18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef 20 mín. til umráða. Fyrri 10 mín. ætla ég að nota til þess að svara helztu fullyrðingum, sem stjórnarandstæðingar hafa sett fram um stefnu ríkisstj. í þessum umr. og á Alþ. í vetur, og ég tel rangar. Seinni 10 mín. ætla ég að verja til þess að ræða þann efnahagsvanda, sem okkur Íslendingum er nú á höndum, hvernig stjórnarandstæðingar vilja bregðast við honum, og hvernig ríkisstj. vill mæta honum.

Ég mun þá fyrst víkja að gagnrýni stjórnarandstöðunnar lið fyrir lið. Hún segir í fyrsta lagi, að lífskjör launamanna hafi versnað á undanförnum árum, sérstaklega fullyrðir hún, að kaupmáttur tímakaups verkamanna hafi farið minnkandi. Enginn heilvita maður mun geta borið á móti því, að lífskjör þjóðarinnar í heild hafi batnað verulega á undanförnum árum. Spurningin er sú, hvort þessi heildarlífskjarabót hafi dreifzt svo ójafnt á stéttir þjóðfélagsins, að sumar hafi fengið mjög mikla kjarabót, aðrar litla, og kjör sumra hafi jafnvel versnað. Við skulum fyrst taka launafólk sem eina heild.

Skýrslur, sem enginn hefur getað vefengt, sýna ótvírætt, að raunverulegar tekjur launafólks í heild hafa vaxið á undanförnum árum og vaxið mun örar en þjóðartekjurnar. Launþegar sem heild hafa því fengið í sinn hlut stærri en ekki minni hluta þjóðatteknanna en áður. En þá má spyrja: Stafar aukningin einvörðungu af lengdum vinnudegi? Skýrslur, sem enginn hefur getað vefengt, eru einnig til um það atriði. Þær sýna, að meðalvinnudagur helztu launastétta lengdist ekki t. d. á árunum 1965 og 1966, þótt raunverulegar tekjur hækkuðu þá um 24%. En hefur þá ekki tekjuaukning hinna ýmsu launastétta verið mjög misjöfn? Hefur t. d. Dagsbrúnarmaðurinn ekki borið skarðan hlut frá borði? Það er rétt, að tekjuaukning launastéttanna hefur verið nokkuð misjöfn. En ríkisstj. ber ekki ábyrgð á því. Það hefur orðið niðurstaða í frjálsum samningum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Stjórnarandstaðan ýkir hins vegar það þeim mun stórkostlegar, að í launastéttum hefur tekjuaukning orðið langmest á undanförnum árum hjá síldarsjómönnum og ýmiss konar iðnaðarmönnum, en minnst hjá ófaglærðum verkamönnum. En tekjuaukningu ófaglærðra verkamanna má ekki miða við breytingar á kaupmætti lægsta taxta Dagsbrúnarmanna, eins og stjórnarandstaðan gerir yfirleitt, því að þýðing hans fyrir verkamannastéttina í heild hefur farið síminnkandi á undanförnum árum. Það væri álíka gáfulegt að halda því fram, að börnin í fjölskyldu yxu ekki neitt, af því að faðirinn vex ekkert.

En nú er það ekki einu sinni svo, að kaupmáttur lægsta taxtans í Dagsbrún hafi ekki vaxið á undanförnum árum, því að það hefur hann sannarlega gert. Óhætt er að fullyrða, að tiltölulega meiri hluti tekjuaukans á undanförnum árum hefur fallið launastéttum í skaut en atvinnufyrirtækjum. Enda leiða hagskýrslur þetta greinilega í ljós. Þessi meginniðurstaða hefur verið í samræmi við stefnu ríkisstj. Ef stjórnarandstaðan segði, að þessi stefna ríkisstj. hefði verið röng og hún ætti einhvern þátt í erfiðleikum atvinnuveganna nú, mundi ég hiklaust játa, að í þessu sé sannleikskorn. Staða atvinnuveganna var því miður of veik, þegar erfiðleikarnir hófust fyrir 1½ ári, en þetta hefur stjórnarandstaðan aldrei sagt.

Þá segir stjórnarandstaðan í öðru lagi, að illa hafi verið búið að atvinnuvegum, þeir sæti vaxtaokri og skorti fjármagn. Útlánsvextir eru hér á landi 910%, en innlánsvextir af sparifé 7–9%. Í Danmörku eru útlánsvextir 8–9% og innlánsvextir af sparifé 5–7%. Í Þýzkalandi eru útlánsvextir 6–8% og innlánsvextir af sparifé 3½–4½%. Allir skynsamir menn ættu að skilja, að eðlilegt er, að vextir séu hærri hér en í nágrannalöndum af mörgum ástæðum. Hér er ungt þjóðfélag í örri uppbyggingu. Hér hefur frá upphafi iðnvæðingar landsins verið fjármagnsskortur og síðast en ekki sízt veldur verðbólgan hærri vöxtum en ella mundi vera. Þrátt fyrir þetta er munurinn á útlánsvöxtum hér og í þeim tveim nágrannalöndum, sem ég nefndi, ekki meiri en ég hef gert grein fyrir. Það er því alls ekki rétt að gagnrýna stjórnarvöldin fyrir háa vexti. Háir vextir eru eðlilegir á Íslandi og stuðla annars vegar að því, að meira sparifé myndist en ella, og hins vegar að hinu, að atvinnuvegirnir og aðrir fjármagnsnotendur noti það skynsamlegar en ella. Það mætti gagnrýna ríkisvaldið fyrir það, ef mismunur útlánsvaxta og innlánsvaxta væri hér meiri en annars staðar, þar eð bankakerfið hér er að langmestu leyti ríkisbankakerfi. En þessi munur er hér minni en annars staðar, líklega minni en dæmi finnast um í öðrum löndum, en í því sambandi er þó rétt að minna á, að hér á landi eru bankar skattfrjálsir. Það eru þeir yfirleitt ekki annars staðar. Og því má ekki gleyma, að krafa stjórnarandstöðunnar um lækkaða útlánsvexti hlýtur jafnframt að vera krafa um lækkaða sparifjárvexti. Er það í raun og veru krafa stjórnarandstöðunnar, að sparifjárvextir skuli lækkaðir? Að því er snertir lánsfjárskortinn er það að segja, að útlán bankakerfisins fara auðvitað eftir innlánunum og sparnaðinum. Ríkisstj. getur engu bætt við sparifé bankanna. En útlán til aðalatvinnuveganna hafa aukizt um 17% á hverju ári að meðaltali undanfarin 3 ár, en það er miklu meiri aukning en orðið hefur á verðlagi og framleiðslukostnaði, og útlán til húsbygginga hafa aukizt um hvorki meira né minna en 42% að meðaltali á ári á sama tímabili.

Sannleikurinn um hinn margumtalaða lánsfjárskort er sá, að þar, sem hann er raunverulega fyrir hendi, stendur hann í sambandi við erfiða afkomu fyrirtækja á undanförnum árum og þá ekki sízt í sambandi við fjárfestingu, sem í raun og veru hefur verið hlutaðeigandi fyrirtæki eða einstaklingi um megn miðað við fjárhagsgetu. Rangar ráðstafanir í þeim efnum hefna sín síðar með svo kölluðum lánsfjárskorti, ef annaðhvort óvenjulegur gróði eða verðbólga leysa ekki fjárhagsvandann.

Þá segir stjórnarandstaðan í þriðja lagi, að verið sé að lama íslenzkan iðnað með frjálsum innflutningi. Sannleikurinn er samt sá, að iðnframleiðslan í heild, önnur en fiskiðnaður, var í fyrra 29% meiri en 1960 og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var í fyrra hvorki meira né minna en 91% meiri en 1960. Árleg fjármunamyndun í þeim greinum, sem venjulega eru taldar íslenzkur iðnaður, hefur á undanförnum áratug hér um bil fjórfaldazt miðað við sambærilegt verðlag. Ekki ber þetta vott um mikla afturför í íslenzkum iðnaði. Hitt er rétt, að samsetning iðnaðarins hefur breytzt nokkuð á undanförnum árum. Sumar greinar hafa dregizt saman, en aðrar eflzt þeim mun meir. Stjórnarandstaðan hefur oft nefnt skipabyggingar sem dæmi um iðngrein, sem dregizt hefur saman. Þetta eru staðlausir stafir. Það hefur aldrei verið meira um skipabyggingar á Íslandi en undanfarin ár. Síldarverksmiðjubyggingar og smíði véla í þær hafa hins vegar að sjálfsögðu dregizt saman, eins og eðlilegt er, þar eð nóg er búið að byggja af síldarverksmiðjum í bráð.

Í fjórða lagi segir stjórnarandstaðan, að fluttur sé til landsins alls konar óþarfi fyrir dýrmætan gjaldeyri. Hér er því til að svara, að það var á sínum tíma eitt af aðalatriðunum í þeirri nýju stefnu, sem núv. stjórnarflokkar tóku upp, að gefa innflutning til landsins sem frjálsastan og halda ekki á honum öðrum höftum en þeim, sem vöruskiptasamningar við Austur-Evrópulöndin gerðu nauðsynlegt til þess að varðveita markaði okkar þar. Þessi stefna grundvallaðist á þeirri sannfæringu okkar, að neytandinn fengi í raun og veru mest fyrir peninga sína og yrði ánægðastur, ef hann hefði úr nægum vörum að velja, innlendum og erlendum, og að framleiðandi gæti framleitt ódýrastar og beztar vörur, ef hann hefði sem frjálsust skilyrði til þess að velja milli erlendra og innlendra hráefna. Þannig hefur reynslan orðið hjá öllum nágrannaþjóðum okkar, og þannig hefur reynslan einnig orðið hjá okkur. Innflutningsfrelsið hefur leitt til stóraukins vöruúrvals, og í því eru fólgnar óbeinar kjarabætur. Það hefur líka gert innlendum framleiðendum fært að framleiða betri og ódýrari vörur en áður, og einnig orðið neytandanum að gagni á þann hátt. En auðvitað getur innflutningsfrelsi leitt til þess, að eitthvað, sem sumir kalla óþarfa, sé flutt inn. Frægasta dæmið um það eru dönsku tertubotnarnir, og hefur líklega engin innflutt vara verið nefnd eins oft í málflutningi stjórnarandstæðinga og þessi sérstaka vörutegund. Menn skyldu halda, að hér væri um innflutning að ræða, sem stefndi gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar í stórhættu. Tertubotnar frá Danmörku voru þó ekki fluttir inn í fyrra nema fyrir 252 þús. kr. Og það, sem af er þessu ári, hefur innflutningur tertubotna frá Danmörku numið 19 þús. kr. Afkoma þjóðarinnar hefði orðið ósköp svipuð, hvort sem þessi innflutningur hefði verið leyfður eða bannaður. En þeim, sem hafa keypt þá, hlýtur að hafa fundizt þeir góðir; og því mega þeir þá ekki kaupa þá?

Í fimmta lagi er rétt að geta þess, að annar stjórnarandstöðuflokkurinn gagnrýnir ríkisstj. fyrir það, að haldið sé uppi of litlu verðlagseftirliti. Þetta er Alþb., en fulltrúar hins í verðlagsnefndum hafa talið verðlagsákvæðin allt of þröng og krafizt afnáms þeirra. Þetta er Framsfl. Ríkisstj. hefur hér farið bil beggja. Samfara auknu jafnvægi í verðlagsmálum og kaupgjaldsmálum hefur hún talið rétt, að losað væri um bein verðlagsákvæði og aukin samkeppni látin halda verðlagi í skefjum jafnframt því, sem löggjöf um einokun og hringamyndun hefur verið undirbúin. En í kjölfar gengislækkunarinnar taldi ríkisstj. hins vegar óhjákvæmilegt, að allar vörur væru um sinn teknar aftur undir verðlagseftirlit.

Í sjötta lagi er þess að geta, að stjórnarandstæðingar gera yfirleitt lítið úr verðfalli og aflabrestinum, segja, að verðlagið nú sé, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki lægra en það var fyrir 3–4 árum og aflinn í fyrra hafi verið mjög mikill, þótt hann hafi minnkað verulega miðað við árið áður. Um þetta er það að segja, að hér er mjög gott dæmi um allan málflutning stjórnarandstöðunnar, dæmi um þá aðferð óhlutvandra manna að segja hálfan sannleikann til að skapa rangar hugmyndir og villa öðrum sýn. Það er rétt, að útflutningsverðlagið nú er að meðaltali svipað og það var fyrir 3–4 árum, og aflinn í fyrra var líkur og hann var 1962, ef miðað er við verðmæti á föstu verði. En það, sem stjórnarandstæðingar þegja um, þótt þeir viti það auðvitað, er, að í kjölfar verðhækkananna erlendis hækkuðu tekjur innanlands í svipuðu hlutfalli, og þá um leið framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuveganna. Stjórnarandstæðingar studdu ekki aðeins kauphækkanirnar, sem urðu á þessum árum heldur vildu beinlínis hafa þær meiri. Ef kaupgjald og annar framleiðslukostnaður væri nú óbreytt, frá því, sem það var fyrir 3–4 árum, væri vandinn nú ekki sá, sem hann er. En um þetta aðalatriði þegja stjórnarandstæðingar. Skýrara dæmi um blekkingar verður varla fundið.

Í sjöunda og síðasta lagi ætla ég að nefna, að bæði í gærkvöldi og fyrr hér á Alþ. hefur verið vefengt af hálfu Alþb., að Hannibal Valdimarsson forseti Alþýðusambandsins, Björgvin Sigurðsson framkvstj. Vinnuveitendasambandsins og Torfi Hjartarson sáttasemjari hafi látið í ljós þá skoðun, að útvarpsumr. um till. framsóknarmanna og Alþb.-manna um vísitölumálið mundu ekki greiða fyrir lausn verkfallsins, heldur gætu þær þvert á móti torveldað samninga, þar eð vonir hefðu vaknað um samkomulag. Það var ég, sem ræddi þetta mál við Hannibal Valdimarsson. En hæstv. forsrh. talaði við Björgvin Sigurðsson og Torfa Hjartarson. Fengum við leyfi til þess að skýra opinberlega frá þessari skoðun þessara manna. Ég fullyrði, að öllum forystumönnum Alþb. er kunnugt um, að þetta er rétt. Er það líklegt til að auka traust á kommúnistaleiðtogunum í Alþb., að þeir skuli samt tala eins og þeir hafa talað um þetta atriði? En e. t. v. þarf þetta ekki að koma á óvart, þegar haft er í huga, að hv. þm. Björn Jónsson sagði fyrir nokkrum dögum í hv. Ed. í umr. um kosningalög, að ætti hann að dæma um, hvort væri sennilegra, að hæstv. dómsmrh. hafi varið vísvitandi með rangt mál eða hitt, að hann hafi fengið rangar upplýsingar hjá formanni þingflokks Alþb. Lúðvík Jósefssyni, þá teldi hann hið síðarnefnda miklu sennilegra.

Þá er ég kominn að hinu aðalatriðinu, sem ég ætlaði að ræða í kvöld, erfiðleikunum, sem nú er við að etja í íslenzku efnahagslífi, og ágreiningnum um það, hvernig við þeim eigi að bregðast. Óþarfi er að lýsa þeim gífurlegu erfiðleikum, sem steðjað hafa að íslenzkum atvinnuvegum á s. l. 1½ ári. Enginn ber brigður á, að þeir eru staðreynd, alvarlegasta staðreynd, sem blasað hefur við Íslendingum í áratugi. Allar þjóðir Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hafa átt við efnahagsörðugleika að etja undanfarin ár. Á vegum ríkjanna í Austur-Evrópu hafa einnig orðið miklir erfiðleikar, þótt þeir séu annars eðlis. En engin þjóð, sem um er vitað, hefur undanfarið orðið fyrir jafnmiklu efnahagstjóni á jafnskömmum tíma og við Íslendingar. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt, að menn og flokka greini á um, hvernig við slíkum vanda skuli brugðizt. Erfiðleikar eins og þessir hljóta fyrr eða síðar að snerta hvert mannsbarn í landinu. Þeir hljóta að koma við pyngju hvers einasta manns, og þá er enginn hlutur eðlilegri en þeir velti fyrir sér, hvernig eigið tjón geti orðið minnst. En skylda stjórnmálaflokka er að skýra þjóðinni frá því, hvernig þeir vilja láta snúast við vandanum.

Í opinberum umr. hefur komið í ljós, að stefna stjórnarandstöðuflokkanna í þessum málum er furðulík. Það er fyrst og fremst tvennt, sem þeir benda á sem úrræði gegn vandanum. Þeir vilja báðir mæta minnkun gjaldeyristeknanna með innflutnings- og gjaldeyrishöftum. Þeir vilja ráða bót á því, sem þeir kalla stjórnleysi fjárfestingarinnar innanlands, með því að gera alla meiri háttar fjárfestingu háða opinberum leyfisveitingum. Og þeir vilja styðja framleiðsluna með lækkun vaxta og bæta úr lánsfjárskortinum með því að láta Seðlabankann hætta að binda féð fyrir viðskiptabönkunum, m. ö. o. láta Seðlabankann hætta að fá nokkra hlutdeild í sparifjármyndun landsmanna.

Þetta virðist í aðalatriðum vera stefna beggja stjórnarandstöðuflokkanna í efnahagsmálum þjóðarinnar, þótt þá greini á að ýmsu öðru leyti. Hér er ekki um nýja eða óþekkta stefnu að ræða. Hér er um að ræða stefnu, sem fylgt hefur verið hér á landi fyrr á árum og kenna má við höft og greiðsluhalla. Hliðstæðri stefnu var og fylgt í ýmsum nálægum löndum í heimskreppunni miklu á áratugnum frá 1930–1940. Við Íslendingar tókum hana aftur upp til þess að reyna að vinna bug á erfiðleikunum, sem urðu á vegi okkar eftir heimsstyrjöldina síðari, og fylgdum henni sem aðalstefnu allar götur fram að 1960. En það er athyglisvert, að Íslendingar eru eina þjóð Vestur-Evrópu, sem gripið hefur til þessarar stefnu á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Það getur varla verið tilviljun. Sannleikurinn er sá, að stefna, sem miðar að því að taka nú aftur upp innflutnings- og gjaldeyrishöft og fjárfestingareftirlit, er ómenguð afturhaldsstefna. Hún boðar afturhvarf til úrræða, sem reynd voru hér og erlendis um langan aldur og gáfust illa, svo illa, að engin þjóð í Vestur-Evrópu hefur látið sér til hugar koma á undanförnum árum að taka hana upp aftur. Þótt margvíslegir efnahagserfiðleikar hafi orðið á vegi flestra þjóða í Vestur-Evrópu undanfarin ár, hefur engin þeirra gripið til almennra innflutnings- og gjaldeyrishafta né almenns fjárfestingareftirlits. Meðan Bretar voru að reyna að varðveita gengi sterlingspundsins, gripu þeir einu sinni til allsherjar innflutningsgjalds, en ekki til innflutningshafta. Þeir hækkuðu vexti hvað eftir annað, þeir takmörkuðu ýmis ríkisútgjöld og þeir hafa jafnvel lagt lagahömlur á hækkun kaupgjalds og arðgreiðslu. En þeir tóku aldrei upp innflutnings- og gjaldeyrishöft né almennt fjárfestingareftirlit. Að síðustu urðu þeir að lækka gengið einmitt til þess að geta haldið áfram hinni frjálslyndu stefnu í efnahagsmálum og þurfa ekki að hverfa aftur til haftastefnunnar. Reynsla okkar Íslendinga af haftastefnunni var 1960 orðin sú, að hér var margháttaður vöruskortur, bæði á neyzluvörum og hráefnum. Landið var sokkið í óreiðuskuldir erlendis og lánstraust þess þrotið. Þá var breytt um stefnu. Samtímis afnámi haftanna tókst að safna gildum gjaldeyrisvarasjóði. Myndun þess sjóðs var hafin áður en góðæri hófst, og er það því ekki grundvöllur hans, heldur hin nýja stefna í efnahagsmálum.

Með sanni má segja, að það sé undarlegt, að þrátt fyrir nýlega og slæma reynslu okkar af haftabúskap og þrátt fyrir það, að engin nálæg þjóð hefur viljað hverfa aftur til þeirrar efnahagsstefnu, þá skuli stjórnarandstaðan á Íslandi vera sammála um, að hún sé rétta leiðin, að hún sé „hin leiðin“. Það er næstum því neyðarlegt, að sá íslenzkur stjórnmálaflokkur, sem kennir sig við framsókn, skuli boða slíkt afturhald. Hvorki stórir né litlir íhaldsflokkar í Vestur-Evrópu hafa haftabúskap á stefnu sinni. En Framsfl. á Íslandi er svo mikið á eftir tímanum, hann er svo negldur niður í sinni eigin fortíð, þegar hann sjálfur var í stjórn og gat misnotað haftakerfið sjálfum sér og sínum í hag, að hann sér enga aðra leið út úr vandanum. Framsfl. hefur að vísu þetta sér til afsökunar, að hann hefur reynslu af því, að það er hægt að hagnast af því að fara með völd á haftatímum. Það mundi hann auðvitað gera, ef hann kæmist aftur til valda og tækist að koma aftur á höftum að einhverju eða öllu leyti.

En Alþb. ætti a. m. k. ekki að hugsa eins. Þess vegna má að vissu leyti segja, að það sé enn undarlegra, að það skuli aðhyllast jafnafturhaldssama stefnu, og nú ber svo kynlega við, að það er eins og leiðtogar Alþb. geti ekki lært neitt af stjórnendum Austur-Evrópuríkjanna loksins, þegar eitthvað er af þeim að læra. Í áratugi hafa þeir menn, sem nú stjórna Alþb. og blaði þess, Þjóðviljanum, gapað af hrifningu yfir öllu því, sem gerzt hefur austan járntjalds. Þar var alltaf allt á framfaraleið. Jafnvel frelsissvipting og fangelsanir, jafnvel kúgun og ofbeldi var allt saman réttlætanlegt, af því að það var óhjákvæmilegur áfangi á leiðinni til efnahagsskipulags, sem átti að veita öllum sælu á sínum tíma. Ekkert ódæði hefur verið framið í þessum löndum, án þess að einhver íslenzkur kommúnisti hafi bent á sögulega nauðsyn þess í þágu baráttunnar fyrir efnahagsskipulagi kommúnismans. En á undanförnum árum hafa leiðtogar hvers kommúnistaríkisins á fætur öðru verið að breyta um stefnu í efnahagsmálum. Þeir hafa verið að sjá, að sá fullkomni skipulagskommúnismi, séu þeir stefndu að, er ekki leið til framfara, heldur trafali á framfarabrautinni, og nú stefnir hver kommúnistastjórnin á fætur annarri að auknu frjálsræði í framleiðslu og viðskiptum, að minnkuðu valdboði, minni höftum. Meira að segja í sjálfu föðurlandi kommúnismans, Sovétríkjunum, er verið að gera merkilegar tilraunir á mikilvægum sviðum efnahagslífsins, þar sem beitt er aðferðum, sem eru kjarni frjálslyndrar stefnu í efnahagsmálum. Og þá vill svo ömurlega til, að leiðtogar íslenzkra kommúnista virðast ekki átta sig á neinu. Ýmsir hefðu þó haldið, að þeir væru búnir að öðlast svo mikla æfingu í því að snúast og verja það, sem þeir réðust á áður, að þeim ætti ekki að verða skotaskuld úr því að gagnrýna óhóflegt vald ríkisins og lamandi höft, a. m. k. undir vissum kringumstæðum, fyrst kommúnistaflokkar í Austur-Evrópu eru farnir að halda fram slíkum skoðunum. En nú virðast leiðtogar íslenzkra kommúnista allt í einu vera orðnir staðir og stirðnaðir í gömlum hugmyndum. En breytingin er kannske ekki orðin nógu alger þarna austur frá. Kannske eru þeir ekki enn orðnir nógu vissir um það, að hin nýja stefna þar verði endanlega ofan á. Í þessum löndum má alltaf búast við gagnbyltingu. En ég óska þjóðunum í Austur-Evrópu þess, að hin nýja stefna verði sem fyrst alls ráðandi í þessum ríkjum. Það mun verða þeim sjálfum fyrir beztu og þá er ég ekki í nokkrum vafa um, hverjar skoðanir íslenzkra kommúnista verða á þessu sviði. Þá munu þeir ekki lengur mæla með gamaldags haftabúskap hér á Íslandi.

En hver er þá stefna ríkisstj.? Hvað vill hún gera? Fyrst er rétt að geta þess, sem hún hefur gert til þess að mæta vandanum. Þegar halla tók undan fæti í gjaldeyrismálunum vegna minnkandi útflutningstekna, voru fyrstu viðbrögð ríkisstj. og gjaldeyrisbanka þau að draga úr innflutningi með því að auka innborgunarskyldu innflytjenda í bankana vegna innflutnings. Þá miðaði fjárlagafrv. á s. l. hausti að hallalausum ríkisbúskap á þessu ári. Þetta varð ekki gert án þess að leggja byrðar á allan almenning, fyrst og fremst með lækkun niðurgreiðslna á innlendum landbúnaðarafurðum. En ríkisstj. taldi það óhjákvæmilegt og Alþ. samþykkti það. En langveigamesta ráðstöfunin gegn vandanum hefur þó auðvitað verið gengislækkunin í nóvember. Hjá henni hafði ríkisstj. viljað komast í lengstu lög, en gengisfelling sterlingspundsins gerði gengisfall krónunnar óhjákvæmilegt. Þar eð verðfallið reyndist bæði meira og langærra en nokkurn hafði grunað, reyndist óhjákvæmilegt að veita bátaflotanum og hraðfrystihúsunum sérstaka aðstoð um áramótin. Til að þurfa ekki að leggja nýja skatta á almenning, taldi ríkisstj. rétt að lækka útgjöld ríkisins mjög verulega og hefur nýlega verið gengið frá lagasetningu um það. Allt hefur þetta byrðar í för með sér fyrir almenning. Launastéttir hafa ekki fengið bætta að fullu þá hækkun, sem orðið hefur á lífsnauðsynjum. Í þessu hefur verið fólgin sú kjaraskerðing, sem óhjákvæmilegt hefur verið, að hin mikla tekjulækkun þjóðarbúsins hefði í för með sér. En nauðsynlegt er að vekja athygli á því og leggja á það sérstaka áherzlu, að á s. l. ári var lækkun þjóðarteknanna ekki farin að koma fram í lækkuðum ráðstöfunartekjum almennings. Áföllunum var um sinn mætt með minnkun gjaldeyrisvarasjóðsins og auknum erlendum skuldum. Á þessu mun þó verða breyting á yfirstandandi ári. Á þessu ári munu koma fram áhrif þess efnahagsáfalls, sem hófst fyrir tveimur árum. En í þessu er einmitt fólgið gildi þess að eiga gjaldeyrisvarasjóð. Að skyndileg tekjulækkun á útflutningi þarf ekki þegar í stað að koma fram sem kjaraskerðing innanlands. Lækkun gjaldeyrisvarasjóðs má hins vegar ekki verða miklu meiri en nú er orðið. Ef ekki verður annað tveggja, veruleg aukning útflutningsframleiðslunnar eða veruleg hækkun útflutningsverðs, má búast við, að þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar, dugi ekki til þess að varðveita gjaldeyrisvarasjóðinn og það frjálsræði í framleiðslu, viðskiptum og neyzlu, sem ekki má fara forgörðum. En of snemmt er enn að spá um það, hvort enn nýjar ráðstafanir verða nauðsynlegar. Vertíð er ekki enn lokið og ekki útilokað, að verðlag erlendis hækki, frá því, sem nú er. Vonandi dugar það, sem búið er að gera. En sýni reynslan, að það dugi ekki, verður áfram að snúast gegn vandanum með þeim ráðum, sem duga, og það mun ríkisstj. gera í anda þeirrar frjálslyndu og framfarasinnuðu efnahagsstefnu, sem hún hefur fylgt.

Þjóðin á rétt á því, að talað sé við hana af hreinskilni, ekki sízt á tímum eins og þeim, sem nú eru. Og ég held, að þjóðin vilji heyra sannleikann. Þess vegna lýk ég þessum orðum mínum með því að segja, að það er ekki bjart fram undan í íslenzkum efnahagsmálum. En þó er ekki ástæða til þess að örvænta og telja allar bjargir bannaðar. Íslendingar hafa áður átt við erfiðleika að etja og sigrazt á þeim. Kjarkurinn er mikils virði, en fyrir mestu er þó að skilja vandann og vilja leysa hann með því að bera sinn hlut af byrðunum, meðan þess er þörf, af ósérhlífni og heiðarleika. Ef allar stéttir, ef allir Íslendingar mæta erfiðleikunum nú með því hugarfari, þurfa þeir ekkert að óttast. Þá verður framtíðin björt í þessu landi, þótt syrt hafi í álinn um skeið. Þá munum við öll koma meiri menn út úr erfiðleikum þessara ára.