04.03.1968
Efri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2226)

38. mál, stýrimannaskóli í Vestmannaeyjum

Sigurgeir Kristjánsson:

Herra forseti. Nál. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 332 varðandi frv. um breyt. á l. um stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, er einróma. Virðist því ljóst, að málinu er ákveðin leið héðan úr þessari hv. d. Virðist mér allt réttlæti mæla með því, að frv. hefði verið samþ., en þó hefur niðurstaðan orðið sú, að málinu er vísað til hæstv. ríkisstj., og mun reynslan skera úr því, hver fyrirgreiðsla hennar verður svo í málinu. En þar sem það vill þannig til, að ég sit í sæti flm. þessa frv. og málið snertir sérstaklega Vestmannaeyjar, vildi ég þó fara um það fleiri orðum.

Í nál. segir, að með tilliti til afgreiðslu fjárlaga um styrk til stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum þarfnist málið ekki frekari afgreiðslu á þessu þingi. Í sambandi við það vildi ég upplýsa það, sem nm. er vafalaust kunnugt, að styrkur til stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum á fjárlögum þessa árs er 500 þús. kr.. en kostnaður við rekstur skólans er 1 millj. kr. Það er því helmingaskipti milli ríkissjóðs og bæjarsjóðs Vestmannaeyja varðandi skólakostnaðinn. En þar sem ríkið mun lengst af hafa greitt allan kostnað við sjómannafræðsluna í landinu og þar á meðal hliðstæðan kostnað við stýrimannaskólann í Reykjavík, sýnist mér hér vera um réttlætismál að ræða gagnvart stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum, og raunar vantar rökstuðning í nál. fyrir því, að stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum skuli í þessu efni vera undantekning. Það er staðreynd, að það eru tveir stýrimannaskólar starfandi í landinu, og mér finnst það hliðstætt og það eru einnig tveir bændaskólar starfandi í landinu. Ég hygg, að t.d. Skagfirðingum eða Borgfirðingum þætti það harla einkennilegt, ef öðru hvoru byggðarlaginu væri ætlað að greiða hálfan kostnað við bændaskólann að Hvanneyri eða bændaskólann að Hólum á móti ríkinu. Sömu hugsun gæti maður látið sér detta í hug gagnvart menntaskólunum, t.d. ef Akureyringar ættu að greiða hálfan kostnað á móti ríkinu við menntaskólann hjá sér. Ég hygg, að það þætti nokkuð ranglátt.

Varðandi þá hugsun, sem hér kynni að vera til staðar, að það sé ofrausn af ríkisvaldinu að halda uppi stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, vil ég minna á það, að Vestmannaeyjar hafa verið og eru einn mesti útgerðarbær á landinu. Þaðan eru nú gerð út 70–80 skip, og þau hafa oft verið fleiri, stundum yfir 100. Hlutur Vestmanneyinga í útflutningsframleiðslunni hefur á undanförnum árum oft verið 10–15%, en þar búa nú um 5 þús. manns eða 2–3% af þjóðinni. Því held ég, að hlutur Vestmanneyinga í þjóðarframleiðslunni sé tiltölulega mikill og sú mikla framleiðsla, sem þar er sífellt til staðar, byggist ekki sízt á því, að þar eru góðir skipstjórnarmenn, sem stjórna sókninni út í stormana og brimið, sem oft er því miður við Vestmannaeyjar.

Það er nú svo með sjómennina, að þeir byrja yfirleitt hásetar, og þeir eru oft komnir nokkuð til ára, þegar þeir taka þá ákvörðun að gerast skipstjórnarmenn. Þess vegna eiga þeir oft örðugt um vik að stunda langt nám fjarri heimilum sínum. Og það stóð þannig á, þegar stýrimannaskólinn var settur á stofn í Vestmannaeyjum, að þar voru allmargir skipstjórar, sem voru á undanþágu, og það var fram undan, að þeir mundu missa réttindi sín, ef ekki væri hægt að koma upp skólanum. Þetta tókst, og fyrir það náðu þessir skipstjórar réttindum, og margir þeirra hafa verið skipstjórar síðan, og ég hygg, að þeir hafi greitt fyrir sig beint og óbeint til þjóðfélagsins með því að draga mikinn afla á land í Vestmannaeyjum. Nú hefur skólinn starfað í 4 ár með góðum árangri. og á þessu vori er útlit fyrir, að hann verði búinn að útskrifa 50 skipstjóra. Margir af þeim og raunar flestir, sem hafa verið útskrifaðir, eru þegar skipstjórar eða stýrimenn og hafa getið sér góðan orðstír margir hverjir. Nú eru þegar farnar að berast umsóknir fyrir næsta vetur, og það er eftirtektarvert, að menn utan af landi sækja jafnan skólann í Vestmannaeyjum, og bendir það til, að hann hafi þegar fengið á sig gott orð.

Þess verður stundum vart hér í höfuðstaðnum og raunar víðar, að menn tala um mikla velmegun í Vestmannaeyjum, og má jafnvel skilja, að þeir telji, að Vestmannaeyingar geti borið kostnað auðveldlega, sem öðrum landsmönnum yrði þungur í skauti. Þessu eru því að svara, að því aðeins hefur verið góð afkoma í Eyjum, að fólkið þar hefur unnið langan vinnudag við framleiðslustörfin. Hins vegar eru eyjarnar sérstæðar að því leyti, að atvinnulífið er ákaflega einhæft, miðað við sjósóknina og sjávarútveginn, og þegar eitthvað hallar á, hlýtur það að koma fljótt niður og hvergi fyrr og hvergi meir en í Vestmannaeyjum. Hv. alþm. kannast nú við þær ráðstafanir, sem verið er að gera til bjargar sjávarútveginum, og vita, að ekki má tæpara standa þrátt fyrir þær. Það ástand hefur þegar komið fram í Vestmannaeyjum með ýmsum hætti, og í kjölfar þess eru miklir greiðsluörðugleikar, jafnvel hjá þeim fyrirtækjum, sem fyrir tiltölulega skömmum tíma voru fjárhagslega sterk og máttarstólpar atvinnulífsins. Það er því rétt, sem í grg. frv. stendur, að kostnaðurinn við stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum er tilfinnanlegur fyrir bæjarsjóðinn. En hitt er þó einnig stórt atriði í þessu máli, að Vestmanneyingar telja það réttlætismál, að stýrimannaskólinn þar verði í sama flokki um fyrirgreiðslu frá ríkisvaldsins hálfu eins og stýrimannaskólinn í Reykjavík.

Eins og ég tók fram í upphafi, eru örlög málsins ráðin í þetta sinn, og því verður vísað til ríkisstj. og get ég út af fyrir sig fellt mig við þá afgreiðslu og í trausti þess, að hún greiði vel fyrir þessu máli, mun ég greiða atkv. með nál.