17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

84. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Varðandi framhald af því, sem ég sagði um seríubyggingar á skipum eða stöðlun skipasmíða, vil ég bæta því við, sem ég hef áður sagt, að eftir viðræður hæstv. sjútvmrh. og mín við Fiskveiðasjóð í sumar, var það sameiginlegt ráð að skipa sérstaka n. til þess að kanna til hlítar möguleikana á stöðlun fiskiskipa. Þessi n. skyldi þannig skipuð, að þeir tilnefndu, skipasmiðirnir sjálfir, tvo menn í n., sjútvmrh. tvo menn og þessir menn ynnu svo með tækninefnd Fiskveiðasjóðs og Fiskifélags Íslands, þremur mönnum, og iðnmrh. hefði forgöngu um að koma þessari n. á laggirnar, sem og var gert, og hún hóf þegar starfsemi. Ég lagði mikla áherzlu á það, að n. lyki sem allra fyrst störfum. Þeir tjáðu mér, formaður n. og annar aðili í n., í septembermánuði, sept.—okt. held ég, að það hafi verið, að þeir treystu sér ekki til þess að skila endanlegu áliti, vegna þess að viðfangsefnið væri meira heldur en þeir hefðu búizt við, og enda vildu þeir ganga svo vel frá verkefninu og hafa rannsóknina það ítarlega, að þær niðurstöður færu ekki mjög á milli mála, sem n. gæti orðið sammála um. Þessi n. skilaði þess vegna bráðabirgðaáliti, sem hefur verið í höndum ríkisstj., og hefur svo unnið áfram að málinu. Það kemur auðvitað greinilega fram strax í bráðabirgðaálitinu, og mun koma betur fram í því endanlega áliti, að það er um mismunandi stærðir að ræða af skipum eftir því, hvaða veiðar er ætlað að stunda, og fer það nokkuð eftir því, hvar veiðarnar eru stundaðar á landinu, eins og frsm. þessa frv., flm. frv., vék að. En ég geri ráð fyrir því, að þess verði ekki mjög langt að bíða úr þessu, að fyrir liggi mjög ítarleg rannsókn og till. um stöðlun fiskiskipanna Eins liggi fyrir álit um það, hvaða stærðir sé líklegast, að mest eftirspurn sé eftir, og sem þá, eftir því sem ég fæ bezt skilið, mundi greinast í vissa tiltekna hópa, minnstu skipin, miðlungsskip og stærri fiskiskip. En síðar yrði reynt að stuðla að því, að útvegsmenn og lysthafendur sameinuðust um að byggja af sömu tegund í hverjum flokki, en ekki allt það, sem þarna liggur á milli.

En við skulum ekki láta neitt fara á milli mála í þessum umr. Þegar hv. flm. segir, að skipasmíðastöðin á Ísafirði hafi beðið um það í sumar að fá að byggja 200 tonna skip, held ég, að það hafi einmitt verið eins og ég sagði áðan, að þessi stöð hefur ekki treyst sér til þess að gera ákveðið tilboð í tiltekna gerð af skipum. Og hér hafi verið um það að ræða, að hún hafi farið þess á leit að mega hefja smíði á skipinu, án þess að það lægi fyrir neinn kaupandi að þessu skipi og þar af leiðandi heldur ekki neitt fjárframlag frá neinum væntanlegum kaupanda. Þetta er ekki í samræmi við þær reglur, sem starfað hefur verið eftir, hvorki við smíði íslenzkra né erlendra skipa hér.

Ég vék að því, að ég hefði oft rætt um það, hvort til þess að koma af stað skipasmíði á svona stað, hjá forstöðumanni og eiganda skipasmíðastöðvarinnar, sem er hinn allra virðingar verðasti dugnaðarmaður og hefur sýnt það í verki á liðnum árum, þyrfti að setja nýjar reglur, kannske á þeim grundvelli að taka einhverjum öðrum tökum á fyrstu smíði heldur en öðrum. Það mátti líta svo út, eftir því sem fram kom hér í ræðu hv. 1. flm., að það hafi verið hafnað láni út á smíði skips í skipasmíðastöðinni á Ísafirði, sem fram hefði komið í sumar. En það er engin beiðni, sem hefur komið fram um smíði þar með venjulegum hætti, hvort hins vegar menn vilja lá Fiskveiðasjóði síðan, eins og aðstaða hans hefur verið, að láta ekki byrja að smíða skip á sinn reikning, það tel ég, að sé hæpið. Það væri þá miklu frekar að segja, að fjárveitingavaldið og ríkið yrði að láta til sín taka heldur en sjóður, sem á sama tíma er þannig staddur, að viðskiptamenn hans allir eru í þeirri aðstöðu, að þeir geta ekki greitt sínar skuldbindingar.

Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, þannig að engir fái þá hugmynd í þessu sambandi, að þarna hafi verið staðið svo illa að verkefnasköpun, að þó að beiðni lægi fyrir um að smíða eitt skip í Ísafjarðarstöðinni, hafi því ekki verið svarað frá því í sumar. Þetta er mikill munur, sem ég hef lýst, frá því sem áður hefur verið, og það er einmitt það, sem reynt hefur verið að vinna að fram að þessu fyrir stöðvarnar hér fyrir sunnan, að skapa aðstöðu til þess, að þeim berist verkefni og eftirspurn frá aðilum, sem vilja eignast fiskiskip, og þessum aðilum verði gert auðveldara að kaupa skipin með lengri lánum eða annarri aðstoð, hvernig sem það nú verður, og jafnframt verði reynt að aðstoða skipasmíðastöðvarnar við að komast yfir þá fjárhagslegu örðugleika, sem eru jafnan fyrir hendi, þegar þessi skip eru smíðuð.

En varðandi skipasmíðina á Ísafirði, við skulum taka það mál alveg sérstaklega út úr, ekki aðeins vegna þess, að hv. flm. sé málið skylt, heldur bara af því, að það þarf alveg sérstök tök til þess að koma skipasmíðum þar í gang. Ég endurtek það, sem ég sagði um það, að það mundi vera a.m.k. mér mikið ánægjuefni, ef menn gætu, þeir sem hér eiga hlut að máli, sameinazt um að skapa aðstöðu til þess, að þessi stöð fengi sinn fyrsta möguleika til þess að smíða skip. Nú verður náttúrlega ekki svo mikill aðstöðumunur, eins og hv. 1. flm. talaði um. Varðandi kostnaðinn á Akureyri hefði hann verið eitthvað 10—20% minni við smíði síðara skips heldur en fyrra skips. Fyrsta fiskveiðiskipið á Akureyri var smíðað í vetrarhörku úti, annað fiskiskipið var smíðað inni, eftir að var búið að byggja þar hús til þess að smíða skipin í, og það segir sína sögu ekki síður. En þessi aðstaða er öll fyrir hendi á Ísafirði, og ég vil heldur ekki draga úr því, sem ég sagði sjálfur, að við æfinguna skapast auðvitað miklu betri aðstaða fyrir bæði skipasmíðastöðina og iðnverkamennina til þess að vinna að áframhaldandi verkefnum heldur en taka að sér í byrjun þau verk, sem alltaf verður nokkur óvissa um, hvernig lánast, og ég vil ekki dylja menn þess, að mér er kunnugt um það, að skipasmíðastöðvarnar hér sunnanlands hafa tapað miklum fjármunum á sínum fyrstu smiðum. Það fer heldur ekki á milli mála.