01.02.1968
Efri deild: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2219)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Frsm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. Ég held, að þessi lög um byggingarsamvinnufélög hafi verið skilin á þann veg, að jafnvel allt landið gæti verið svæði eins byggingarsamvinnufélags, og það, sem ég var sérstaklega að gagnrýna, var það, að menn geta byggt íbúðirnar sjálfir, hvar sem er á landinu eða jafnvel í sama sveitarfélagi og byggingarfélagið hefur byggt íbúðir, þeir geta byggt þær sjálfir og gengið inn í byggingarsamvinnufélag með þær á eftir, þannig að það er hægt að ganga inn í byggingarsamvinnufélag aðeins til þess að öðlast ríkisábyrgðina, þó að byggingarsamvinnufélagið hafi ekki haft að öðru leyti neinn veg eða vanda af íbúðinni. Og svo virðist það líka, að þegar íbúðirnar eru seldar, kemur seljandinn og krefst, að íbúðin sé borguð út að fullu eða að öðru leyti en því, sem veð hvíla á henni, og þá er það venjulega þannig, að enginn félagsmaður getur gengið að þessu og hann hefur í raun og veru frjálsa sölumöguleika. Það má kannske deila um það, hvort þessir annmarkar, sem við höfum gert hér að umræðuefni, séu vegna þess, að löggjöfin sé ekki nægjanlega fullkomin, eða vegna þess, að framkvæmdinni sé eitthvað ábótavant. Það má sjálfsagt heimfæra hvort tveggja. En aðalatriðið hlýtur að vera að sníða þessa agnúa af og bæta úr þessu.

Ég er alveg sammála hv. fyrra flm. þessa frv., hv. 11. þm. Reykv., um það, að þegar á að reyna að lækka byggingarkostnaðinn, er ekki hægt að treysta þar algerlega á einn aðila, eins og t.d. Breiðholtsáætlunina, sem núna er verið að gera, sem er kannske stærsta átakið í þeim efnum, sem verið er að vinna í dag, heldur verða í raun og veru allir að leggjast á eitt. Það er nú sem betur fer þannig, að ef einhverjum tekst að lækka byggingarkostnaðinn, hvort sem það er byggingarsamvinnufélög eða einhver annar aðili, verður það alltaf hvatning til annarra um það að standa sig og reyna að ná sambærilegum árangri, og auðvitað er ekki hægt að lækka byggingarkostnaðinn með einhverri alveg fyrir fram ákveðinni byggingaraðferð, heldur verður að reyna margt og þreifa sig áfram, og þar verða allir aðilar að leggjast á eitt. En það er einn kosturinn, álít ég, við byggingarsamvinnufélögin, að það er öruggt, að þau selja íbúðirnar á kostnaðarverði. Þegar byggingarmeistari byggir og selur, getur verið, að hann byggi alveg jafnódýrt og byggingarsamvinnufélagið. En ef það er mikil eftirspurn eftir íbúðum, fær hann kannske tækifæri til þess að selja þær fyrir allmiklu hærra verð en kostnaðarverði nemur, en með kostnaðarverðinu á ég auðvitað við, að þar sé innifalinn eðlilegur hagnaður til byggingarmeistara sem verktaka. Hjá byggingarsamvinnufélögunum er þessi hlið málsins tryggð, og það er einnig ljóst, að með samvinnu og samhjálp við byggingar, eins og byggingarsamvinnufélögin eiga hægt með að koma við, er hægt að ná verulegum árangri. En það er auðvitað, — þar er ég líka alveg sammála hv. 11. þm. Reykv., — að til þess að lækka byggingarkostnaðinn, hvaða byggingaraðili sem þar er á ferðinni, er alveg nauðsynlegt, að nægilegt fjármagn sé fyrir hendi og byggingaráfangarnir séu tiltölulega stórir.

Hv. 11. þm. Reykv. kom hérna örlítið inn á Breiðholtsáætlunina og talaði um það, eins og mig minnir, að hann orðaði það, að það þyrfti að skila aftur því fé, sem hún hefði fengið, eða a.m.k. einhverjum hluta þess, sem hún hefði fengið úr byggingarsjóði. Ég get nú ekki alveg sætt mig við þetta orðalag, því að auðvitað eiga þeir, sem fá íbúðir í Breiðholtinu, rétt á lánum frá byggingarsjóði, hinum almennu lánum og þessum sérlánum, sem veitt eru til meðlima verkalýðsfélaganna, og það væri eiginlega þá fyrst, þegar fjárveiting byggingarsjóðs til þessara framkvæmda, væri orðin — sem hún er alls ekki í dag — meiri en svo, að hún næði því, sem ætti að lána út á hverja íbúð, sem væri hægt að tala um, að það ætti að skila einhverju. En ég vil taka það fram, að þó að ég eigi sæti í þessari framkvæmdanefnd, er ég ekki kunnugur þeim samningum, sem voru undanfari þessara framkvæmda, og hvernig fyrirhugað var að fjármagna þessar framkvæmdir. En ég held samt, að þegar um þetta var samið milli ríkisstj. og verkalýðsfélaganna, hafi þessir aðilar gert sér meiri vonir um fé úr atvinnuleysistryggingasjóði en raun hefur á orðið.