01.02.1968
Neðri deild: 56. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

106. mál, smíði fiskiskipa

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég flutti hér á síðasta þingi till. til þál. um skipun n., sem hefði það verksvið að athuga á hvern hátt fiskiskipafloti landsmanna yrði upp byggður. Till. hljóðar þó um það, að rannsókn næði aðeins yfir fiskiskip af ákveðinni stærð eða þau skip, sem talizt gætu hentug til öflunar hráefnis fyrir fiskiðjuverin og hraðfrystihúsin. Það lá alveg ljóst fyrir þá, eins og liggur fyrir enn, að á undanförnum árum hefur orðið verulegur samdráttur á þessu sviði. Opinberar skýrslur sýna það, að fleiri skip hafa árlega nú nokkur undanfarin ár verið tekin af skipaskrá en þau, sem bætzt hafa við. Þetta hlýtur að sjálfsögðu að leiða til þess, að öflun hráefnis til fiskiðnaðarins hefur og hlýtur að dragast saman. Ég endurflutti ekki þessa till. núna á þessu þingi, af því að ég taldi, að það hefði komið greinilega í ljós í yfirlýsingu ríkisstj. í haust, að þessi mál yrðu tekin til athugunar, enda hefur það komið fram hjá hæstv. iðnmrh. í umr. hér, að hann hefur lagt á það nokkurt kapp, að aðstaða til smíði fiskiskipa hér innanlands yrði athuguð og að unnið yrði að því að slík aðstaða skapaðist. Ég tel þessa stefnu alveg rétta, því að það er að sjálfsögðu hagkvæmast fyrir þjóðarheildina, ef hægt er að byggja þau fiskiskip hér innanlands, sem byggð verða á næstunni til endurnýjunar á fiskiskipaflotanum.

Ég tel, að sú endurnýjun, sem átt hefur sér stað á fiskiskipaflota landsmanna, á ég þar við hin stærri skip, sem byggð hafa verið til síldveiða, hafi vissulega markað tímamót í fiskveiðisögu okkar og fært okkur mikil verðmæti nú á undanförnum árum. Og ég held, að öllum sé það ljóst, að ef þessi endurnýjun hefði ekki átt sér stað á sínum tíma, og nú á undanförnum árum, væri aðstaða þjóðarbúsins í heild allt önnur en hún þó er í dag. Þau skip, sem byggð hafa verið til síldveiða, hafa sýnt það og sannað, að þau hafa verið þess umkomin að sækja afla á mjög fjarlæg mið og miklu fjarlægari mið en ég hygg, að nokkrum okkar hafi dottið í hug, að við yrðum að sækja á til þess að afla hráefnis í sambandi við þann iðnað. En ég tel, að það verði nú að leggja áherzlu á það, að sá hluti fiskiskipaflota landsmanna, sem aflar fiskiðjuverunum hráefnis, verði endurbyggður. Þetta er ekki einasta spursmál fyrir útgerðarmenn eða sjómenn, þetta er miklu frekar, og ekki síður, spursmál fyrir það verkafólk, sem býr í hinum ýmsu sjávarplássum víðs vegar um landið, því að víða er það svo, að afkoma þess er beinlínis undir því komin, hvort þau fiskiðjuver, sem þar eru, fá nægjanlegt hráefni, þannig að þau geti haldið rekstri sínum gangandi nokkurn veginn allt árið. Verði í þessu samdráttur, liggur alveg ljóst fyrir, að þá er orðið þar um atvinnuleysi að ræða, og hygg ég, að það sé nokkurn veginn ljóst, að í mörgum hinna smærri sjávarþorpa eru það fiskiðjuverin, sem þar eru staðsett, sem halda uppi svo að segja allri atvinnunni. Ég er því þess mjög fylgjandi, að þessi mál verði skoðuð og fram úr þeim ráðið eftir því, sem bezt þykir henta og eðlilegast er, því að ég tel, að þetta sé orðið mjög aðkallandi, og eins og ég sagði, lá það þegar fyrir á s.l. ári, að þarna hafði orðið um verulegan samdrátt að ræða, og þetta kom enn betur í ljós nú á þessu ári. Að sjálfsögðu tekur sú n., sem fær þetta mál til athugunar, það til fyrirgreiðslu, og vænti ég þess, að sú hreyfing, sem almennt er komin á þessi mál, bæði með þessari till. og öðrum till., sem hér hafa verið fluttar, verði til þess að uppbygging fiskiskipaflotans, sem er undirstaðan til öflunar hráefnis til fiskiðjuveranna, eigi sér stað nú þegar í næstu framtíð.