29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

39. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Þetta mál um endurnýjun íslenzka togaraflotans eða togarakaup er ekki nýtt hér í sölum Alþ. og hugmyndin um það, að togaraflotinn þurfi endurnýjunar við, er síður en svo ný eða nýleg. Það er vitað, að íslenzki togaraflotinn er nú yfirleitt 20 ára gamall og þaðan af eldri, þau skip, sem við eigum nú, og það hefur lengi verið ljóst, að ef togaraútgerð á ekki hreinlega að leggjast hér niður, er og hefur nauðsynin á endurnýjun flotans verið fyrir hendi nú um nokkurt skeið og þó stöðugt í vaxandi mæli. Á það hefur verið bent af ýmsum, sem þekkja vel til þessara mála, að það er í sjálfu sér afar óheppilegt að láta endurnýjun skipaflota, í þessu tilfelli togaraflota, ganga í of miklum bylgjum, ef svo mætti segja, þ.e.a.s. það er mjög óheppilegt, að fjöldi skipa sé keyptur á tiltölulega skömmum tíma og þau síðan öll orðin úrelt á sama tíma, þegar nokkuð líða fram stundir. Þetta hefur gerzt hjá okkur hvað eftir annað í sambandi við togaraútgerð okkar, og þetta eru víti, sem ber að varast. Að vísu hafa tvær heimsstyrjaldir átt nokkurn þátt í því, að þannig hefur verið talin þörf á því að endurnýja svo að segja allan togaraflotann á skömmum tíma. En á þeim tímum, þegar ekkert slíkt rask er til þess að hafa áhrif á gang mála, er það mjög óeðlilegt og óheppilegt, að þannig skuli takast til, að svo mikilvægur atvinnurekstur eins og togararnir hafa reynzt verði úreltur svo að segja allur á sama tíma. Þetta hefðum við þurft að forðast. En því miður verður það að segjast, að skilningur á þessu hefur ekki verið nægilega mikill á hærri stöðum, hvorki vil ég segja meðal meiri hl. hér í sölum Alþ. né hjá hæstv. ríkisstj. eða ríkisstjórnum nú um nokkuð langt skeið.

Ég þarf ekki að rifja það upp, að það var skömmu eftir stríðið, sem togarafloti okkar var endurnýjaður í síðari heimsstyrjöld, enda var orðin mikil þörf á því. Það voru keyptir milli 40 og 50 togarar, sem þá voru taldir henta vel við íslenzkar aðstæður, enda þótt það væri sannast mála, að þeir togarar, sem byggðir voru skömmu eftir styrjöldina, væru að megingerð líkastir því, sem þótti bezt henta og var talin einhver bezta togaragerð á áratugnum fyrir heimsstyrjöldina, þannig að það mátti í rauninni segja, að þetta væru nýtízkutogarar miðað við tímabilið 1935–1939, þegar þeir komu hér 1947–1949, því að á styrjaldarárunum urðu ekki miklar framfarir eða breytingar að því er togara varðar. En tiltölulega fljótlega eftir að þessi nýi togarafloti kom hingað urðu mjög verulegar breytingar að því er snerti gerð togara með ýmsum fiskveiðiþjóðum, og þá var m.a. byggt á sumum þeim nýjungum, sem fram höfðu komið að því er snerti skip og siglingar á styrjaldarárunum. En aðalbreytingin var þó e. t, v. sú, að togararnir hinir nýtízkulegustu voru af svonefndri skuttogaragerð, en sú breyting hafði mjög veruleg áhrif á gerð og rekstur þessara skipa. Það hafa verið töluverðar umr. um það nú um allmörg ár, að ef togaraútgerð hér ætti einhverja framtíð fyrir sér, sem margir telja, að hún hljóti að eiga, væri nauðsynlegt að fara að hyggja af alvöru að endurnýjun flotans og taka þá fyllsta tillit til þeirrar reynslu, sem hefur fengizt með öðrum fiskveiðiþjóðum á undanförnum árum og áratugum.

Ég hef verið flm. eða meðflm. að þingmálum, þáltill, eða frv., varðandi endurnýjun togaraflotans nú á fimm þingum í röð, og ég verð að segja það, að mér hefur því miður virzt svo sem áhugi í röðum hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið sá, sem ég vænti varðandi þetta stóra mál. Sá skortur á áhuga hygg ég, að hafi átt sinn þátt í því, að þingmeirihl. hér hefur lítt viljað sinna þessum málum. Og það er skemmst af að segja, að þetta mun vera í fyrsta sinn í þessi fimm skipti nú í röð, sem ég hef verið flm.þáltill. eða frv. varðandi endurnýjun togaraflotans, sem slíkt mál kemur yfirleitt úr n. Þetta ber að meta, og þetta er þó framför frá því, sem áður var, að sjútvn. Ed. hefur þó sýnt þessu máli þann sóma að afgreiða það, þannig að það kemur hér til 2. umr. En það hefur hins vegar farið svo, að hv. meiri hl. n. leggur til, að þessu máli verði vísað til ríkisstj. með tilliti til þess, sem hún hefur þegar afrekað í þessu efni. Ég ætla ekki að rekja þá sögu í löngu máli, en vil aðeins segja það, að mér finnst, að enn sem komið er séu þau afrek heldur í minna lagi.

Eins og ég áður sagði, var á þrem þeim þingum, þegar ég stóð að flutningi þessa máls, ekki á neinn hátt, svo að ég muni, undir það tekið af hálfu hæstv. ríkisstj. eða stjórnarmeirihl. að gera eitthvað tiltekið í þessum málum. Þá kunna að hafa fallið einhver orð um það, að það væri ástæða til þess að líta á það, hvað hægt væri að gera í sambandi við togarana, hins vegar mjög borið við, að þeirra rekstur væri erfiður, sem rétt var, og lítið jákvætt, sem kom frá hæstv. ríkisstj. eða stjórnarmeirihl. í sambandi við þessi mál. En í hittiðfyrra, þegar nýr sjútvmrh., hæstv. núv. sjútvmrh., hafði fyrir skömmu tekið við því embætti, virtist mér — og það gladdi mig — þá virtist mér, að hjá honum væri ríkjandi skilningur og áhugi á því að gera eitthvað raunhæft í þessum málum. Að vísu var ég heldur óánægður með þær hugmyndir, sem hann sagði þá, að uppi væru hjá ríkisstj., — mér þóttu þær nokkuð smáar í sniðum. Þá var helzt um það rætt að fá hingað einn skuttogara á leigu um takmarkaðan tíma til reynslu. En þetta var þó spor, lítið spor að vísu, en spor í áttina, og vissulega var æskilegt að fá þó þessa reynslu, þó að ekki væri hærra risið á þessu en það að ræða um að fá einn togara á leigu til reynslu. En mér vitanlega varð ekkert úr þessari ágætu fyrirætlun hæstv. ríkisstj. Þessi skuttogari var aldrei tekinn á leigu, hann kom aldrei, og reynsla af honum fékkst þar af leiðandi engin.

Í fyrra lá þetta sama frv. og við nú fjöllum hér um enn fyrir þinginu, og þá var það nokkru fyrir þinglok eða fyrir réttu ári, í marzmánuði í fyrra, sem hæstv. sjútvmrh. skýrði frá því, að hann hefði skipað n., svonefnda togaranefnd, til þess að gera till. um endurnýjun togaraflotans. Og það er með tilliti til þessarar ákvörðunar og starfa þessarar n., sem hv. meiri hl. sjútvn. leggur nú til, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj., og hv. frsm. meiri hl. n. fór um það nokkrum orðum hér, að hann hefði upplýsingar um það, að þessi n. hefði starfað með miklum ágætum og í henni væru hinir prýðilegustu menn. Ég skal ekki á neinn hátt draga úr því, að góðir menn hafi valizt í þessa n. Hins vegar verð ég að segja það, að jafnvel þó að n. hafi haldið nokkuð marga fundi, hygg ég, að sá árangur, sem orðinn er af hennar störfum, mótist kannske nokkuð mikið af því, að áhuginn og skilningurinn hjá hæstv. ríkisstj. á nauðsyn þessa máls er enn í takmarkaðasta lagi. Þessi n. hefur ekki enn þá mér vitanlega skilað neinu áliti, eftir því sem ég hef fengið upplýst, hefur það stærst gerzt varðandi hennar störf, að hún hefur falið íslenzkum skipaverkfræðingi að gera teikningar af ca. 1100 tonna togara, skuttogara af nokkuð stórri gerð, og þessi skipaverkfræðingur mun hafa unnið að því nú nokkuð lengi og lokið a.m.k. frumteikningum af slíkum togara, en þá skilst mér, að þegar því verki hafi verið að verða lokið, hafi n. falið honum að gera uppdrætti af öðrum togara allmiklu minni og við það starf sé þessi skipaverkfræðingur nú, og þetta séu í rauninni meginatriðin, sem enn hafa komið í dagsins ljós sem árangur af störfum n. En ég vænti þess, að þetta verði leiðrétt, ef hún hefur gert meira, því að ég vil ekki á neinn hátt draga niður af henni skóinn, ef hún hefur afrekað meira í þessum efnum. En þar sem sérstaklega er í áliti meiri hl. skírskotað til þessarar n. og það talið fullnægjandi eða viðunandi lausn á þessum málum, verð ég að segja það, að mér finnst þetta allt saman ganga óeðlilega seint, og ég vil draga í efa, að það hafi endilega verið sjálfsagðar leiðir að fela íslenzkum skipaverkfræðingi í þessu tilfelli að gera frá grunni teikningar af skuttogara, þar sem reynsla erlendra manna í þessum efnum er vitanlega miklu meiri en okkar, og ég hefði a.m.k. talið fulla ástæðu til þess annaðhvort að taka á leigu eða kaupa nýjan eða nýlegan togara frá einhverri þeirri fiskveiðiþjóð, sem er komin lengst á þessu sviði, m.a. til þess að fá sem allra fyrst einhverja reynslu af þessum skipum miðað við aðstæður hér við land, — reynslu, sem síðan væri hægt að byggja á og íslenzkir skipaverkfræðingar og aðrir, sem þekkingu hafa á þessum málum, gætu síðan byggt á sínar till. um framtíðarskipin á þessu sviði.

Ég verð sem sagt að lýsa því áliti mínu, að áhugi hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn sem komið er sýnt sig það mikið í verki, að það sé ástæða til þess að vísa þessu máli til hennar með þeirri röksemd, að hún hafi þegar gert það mikið í þessum efnum, að þess vegna eigi frv. ekki rétt á sér. Ég vil hins vegar miklu fremur segja, að sé nú veruleg alvara hjá hæstv. ríkisstj., og ég vænti þess, að a.m.k. sé hæstv. sjútvmrh. sama sinnis og hann virtist vera hér í hittiðfyrra, að hér væri um mikilvægt mál að ræða, — sé veruleg alvara um það, að nú eigi að vinna að endurnýjun togaraflotans með því að fá hingað keypt eða smíðuð skip af skuttogaragerð, þá sé ekkert eðlilegra en að samþykkja heimildarlög um þetta efni, og annað en heimildarlöggjöf er þetta ekki, sem við flytjum hér þrír þm. Alþb. Og hvað er þá því til fyrirstöðu að samþykkja slík heimildarlög? Þar er m.a. heimild til lántöku í því skyni að framkvæma það, sem mér skilst, að allir séu nú sammála um, að þurfi að gera, að láta smíða eða kaupa nokkra togara af nýtízkugerð, sem sagt sé hæstv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar einhver alvara með að láta gera eitthvað raunhæft í þessum efnum, láta gera eitthvað annað en halda áfram að teikna skip, sé ekkert eðlilegra en samþykkja þetta frv., annaðhvort óbreytt eða þá með þeim breytingum, sem æskilegar þættu, til þess að fá heimildina, bæði til að kaupa skipin og til lántökunnar. Allt annað virðist mér heldur benda til þess, að enn sé ríkjandi sama tregðan og hefur orðið mjög vart við hjá hv. stjórnarmeirihl. varðandi endurnýjun togaraflotans.