06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2713)

108. mál, fiskirækt í fjörðum

Tómas Árnason:

Herra forseti Ég álít, að hér hafi verið hreyft mjög athyglisverðu máli og það ekki í fyrsta sinn, eins og flm. upplýsti í sinni framsöguræðu. Raunar eru öll þessi málefni, hvort sem þau snerta friðun eða fiskeldi, mjög þýðingarmikil mál, ekki sízt í augum okkar Íslendinga. Eitt mesta áhyggjuefnið er það að sjálfsögðu, ef fiskistofnarnir ganga svo til þurrðar í framtíðinni, að okkar fiskveiðum, sem er undirstaða okkar efnahagslífs, stafi af því veruleg hætta. En það er ekki ástæða til þess að ætla, að við séum einir um þessar áhyggjur. Enginn vafi er á því, að þær þjóðir, sem halda úti stórum fiskveiðiflotum í Norður-Atlantshafi, hafa miklar áhyggjur af þessari þróun mála ekki síður en við, þó að þetta varði auðvitað lífsafkomu okkar alveg sérstaklega. Þess vegna er það mjög athyglisvert mál að hreyfa því, hvort það sé raunhæft að koma á fót fiskeldi nytjafiska í sjó hér við strendur eða í fjörðum landsins. Við, sem erum aldir upp í fjörðunum, vitum, að ungviðið hefst þar við. Smáþyrsklingur, ufsi og aðrar fisktegundir alast þar upp. Við höfum þetta fyrir augunum frá degi til dags, þannig að enginn vafi er á því, að fiskeldi hér í fjörðum Íslands er raunhæft að því leyti til, að það er hægt að ala hér upp fisk. Hitt er annað mál, hvort málið er raunhæft að því leyti til, að slíkt sé mögulegt í nægilega stórum stíl til þess, að það virkilega komi að notum. Eins og við vitum, eru allir þessir nytjafiskar okkar þannig, nema þá kannske flatfiskurinn, að þeir flakka um höfin og þess vegna er ástæða til að ætla, að aðrar þjóðir, eins og ég gat um áðan, hafi einnig mikinn áhuga á þessu máli.

Alþjóðasamvinna fer mjög vaxandi á ýmsum sviðum, eins og kunnugt er. Ég vildi því hreyfa þeirri hugmynd hér á Alþ, hvort það væri æskilegt, að Íslendingar leituðu eftir samvinnu við aðrar þjóðir um eldi nytjafiska í sjó í stærri stíl. Nýlega hefur verið samþykkt að koma á fót eldfjallarannsóknarstöð á Íslandi, eins og kunnugt er af fréttum frá fundum Norðurlandaráðs, en Norðurlandaþjóðirnar munu standa að kostnaði í sambandi við rekstur þeirrar stöðvar. Auðvitar er margs að gæta í sambandi við slíka samvinnu, það er mér vel ljóst. Það gæti verið, að aðrar þjóðir, t.d. þær, sem stunda fiskveiðar í Norður-Atlantshafinu, vildu fá eitthvað í staðinn, ef þær legðu fram fjármuni í þessu skyni. En það mætti vænta þess, að þær kynnu að hafa áhuga á slíku máli á þeim grundvelli, að auðvitað fer fiskurinn úr fjörðunum og út á hafið og kæmi þess vegna að notum fyrir þjóðir, sem stunda fiskveiðar hér utan íslenzkrar landhelgi.

Eins og flm. gat um í sinni ræðu, þá á fiskeldi í sjó sér stað nú á nokkrum stöðum. Hann gat m.a. um Noreg, Skotland og fleiri staði. Ég held, að Skotar reki fiskeldisstöð fyrir flatfisk einhvers staðar á N.-Skotlandi, en flatfiskurinn er miklu meira staðbundinn en aðrir fiskar, eins og kunnugt er, og þess vegna kæmi frekar til greina fyrir eina þjóð að standa fyrir eldi slikra fisktegunda en hinna, sem flakka um höfin og allir njóta meira og minna góðs af.

Ég tel ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta, en vildi hreyfa þessari hugmynd, þannig að hún bærist til þeirrar n., sem kemur til með að fjalla um málið. Ég vil ítreka það, að ég tel hér um að ræða stórmerkilegt mál, sem ástæða væri til að hreyfa meira á opinberum vettvangi en gert hefur verið, og einnig hugsanlegt að leita samvinnu við aðrar þjóðir um aðgerðir