18.01.1968
Efri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2351)

83. mál, stöðvun atvinnurekstrar vegna vanskila opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og segir í grg. með frv. þessu. er það flutt skv. eindreginni ósk Sambands ísl. sveitarfélaga.

Efni málsins er ósköp einfalt, en það er á þann veg, að það verði heimilað sveitarstjórnum að láta loka starfsstöðvum, ef viðkomandi atvinnufyrirtæki skilar ekki þeim útsvörum, sem innheimt hafa verið af starfsmönnum fyrirtækisins.

Það er til ein heimild í l. um slíka lokun starfsstöðva, og það er í sambandi við söluskatt. Hér er vitanlega um nákvæmlega sömu hugsun að ræða. Hér er um það að tefla, að fyrirtæki skilar ekki innheimtufé, hér er um hreint misferli að ræða með fé annarra aðila. Vitanlega kemur ekki til mála, nema í mjög þröngum og takmörkuðum tilfellum, að leyfa jafnróttækar aðgerðir eins og stöðvun atvinnurekstrar. En reyndin hefur orðið sú með söluskattinn, að þetta hefur ekki komið að sök, vegna þess að menn hafa áttað sig á því, einmitt vegna þessara róttæku heimilda, sem eru í l. um söluskatt, að fyrirtækin yrðu að leggja þetta fé til hliðar eða vera við því búin með öðrum hætti að greiða söluskattinn, þegar hann fellur í gjalddaga.

Varðandi það efni, sem hér um ræðir, er það ennfremur að segja, að fallið hafa dómar um það, að hér sé um refsivert athæfi að ræða, að skila ekki gjöldum, sem eru innheimt af starfsmönnum fyrirtækjanna. Og það verður ekki talið, þar sem hér er ekki um eigið fé fyrirtækjanna að ræða, að þau séu beitt óeðlilegu harðræði, að mínu mati, þótt slík heimild verði veitt, sem hér er um að ræða, heldur myndi það hljóta að leiða til þess sama og með söluskattinn, að menn mundu gera sér það ljóst, að það tjóar ekki að taka slíka peninga og halda þeim í rekstri fyrirtækjanna, heldur verður að skila þeim með eðlilegum hætti til sveitarfélagsins.

Eins og ég sagði, herra forseti, er málið mjög einfalt í sniðum og auðskilið, og tel ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.