04.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

Verkföll

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkrar stuttar aths. við það, sem hér kom fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál. Hæstv. forsrh. ræddi hér talsvert um frjálsa kaupgjaldssamninga og samningafrelsi, sem ríkti á vinnumarkaðinum, og í tilefni af því sagði hann, að þeir, sem gerðu kröfu um það að hafa frjálsræði til kaupgjaldssamninga og einnig þá um það að geta fylgt kröfum sínum eftir með verkföllum, yrðu auðvitað að standa ábyrgir fyrir því, sem þeir væru að gera, og þola þau vandkvæði, sem af verkföllum hlytust, þegar ekki væri gengið að kröfum þeirra. En þeir gætu þá ekki gerzt jafnhliða kröfumenn þess, að ríkisvaldið skærist í leikinn og hjálpaði þeim út úr vandanum. Þessu er í rauninni hjá hæstv. forsrh. snúið algerlega við, og það hlýtur hann sjálfur manna bezt að vita. Hvað var það, sem gerðist í síðustu kaupgjaldssamningum, árið 1965, þegar síðast er samið um kaupið? Þá er samið á milli vinnuveitenda og verkalýðssamtakanna um tiltekið kaup á grundvelli vísitölutryggingar kaupsins. En svo skerst bara ríkisvaldið í leikinn, kemur á eftir og tekur einn mikilvægasta þáttinn úr samkomulaginu, úr samningunum, sem gerðir voru, kippir þeim í burtu, og það veldur öllum erfiðleikunum. Það var því ríkisvaldið, sem skarst í leikinn óbeðið af þessum samningsaðilum, sem höfðu samið um kaupið, og það er einmitt af þessum ástæðum, sem við Alþb.-menn höldum því fram, að nú hvíli skylda beinlínis á ríkisvaldinu, fyrst og fremst á ríkisstj., til þess að bæta fyrir það, sem rangt var gert í þessum efnum, þar sem gerðum samningum var raskað með löggjöfinni, sem hér var sett í nóvembermánuði s. l. Það er yfirlýst stefna verkalýðssamtakanna í landinu, að þau óska ekki eftir því, að ríkisvaldið sé beinn aðili að samningum um launakjör á vinnumarkaði. Verkalýðssamtökin óska eftir því að fá að eiga þessa samninga hreint og beint við vinnuveitendur, án þess að ríkisvaldið sé að blanda sér í þau mál. En það er sem sagt ríkisvaldið, sem hér hefur skorizt í leikinn, og að því leyti stendur nú vandinn á ríkinu eða ríkisstj. í þessu tilfelli. Það er svo aftur annað mál, að það getur vissulega komið upp sú staða, að atvinnuvegir landsins komist í slíkan vanda, að þeir telji sér ekki fært á einhverju stigi málsins að ganga að þeim launakröfum, sem þeir verða þó að semja um, og þá er auðvitað ekkert annað algengara en það, að atvinnureksturinn snúi sér til valdhafanna í landinu og fari fram á ýmiss konar leiðréttingu sinna mála. Og það er það, sem hefur verið að gerast. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug, án þess að fara að ræða þessi mál neitt ýtarlega nú í þessum stutta tíma, að eini vandi atvinnurekstursins í landinu nú sé að greiða vinnulaun. Ég skal aðeins nefna hér eitt einasta dæmi. Það er talið t. d. í þeim þýðingarmikla atvinnurekstri í frystihúsaiðnaðinum í landinu, að vinnulaun séu svona í kringum 20–22% af heildarútgjöldum fyrirtækisins, frystihússins. En nú í þessu tilfelli er verið að ræða um vísitölubætur á laun, sem munu nema í kringum 5% eins og málin standa nú, en hins vegar verða þessi fyrirtæki nú að standa undir vaxtagreiðslum, bæði af rekstrarlánum og af stofnlánum, sem að meðaltali munu vera í kringum 10%. Ef slakað væri þarna á þessum miklu útgjöldum eitthvað verulega, væri hægt að mæta talsverðum hluta af því, sem nú er verið að ræða um í sambandi við launakostnað. Þannig er þetta vitanlega í miklu fleiri tilfellum. En þessir vextir eru beinlínis ákveðnir eftir pólitík ríkisvaldsins á hverjum tíma. Ég vil líka benda á það, að það er í mesta máta óeðlilegt að ætla að réttlæta þær kröfur, sem nú eru uppi um það, að skerða eigi kaupmátt hins almenna dagvinnukaups, sem um hefur verið samið, vegna þeirra áfalla, sem við höfum orðið fyrir í atvinnurekstri landsmanna almennt, bæði með minni fiskafla og eins með lækkandi verðlagi á erlendum mörkuðum. Það hefur alltaf verið þannig og mun verða þannig og það hefur verið þannig núna, líka í þetta skipti, að minni afli hefur þýtt minna kaup til sjómanna og til allra þeirra, sem vinna að aflanum. Lækkað verð á aflanum út úr landinu hefur þýtt stórlækkað kaup til sjómannanna. Þeir hafa því þegar tekið á sig þessa kauplækkun. Þannig hefur þetta alltaf verið. Og verði samdráttur í atvinnulífi landsins byrjar þetta auðvitað með því, að megnið af yfirvinnunni, yfirborgunum, helgidagavinnunni og öðru slíku, minnkar. Þannig lækkar kaupið, það fylgir samdrættinum, en það er ekki nauðsynlegt að lækka kaupmátt hins almenna tímakaups í ofanálag, og það er um það, sem deilan stendur nú í dag. Deilan stendur ekki um það, hvort það þurfi að verða kjaraskerðing eða ekki, kjaraskerðingin hefur orðið í mjög ríkum mæli hjá vinnandi fólki í landinu. Hún hefur orðið upp á mörg hundruð millj. kr. En spurningin er bara sú, hvort það á að fara hér í langvarandi verkfall nú t. d. í marzmánuði, þegar aðalvertíðin er að hefjast, til þess að halda uppi baráttu um þá deilu, hvort það eigi að leyfa hinu tiltölulega lága umsamda dagkaupi að halda kaupmætti sínum eins og hann var. Og ég trúi því ekki, að það séu til margir atvinnurekendur, sem vilja í raun og veru fara út í þá baráttu, því hún mun verða atvinnurekstrinum margfalt dýrari, en að greiða þessar bætur, sem hér er um að ræða. Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að nú þegar, á hverjum degi, mun atvinnurekstur í landinu verða fyrir milljónatjóni af stöðvun, svo að segja á hverjum degi. Ég þekki það mætavel, að atvinnufyrirtæki, sem ég þekki mjög vel til hjá, sjá þegar fram á það, að þau eru að taka á sig margfalt tjón, af því að verða bundin í verkfalli, eins og málin standa núna, á aðalframleiðslutímanum. Hér er því um sameiginlegt hagsmunamál allra að ræða, sem ríkisstj. á vitanlega að beita sér fyrir, að koma í veg fyrir framleiðslustöðvun núna á þessum viðkvæma tíma út af þessu deilumáli, og ég er ekki í neinum vafa um það, að ef ríkisstj. leggur sig fram um það, og í samræmi við þá skyldu, sem ég tel, að á henni sé, vegna þess hvernig þetta mál allt er til komið, hvernig þessi deila er til komin, er ég ekki í neinum vafa um það, að það hlýtur að vera hægt að finna lausn á þessu máli núna tiltölulega fljótlega og bægja frá þjóðinni ómældum og háum tapsfjárhæðum, sem mundu hljótast af stöðvun. Og það vona ég, að verði gert.