27.11.1967
Efri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

60. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um þetta frv. og sem heild taka undir tilgang þess, og ég er viss um, að ég mæli þar fyrir munn margra, sem eru í þessari starfsgrein, þ.e.a.s. sjávarútveginum, að nauðsyn á slíkri stofnun sem það gerir ráð fyrir hefur fyrir löngu sagt til sín. Það verður að segjast eins og það er, að með þeim lögum, sem vitnað var í að voru samþykkt hér 1965, 10. maí, þá áttum við von á því, að verulegur skriður yrði á vissum þáttum rannsókna í þágu útvegsins, sérstaklega fisköflunar og veiðarfæra, en sá skriður hefur látið standa á sér, og ég get talað af eigin raun, því að ég sit í stjórn annarrar stofnunarinnar, að hann mun varla verða leystur úr læðingi á næstunni, einfaldlega af því, að í þessum stofnunum, Hafrannsóknastofnuninni og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eru, eins og hv. fyrri flm. gat hér um áðan, 5. þm. Reykn., eru fyrst og fremst vísindamenn. Það eru fyrst og fremst vísindamenn, ágætismenn á sínu sviði, en spanna ekki það svið, sem þetta frv. fer út á, og það svið, sem við höfum fundið fyrir að vantaði í heildina, þannig að við náum þeim árangri, sem eðlilegur er. Á ég þar fyrst og fremst við veiðitæknirannsóknir almennt séð og kynningu nýjunga í fiskiðnaði, á tækjum og vinnsluaðferðum og prófun á gagnsemi þeirra, einnig raunhæfa aðstoð við leiðbeiningar við fiskiðnaðinn og undirbúning að byggingu fiskiðjuvera og val véla og tækja til fiskiðnaðarins. En þessi þáttur, sem ég nefndi nú seinast, hefur verið að mestu leyti í höndum hinna einstöku samtaka fiskvinnslunnar, t.d. S. Í. F., sem hefur haft sérstakan verkfræðing, Sölumiðstöðin líka, og svo mætti víst lengi telja. Sem heild hefur þetta ekki verið þannig skipulagt, að við höfum fengið þann árangur sem er mjög nauðsynlegur og vægast sagt eðlilegur hjá þjóð, sem á mikið undir fiskveiðum, öflun og úrvinnslu.

Ég gæti persónulega gert smáathugasemdir við sumt í þessu frv., sérstaklega í grg., m.a. þar sem stendur, að engin þessara skipa muni henta til togveiða nema með miklum og kostnaðarsömum breytingum. Ég vildi nota þetta tækifæri almennt séð og segja, að hér er um misskilning að ræða, vegna þess að öll þessi skip geta verið togskip með góðum árangri, þegar það hefur verið settur í skipin gálgi að aftanverðu. Slík breyting mundi kosta sennilega í dag á hvert þessara skipa, sem hér um ræðir frá 200–500 þús. kr. Og það út af fyrir sig er ekki mikil breyting, þegar við sjáum, að aðeins heil nót í dag á umrætt skip kostar frá 1600000 kr. upp í 2 millj. á gamla genginu, en mun nú stökkva upp undir 3 millj. eftir gengisbreytinguna. Þessi skip hafa öll mjög sterka vindu, og fremri gálgi er til staðar. Aðra breytingu þarf ekki, nema sérstakan gálga að aftan. Hitt er svo annað, mál, eins og ræðumaður kom inn á hér á undan mér, að rannsókn á breytingum og fyrirkomulagi hefur ekki verið fyrir hendi, hvorki varðandi skipin sjálf, útbúnað í lestum m.a. og veiðarfæri sem slík. Hann nefndi réttilega dæmið um hnútalausu næturnar, sem kostuðu útgerðina nokkra tugi millj. bara í beinum innkaupum plús alla þá hörmung, sem leiddi af veiðitapinu, því að skipin voru að berja með þessi veiðarfæri á síldveiðunum í nokkrar vikur án þess að ná nokkrum árangri, og varð svo að leggja veiðafærin upp.

Eitt er mjög þýðingarmikið og kemur til með að skipta sköpum um rekstur útvegsins nú í framtíðinni, og það er sú þróun tækja, sem sett er í bátana, hvaða gildi það hefur til að fækka mannskap. Engin skipuleg rannsókn hefur farið fram á því, önnur en sú, sem hver og einn reynir, að það má fækka mannskap um einn eða tvo, jafnvel þrjá, með auknum tækjaútbúnaði og betra fyrirkomulagi. Hins vegar eru kjarasamningar fastir og ekkert hægt að gera, og þar af leiðir, að aukin kostnaður við tæki færir yfirleitt ekki neinn ávinning gagnvart útgerðarhliðinni, en léttir á heildarskipshöfn verulega. Margir bátar í dag gætu fækkað um tvo, jafnvel þrjá menn, án þess að rýra aflamöguleika sem neinu næmi. Það er því mjög mikilvægt, að til væri hlutlaus stofnun, sem fylgdist með slíkri þróun og gæfi um það óvilhallar skýrslur, hvað hægt væri að komast af með mannskap í þessu tilfelli. Venjulega eru á skipunum 12 eða 14 menn, en þegar búið er að setja á skipin þverskrúfu, dælu og ýmislegt fleira, þá má örugglega fækka um tvo.

Það hefur verið rætt hér um gerð veiðarfæra, og það líður varla sá mánuður, að ekki sé boðið eitthvað nýtt í því efni, og okkur er sagt, að þetta sé jafnan bót, í hvert skipti sem það kemur fram, og umboðsmaðurinn heldur fram sinni vöru, eins og vitanlegt er, og reynslan ein á eftir að segja okkur til um það, sem notum veiðarfærin, hvort hér hefur tekizt betur til eða ekki. Hér er afar þýðingarmikið verkefni fram undan, og ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þó að ég hafi flutt hér áður frv. um breyt. á lögum um fiskveiðisjóð og tæknideild við hann, þá er það miklu þrengra svið og fyrst og fremst sem gagnasöfnun og leiðbeiningar við að kaupa skip og útbúa skip, en ekki við reksturinn sem slíkan nema að takmörkuðu leyti. Ég mundi því segja, að frv. mitt og þetta frv. styddu hvor annað, en drægju ekki úr gildi þeirra, eins og kannske einhverjum hv. þm. mundi virðast.

Um tekjumöguleikana til að standa undir slíkum rekstri mætti segja mikið, en hvort það er rétt að láta innflutninginn bera það einan út af fyrir sig, skal ég ekki segja um. En það er nauðsynlegt, að svona stofnun hafi nægilegt fjármagn, annars missir hún tilgang sinn og verður ekki að því gagni, sem nauðsynlegt er.

Ég vil taka að lokum undir það, að þetta frv. fái góðan framgang, því að nauðsyn þess, að slík stofnun komist á, er ótvíræð.