18.10.1967
Neðri deild: 5. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í C-deild Alþingistíðinda. (2292)

7. mál, efnahagsaðgerðir

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þessum umr., enda gerist þess ekki þörf, því að fyrir málinu hefur verið gerð ýtarleg grein af hálfu ríkisstj., og hef ég þar litlu við að bæta. En það var hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, sem talaði hér áðan, sem gaf mér tilefni til að segja hér nokkur orð.

Hann vildi láta liggja að því, að hæstv. viðskmrh. hefði ekki farið nákvæmlega rétt með hér í gær, þar sem hann sagði, að málið hefði verið ágreiningslaust samþ. í miðstjórn Alþfl. Ég var þar sjálfur viðstaddur og vissi, hvernig málin voru þar afgreidd, og þar sem hæstv. viðskmrh. er ekki hér staddur nú og getur þess vegna ekki borið af sér sakir, skal ég fara um þetta nokkrum orðum.

Málið var rætt og lagt fyrir miðstjórnina á venjulegan hátt. Því var lýst þar í einstökum atriðum, alveg nákvæmlega, og að umr. loknum var samþ. að fela okkur ráðh. Alþfl. að fara með málið á þann hátt og á þeim grundvelli, sem lagt var til í till. ríkisstj. Þetta þýðir vissulega ekki það, að allir meðlimir miðstjórnarinnar væru ánægðir með þessa afgreiðslu út af fyrir sig, og þóttu ýmsum þetta harðir kostir. En þeir gerðu sér allir grein fyrir því, að hér var um mikið vandamál að ræða, þar sem ríkissjóð skorti 750 millj. kr. til þess að fá jafnvægi í fjárl., og það yrði að gera einhverja miður vinsæla hluti til þess að ná þar endum saman. Það voru ýmsar leiðir, sem hafa verið til umr. í ríkisstj. til þess að ná endunum saman og reyna að vinna að lausn málsins, og eftir að allir möguleikar, sem ríkisstj. kom auga á, höfðu verið athugaðir, var þessi kostur valinn, sem hér liggur fyrir í þessu frv. Og þó að menn séu ekki ánægðir með þær ráðstafanir, sem hér þarf að gera, hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta varð að gera af illri nauðsyn.

Það getur vel verið, að Jón Sigurðsson, formaður Sjómannasambands Íslands, hafi lýst því, annaðhvort í Þjóðviljanum eða annars staðar eða hvort tveggja, að hann væri ekki ánægður með þessar ráðstafanir, og það eru sjálfsagt margir, bæði Alþfl.-menn og aðrir, sem ekki eru ánægðir með þær. En þeir hafa bara ekki komið auga á aðra leið til þess að leysa vandann. Og ég vil í því sambandi benda á, að hér hefur af hálfu ríkisstj., af hæstv. forsrh. verið á það bent, að ef aðrar leiðir fyndust, sem léttbærari þættu, væri ríkisstj. opin fyrir því að hlusta á þær.

Hann vildi líka láta liggja að því, hv. þm., að þær tölur, sem hæstv. viðskmrh. nefndi um kaupmátt launa, hefðu ekki verið nákvæmar, getur maður sagt, vegna þess að þar væri um meðaltöl að ræða. En þær tölur, sem hann nefndi, voru meðaltal af tímakaupi verkamanna og iðnaðarmanna, ekki ákvæðisvinnukaupi, heldur tímakaupi. Og hann lýsti því, hvernig , kaupmáttur þessa meðaltalstímakaups hefur aukizt. Hv. 6. þm. Reykv. bar engar brigður á það, að þetta væri rétt og nákvæmlega frá sagt, en hann vildi bara láta líta svo út, að af því að það væri meðaltal, væri það ekki réttur mælikvarði. En vissulega eru meðaltöl alveg jafngóð til þessara útreikninga eins og þó að teknir séu einstakir liðir þeirra upphæða, sem inn í meðaltalið ganga.

Ég skal, svo ekki lengja umr. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, að. það var samþ. í miðstjórninni án nokkurra mótmæla að fela okkur ráðh. flokksins að ganga frá málinu og á þann hátt, sem við höfðum lýst því, svo sem við gerðum allýtarlega, og eins hitt, að meðaltalið, sem hæstv. viðskmrh. nefndi um kaupmáttinn, er, að ég ætla, nákvæmlega rétt, enda hefur þeim tölum ekki verið mótmælt.