27.11.1967
Efri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2192)

60. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að breyttir tímar hafa það í för með sér, að gerðar eru breyttar kröfur um marga hluti. Það, sem áður var óþekkt eða nær því óþekkt, verður með tímanna rás brýnt viðfangaefni eða jafnvel bráðnauðsynlegt fyrir heila atvinnuvegi eða jafnvel heilar þjóðir. Það er einnig kunnugt, að krafa þeirra tíma, sem við lifum á, er mörgu öðru fremur aukin menntun, aukin rannsókna- og tilraunastarfsemi á marga lund. E.t.v. er fátt, sem skilur fremur á milli þeirra þjóða, sem náð hafa verulegum árangri á þróunarbrautinni, og hinna vanþróuðu ríkja heldur en það, hvernig þeim hefur tekizt að standa að þessum málum, menningar- og rannsóknamálum.

Það má segja um okkar þjóð, að við höfum verið á undanförnum áratugum að stíga fyrstu skrefin á þróunarbrautinni í þessum efnum, einkum að því er margvíslega rannsóknastarfsemi snertir. Það er býsna skammt komið hjá okkur enn þá á sumum sviðum, að því er snertir rannsóknir. Þegar þannig er ástatt og þegar það er líka tekið með í reikninginn, að við erum smáþjóð og höfum ekki ýkjamikil fjárráð til þess að leggja í ýmsar undirstöðurannsóknir, eins og hinar stærri þjóðir gera, er það eðlilegt, að við leggjum a.m.k. fyrsta kastið höfuðkapp á það, sem venjulega eru nefndar hagnýtar rannsóknir, þ.e.a.s. þær rannsóknir, sem vænta má, að geti gefið beinan arð og það heldur fyrr en síðar. Að vísu eru engan veginn glögg skil þarna á milli, því að oft hefur það átt sér stað, að hreinar vísindalegar rannsóknir án tillits til hagnýtni hafa skilað verulegum árangri og eru í mörgum tilfellum undirstaða hinna hagnýtu rannsókna. En það er sem sagt ekkert eðlilegra en við leggjum höfuðkapp á hinar hagnýtu rannsóknir.

Það, sem gert hefur verið í þessum málum hér hjá okkur, er því miður ekki ýkjamikið, og lengi vel var það svo, að öll rannsóknastarfsemi sat hér afar mikið á hakanum. Ég mundi telja, að landbúnaðurinn hafi verið einna fyrstur til að koma sér upp nokkurri tilrauna- og rannsóknastarfsemi, sem eitthvað kvað að, en sjávarútvegurinn kom allmiklu síðar til skjalanna í þeim efnum. Í rauninni hefjast ekki rannsóknir í þágu sjávarútvegsins fyrr en hinn ágæti fræðimaður, Bjarni Sæmundsson, kom fram á sjónarsviðið að loknu námi og hóf hér fiskirannsóknir á síðustu árum 19. aldar. Og lengi vel var það svo, að Bjarni Sæmundsson var eini maðurinn, sem fékkst við rannsóknastörf í þágu sjávarútvegsins, og þá var ekki betur að honum búið í þessu efni en svo, að hann varð að hafa þá starfsemi sem aukastarf. Aðalstarf hans var kennsla við menntaskólann. Það gegnir furðu, hversu mikið starf liggur eftir þennan mann, þegar tillit er tekið til þess, að hann varð að sinna öðru aðalstarfi síðan, eftir að kom fram yfir 1920, fóru að bætast fleiri menn til starfs og voru mjög fáir lengi vel. Tvær stofnanir hafa alllengi starfað að rannsókna- og tilraunastarfsemi í þágu sjávarútvegsins. Fiskideild atvinnudeildar háskólans starfaði alllengi með góðum árangri, og með heildarlöggjöfinni um rannsóknir í þágu atvinnuveganna frá 1965 var henni settur nýr og að nokkru breyttur starfsvettvangur, og heitir hún síðan Hafrannsóknastofnunin. Rannsóknastofa Fiskifélags Íslands tók til starfa fyrir alllöngu og helgaði sig rannsóknum í þágu fiskiðnaðarins Þeirri stofnun var einnig breytt með löggjöfinni frá 1965, verksvið hennar fært nokkuð út og starfsgrundvöllurinn bættur, og heitir sú stofnun síðan Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þetta hvort tveggja er vitanlega góðra gjalda vert, og sem betur fer hafa þessar stofnanir báðar þróazt og skilað mjög umtalsverðum árangri, enda þótt seint sé svo, að ekki megi verulega um bæta, og vafalaust sé þannig um þessar stofnanir báðar, að með auknum mannafla og meiri fjárráðum mætti vænta meiri árangurs.

Hitt tel ég, að hljóti að gegna nokkurri furðu, þegar litið er til þess, á hvers konar tæknitímum við lifum, að ekki skuli fyrir löngu vera risin hér á legg þriðja rannsókna- og tilraunastofnunin í þágu sjávarútvegsins, sú stofnun, sem ég hef leyft mér að kalla Tæknistofnun sjávarútvegsins. Slík stofnun er talin og það fyrir löngu ómissandi hjá flestum öðrum fiskveiðiþjóðum. Í grg. fyrir því frv., sem hér er flutt, er að því vikið, að ýmsar fiskveiðiþjóðir aðrar en við Íslendingar, hafa fyrir löngu komið sér upp slíkum stofnunum, jafnvel hinar fyrstu fyrir fyrra stríð, en mjög margar þjóðir, sem höfðu ekki komið slíkum stofnunum á hjá sér áður, hafa komið þeim á eftir síðari styrjöldina. En við höfum legið þarna algerlega eftir. Það er ekkert efamál, að tæknistofnun, sem starfaði fyrir sjávarútveginn, og væri þess umkomin að vinna að ýmsum þeim verkefnum, sem eftir hafa legið og lítt hefur verið sinnt hér hjá okkur, hefði mjög mikil verkefni. Í fyrsta lagi er á því brýn þörf, að tæknifróðir menn hafi nokkra hönd í bagga, þegar fiskiskip eru smíðuð, hafi hönd í bagga um stærð þeirra, gerð og allan búnað. Hér hefur þetta skort algerlega, og það hefur ekki aðeins skort, að bægt væri að leita til sérfróðra manna um þessi efni, heldur hefur algerlega skort einnig, að hér væri einn aðili, sem teldi það verkefni sitt að safna á einn stað upplýsingum, safna saman reynslu, ef svo mætti segja, reynslu okkar og annarra fiskveiðiþjóða í sambandi við skip, skipastærðir, skipagerðir og hvernig hinar einstöku stærðir og gerðir hafa reynzt við mismunandi veiðar.

Útvegsmenn hafa verið að þreifa sig áfram í þessu efni, en oft og tíðum með ærnum kostnaði, kostnaði sem í sumum tilfellum hefði tvímælalaust verið hægt að lækka verulega, ef slík stofnun eins og ég hér ræði um hefði verið fyrir hendi. Hér er ekki um neinar smáræðisfjárfúlgur að ræða, þegar litið er til þess, hvað nútíma fiskiskip kostar. Til að mynda kosta hin nýjustu síldveiðiskip okkar fullbúin milli 20 og 30 millj. kr. hvert skip. Í öðru lagi væri það verkefni slíkrar tæknistofnunar að fylgjast með og veita leiðbeiningar og kanna eitt og annað í sambandi við tæki margs konar, sem notuð eru um borð í fiskiskipum, bæði öryggistæki, fiskleitartæki og önnur tæki. En á þessu sviði má segja, að sé hjá okkur sama sagan og að því er snertir sjálft skipið. Það hefur ekki verið hér neinn aðili, sem hefur talið það sérstaklega í sínum verkahring að veita forsagnir um þessi tæki, að kanna þau og afla upplýsinga um þau.

Því var lýst við umr. hér í þessari hv. d. fyrir nokkrum dögum um annað frv., sem fer allmjög í sömu átt og þetta, hversu ásókn seljenda margvíslegra fiskleitar- og öryggistækja er mikil og hvernig þar er oft um stórar fjárhæðir að ræða, og getur verið undir hælinn lagt, hvernig tækin reynast. Hér er þess vegna um mikið verkefni að ræða.

Þá er það önnur hlið þessa máls, að það hefur komið mjög í ljós, og ég held, að ég halli ekki á okkar ágætu sjómannastétt, þó að ég segi það, að þess hefur orðið mjög vart, að menn hafa ekki haft næga aðstöðu til þess að læra á þessi nýju tæki Það hefur skort á það, þau hafa komið það ört og engin stofnun verið til, sem hefur kennt mönnum á þessi nýju tæki, jafnóðum og þau koma. Það hefur verið mikill misbrestur á því, að skipstjórnarmenn og aðrir hafi haft aðstöðu til þess að læra nægilega vel á tækin. Jafnvel það atriði að setja tækið niður í skip, það er mikið vandaverk og hefur stundum verið misbrestur á, að það hafi verið rétt gert, og sömuleiðis hefur verið misbrestur á því, að menn hafi komizt upp á lag með að meðhöndla þau rétt. Að vísu hefur nú á síðustu árum verið aukin nokkuð kennsla í þessu efni í stýrimannaskólanum, enda alveg bráðnauðsynlegt, en þó væri hitt ekki síður mikils um vert, að fram gæti farið verkleg tilsögn úti á fiskimiðunum að því er snertir meðferð og meðhöndlun margra þessara tækja.

Þriðji þáttur þess verkefnis, sem biði tæknistofnunar sjávarútvegsins, er rannsóknastarfsemi og upplýsingastarfsemi varðandi sjálf veiðarfærin Þar hafa, eins og kunnugt er, orðið mjög verulegar breytingar á marga lund, og eru stöðugt að verða. Það eru að koma á markaðinn ný efni, margvísleg gerviefni, sem veiðarfæri eru unnin úr, og það hafa orðið stöðugar breytingar á gerð veiðarfæra og stærð. Við höfum orðið fyrir því stundum, að vegna skorts á nægum upplýsingum í sambandi við ný veiðarfæri, sem boðin hafa verið til sölu og mælt mjög eindregið með af seljendum, að þessi veiðarfæri hafa ekki reynzt eins og skyldi a.m.k. ekki við aðstæður hér við land. Dæmi um það skal ég aðeins nefna eitt, og það eru hinar svonefndu hnútalausu herpinætur, sem fluttar voru hingað inn fyrir nokkrum árum, og ég hygg, að það muni hafa verið komnar til landsins um 80 herpinætur af þessari gerð, þegar menn komust að raun um, að þær voru nánast ónothæfar við íslenzkar aðstæður. Og þá var verð hverrar slíkrar herpinótar, ef ég man rétt, um 800 þús. kr. Þetta er aðeins eitt dæmi, ef til vill ekki stærst samt, um mistök, sem orðið hafa beinlínis vegna þess, að það lágu ekki fyrir neinar athuganir á því, hvernig slíkt veiðarfæri, veiðarfæri af nýrri gerð, nýttist hér við land, en mönnum var talin trú um, að þarna væri um sérstaklega álitlega nýjung að ræða, sem svo reyndist ekki vera.

Í fjórða lagi væri það verkefni tæknistofnunar að fjalla um nýjar hugmyndir og uppgötvanir, bæði að flytja hingað til lands vitneskju um nýjustu erlendar uppgötvanir, að því er snertir margvíslega veiðitækni, og jafnframt að prófa íslenzkar hugmyndir, — ég vil segja: hugmyndir að lagfæringum og breytingum á veiðarfærum og veiðitækni og jafnvel nýjar uppgötvanir, sem uppgötvanamennirnir hafa oft og tíðum ekki aðstöðu til, hvorki fjárhagslega getu né aðra aðstöðu til að prófa eins og skyldi. En það hafa oft komið hér fram ýmsar athyglisverðar hugmyndir í sambandi við veiðitækni og lagfæringar á veiðarfærum og öðrum slíkum tækjum fiskiskipa, sem full ástæða hefði verið til að kanna nánar og hefðu þá ef til vill getað gefið jákvæðan árangur. Það er enginn efi á því, að ef hér risi á fót tæknistofnun, sem hefði bæði mannafla og fjármagn til að sinna þessum verkefnum að meira eða minna leyti, þá væri hægt að spara mjög verulegt fé. Þá væri hægt að koma í veg fyrir margvísleg mistök og spara á þann hátt verulegt fé. Jafnframt má gera ráð fyrir, að slík tæknistofnun mundi geta verulega stuðlað að auknum aflabrögðum með því að koma hér á bættri tæknivæðingu. Enn fremur er ekki ólíklegt, að slík stofnun gæti stuðlað að því, að hægt yrði í sumum tilfellum a.m.k. að spara nokkuð mannafla við hinar ýmsu veiðar.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns, þá mun landbúnaðurinn hafa riðið á vaðið og verið fyrri til en sjávarútvegurinn að koma sér upp margvíslegri leiðbeininga- og tilraunastarfsemi. Það er ekkert nema það bezta um það að segja, að landbúnaðurinn skuli vera tiltölulega vel á vegi staddur í þessum efnum. Hann hefur á að skipa eins og kunnugt er, allmiklum fjölda ráðunauta og leiðbeinenda á mörgum sviðum búnaðarmála Þetta er vitanlega nauðsynlegt og skal sízt eftir talið. En þarna hefur sjávarútvegurinn greinilega legið eftir, og þar er þó þörfin ekki síður brýn heldur en að því er landbúnaðinn varðar.

Ég hef áður hér á hv. Alþ. vakið máls á þessu efni og gert tilraunir til að fá fram úrbætur í sambandi við þessi mál. Ég hef flutt um það þáltill. á a.m.k. tveimur þingum, þar sem hefur verið svo fyrir mælt í till., að ríkisstj. skuli falið að undirbúa löggjöf um stofnun tæknistofnunar í þágu sjávarútvegsins. Þessar þáltill. hafa ekki náð fram að ganga, og því miður hefur lítið verið gert í sambandi við þetta stóra og brýna hagsmunamál sjávarútvegsins. Þegar lögin um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru endanlega afgreidd héðan frá Alþ. sem lög árið 1965, gerði ég nokkra tilraun til þess að koma að þessari hugmynd um tæknistofnun sjávarútvegsins í sambandi við þá löggjöf, koma henni inn í þá löggjöf. Árangurinn var næsta lítill. Þó var það sett inn í lögin um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, einn liður, þ. e. 6. liður að því er varðar verkefni Hafrannsóknastofnunar, en þar er svo fyrir mælt, að Hafrannsóknastofnunin skuli sinna sumum þeim verkefnum, sem hér eru til umr., og ætlunin er, að því er við flm. þessa frv. leggjum til, að sérstök tæknistofnun leysi. En það segir í 6. lið 17. gr. laganna um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, að Hafrannsóknastofnunin skuli hafa með höndum tilraunir með ný veiðarfæri og veiðiaðferðir og rannsóknir þar að lútandi, svo og rannsóknir á hagkvæmustu gerð fiskiskipa. Því miður hefur það orðið svo sem ég spáði á sínum tíma, að framkvæmdir í þessum efnum hafa ekki orðið ýkjamiklar á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þar mun starfa að þessum málum einn tæknifræðingur og vera tiltölulega nýbyrjaður á störfum. Það má kannske segja, að þetta sé betra en alls ekki neitt, en þó hygg ég, að það muni sannast, að það verður ekki tekið á þessum málum af myndarskap og festu, fyrr en komið verður á fót sérstakri stofnun, sem helgar sig þessum efnum, hefur á að skipa hæfilega miklum og vel menntuðum mannafla og nokkru fjármagni. Ég hef ekki trú á því að stofnun, sem hefur allt önnur aðalverkefni, og menn, sem fyrst og fremst eru menntaðir til þess að sinna þeim, stofnun eins og Hafrannsóknastofnunin, hún hafi tök á því eða forustu um að byggja upp þá nauðsynlegu tæknistofnun, sem okkur vantar, enda hefur hana skort, að því er ég bezt veit, fjármagn til þess að gera það með þeim myndarbrag, sem nauðsyn ber til.

Það frv., sem hér er flutt, frv. til l. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, á að bæta hér úr að dómi okkar flm. Frv. okkar gengur út á það, að bætt verði við sjöttu rannsóknastofnuninni, henni verði bætt við þær fimm rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna, sem fyrir eru, tæknistofnun fyrir sjávarútveginn. Og ég hef áður gert nokkra grein fyrir þeim verkefnum, sem við flm. teljum að þessi stofnun eigi að hafa með höndum, og skal ekki fjölyrða meira um það, þó að ástæða væri til að fara ef til vill nánar út í einstök atriði, en ef til vill gefst kostur á því siðar. Við hugsum okkur þessa stofnun byggða upp á mjög svipaðan hátt og aðrar þær rannsóknastofnanir í þágu atvinnuveganna, sem starfandi eru. Þetta á samkvæmt frv. að vera algjörlega sjálfstæð stofnun, og hún þarf að okkar dómi að hafa allmikið eigið fé til ráðstöfunar. Og það er vafalaust, enda gefur auga leið, þegar maður lítur til þeirra verkefna, sem slíkrar stofnunar bíða, að fjárhag stofnunarinnar má ekki skera allt of mikið við nögl. Það þýðir ekki, ef árangur á að verða af störfum hennar. Verkefnið er svo stórt og fjölþætt, og það hefur dregizt svo lengi að hefjast handa, að það er full þörf á, að það verði gert með nokkrum myndarbrag, þegar til verður tekið.

Ýmis álitamál kunna að vera í sambandi við tilhögun og uppbyggingu slíkrar stofnunar sem hér um ræðir, og um það, sem kynni að þykja álitamál, erum við flm. að sjálfsögðu fúsir að ræða við aðra, sem áhuga kunna að hafa á þessum málum, og athuga, hvað betur mætti fara. Það má einnig segja, að það geti verið og sé nokkurt álitamál, hvernig eigi að afla fjár til þeirrar starfsemi, sem hér um ræðir. Að mínum dómi mætti vel hugsa sér, að sjávarútvegurinn sjálfur legði allmikinn hluta þess fjár fram með einhverjum þeim hætti, sem heppilegastur þætti. Ég er ekki í neinum vafa um það, að fyrir sjávarútveginn mundi það margborga sig og það tiltölulega fljótt að leggja þarna nokkuð og ég vil segja allverulegt af mörkum til þess að byggja upp slíka stofnun sem þessa. Að nokkuð athuguðu máli er þó till. okkar flm. sú, að fjár til rekstursins verði aðallega aflað með sérstökum skatti á innfluttar vörur, þ.e.a.s. ½% sérstökum innflutningsskatti á allar þær vörur, sem eru í 20% tollflokki eða hærri. Og rökin fyrir því, að við leggjum þetta til, eru í stuttu máli þau, að sjávarútvegurinn leggur til mestallar útflutningsafurðir okkar, en útflutningsafurðirnar eða það fé, sem fyrir þær fæst, er vitanlega grundvöllur þess, að við getum flutt inn vörur. Það er því að okkar dómi engan veginn ósanngjarnt, þó að þessi skattlagning komi á innflutninginn í staðinn fyrir útflutninginn. Mér virðist, að ½% af þeim innflutningi, sem þetta ákvæði nær til, eins og það er formað, mundi gefa 7–8 millj. kr. í tekjur á ári. Sú áætlun er að vísu gerð fyrir gengisfellingu og eitthvað mundi það hækka að óbreyttum tollum. Þetta er að vísu nokkurt fé. En hér þarf á verulegu fjármagni að halda, ef verulegs árangurs á að vera að vænta.

Samkvæmt 55. gr. laganna um rannsóknir í þágu atvinnuveganna skal framlag ríkissjóðs, beint framlag ríkissjóðs til hinna einstöku rannsóknastofnana aldrei vera lægra en helmingur þess fjár, sem viðkomandi stofnun fær á annan hátt. Samkvæmt þessu ætti tæknistofnun sjávarútvegsins að geta fengið 11–12 millj. kr. ráðstöfunarfé á ári, ef frv. okkar yrði að lögum. Þetta er að vísu nokkur upphæð, en ég vil ítreka það, að það er sízt of mikið til þess stóra verkefnis, sem hér er um að ræða. Og það er sannfæring mín, að þessi fjárhæð mundi skila sér margfalt aftur og það á tiltölulega mjög skömmum tíma. Hér er svo mikið í húfi, verkefnið, sem hér blasir við, er svo stórfellt, að það er ekki neitt vit í því að ætla sér að spara allt of mikið við slíka stofnun, þegar henni yrði loksins komið á fót, og enn þá minna vit er að sjálfsögðu í hinu, að láta það dragast enn úr hömlu að koma upp stofnun sem þessari. Vitanlega væri bót í því, ef hún kæmist upp, jafnvel þótt hún hefði eitthvað minni fjárráð en þetta allra fyrst, meðan hún er að byggja sig upp, ef svo má segja, en hitt er víst, að það veitti ekki af þessu fjármagni og jafnvel þótt meira væri vegna þess hve verkefnin eru fjölþætt.

Ég vænti þess nú, að hér á hv. Alþ. sé vaxandi skilningur á gildi slíkra tæknirannsókna og slíkrar upplýsingastarfsemi, sem um ræðir í þessu frv. Ég vænti þess vegna, að málið fái góða afgreiðslu hér á hinu háa Alþ. og að eitthvað komi raunhæft út úr þeim málum, sem svo lengi hafa legið, ef svo mætti segja, óbætt hjá garði.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og sjútvn.