18.04.1968
Sameinað þing: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

Almennar stjórnmálaumræður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er ekki á hverjum degi, sem íslenzkir ráðh. hefja að fyrra bragði og ótilknúðir umræður um utanríkismál, hvorki einstaka þætti þeirra né íslenzka utanríkisstefnu í heild, ef maður á að nota svo virðulegt heiti um þá fylgispekt við Bandaríki Norður-Ameríku, sem íslenzkir valdamenn hafa tamið sér. Mér þótti því bregða til nokkurrar nýlundu í útvarpsumræðunum í gærkvöldi, þegar Bjarni Benediktsson forsrh. ræddi drjúga stund þáltill. um styrjöldina í Víetnam, sem þingmenn Alþb. og Framsfl. lögðu fram hér á Alþingi fyrir röskum tveimur mánuðum. Sennilega er sú ályktun röng, að forsrh. hafi gert þetta mál að umræðuefni ótilknúinn. Það var vond samvizka ráðh., vegna furðulegra afskipta hans af þessari till., sem knúði hann til að gera dálítið yfirklór. Skv. till. þessari um Víetnammálið var ríkisstj. Íslands falið að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir þeirri stefnu, eins og í till. segir, að ríkisstj. Bandaríkjanna stöðvi þegar loftárásir á Norður-Víetnam, að þjóðfrelsishreyfingin í Suður-Víetnam verði viðurkenndur sjálfstæður aðili við samningagerðir, að stjórn Norður-Víetnams og þjóðfrelsishreyfingin í Suður-Víetnam sýni ótvíræðan vilja af sinni hálfu, þegar loftárásum linnir, að ganga til samninga og draga svo úr hernaðaraðgerðum, að leiða megi til vopnahlés. Það kom fljótlega í ljós, að meirihlutavilji var á Alþ. fyrir gerð slíkrar ályktunar sem þessarar. Emil Jónsson utanrrh. tók till. vel, og vitað var, að flokksbræður hans, sumir a. m. k., voru sama sinnis, en meðal Sjálfstfl. bar þegar á andstöðu. Fór ekki á milli mála, að ráðamenn þar þæfðust fyrir, þar eð slík ályktun kynni að verða illa séð á hærri stöðum, vestur í Washington. Þó kom þar, fyrir atbeina utanrrh., að samkomulag hafði náðst milli fulltrúa allra þingflokka um till. lítið eitt breytta, og var forsrh. sjálfur aðili að því samkomulagi, en við þetta samkomulag hefur ekki verið staðið, og á því ber forsrh. ábyrgð. Þess vegna var það, sem hann fann sig tilknúinn í gærkveldi að ræða þetta tillögumál á næsta villandi hátt. Ljúki Alþ. störfum nú, án þess að frá því heyrist nein rödd, þar sem tekið er undir kröfuna um að blóðbaðinu í Víetnam linni, kröfu, sem bergmálar frá öllum heimshornum, kröfu, sem framsýnustu stjórnmálamenn Bandaríkjanna bera ótrauðir fram, þá er meiri hl. Alþ. að gera sjálfum sér og íslenzkri þjóð vansæmd sem seint verður afmáð. Ég trúi því ekki enn, að til þess komi.

Rétt þykir mér að staldra nokkuð við annað atriði í ræðu forsrh. í gærkvöld. Hann var þar að andmæla því, sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram, að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hefðu fyrir kosningarnar s. l. vor reynt að gera sem minnst úr erfiðleikum atvinnuveganna og versnandi horfum á sviði efnahagslífsins. Því til sönnunar, að ekkert hafi átt að fela, vitnaði forsrh. í nokkrar setningar úr ræðu, sem hann hélt á landsfundi Sjálfstfl. fyrir réttu ári. Ekki dreg ég í efa, að ráðh. hafi á landsfundinum mælt tilvitnuð orð, en þau breyta litlu um það, að grunntónninn í ræðum og ritsmíðum stjórnarliða fyrir síðustu kosningar var þessi: Við höfum fylgt svo skynsamlegri stjórnarstefnu á undanförnum árum, að ekki þarf miklu að kvíða, ef aðeins gefst tækifæri til að halda viðreisninni áfram. Í ræðu sinni í gærkvöld lét forsrh. undir höfuð leggjast að vitna til kosningastefnuskrár Sjálfstfl., sem samþ. var á umræddum landsfundi fyrir réttu ári. Á þessari stefnuskrá var síðan hamrað í blöðum sjálfstæðismanna og ræðum þeirra vafalaust um allt land. Ég vil nú bæta úr þessari gleymsku ráðh. í gærkvöld, þessari einkennilegu gleymsku liggur mér við að segja, því forsrh. er prýðilega minnisgóður maður. Fyrsta og veigamesta boðorðið í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. var stutt en efnismikið. Það hljóðaði svo: „Stefnt verði að víðtæku samkomulagi um verðlag og kaupgjald, er treysti gengi krónunnar og tryggi atvinnuvegunum samkeppnisstöðu, en launþegum batnandi kjör.“ Svo mörg voru þau orð. Ríkisstj. hélt velli á grundvelli þessara og þvílíkra kosningaloforða, og hún hefur ráðið ferðinni síðan.

Nú, þegar fyrsta þingi eftir kosningar er í þann veginn að ljúka, má þykja tími til þess kominn, að gerð sé nokkur úttekt á efndum fyrirheita stjórnarflokkanna frá s. l. vori, hafa og ræðumenn stjórnarandstöðunnar þegar framkvæmt slíka úttekt til nokkurrar hlítar, hér í þessum umr. gefst mér ekki tóm til að bæta þar við nema fáu einu. Ég bið hlustendur að hafa vel í huga hinn stutta en gagnorða kafla úr stefnuskrá Sjálfstfl., þann sem ég las áðan, bera svo saman fyrirheitin og efndirnar. Það voru fjögur efnisatriði í þessum kafla, öll mikilvæg. Í fyrsta lagi: Stefna skyldi að víðtæku samkomulagi um verðlag og kaupgjald. Hvað segja verkamenn og aðrir launþegar um efndir þessa boðskapar, eftir að þeir hafa orðið að gera víðtækasta verkfall, sem um getur hér á landi, til að afstýra því, að holskefla nýrra verðhækkana bryti á þeim með fullum þunga? Í öðru lagi átti að treysta gengi krónunnar. Öllum er í fersku minni, hvernig það loforð var efnt í nóvembermánuði s. l. Í þriðja lagi skyldi tryggja atvinnuvegunum samkeppnisstöðu. Því miður skortir mikið á, að það hafi tekizt. Að vísu var helzta réttlæting gengisfellingarinnar sú, að hún yrði sjávarútveginum til stuðnings, en ósýnt er með öllu, hvort svo verður til nokkurrar frambúðar. Og svo var í fjórða og síðasta lagi ætlunin að tryggja launþegum batnandi kjör. Er hugsanlegt, að einhver bið verði á því? Nú skal því engan veginn neitað, að möguleikarnir til að standa við þessi og þvílík fyrirheit hafa verið minni undanfarin misseri en um langt skeið áður. Veldur því einkum tilfinnanlegt verðfall á sumum helztu útflutningsafurðum okkar og versnandi afkoma á síldveiðum vegna breyttra síldargangna. En Íslendingar höfðu um árabil átt því láni að fagna, að saman fóru aukin aflabrögð og stórbætt viðskiptakjör, og þó sitt hvað nytsamlegt væri gert fyrir þessa miklu fjármuni, verður hinu ekki með rökum neitað, að mikið fór í súginn, að gullin tækifæri til að efla atvinnuvegina til frambúðar nýttust ekki, nema að takmörkuðu leyti. Því olli öðru fremur röng stefna í efnahagsmálunum, skipulagsleysi og ótrúlegur skilningsskortur ráðamanna á nauðsyn alhliða uppbyggingar mikilvægustu atvinnuveganna. Á síðasta hausti var svo komið, að verðbólguþróunin innanlands, afleiðingin af stefnu stjórnarflokkanna og stjórnleysi í innflutningi og fjárfestingarmálum, hafði sligað útflutningsatvinnuvegina og var að stefna efnahagslífinu í algert þrot. Fram til þess tíma hafði aukið aflamagn og síhækkandi verð sjávarafurða erlendis bætt sjávarútveginum að verulegu leyti þau áföll, sem hann hlaut af völdum verðbólgunnar, en nú var máttur útgerðarinnar til að reisa rönd við afleiðingum stjórnarstefnunnar með öllu þorrinn.

Á s. l. hausti stóð ríkisstj. frammi fyrir tvöföldum vanda. Hagur ríkissjóðs fór versnandi, og það, sem enn alvarlegra var, rekstrargrundvöllur útflutningsframleiðslunnar var gersamlega brostinn. Ríkisstj. hugðist glíma við þessi vandamál í áföngum, hagsmunir ríkissjóðs skyldu sitja í fyrirrúmi, með auknum álögum og brottfalli niðurgreiðslna átti að bæta hag hans um 750 milljónir. Höfuðvandamálið, starfsgrundvöllur framleiðslunnar, skyldi hins vegar bíða. Fall sterlingspundsins olli því, að þessar ráðagerðir breyttust, og báðir áfangarnir skyldu teknir í einu með þeirri ákvörðun að lækka gengi ísl. kr. um 25%. Lífskjör almennings höfðu á árinu 1967 versnað mjög, vegna samdráttar atvinnulífs og minnkandi atvinnu. Samt var það ætlun ráðamanna, að öll alþýða tæki einnig á sig stórfellda kjararýrnun af völdum gengisfellingarinnar, algerlega bótalaust. Í því skyni voru ákvæðin um vísitölutryggingu kaupgjalds úr lögum numin. Nú skyldu allar verðhækkanir skella á launþegum með fullum þunga. Þegar hinum nýju byrðum var úthlutað, var ekki um það spurt, hverjir mest hefðu matað krókinn á verðbólgu undanfarinna ára, hverjir bezt væru færir um að taka á sig álögurnar. Nei, mælikvarðinn var fjölskyldustærðin. Það var vissulega ekki nema að vonum, að verkalýðshreyfingin snerist einhuga gegn svo harkalegum ráðstöfunum. Nokkrar bætur voru knúðar fram og kostuðu þó víðtækasta verkfall, sem um getur hér á landi. Höfuðábyrgðina á því tjóni, sem af verkfallinu hlauzt, bera ráðamenn stjórnarflokkanna, sem með skammsýnum stjórnvaldaaðgerðum neyddu alþýðu landsins til óhjákvæmilegrar varnarbaráttu. Þeir erfiðleikar á sviði íslenzks efnahagslífs, sem nú er við að etja, eiga sér margvíslegar orsakir. Verðfall á erlendum mörkuðum er vissulega ein þeirra, en þar kemur fleira til. Miklu máli skiptir, hvernig við bregðumst við þeim vanda, sem okkur er nú á höndum. En til þess að viðbrögðin geti orðið með æskilegum hætti, ber nauðsyn til að kanna orsakir vandans til hlítar. Það er óhjákvæmilegt að svara af fullri hreinskilni þeirri spurningu, hvers vegna við erum ekki betur í stakkinn búnir en raun ber vitni til að mæta nokkrum aðvífandi erfiðleikum, eftir eitthvert lengsta samfellt góðæri, sem yfir landið hefur gengið. Hér er þess enginn kostur að gera þessu margþætta máli viðhlítandi skil, á nokkur atriði skal þó drepið.

Ég leyfi mér að staðhæfa, að efnahagserfiðleikar okkar nú stafa að verulegu leyti af því, að við höfum ekki notað góðærið nægilega til að búa okkur undir framtíðina, til að treysta grundvöll útflutningsins og atvinnulífsins í heild. Af hálfu stjórnarvalda hefur það verið látið nær íhlutunarlaust, hvernig hið mikla fjármagn á góðæristímunum var notað. Skort hefur þar forustu um að beina bróðurhlutanum af þessu fjármagni til markvissrar uppbyggingar og eflingar atvinnulífsins. Í allt of ríkum mæli hafa brasksjónarmið og hreinar tilviljanir ráðið því, hvert fjármagnið rann. Nokkur dæmi um forystuleysið af hálfu stjórnarvalda skal ég nefna. Íslenzki togaraflotinn hefur á liðnum velgengnisárum verið látinn drafna niður. Í fullan áratug hefur þar engin endurnýjun átt sér stað, en mikill hluti gamla flotans ýmist verið seldur úr landi fyrir nær ekkert verð eða liggur aðgerðarlaus. Á sama tíma hafa aðrar fiskveiðiþjóðir endurnýjað togaraflota sinn, hagnýtt nýjustu tækni og hagkvæmni í rekstri, yfirleitt með mjög góðum árangri. Ár eftir ár höfum við Alþb.-menn flutt till. og frv. hér á Alþ. um endurnýjun togaraflotans, en jafnan talað þar fyrir daufum eyrum. Fyrir nokkrum vikum var síðasta frv. okkar um kaup á skuttogurum vísað til ríkisstj. Mér er spurn: Hefðum við síðustu 10 árin endurnýjað togaraflota okkar, svo við ættum nú 40–50 vel búin skip til veiða á djúpmiðum, þar sem önnur skip en togarar fá lítt eða ekki stundað veiðar, værum við þá ekki betur á vegi staddir en raun ber vitni í dag? Væri ekki hagur frystihúsanna betri? Væri ekki atvinnulíf ýmissa útgerðarstaða álitlegra en það er? Væru ekki útflutningsverðmætin meiri? Árum saman höfum við Alþb.-menn hamrað á nauðsyn þess, að aukin væri fjölbreytni fiskiðnaðar, og þá ekki sízt unnið skipulega að niðursuðuiðnaði og öflun markaða fyrir hann. Vitað er, að margvíslegar, niðursoðnar fiskafurðir hafa um langt skeið verið stór og traustur þáttur útflutnings hjá frændum okkar, Norðmönnum. Þeir selja nú niðursuðuvörur til Bretlands, Bandaríkjanna og fleiri landa fyrir hærri upphæðir, en nemur öllu útflutningsverði okkar fyrir frystan og ferskan fisk. Hér hefur þessu stórmáli verið alltof lítið sinnt og sízt með markvissum og skipulegum hætti. Möguleikarnir á þessu sviði hafa legið næstum því ónotaðir undanfarið góðæristímabil, og þeir liggja það enn, af því súpum við seyðið. Sá hluti íslenzka bátaflotans, sem hentugastur er til þorskveiða, hefur stórlega gengið úr sér á undanförnum árum. Þar hefur mjög lítil endurnýjun átt sér stað. Þetta er ein af ástæðum þess, hve öflun hráefnis til hraðfrystihúsa hefur verið stopul að undanförnu, með þeim afleiðingum, að mörg þeirra eru rekin með tapi og atvinna víða við sjávarsíðuna hefur síminnkað. Hvað eftir annað höfum við Alþb.-menn lagt áherzlu á nauðsyn þess, að komið verði upp tæknistofnun í þjónustu sjávarútvegs. Við höfum flutt till. og frv. um slíka stofnun og bent á, með sterkum rökum, að nútíma sjávarútvegur verði að styðjast við öfluga starfsemi á þessu sviði, eigi hann að fylgjast með tímanum og geta hagnýtt þá vélvæðingu og tækniþróun á farsælan hátt, sem fiskveiðar byggjast á í stöðugt ríkari mæli. Verksvið slíkrar stofnunar væri víðtækt: að framkvæma rannsóknir á hvers konar veiðitækni, fylgjast með erlendum og innlendum nýjungum á því sviði, hafa frumkvæðið um prófanir þeirra við íslenzkar aðstæður og veita íslenzkum útvegsmönnum og fiskimönnum sem gleggstar upplýsingar um niðurstöður. Þessar rannsóknir þurfa að ná til stærða og gerða fiskiskipa, til alls búnaðar þeirra, til hvers konar veiðarfæra og veiðiaðferða. Á því leikur enginn vafi, að skortur á slíkri rannsókna- og upplýsingastarfsemi hefur bakað okkur stórtjón á hverju ári nú um langt skeið. Hér er um mikil verðmæti að tefla. Slík stofnun hefði getað sparað útveginum, og þar með þjóðarheildinni, mikla fjármuni og einnig aukið framleiðslugetuna verulega. Menn viðurkenna almennt nauðsyn slíkrar starfsemi, en þar við situr að mestu. Frumkvæði af hálfu stjórnarvalda hefur ekkert verið. Ég hef aðeins nefnt nokkur dæmi þess, hve illa tækifærin á velgengnisárunum hafa verið notuð til þess að efla fjölþættan sjávarútveg og fiskiðnað. Hins er naumast að vænta, að þau stjórnarvöld, sem létu tækifærin glatast, á meðan vel gekk, hafi frumkvæðið um mikla uppbyggingu sjávarútvegs, þegar að þrengir. Ljóst er og, hvert stefnir. Á Alþ. í dag flutti fjmrh. fróðlega skýrslu um framkvæmdaáætlun fyrir árið 1968. Þar vakti það athygli, að þrátt fyrir ráðagerðir um nokkuð svipaða heildarfjárfestingu og verið hefur undanfarin ár, er gert ráð fyrir, að dragi mjög úr fjárfestingu varðandi fiskveiðar og fiskiðnað. Það þýðir sennilega: Engir nýir togarar. Færri nýir fiskibátar. Engin uppbygging niðursuðuiðnaðar.

Ég hef hér einskorðað mig við nokkur atriði, sem sjávarútveginn varða, en svipaða sögu er að segja af öðrum atvinnuvegum, ekki sízt iðnaði, þar sem stjórnarstefnan hefur í ýmsum tilvikum jafnvel torveldað eðlilega uppbyggingu þátta hans á góðæristímanum. Því miður er þessi skilningsskortur ráðamanna á þróunarmöguleikum og endurnýjunarþörf mikilvægustu atvinnuveganna samur enn og verið hefur. Hann mótar stjórnarstefnuna á marga lund og kemur með ýmsu móti. Ég nefni hér eitt spánnýtt dæmi að því er sjávarútveginn varðar. Á undanfarandi árum hafa þau aflaverðmæti, sem síldveiðiflotinn flutti að landi, lagt óhemju skerf í þjóðarbúið. Síðasta síldarvertíð var mjög erfið sjómönnum og útgerðarmönnum, og kostnaðarsöm, vegna þess hve ákaflega langsótt var á miðin. Með miklu harðfengi tókst síldveiðisjómönnum þó að fiska töluvert mikla síld. Fyrir þjóðarbúið munaði ekki hvað minnst um það, að saltsíldarvertíðin bjargaðist nokkurn veginn. Hvort tveggja var, að gott verð fékkst fyrir saltsíldina, auk þess, sem auðið reyndist að halda saltsíldarmörkuðunum að þessu sinni, en það skiptir vitanlega miklu máli. En horfurnar á komandi síldarvertíð eru, því miður, ekki góðar. Hin stóru og dýru skip, sem þessar veiðar stunda, hafa flest eða öll verið rekin með stórtapi undanfarna mánuði. Frá áramótum og fram undir síðustu daga a. m. k. mun það alger undantekning,sé það ekki óþekkt með öllu, að nokkurt þessara skipa hafi fiskað fyrir tryggingu, sem kallað er, þ. e. aflahluturinn er hvarvetna lægri en kauptrygging skipverja, og er hún þó ekki nema 12 þús. kr. á mánuði. Af þessum 12 þús. kr. fara 4–5 þús. kr. í fæði. Nú er almennt búizt við því, að sækja verði síldina á fjarlæg mið í ár, ekki síður en var í fyrra. Vitað er, að verð á bræðslusíldarafurðum er enn lágt og óvíst, hvort það hækkar að sinni. Hins vegar hafa menn gert sér vonir um sæmilega hagstætt verð fyrir saltsíld. Skiptir því miklu máli, að okkur takist að afla hennar og halda þar með þeim góðu mörkuðum, sem við höfum nokkuð lengi haft fyrir þessa vöru. Helzt voru því vonir um, að saltsíldarverðið stæði upp úr og freistaði bæði sjómanna og útvegsmanna til að búa sig undir síldveiðar, þótt við mikla erfiðleika sé að etja, ef sækja þarf síldina óraleið norðaustur í haf, en hér má vissulega ekkert út af bregða, ef kleift á að reynast að fá mannskap á skipin og gera þau út. Jafnframt er vitað, að norskir útgerðarmenn búa sig undir það, að hagnýta aðstöðumuninn, ef síldin verður í nánd við Norður-Noreg, og stórauka saltsíldarframleiðslu sína. Við þessar aðstæður dettur ríkisstj. það í hug að hækka stórlega útflutningsgjöld af ýmsum sjávarafurðum, og þá alveg sérstaklega á saltsíld. Þó var slíkt útflutningsgjald hærra hjá okkur en þekkist með nokkurri fiskveiðiþjóð, sem mér er kunnugt um. En skv. frv., sem nú er verið að gera að l., á að taka af saltsíldinni nokkra milljónatugi til viðbótar. Þetta fé er tekið af óskiptu, áður en sjómenn fá reiknaðan sinn aflahlut. Þar að auki tekur síldarútvegsnefnd 2% skatt af óskiptu saltsíldarverði, til Aflatryggingasjóðs og til síldarleitarskips rennur einnig nokkuð. Alls eru það því um 14%, sem á nú að taka í útflutningsgjöldum ýmiss konar af saltsíldinni. Hér er sennilega um að ræða töluvert yfir 200 kr. útflutningsgjöld af hverri síldartunnu. Á sama tíma er mér tjáð, að Norðmenn greiði framleiðslustyrk, sem nemur um 240 ísl. kr. á hverja saltsíldartunnu. Síðan eiga Íslendingar að keppa við Norðmenn um síldarmarkaðina. Þetta stórhækkaða útflutningsgjald raskar að sjálfsögðu þeim grundvelli, sem hlutaskiptasamningar sjómanna og útgerðarmanna byggjast á. Flestir útgerðarmenn hafa gert sér þau sannindi ljós, að þeir geta ekki byggt rekstrargrundvöll útgerðarinnar á aukinni kjaraskerðingu sjómanna. Hún er ærin orðin. En ríkisstj. virðist þetta hulið. Sannleikurinn er þó sá, að sjómenn hafa þegar orðið fyrir svo alvarlegri kjaraskerðingu vegna lækkandi verðlags, að á hana er ekki bætandi. Sízt verður það útgerðinni til hagsbóta, að hér sé enn vegið í sama knérunn. Góðan hag útgerðar er ekki hægt að byggja á lágu kaupi sjómanna. Útgerðin þarf þvert á móti að búa við rekstrargrundvöll, sem gerir henni fært að greiða sjómönnum svo rífleg laun, að sjómennska sé eftirsótt starf. Kjaraskerðing þeirra, sem erfiðustu og áhættumestu framleiðslustörfin vinna, er ekki lausn á neinum vanda, hún er ranglæti og hún er heimska. — Góða nótt.