26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

Framkvæmd vegáætlunar 1967

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka undir þau tilmæli frá hv. 1. þm. Vestf., að þessari umr. verði ekki lokið núna í kvöld. Ég hefði gjarnan viljað spyrja nánar út í ræðu hæstv. ráðh. heldur en ég hef haft tækifæri til að forma, og þessi mál eru þannig vaxin, a. m. k. hvað varðar okkur þm. utan af landsbyggðinni, að þau eru mjög á dagskrá á okkar slóðum, og við erum mjög spurðir í þaula um þau. Fyrir okkur a. m. k. væri það nokkuð þýðingarmikið að fá sem allra fyllstar upplýsingar og jafnframt tækifæri til nokkuð ýtarlegra viðræðna við hæstv. ráðh. um vegamálin.

Það er vissulega svo, að í skýrslunni eins og hún var lögð hérna fyrir er mikinn fróðleik að finna, en samt eru það, eins og hv. 1. þm. Vestf. benti á, mjög mörg atriði fleiri, sem æskilegt væri að fá upplýst.

Það er auðvitað gott eitt um að segja alla viðleitni til umbóta á þessu sviði, eins og t. d. það nýmæli að græða sárin meðfram vegunum og einnig um þær tilraunir, sem gerðar hafa verið með slitlög úr mismunandi efnum, og ýmsar aðrar nýjungar í vegagerð. Það er vafalaust rétt, að Vegagerðin hefur smátt og smátt eignazt fleiri og betri tæki, þó að mjög skorti enn á, að hún sé eins vel tækjum búin og nauðsynlegt væri og hæfði hennar stóra verkefni. Það er sjálfsagt einnig unnið að því að koma betra skipulagi á framkvæmdir og að beita betri vinnubrögðum að ýmsu leyti. Hörpun eða flokkun þess efnis, sem notað er í ofaníburð, er t.d. mjög til bóta. En bara það eitt út af fyrir sig breytir mjög til hins betra árangri viðhaldsvinnunnar.

Því miður er það þó svo, að ástand veganna víðs vegar um landið eins og það er í dag vitnar ekki um mikla framför í heild. Og það er auðvitað af því fyrst og fremst, að það er allt of lítið fjármagn, sem til þessara mála er varið og m. a., og sérstaklega í vegaviðhaldi. Og ég hygg að margir fleiri en ég hafi orðið fyrir töluverðum vonbrigðum við framkvæmd fjögurra ára áætlunarinnar, telji að hún hafi ekki gefið það í aðra hönd, ekki gefið þær framfarir í vegagerðinni, sem menn höfðu gert sér vonir um.

Ég vildi alveg sérstaklega vekja athygli á tveimur atriðum í sambandi við skýrsluna. Annars vegar er það, sem einnig kom fram hjá hv. 1 þm. Vestf., hversu gífurlegur er orðinn sá þungi vaxta og afborgana af eldri lánum, sem nú hvílir á Vegasjóði og skerðir alveg stórkostlega möguleika hans til þess að standa straum af nýbyggingunum. Nýbyggingar hljóta að dragast saman af sjálfu sér, ef þessu heldur áfram, þ. e. a. s. ef það þykir ekki fært að mæta þessum greiðslum með meira fjármagni, meiri beinum tekjum sumpart, og sumpart með nýjum og stórum lántökum til lengri tíma. Hins vegar er svo vegaviðhaldið sjálft. Það hefur komið fram og var vitað, að fé til viðhalds hefur hækkað nokkuð að krónutölu. En því fer þó fjarri, að sú hækkun hafi svarað til hvors tveggja, aukins álags á vegunum og þeirrar verðþenslu, sem orðið hefur ár frá ári, því fer áreiðanlega fjarri. Álagsþunginn á fjölfarnari vegunum hefur á síðustu árum verið alveg gífurlegur, ef miðað er við raunverulegt burðarþol þeirra. Bæði er það, að bílafjöldinn vex stöðugt og bílarnir stækka og þyngjast, og á ýmsum stöðum hafa komið til ný verkefni, sem áður voru ekki fyrir hendi, og aukið álagið stórkostlega. Mér er t. d. alveg sérstaklega í huga Út-Héraðsvegur á Fljótsdalshéraði, sem var í upphafi eins og aðrir vegir á þeim árum byggður af vanefnum og eingöngu gerður fyrir flutninga bændanna á þessu svæði að og frá heimilunum, að viðbættri umferðinni til og frá Borgarfirði, sem þá var a. m. k. engin veruleg þungaflutningaleið. Borgfirðingar, eins og aðrir Austfirðingar, fá yfirleitt sína þungaflutninga af sjó, og sérstaklega fengu það þá. En síðan hefur það gerzt á þessum slóðum til viðbótar hinu almenna aukna álagi, að nú er tekið að sækja mjög mikinn hluta af byggingarefnum, ekki einasta þorpsins á Egilsstöðum, heldur einnig sumra kaupstaða og kauptúna við sjóinn, út á sandana við Héraðsflóa eftir þessum vegi. Af þessu leiðir, að þessi Út-Héraðsvegur hefur engan veginn og alls ekki þolað álagið. Og þar hygg ég, að ófæran að vori hafi komizt lengst, því að mér er kunnugt um það, að menn hafi orðið að hætta að nota traktora í mjólkurflutningana og orðið að taka upp jarðýtuflutninga eftir lögðum veginum á auðri jörð.

Mér finnst full ástæða til að vekja athygli á því, hvernig framkvæmd vegaviðhaldsins er komið, a. m. k. í sumum héruðum, já í stórum landshlutum. Þeir, sem að vegamálum vinna, neyðast til þess að nota svo til allt og stundum allt viðhaldsfé til þess að gera vegina færa að vorinu, m. ö. o., allt viðhaldsféð er notað á þeim tíma, þegar árangurinn verður allra minnstur, sem hann getur orðið. Hver ökuferð með hlass um þá kafla, sem uppi hanga, kostar þá það, að þeir kaflar stórskemmast, því að vegurinn allur er svo veikur, að hann þolir ekki umferðina. Þegar hlassið er komið á ákvörðunarstaðinn, í eitthvert fenið, blandast það og hrærist saman við forina og verður að margfalt minni notum heldur en yrði, ef hægt væri að framkvæma mölburðinn á þeim tíma, þegar vegirnir þola umferðina og geta tekið við ofaníburði á eðlilegan hátt. Það kemur svo til viðbótar þessu, að hver vagn, hver bíll, sem notaður er í viðhaldsvinnunni, fer margfalt færri ferðir heldur en hann mundi fara á þeim tímum, þegar vegirnir eru þurrir og harðir. Þarna er vegaviðhaldið komið í algera sjálfheldu. Viðhaldsféð hrekkur ekki fyrir meiru heldur en því, að gera vegina færa til umferðar að vorinu. Þörfin kallar, og þeir, sem framkvæma verkið, neyðast til þess að vinna það undir þessum kringumstæðum. Ég get ekki komið auga á, að út úr þessari sjálfheldu sé önnur leið heldur en að fá að einhverju leyti aukið fé í viðhaldið á þessum stöðum, sem hægt væri þá að nota til mölburðar, annaðhvort að sumrinu, þegar vegir eru þurrir og þola umferðina, ellegar þá jafnvel, eða a. m. k. að einhverju leyti, að hausti eða vori, þegar frost er komið í vegina og þeir þola þungaumferð bezt. Mér er kunnugt um, að þetta hefur verið gert við vegarkafla, sem var orðinn mjög slakur og ófær á hverju vori, hann fékk svona yfirferð eftir að fraus að haustinu, og ástand hans gerbreyttist næstu árin á eftir. Það er áreiðanlega víst, að þeir vegir, sem lengst þurfa að bíða uppbyggingar, og auðvitað er heildaruppbygging þjóðvegakerfisins langtímamál, þeir verða gífurlegt vandamál á þeim tíma, sem líður, þar til að uppbyggingu þeirra kemur, ef allt situr við sama um framkvæmd viðhaldsins. Og mér finnst það mæla með því, að menn reyni nú fyrr en síðar, líkt og lagt er til í þáltill., sem nú liggur fyrir sameinuðu þingi, ráðizt í það fyrr en síðar að gera heildaráætlun um uppbyggingu þjóðvegakerfisins alls. Það er almenn nauðsyn að raða framkvæmdunum fyrirfram, gera sér grein fyrir, hver sé æskileg eða eðlileg röðun á nýbyggingarframkvæmdunum sjálfum. Og það er óhjákvæmilegt að gera átak til að koma í veg fyrir algert neyðar- og vandræðaástand á sumum þeirra þjóðvega, sem lengst mundu þurfa að bíða eftir uppbyggingu.

Það var gert ráð fyrir því í endurskoðaðri vegáætlun, að á s. l. ári yrði tekið nokkurt lán til vegaframkvæmda á Austurlandsvegi á leiðinni frá Möðrudal og austur eftir, ég hygg um 3 millj. kr. Mér skilst, að þessi heimild hafi ekki verið notuð. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort þess megi þá vænta, að þessi lánsheimild verði notuð á næsta ári. Ég þarf ekki að lýsa því, að það urðu Austfirðingum mikil vonbrigði, að þessar lánsheimildir voru ekki notaðar, því að þessi vegur er mjög þýðingarmikil tengileið og raunar eina leiðin á landi frá Austfirðingafjórðungi til annarra fjórðunga. Austfirðingar telja sig hafa verið mjög sniðgengna með notkun lánsfjár til langtíma til vegaframkvæmda á undanförnum mörgum árum. Hlutur þeirra er aðeins örlítið brot af heildarupphæð lánsfjár til vegagerðar. Og er það þó ekki af því, að þar sé þörf minni fyrir vegaframkvæmdir en í öðrum landshlutum, síður en svo.

Í sumar var haldinn fundur á Egilsstöðum að undirlagi Jónasar Haralz, forstjóra Efnahagsstofnunarinnar, þar sem hann ræddi við alþm. kjördæmisins, þá, sem til náðist, svo og stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, um vegamálin og hvað fram undan væri í þeim efnum. Hann sagði okkur, að það væru uppi ráðagerðir um mjög verulegar nýjar lántökur til vegagerðar í landinu á næstu árum. Því lánsfé mundi að mestu varið til þeirra vega, sem þyngsta bera umferðina þ. e. veganna út frá höfuðstaðnum, en einnig að nokkru til vega annars staðar. Það hefði verið mjög fróðlegt, ef hæstv. ráðh. hefði getað gefið einhverjar upplýsingar um það, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í þessum efnum.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðh. liggur nú fyrir að vinna að því að gera nýja vegáætlun þegar á þessu ári, því að hún ætti að taka gildi við n. k. áramót. Þarna er vitanlega um mikið verkefni að ræða. Það er ekki einasta það að raða vegunum með tilliti til þess, í hvaða röð verkin verði unnin. Það verður vafalaust einnig við þessa áætlunargerð rætt um skipulagningu framkvæmdanna að ýmsu öðru leyti. Og í þriðja lagi þá um það, á hvern hátt verði staðið að öflun fjármuna til framkvæmda næstu 4 árin eða hvað það nú verður langur tími, sem næsta áætlun verður látin ná til.

Ég vildi að lokum aðeins spyrjast fyrir um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að standa að þessu verki, að undirbúningi hinnar nýju áætlunar hvort hún hugsar sér, að alþm., og þá auðvitað bæði stjórnarlið og stjórnarandstaða, fái beina aðild að því starfi.