22.01.1968
Neðri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2145)

86. mál, hægri handar umferð

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Áður en ég vík sérstaklega að því, sem ég ætla að segja hér, vil ég minnast á nokkur atriði af því, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh. Ég get vel skilið þá gagnrýni hæstv. ráðh., að honum finnist þetta frv. vera helzt til seint fram komið, og sérstaklega er sú gagnrýni hans skiljanleg í sambandi við þá flm. frv., sem hafa setið hér á þingi áður, en ég er einn af þeim. En mér finnst rétt að gefa á þessu nokkra skýringu.

Ég skal játa það fúslega, að persónulega er ég lítið fróður um þessi mál, og þess vegna lét ég þetta mál afskiptalaust hér í þingi, bæði þegar sú þáltill. var til umr., þar sem fyrir var mælt um undirbúning frv. um hægri handar akstur, og eins þegar frv. sjálft var til meðferðar, enda þótt ég greiddi atkv. á móti því. Sannleikurinn var sá, að á þessum tíma, bæði hér á þingi og eins utan þingsins, var ákaflega lítið eða a.m.k. allt of lítið rætt um þetta mál. Það var eiginlega fyrst eftir að búið var að samþykkja lög um hægri handar akstur, sem menn eins og rönkuðu við sér og fóru að tala um þetta. Og það, sem hefur haft langmest áhrif á mína afstöðu í þessum efnum, er það, að mér finnst, að mikill meiri hl. þeirra manna, sem hafa mesta þekkingu í þessum efnum, þ. e. bílstjórarnir og þeir, sem hafa mest kynni af okkar þjóðvegum, séu andvígir þessari breytingu. Ég legg mikið upp úr því, sem sérfræðingar hafa að segja um þetta mál og annað, en mér finnst jafnan mestu máli skipta það, sem þeir segja, sem hafa mesta reynsluna. Og niðurstaða mín eða könnun í þessu máli er sú, að þeir menn, sem hafa mesta reynslu í þessum efnum, sem bezt þekkja okkar þjóðvegi, séu að miklum meiri hluta andvígir þessari breytingu, og það er af þessari ástæðu, sem ég tek þátt í flutningi þessa frv., og þá að sjálfsögðu út frá því sjónarmiði, að þó að það hefði verið betra, að slík till. um þjóðaratkvgr. kæmi fram fyrr, sé þó betra seint en aldrei.

Ráðh. vék að því, að það hefði verið að ýmsu leyti eðlilegt, að slík till. hefði verið flutt á seinasta þingi og þá hefði þjóðaratkvgr. um málið getað farið fram í sambandi við þingkosningar. Mér þykir rétt í þessu sambandi að skýra frá því, að ég hafði það mjög til athugunar á síðasta þingi að flytja þá till. um frestun og þjóðaratkvgr., en vegna óska ýmissa flokksbræðra minna o. fl. gerði ég það ekki. Ástæðan var sú, að menn töldu, að það væri að ýmsu leyti ekki hægt að láta fara fram þjóðaratkvgr. um þetta mál í sambandi við þingkosningar. Það gæti orðið til þess, að menn færu kannske, þeir sem eru heitastir í þessum málum með eða móti, að kjósa þm. eftir því, hvort þeir væru með hægri handar eða vinstri handar akstri. Og ég féllst á það, að þessi skoðun væri rétt, vegna þess að þetta mál hefur frá upphafi verið ópólitískt og menn hafa ekki skipzt um það eftir pólitískum skoðunum, væri rétt að halda þjóðaratkvgr. um það utan við pólitískar þingkosningar. Hins vegar eru allar horfur á því, að á þessu sumri fari fram aðrar kosningar, sem að líkindum verða ekki flokkspólitískar, forsetakosningar, og þá er alveg tilvalið að láta slíka atkvgr. fara fram, og hún getur þá farið fram, án þess að því fylgi nokkur sérstakur eða verulegur aukakostnaður.

Ráðh. vefengir mjög, að það hafi verið rétt, sem sagði í okkar grg., að kostnaðurinn við breytinguna mundi alltaf verða um 100 millj. kr. Í þeim áætlunum, sem hann lagði hér sjálfur fram eða H-nefndin svonefnda hafði undirbúið í hendurnar á honum, er gert ráð fyrir, að þessi kostnaður verði alltaf 65 millj. Mér skilst, að í þeim kostnaði sé ekki tekið tillit til þeirra ljósabreytinga, sem þurfa að verða á bifreiðum, en hv. 1. flm. færði rök að því hér áðan, að sá kostnaður mundi alltaf verða milli 20 og 30 millj. kr. Það vantar líka alveg inn í áætlun H-nefndarinnar, hver löggæzlukostnaðurinn muni verða, en mér þykir líklegt, að hæstv. dómsmrh. og þeir, sem að þessum málum vinna, telji nauðsynlegt að tryggja sem mest öryggi í sambandi við breytinguna, og það verður ekki gert án þess að fjölga verulega lögregluliði, svo að ég trúi ekki öðru, í samræmi við annað, sem hefur átt sér stað hjá okkur,en sá kostnaður skipti kannske ekki neinum hundruðum millj. kr., eins og einhvers staðar hefur komið fram, en mér þætti ótrúlegt annað en hann mundi skipta tugum millj. kr.

Að lokum er svo eftir að telja fram þann kostnað, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða í sambandi við breytinguna, en það er fyrir tafir, sem verða á alls konar flutningum. Það er alveg óhjákvæmilegt að draga úr ökuhraða, meðan breytingin fer fram, og ég hygg, að það sé skynsamlegt að gera það lengur en skemur til að tryggja sem mest öryggi í þessum efnum, og það hlýtur óhjákvæmilega að hafa það í för með sér, að miklar tafir verða í sambandi við alla flutninga, í sambandi við vöruflutninga, og ég tel t.d. alveg víst, að í sambandi við mjólkurflutninga muni verða mjög miklar tafir vegna þessarar breytingar, sem fyrirhuguð er í hægri handar umferð. Og það má reikna með því, að yfirleitt allar þær tafir, sem eiga sér stað í þessu sambandi, hafi þau áhrif, að eftirvinna hjá fyrirtækjunum lengist, t.d. í sambandi við mjólkurflutningana. Mér finnst það mjög einkennilegt og tel það ekki hyggilegt, ef ekki á að draga neitt úr hraða stórra bifreiða fyrst eftir breytinguna nema í eina 3 daga. Það finnst mér vera mjög hæpin ákvörðun, ef menn vilja reyna að tryggja fullt öryggi í þessum efnum, því að ég er hræddur um það, að aðrir bílar taki sér þá sama rétt og stóru bílarnir, ef á að fara að skipta þarna einhverju af réttindum á milli. En það er alveg sama. Jafnvel þó að hámarkshraðinn væri látinn óbreyttur lögum samkv., er ég sannfærður um það, að af öryggisástæðum munu menn aka hægar fyrst eftir breytinguna heldur en ella, jafnvel þó að sami hraði væri löglegur, svo að af þessu hljóta óhjákvæmilega að verða einhverjar tafir, sem hafa mjög verulegan kostnað í för með sér, sérstaklega fyrir dreifbýlið, sem á mikið undir vöruflutningum. Og mér þætti alls ekki ólíklegt, þó að slíkur kostnaður samanlagt hjá atvinnufyrirtækjum og einstaklingum ætti eftir að skipta tugum millj. kr.

Ég held þess vegna, að það sé ekki neitt óvarlega áætlað hjá okkur,að kostnaðurinn verði 100 millj. kr. Ég tel miklu frekar ástæðu til að ætla, að hann verði talsvert miklu meiri. Nú er það að sjálfsögðu rétt, að eitthvað af þessum kostnaði er þegar áfallinn vegna þeirra framkvæmda, sem búið er að ákveða í sambandi við breytingu í hægri handar umferð. En ég tel þó, að enn þá sé miklu meira af kostnaðinum óáfallið og þess vegna verði augljós sparnaður af því að fresta breytingunni og falla frá henni.

Ráðh. talar um það, að vel gæti farið svo í þjóðaratkvgr., að hægri handar umferðin verði samþ., og það má vel vera, að það fari svo, ég skal ekkert um það fullyrða, og hann taldi, að þá væri eiginlega þetta allt mál eða þjóðaratkvgr. alveg unnin fyrir gýg og þarflaus. Ég held, að þetta sé rangt hjá honum. Ég held, að ef hægri handar umferð yrði samþ. í þjóðaratkvgr., mundi vera miklu meiri eining um framkvæmd málsins á eftir og yrði enn þá auðveldara að framkvæma hana, því að það held ég, að sé rétt, sem bæði kom fram hjá ráðh. og 1. flm., að það, sem skiptir langsamlega mestu máli í þessum efnum, er að fá fólkið með. Og eftir að fólkið sjálft hefur fengið að segja sitt álit um þetta mál, mun það áreiðanlega sætta sig betur við þann úrskurð heldur en úrskurð Alþingis, sem mjög vafasamt er, hvort meiri hl. þjóðarinnar stendur á bak við eða ekki.

Ráðh. minntist nokkuð á fordæmi Svía og taldi, að fordæmi þeirra hefði verið á þann veg, að við ættum ekki að vera neitt smeykir við breytinguna í hægri handar akstur. Ég vil í sambandi við það segja, að á flestan eða allan hátt er aðstaða okkar og Svía ósambærileg. Ég vil í fyrsta lagi nefna það, að í Svíþjóð hefur skapazt meiri umferðarmenning en e.t.v. í nokkru landi öðru. Ég hef undir höndum grein, sem birtist í danska blaðinu Politiken á s.l. hausti, þar sem gerður var samanburður á umferðarslysum í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn síðustu 8 árin, og sá samanburður sýndi, að umferðarslys voru hlutfallslega allt að því helmingi færri í Stokkhólmi en Kaupmannahöfn. Svona langt voru Svíar komnir fram úr Dönum hvað umferðarmenningu snertir í þeirra höfuðborg. Og það gefur auga leið, að það er miklu auðveldara að framkvæma slíka breytingu, þar sem sterk umferðarmenning er fyrir, eins og í Svíþjóð, heldur en t.d. hér á landi, þar sem er ekki of mikið sagt, að hún sé fremur lítil. Þetta er einn aðstöðumunurinn hjá okkur og Svíum. Annar aðstöðumunurinn er sá, að Svíar hafa um langt skeið haft mjög sterka umferðarlögreglu, og til viðbótar því, að þeir beittu henni við hægri handar umferðina, gripu þeir einnig til hermanna og létu þá aðstoða við hreytinguna, vera lögreglunni til aðstoðar, meðan verið var að koma breytingunni á. Hér er um enga slíka aðstoð að ræða, því að ég býst við, að til viðbótar þeirri fastalögreglu, sem við notum í sambandi við umferðarbreytinguna, í sambandi við löggæzluna, verðum við að taka menn, sem eru ekki nema tiltölulega lítið þjálfaðir til þessara starfa, sem algerlega er ósambærilegt við það, sem var hjá Svíum.

Í öðru lagi er svo að nefna það, sem er kannske veigamest, að vegakerfið í Svíþjóð er miklu betra en hér. Það er alveg ósambærilegt við það, sem hér er. Langflestir vegir í Svíþjóð eru tvær akbrautir. Hér er mikið af vegunum ekki nema ein akbraut. Og það gefur auga leið, að það er allt annað að framkvæma slíka breytingu, þar sem vegirnir eru breiðir eins og í Svíþjóð eða mjóir eins og hér, svo að við skulum ekki leggja of mikið upp úr reynslu Svía í þessum efnum, að okkur muni takast vel, af því að þeim hefur tekizt vel, sökum þess að aðstaðan hér er svo allt önnur í þessum efnum en var í Svíþjóð.

Ég ætla svo ekki að minnast á fleiri atriði af þeim, sem komu fram hjá hæstv. ráðh., a.m.k. ekki að sinni.

Ég ætla þá að víkja nokkru nánar að frv., sem hér liggur fyrir, og þeim ástæðum, sem valda því, að það er fram komið. Ég vildi segja, að þetta frv. væri flutt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er það að sjálfsögðu flutt til þess að reyna að fá breytingu á þeim lögum, sem nú stendur til að verði framkvæmd. Það teljum við flm. að sjálfsögðu langsamlega æskilegast. En ef það fæst ekki, liggi það þó fyrir í glöggri þjóðaratkvgr., að meiri hl. þjóðarinnar vilji breytinguna, og þess vegna ætti að vera miklu auðveldara að framkvæma hana en ella. Í öðru lagi er það svo tilgangur okkar, ef þetta frv. næði ekki fram að ganga gegn von okkar, verði flutningurinn til þess, að um þetta mál verði rætt hér í þinginu, um undirbúning að breytingunni verði rætt hér í þinginu og þm. geri sér fullkomlega grein fyrir því, hvort hann er í því lagi, sem vera skyldi, og þess vegna sé ráðlegt að hefjast jafnfljótt handa um breytinguna og nú er fyrirhugað. Það tel ég vera alveg sérstaklega skyldu þeirra, sem kunna að vera okkur andstæðir í þessu máli. Ef þeir vilja ekki fallast á frv. sjálft, eiga þeir þó a.m.k. að verja nokkrum tíma þingsins til að athuga það og ræða um það, hvort þessi undirbúningur er í því lagi, sem vera skyldi, og þess vegna sé ráðlegt að hefjast handa eins fljótt um breytinguna og fyrirhugað er.

Mér finnst ekki fjarri lagi, að við gerum okkur nokkra grein fyrir því, hvað það er, sem hefur rekið okkur út í þessa breytingu, hvaða rök það eru, sem fyrst og fremst eru færð fyrir þessari breytingu, hver meginástæðan er. Frá mínu sjónarmiði er hún fyrst og fremst ein. Við Íslendingar eigum núna í ýmsum efnahagsörðugleikum, þó að aðstæður hafi verið þannig á undanförnum árum vissulega, að við ættum ekki að eiga í teljandi efnahagslegum vandræðum. Það er að sjálfsögðu margt, sem veldur þessu, og ég ætla ekki að fara að rifja það upp hér, enda yrði maður þá kominn nokkuð inn í stjórnmálin, sem okkur þykir sjálfsagt öllum að halda utan við þetta mál. En ég vil samt segja það, og það held ég að særi engan flokk, því að allir flokkar eru jafnsekir í þeim efnum, að það, sem á verulegan þátt í okkar efnahagslegu vandræðum, er það, hvað við erum miklar eftirhermur. Við erum eins og margar nýfrjálsar þjóðir, að við viljum reyna að herma sem mest eftir þeim stóru, hafa sem flest hjá okkur líkast því, sem annars staðar er, án tillits til þess, hvort við höfum nokkra sérstaka þörf fyrir það, og án tillits til þess, hvort við höfum efni á því eða ekki. Við skulum alveg hreinlega játa, að það er þessi hermikrákuháttur okkar, sem á verulegan þátt í þeim vandræðum, sem við erum nú komnir í. Hjá nýfrjálsu þjóðunum mörgum í Afríku hefur það t.d. gerzt, að fyrsta verkið, sem þær hófust handa um, ríkisstj. þar, eftir að löndin voru sjálfstæð, var að byggja mjög dýrar forsetahallir. Skólar og spítalar og vegir og annað þess háttar voru látnir mæta afgangi. En þeir eru að byrja á því að eignast stóra forsetahöll, alveg eins og ríkin áttu, sem höfðu drottnað yfir þeim áður. Og mér finnst þetta mál að ýmsu leyti minna á það.

Vegna þess að aðrar stórar þjóðir hafa hægri handar umferð, þurfum við endilega að gera það líka. Og við verðum að láta þann kostnað, sem því fylgir, ganga fyrir því að bæta vegina og annað, sem áreiðanlega er ekki síður aðkallandi.

Rökin, sem eru færð fyrir þessari breytingu, eru ekki þau, að öryggi í umferðinni verði neitt meira eftir en áður, því að eins og skýrt kom fram einmitt í þeirri ræðu, sem hæstv. dómsmrh. hélt, þegar hann mælti fyrir frv., sagði hann, að það væri deiluatriði, sem ekki væri hægt að skera úr, hvor umferðin gæfi meira öryggi, vinstri umferðin eða hægri umferðin. Nei, það, sem er höfuðröksemd þeirra í þessu máli, bæði kom fram í grg. og kemur t.d. fram í fréttabréfi, sem nefndin hefur gefið út, það er, að hægri handar umferðin sé meginregla í flestum löndum. Þetta er alveg rétt. En menn aðgæta bara ekki eitt í þessu sambandi. Hægri handar umferðin er meginregla í þeim löndum, sem tilheyra meginlandi, en vinstri umferðin gildir hins vegar enn þá í langsamlega flestum löndum, sem eru eylönd. Í Evrópu eru fimm eyríki. Það er Bretland, það er Írland, það er Kýpur, það er Malta og það er Ísland. Öll þessi ríki hafa vinstri handar umferð og engin, að því er ég bezt veit, eru í neinum undirbúningi að breyta því nema Ísland.

Rökin fyrir því, að Svíar fóru í hægri handar umferðina, voru fyrst og fremst ein. Það voru sameiginleg landamæri við önnur ríki. 1963 var svo komið í Svíþjóð, að það fóru um 5 millj. bílar yfir landamærin árlega, og það var búizt við því, að innan 10 ára yrðu það 10 millj. bíla, sem færu yfir landamærin árlega, og þegar svo var komið, að umferðin var orðin svona mikil, sköpuðust í sambandi við þetta ýmsir erfiðleikar, þegar menn þurftu svo snöggt að breyta um umferðarreglur, og þetta var meginástæðan til þess, að Svíar breyttu úr vinstri handar umferð og fóru í hægri handar umferðina, en ekki annað. Um ekkert slíkt er hér að ræða. Þótt menn búist við, að tækni verði mikil í framtíðinni, og vonandi verður hún mikil, hygg ég varla, að menn búist við því, að það verði byggð héðan brú til annarra landa, og þess vegna megum við búast við því, að bílar renni hérna viðstöðulaust inn í landið, og það mundi þá líka taka sinn tíma að aka hana. Menn segja, að það sé betra fyrir erlenda ferðamenn, sem koma frá öðrum löndum og aka hér bíl, að hér sé hægri handar akstur. Það kann að vera. En þó dreg ég í efa, að þetta sé rétt, því að ég held, að það sé svo með langsamlega flesta ferðamenn, að þegar þeir koma til annars lands og þurfa að semja sig að öðrum ökuvenjum þar en heima hjá sér, aki þeir mjög gætilega. Ég nefni það sem dæmi, að við erum búnir að hafa hér árum saman, áratugum saman erlendan her í landinu eða hermenn, sem eru vanir öðrum umferðarreglum en hér gilda, þeir eru vanir hægri handar umferð. Þrátt fyrir það held ég, að það hafi borið ákaflega lítið á því, sérstaklega núna a.m.k. síðari árin, að þessir menn hafi lent í nokkuð meiri umferðarslysum en landsmenn sjálfir. Nei, ferðamenn þeir, sem um stutta stund þurfa að breyta um ökureglur í einhverju öðru landi, þeir sýna miklu meiri aðgætni en ella, og þess vegna þarf ekki að óttast svo mikið í þeim efnum. Alveg sama gildir um þá íslenzka menn, sem fara að aka bifreið erlendis, þar sem gildir hægri handar umferð. Ég veit ekki til þess, að þeir hafi lent svo mjög í slysum, og það er vegna þess, að þegar menn skipta þannig um og hafa nægan tíma til undirbúnings, þurfa ekki beint að fara yfir nein landamæri, gæta þeir sín miklu betur en ella. Þess vegna eru það ekkert annað en málamyndaástæður, að við þurfum að breyta þessum reglum hjá okkur, vegna ferðamanna, sem hingað koma, eða vegna íslenzkra ferðamanna, sem aka bifreiðum erlendis.

En hver er þá ástæðan, að menn eru á móti breytingunni? Ég hygg, að það sjáist nokkuð á því, sem ég hef nú minnzt á. Það er fyrst og fremst vegna þess, að menn telja hana alveg óþarfa. Það eru engin eðlileg rök, sem mæla með henni, vegna þess að það er ekki hægt að sýna fram á, að hún auki umferðaröryggi neitt frá því, sem nú er eða þótt sú regla sé viðhöfð, sem við búum við núna. Þess vegna er hér verið að stofna til breytingar, sem a.m.k. meðan hún stendur yfir hefur alls konar erfiðleika og aukna slysahættu í för með sér og er að margra dómi ekki heppileg til frambúðar. Ég held, að það sé yfirleitt álit manna, að það skipti ekki svo miklu máli, hvort heldur er höfð hægri handar umferð eða vinstri handar umferð, þar sem vegir eru breiðir. Þar sem akbrautir eru tvær eða fleiri, geta menn nokkurn veginn undir flestum kringumstæðum fylgt annarri akbrautinni, og þá skiptir það ekki svo miklu máli, hvort heldur það er hægri eða vinstri handar akstur. Hins vegar eru menn ósammála um það, hvort þetta skipti ekki verulegu máli, þegar um þrönga vegi er að ræða og vegi með mjög lélegar vegbrúnir, eins og flestir vegir eru hér á landi. Þá þurfa menn að vera að mætast á vegunum, og það óttast margir, a.m.k. fyrstu mánuðina eða fyrstu árin eftir breytinguna, þegar menn eru lengi búnir að keyra kannske á miðjum veginum og þurfa svo allt í einu að víkja fyrir bíl, sem komi á móti þeim, verði vinstri handar vani þeim nokkuð tamur og þess vegna skapist árekstrarhætta í sambandi við það. Annað er svo hitt, að vegna þess að flestir bílar hér eru með vinstri handar stýri, telja menn öruggara vegna þess, hve vegirnir eru lélegir, hvað vegbrúnirnar eru slæmar á okkar vegum, að hafa stýrið þeim megin, sem brúnin er. Þetta virðist vera nokkurn veginn sameiginlegt álit flestra þeirra bílstjóra, sem hafa mesta þekkingu á okkar vegum. Af þessu gæti maður dregið þá ályktun, að það væri kannske ekki svo sérstaklega erfitt að framkvæma breytinguna í Reykjavík. En það er miklu meiri erfiðleikum bundið í sambandi við umferðina utan Reykjavíkur. Þess vegna hefur m.a. verið sagt við mig, að ég ætti ekki að vera flm. að þessu frv., vegna þess að þetta mundi e.t.v. ekki valda Reykvíkingum eða mínum kjósendum svo miklum erfiðleikum. Það má vel vera, að erfiðleikar þeirra verði minni í þessum efnum en þeirra, sem úti á landinu búa. En ég reikna hins vegar með því, að allmikið af Reykvíkingum ferðist út um land og geri það í vaxandi mæli og þess vegna valdi þjóðvegirnir úti á landi þeim ekki síður erfiðleikum í þessu sambandi heldur en þeim, sem þar búa.

Það mætti nefna mörg fleiri atriði en þetta og rekja þetta ýtarlegar. En ég held, að niðurstaðan verði alltaf sú sama í meginatriðum, að umferðaröryggi eykst ekki neitt við þessa breytingu, að það fylgja henni margar hættur, a.m.k. til að byrja með, og það fylgir henni margvíslegur kostnaður, sem við hefðum auðveldlega geta komizt hjá. Og af þeim ástæðum tel ég persónulega þessa breytingu ranga og vil a.m.k. vinna að því, að þjóðin sjálf fái tækifæri til að segja álit sitt um hana, áður en út í hana er farið. Verði það hins vegar niðurstaðan, að þetta frv. okkar fái ekki undirtektir hér á Alþingi, þótt það fái hins vegar góðar undirtektir hjá almenningi, álít ég, að það sé mikilsvert, að þm. einmitt á þessu stigi, einmitt áður en breytingin verði gerð, geri sér grein fyrir því, hve þeim undirbúningi er vel á veg komið, sem hefur verið gerður til þess að tryggja framkvæmd þessarar breytingar.

Ég skal ekki gera neitt lítið úr vinnu þeirra manna, sem eiga sæti í H-nefndinni. Það lítið sem ég hef kynnzt því, held ég, að þeir vinni sitt starf mjög samvizkusamlega og geri sitt bezta til þess að undirbúa bæði áróður og annað í þessu sambandi. En ég tel eigi að síður nauðsynlegt, að þm. geri sér grein fyrir því, hvaða atriði þurfa að vera í lagi í undirbúningnum, áður en breytingin sjálf er gerð, og ég vil frá mínu sjónarmiði nefna hér nokkur. Ég tel í fyrsta lagi, að það ætti að endurskoða að nýju allt vegakerfið um land allt og þá í samráði við þá menn, sem hafa mesta þekkingu á umferð á þessum vegum, en það eru bílstjórarnir og bílstjórafélögin í viðkomandi bæjum og byggðarlögum. Og þessi endurskoðun á m.a. að beinast að því, að það sé fullkomlega séð um, að það séu tvöfaldar akbrautir á öllum blindbeygjum og blindhæðum. Mér er sagt, að mikið hafi verið unnið í þá átt á undanförnum árum að hafa tvöfaldar akbrautir á slíkum stöðum, en þó er mér ekki grunlaust um, að á það skorti nokkuð víða. Auk þess ætti að fjölga mjög þeim stöðum, þar sem bifreiðar geta mætzt. Ég tel, að þessi endurskoðun á vegakerfinu sé grundvallaratriði þess, að hægt sé að framkvæma þessa breytingu með sómasamlegum hætti. Annað atriði, sem ég tel einnig mikilsvert, er það, að mönnum sé gefin aðstaða til þess að æfa sig í hægri handar akstri, áður en hann er tekinn upp. Ég hygg, að í Svíþjóð hafi víða verið komið fyrir skilyrðum til þess, að menn gætu æft sig á þann hátt, áður en breytingin náði fram að ganga. Ég hef ekki heyrt um það eða séð neitt um það, að neitt slíkt sé hér í undirbúningi. Það má vel vera, að svo sé, en ég tel, að tíminn, sem menn fá, sé þá orðinn allt of skammur, vegna þess að menn geta náttúrlega ekki stundað þetta eins og atvinnu, heldur verða að gera þetta í sínum tómstundum. En þetta virðist mér skorta alveg á undirbúninginn hér í samanburði við það, sem átti sér stað í Svíþjóð.

Ég mundi einnig telja, að það væri nauðsynleg forsenda breytingarinnar, að nokkra mánuði eða misseri, áður en hún færi fram, væri búið að taka upp alveg sérstakt aðhald í sambandi við umferðina, þá sé búið að kenna mönnum miklu betur að fylgja umferðarreglum en nú á sér stað, því að áreiðanlega átti það mikinn þátt í því, hve auðveldlega þetta gekk í Svíþjóð, hvað Svíar voru langt komnir í umferðarmenningu áður, hvað umferðarlöggæzlan var þar ströng og menn voru búnir að venja sig á að hlýða henni. Slíkt vantar — ég vil segja: svo að segja alveg hjá okkur. Þess vegna mundi ég telja, að hin stranga umferðargæzla ætti ekki að koma með H-deginum. Hún á að vera búin að eiga sér stað nokkra mánuði eða jafnvel nokkur misseri áður. Ef þannig væri að þessu máli unnið, er ég sannfærður um, að breytingin mundi valda miklu minni erfiðleikum en ella.

Ég vil svo nefna eitt atriði enn, sem ég tel líka mikilsvert, að verði einmitt gert í sambandi við þessa breytingu, og það er að herða viðurlög við ölvun við akstur, að það séu auknar þær refsingar, sem menn eigi yfir höfði sér, ef þeir séu ölvaðir við akstur, því að ég álít, að einmitt meðan menn eru óvanir breytingunni og eru að venjast henni, verði ölvunin miklu hættulegri en hún hefur þó verið undir þeim kringumstæðum, sem nú eru. Þess vegna tel ég, að Alþingi eigi nú, áður en breytingin verður, að taka þetta mál alveg sérstaklega til meðferðar og ákveða strangari refsingar fyrir það, að menn séu ölvaðir við akstur, því að svo mikil hætta sem er af ölvuðum mönnum við akstur undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, verður hún að sjálfsögðu miklu meiri, þegar verið er að ráðast í jafnvandasama breytingu og að taka upp hægri handar akstur í staðinn fyrir vinstri handar.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál mitt öllu lengra, vegna þess að fundartíminn er líka að verða þrotinn að þessu sinni. En ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég vænti, að sú þn., sem fær þetta mál til meðferðar, taki frv. vel og helzt að hún fallist á það. En fari svo ekki eða einhverjir kunni að verða því mótfallnir þar, láti þn. ekki hjá líða að kynna sér sem bezt, hvernig undirbúningi að þessari breytingu er háttað, hvort það sé búið að gera þá endurskoðun á vegakerfinu, sem nauðsynlegt er, hvort eigi að herða umferðarstjórnina, áður en H-dagurinn kemur, þannig að menn séu búnir að fá einhverja æfingu í því að hlýða löggæzlunni og venja sig á umferðarreglur. Við vitum það t.d. þeir sem aka hér um bæinn eða eru með bílstjóra, sem aka hér um bæinn með bílum, að brotin á umferðarlögunum eða reglunum í dag hafa verið stórkostleg og eiga sér stað svo að segja á hverri mínútu í umferðinni á sömu götunni. Og svo er hitt, að það verði séð fyrir möguleikum til þess, að menn fái að þjálfa sig, áður en þessi breyting verður.

Að lokum vil ég svo endurtaka það, að ég er sannfærður um, að beztur árangur mundi nást í þessum málum, mest samstaða um það, sem gert verður, mundi fást með þeim hætti, að þjóðin sjálf fengi að segja, hvað hún vildi að væri gert í þessum efnum.