengisfellingar á reikning þeirrar brezku. Hún var að mestum hluta úttekt íslenzku ríkisstj. sjálfrar á viðreisnarbúinu.

Þegar hér var komið, breytti ríkisstj. um stefnu varðandi greiðslu vísitölu á kaupið 1. desember, en því hafði hún staðfastlega neitað í löngum viðræðum við fulltrúa verkalýðsfélaganna. Nú lét hún þinglið samþykkja, að greiða skyldi verðlagsuppbót á kaupið 1. desember og forða með því hinum boðuðu verkföllum. En jafnframt skyldu ákvæðin um verðtryggingu launa endanlega numin úr lögum eftir þann tíma, og júní-samkomulagið þar með svikið og vinnufriðurinn rofinn. Talið var, að vísitalan mundi hækka um a. m. k. 10% vegna þeirra verðhækkana, sem kæmu í kjölfar gengisfellingarinnar. Þetta var álit sérfræðinga ríkisstj., en ýmsir töldu hækkunina verða mun meiri. Allar þessar verðhækkanir átti launafólkið að taka á sínar herðar bótalaust. Allt kaupgjald, einnig hinna lægst launuðu, átti að lækka í kaupmætti um a. m. k. 10%. Það mátti öllum ljóst vera, að verkalýðshreyfingin mundi ekki sætta sig við slíka kjaraskerðingu. Ráðstafanir ríkisstj. stefndu því beint að nýjum ófriði á vinnumarkaðinum. Verkalýðshreyfingin hafði sýnt það í verki með verkfallsboðuninni 1. desember, að hún stóð sameinuð að kröfunni um verðtryggingu launanna, og þegar þeim verkföllum var aflýst var jafnframt lýst yfir, að það væri markmið samtakanna að endurheimta verðtryggingakerfið. Það er nú öllum ljóst að loknu verkfalli, að full ástæða var til að taka aðvaranir verkalýðshreyfingarinnar alvarlega, en það gerði ríkisstj. ekki. Í endaðan janúarmánuð komu saman þing Alþýðusambandsins og Verkamannasambandsins. Báðar þessar samkomur skoruðu einróma á verkalýðsfélögin að vera við því búin að endurheimta fulla vísitölu á kaup með verkfallsbaráttu miðað við 1. marz, ef ekki dygði annað til. Allir vita nú, hverjar voru undirtektir verkalýðsfélaganna.

Sú skammsýna stefna ríkisstj. að afnema með öllu vísitölutryggingu á kaupið, einnig hjá þeim, sem hafa svo lágt kaup, að skerðing á því er óhugsandi, sé mönnum ætlað að lifa af því, þessi skerðingarstefna leiddi í síðastliðnum mánuði til víðtækustu verkfalla, sem gerð hafa verið hér á landi. Um það er lauk má segja, að það hafi nálgazt allsherjarverkfall, enda voru þá komin um 60 verkalýðsfélög í verkfall með yfir 20 þús. félagsmenn. Það var álit alls almennings, að verkalýðshreyfingin væri í nauðvörn og berðist fyrir réttlátum kröfum. Ekki var krafizt kauphækkana heldur aðeins, að launin héldu óbreyttum kaupmætti miðað við vöruverð. En þrátt fyrir allt þetta stóð verkfallið í 15 daga, og má segja, að það hafi lamað nær allt atvinnulífið. Alþ. sat á fundum allan tímann, en ekki er vitað, að ríkisstj. eða stjórnarflokkarnir aðhefðust þar neitt til að firra þjóðina hinum mikla vanda, en þeir hindruðu hins vegar útvarpsumr. um þáltill. stjórnarandstöðunnar til stuðnings málstað verkfallsmanna. Slíkar útvarpsumr. voru að mínum dómi sjálfsagðar og verkfallsmönnum gagnlegar á þeim tíma, sem till. kom fram. Mér er ekki kunnugt um þær yfirlýsingar, sem forsrh. Bjarni Benediktsson gat hér um áðan, að samningamenn í verkfallinu hefðu gefið í gagnstæða átt. Það kom í það minnsta ekki fram í samninganefndinni. En það hefur sjálfsagt verið ríkisstj. nægt tilefni til að hindra umr., að þær gætu orðið verkfallsmönnum gagnlegar. Í samningum þeim, sem gerðir voru í lok verkfallsins, gekk verkalýðshreyfingin með sigur af hólmi. Verðtrygging á kaupið er að nýju tekin upp, en þó með miklum skerðingum frá eldra vísitölukerfinu. Þessi skerðing hefur í för með sér, að kaupmáttur launanna minnkar verulega, og því er nauðsynlegt, að verkalýðshreyfingin undirbúi í tíma næsta þátt þessara mála. Höfuðröksemdir ríkisstj. fyrir þessari kjaraskerðingarstefnu hafa verið þær, að atvinnuvegirnir og þjóðarbúið í heild hafi orðið fyrir svo miklum áföllum vegna verðfalls og aflabrests, að ekki sé unnt að halda uppi óbreyttum lífskjörum, og því verði allir að fórna og taka á sig hluta byrðanna. Vera má, að við eigum nú í erfiðleikum með að halda alveg óbreyttum lífskjörum almennt séð. En það verður að segjast, að sú stjórnarstefna á engan rétt á sér og er dauðadæmd, sem við fyrstu erfiðleika, sem á vegi hennar verða eftir samfelld góðæri, sér engin önnur úrræði en þau að taka af þeim, sem minnst bera úr býtum fyrir vinnu sína í þjóðfélaginu.

En verkafólk hafði sannarlega tekið á sig sinn hluta byrðanna. Allt s. l. ár var ríkjandi mikill samdráttur í atvinnulífinu og hafði hann í för með sér stórminnkaðar tekjur margra starfsstétta. Þetta hefur komið fram í minni yfirvinnu og að yfirborganir hafa lækkað eða verið afnumdar hjá þeim, sem annars máttu heita í fullri vinnu. Það er erfitt að gera sér grein fyrir, hvaða áhrif þetta ástand hefur haft tölulega á kaupgetu verkafólks. Kaupmáttur meðallauna hafnarverkamanna í Reykjavík var talinn vera um 10% lægri á síðasta ársfjórðungi 1967 en á sama ársfjórðungi árið áður. Umsamið tímakaup hafði þó heldur hækkað á tímabilinu og koma því hér fram augljós áhrif samdráttarins. Og þess var getið, að allir voru þessir menn í stöðugri vinnu. Hjá öðrum starfsstéttum er lækkunin talin nema allt að 25–30%. Við þetta bætist svo, að nú hefur atvinnuleysið gert alvarlega vart við sig um allt land, í fyrsta sinn í meira en hálfan annan áratug. Í fyrravetur jaðraði við atvinnuleysi hér á höfuðborgarsvæðinu, og skólafólki gekk mjög erfiðlega að fá vinnu fram eftir sumrinu. Á síðustu mánuðum ársins má segja, að atvinnuleysi væri orðið alvarlegt. Um miðjan febrúarmánuð voru skráðir hér í Reykjavík 600 manns atvinnulausir samtímis. Gera má ráð fyrir, að nokkru fleiri hafi verið atvinnulausir en létu skrá sig, og tala hinna skráðu gefur heldur ekki rétta mynd, því ekki voru allir atvinnulausir samtímis.

Ríkisstj. og sérfræðingar hennar hafa áreiðanlega svör á reiðum höndum um orsakir þessa atvinnuleysis. Þar sé um að kenna erfiðleikum útflutningsatvinnuveganna og tíðarfarinu. Þessi skýring nægir þó engan veginn, þótt þessir þættir hafi vissulega sín áhrif. Þar kemur fleira til og þá ekki sízt sú stjórnarstefna, sem leyft hefur hömlulausan innflutning á vörum, sem landsmenn áður framleiddu með góðum árangri. Þessi stefna hefur lagt í auðn fjölda nytsamra fyrirtækja og gert margt verkafólk atvinnulaust. Jafnframt virðist það svo vera orðin meginstefna að fela útlendingum sem allra mest af framkvæmdum hér innanlands, þótt innlend fyrirtæki og íslenzkar hendur geti vel afkastað þeim verkum, svo að ekki sé nú minnzt á þá forréttindaaðstöðu, sem erlendum auðhringum hefur verið fengin hér á landi.

Svo langt gengur þetta dekur við allt, sem útlent er, að opinber útboð eru höfð á erlendum málum, þótt boðið sé út hér innanlands. Þessi stefna er hættuleg íslenzku atvinnulífi og getur bókstaflega tafið fyrir verkmenningu íslenzkra manna og fyrirtækja.

Atvinnumálin eru nú þau mál, sem hvað mest kalla á úrlausnir. Þau verða eitt helzta viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar, enda á verkafólkið þar mikið í húfi. En þessi mál snerta ekki síður unga fólkið. Vegna samdráttarins í atvinnulífinu verður nú stöðugt erfiðara fyrir ungt fólk að komast í vinnu og mennta sig. Færri ungir menn komast nú í iðnnám, og horfur eru á, verði ekkert að gert, að hópar ungs fólks frá efnaminni heimilum verði að hætta skólanámi, ef ekki rætist úr fyrir því með atvinnu. Þessi viðhorf ættu félagssamtök ungs fólks að láta meira til sín taka en þau hafa hingað til gert.

Verkalýðshreyfingin hefur ávallt gert kröfu til fullrar atvinnu fyrir allar vinnufærar hendur, og öll stjórnarvöld þessa lands verða að gera sér ljóst, að böl atvinnuleysisins mun hún ekki líða. Ef stjórnarstefna stendur í vegi fyrir því, að réttar ráðstafanir í þessum efnum séu gerðar á réttum tíma, verður stjórnarstefnan að víkja.