14.12.1967
Efri deild: 33. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Mér hefur nú ekki gefizt mikið tóm til þess að athuga þetta veigamikla, athyglisverða og mjög svo athugaverða frv. eins og skyldi. Og ég heyrði það á ræðu hæstv. ráðh., að það muni ekki ætlunin, að þm. fái mjög mikið tóm til þess að fjalla um þetta býsna stóra og fjölþætta mál, því að það er hart á eftir rekið. Það er meira að segja búið nú þegar að boða fund í þeirri n., sem væntanlega fær málið til meðferðar. Hún á að taka til starfa núna kl. 5, að mér er tjáð, svo að mönnum er ekki ætlað afskaplega mikið tóm til þess að vinna að athugun á þessu máli. Ég verð nú við þessa 1. umr. að segja það, að strax og ég leit yfir þetta frv. í gærdag, þótti mér ýmislegt við það nokkuð undarlegt, og strax vöknuðu ýmsar spurningar. Og það vil ég segja, að sum ákvæði frv. eru því undarlegri, sem maður veltir þeim lengur fyrir sér og rýnir nánar í þau.

Áður en ég vík að einstökum atriðum, sem ég vildi ýmist gera stuttorðar aths. við eða bera fram fsp. um, vil ég stuttlega víkja að þeirri ákvörðun, sem að vísu er áður tekin af hæstv. ríkisstj. í frv., sem þegar er orðið að l., þ.e.a.s. að taka gengishagnaðinn allan af óseldum vörum sjávarútvegsins og þeim vörum, sem sjávarútvegurinn kemur til með að framleiða allt til næstu áramóta. Ég verð að segja, að sú ákvörðun að taka allan gengishagnað af þessum vörum sjávarútvegsins allt til áramóta er óneitanlega býsna hæpin, þegar maður hugsar til þess, að réttlæting gengisfellingarinnar er fyrst og fremst sú að aðstoða útflutningsatvinnuvegina og þá alveg sérstaklega sjávarútveginn. Hæstv. ráðh. segja að vísu að allur gengishagnaður af þessum sjávarafurðum, bæði þeim, sem þegar hafa verið framleiddar, en eru óseldar í landinu og þeim, sem framleiddar verða til áramóta, allur gengishagnaður af þeim eigi að renna til sjávarútvegsins. Ef svo væri í raun og veru, mætti e.t.v. segja, að það væri ekki margt athugavert við það að hafa hönd í bagga um, hvernig þessum gengishagnaði væri ráðstafað, sérstaklega ef Alþ. væri nú gefinn möguleiki og tóm til að setja um það nokkuð ákveðnar og fastar reglur, en það ætti ekki að vera meira og minna hangandi í lausu lofti og á valdi ráðh. að svo og svo miklu leyti að ráðstafa þessum fjármunum. En ég fæ ekki betur séð en einmitt með þessu frv. sé verið að slá því föstu, að það er verið að svipta sjávarútveginn, það er verið að svipta útgerðina ekki svo litlum hluta af þessum gengishagnaði. Það er verið þarna að seilast til allverulegs hluta af þessum gengishagnaði ríkissjóði til góða. Ríkissjóður er hér eins og víðar að næla sér í mjög verulegan gengishagnað og mun ég koma lítið eitt betur að þessu síðar.

Sú spurning, sem eðlilega vaknar fyrst, þegar maður fréttir af þessu frv., er, um hversu mikla heildarupphæð er hér að ræða. Það er að vísu rétt, sem í grg. segir, að þar getur varla verið á þessu stigi um annað að ræða en áætlunarupphæðir, meira eða minna nákvæmar, þar sem ekki er öruggt um ýmsar þær tölur, sem byggja verður niðurstöðurnar á. En í raun og veru er varla hægt að ræða þetta mál af viti fyrr en menn hafa einhverja verulega hugmynd um það, hversu mikla fjármuni hér er um að ræða, hvað ráð má gera fyrir, að heildarupphæðin sé há. Um þetta segir ekkert í grg. frv., en hæstv. ráðh. bætti nú að vísu hér nokkuð úr í framsöguræðu sinni, þar sem hann skýrði frá því, að eftir því sem næst yrði komizt, mætti áætla heildarupphæðina, sem hér gæti verið um að ræða, allt að 400 millj. kr.

Nú man ég ekki betur en það hafi heyrzt, þegar verið var að ákveða að taka þennan gengishagnað og ráðstafa honum á sérstakan hátt, þá hafi verið sagt, að í rauninni væri hér ekki um svo ýkja stóra upphæð að ræða, að það skipti mjög miklu máli, hvort útgerðarmenn nytu þessa gengishagnaðar beint eða hvort honum væri ráðstafað til ýmissa þarflegra hluta sjávarútveginum til stuðnings, eins og það var orðað þá, og mér skildist á umr. hæstv. ráðh. hér um daginn, að þarna væri að líkindum um allt aðra og minni upphæð að ræða en þó þá, sem hæstv. sjútvmrh. reiknar með nú og mér þykir líklegt, að sé engan veginn of há, heldur væntanlega fremur komi til með að reynast of lág en of há. En þegar þetta liggur fyrir, að hér muni vera um að ræða 400 millj. kr. eða þar um bil til ráðstöfunar, tel ég alveg fráleitt, að einum ráðh. skuli vera falið, í þessu tilfelli hæstv. sjútvmrh., jafnmikið vald eins og í raun og veru virðist gert með þessu frv. um ráðstöfun þessa fjár. Það eru svo margir þættir í þessu máli, sem eru aðeins ákvarðaðir með tiltölulega óákveðnu orðalagi í frv., að það virðist vera geysilega mikið vald, sem ráðh. er hér ætlað í sambandi við framkvæmd alls þessa máls, svo margþætt sem það er og svo margt, sem þar virðist vera tiltölulega óákveðið og fljótandi.

Ýmsar spurningar vakna, þegar maður fer að athuga nánar einstaka liði þessa frv. Til að mynda vildi ég spyrja í sambandi við a-lið 1. gr., þar sem talað er um að bæta útgerðinni hækkanir á rekstrarkostnaði vegna gengisbreytingarinnar við framleiðslu sjávarafurða, eftir að hið nýja gengi kom til framkvæmda, eins og það er orðað, eftir að hið nýja gengi kom til framkvæmda og til ársloka 1967. Hvernig á í rauninni að framkvæma þetta? Hvernig hefur hæstv. sjútvmrh. hugsað sér, að þetta verði í framkvæmd? Ég vil benda á, að hér er ekki um mjög einfalda hluti að ræða. Í mörgum tilfellum erum við með vöru, þar sem eru ýmsar tegundir af fiski, sem er kannske vikur og mánuði í framleiðslu, og þegar gengisfellingin er framkvæmd, er þessi vara á mjög svo mismunandi stigi. Segjum til að mynda, hvernig á að framkvæma þetta að því er varðar saltfisk? Hann er í sumum tilfellum, þegar gengið er fellt, kannske á fyrsta stigi framleiðslu, ef svo mætti segja. En það er eftir að framleiða hann sem fullunna vöru og margvíslegir kostnaðarliðir eiga eftir að koma á fiskinn, þó að framleiðsla hans sé hafin, hann sé kominn á land og framleiðsla hans sem söluvöru sé hafin, þegar gengisfellingin verður. Hvernig á að fara að í slíkum tilfellum sem þessum? Ég tek hér aðeins eitt dæmi. Á algerlega að miða við það, sem hér virðist nú eftir orðanna hljóðan vera, að bæta skuli hækkanir eftir að hið nýja gengi kom til framkvæmda og til ársloka 1967? En hvernig ber að skilja þetta í sambandi við slíka vöru, þar sem vinnsla hennar tekur kannske mjög langan tíma frá því, að byrjað er að framleiða hana, ef svo má segja, og þangað til hún er komin í söluhæft ástand. Á að borga í þessu tilviki eftir reikningi eða hvernig á að haga þessu?

Þá vil ég í sambandi við b-, c- og d-liði segja það, að mér þótti nú, þegar ég var að athuga frv., heldur lítið af upplýsingum um þessa b-, c- og d-liði 1. gr., heldur lítið um upplýsingar um það, hversu miklar bætur væru ráðgerðar, bæði til skreiðarframleiðenda og sömuleiðis til bræðslusíldariðnaðar og annars og vegna verðfalls á frystri rækju. En ég heyrði, að í ræðu sinni gaf hæstv. ráðh. upp einhverjar áætlunartölur um þetta, og það er vitanlega til bóta. Hins vegar sýnir það, hvað frv. virðist að mörgu leyti snöggsoðið, að í grg. með því vantar jafneinfaldar og sjálfsagðar upplýsingar eins og þetta um einstaka útgjaldaliði þarna, hverjar áætlanir eru um kostnað við hvern lið fyrir sig.

Þegar kemur að f-lið 1. gr., þar sem segir, að „framlög ríkissjóðs samkv. 1., 3., 8. og 9. gr. l. nr. 4 1967 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.s.frv.“, virðist mér, að í ljós komi, að hverju stefnt er, a.m.k. öðrum þræði með þessu frv. Ég fæ ekki betur séð, enda þótt ég hafi þann fyrirvara á, að ég hef haft mjög nauman tíma til að kynna mér frv., heldur en hér sé um að ræða ýmsar þær fiskverðsuppbætur, sem voru ákveðnar með sérstökum l. snemma á þessu ári, sem hæstv. ríkisstj. tók að sér að greiða, en þessar uppbætur eigi nú að greiðast af þeim gengishagnaði sjávarútvegsins, sem um verður að ræða, eftir að gengið hefur verið fellt. Hæstv. ráðh. leiðréttir mig, ef þetta er ekki rétt skilið. En ég fæ ekki betur séð í fljótu bragði en nú eigi að taka af þessum gengishagnaði það, sem ríkissjóður var í rauninni með sérstakri löggjöf í byrjun þessa árs búinn að skuldbinda sig til að greiða.

Hér er sem sagt verið að endurtaka sögu, sem oft hefur endurtekið sig áður, að hæstv. ríkisstj. kemur og leggur fyrir Alþ. frv. um nauðsynlegar, nýjar tekjur, nýjar álögur til þess að standa straum af til að mynda verðuppbótum, í þessu tilfelli fyrir útgerðina. Síðan verður sú breyting, að annað tveggja þarf ekki á greiðslum til þessara sérstöku verkefna að halda lengur ellegar nýr tekjustofn er tekinn til þess að standa undir þeim, en þá er gamli tekjustofninn sem til þessara sérstöku verkefna átti að renna, látinn haldast, þó að gjaldaliðurinn sé greiddur af öðrum og ríkissjóður látinn hirða það, sem þó var lagt á menn í alveg sérstöku skyni til þess að standa undir alveg sérstökum tilkostnaði. Ég get ekki betur séð en hér sé verið að gera þetta, hér sé verið að taka hluta af þessum gengishagnaði sjávarútvegsins til þess að borga fiskuppbætur, sem ríkissjóður var búinn að taka á sig að greiða og búið var að leggja sérstaka skatta á til þess að standa straum af.

Þegar maður lítur hér á frv. áfram, sést, að í 2. gr. er til þess ætlazt, að verulegur hluti af þessum gengishagnaði gangi til þess að greiða hinar miklu skuldir vegna vátryggingariðgjalda fiskiskipa. Um það er í rauninni ekki mikið að segja. Þetta gengur þó til sjávarútvegsins, en raunar er það við þetta mál allt að athuga, sem hæstv. ráðh. drap nú rétt á í ræðu sinni, að allt þetta vátryggingakerfi okkar að því er varðar fiskiskipin er svo athugavert, að ég ekki segi vitlaust, að það þarf vissulega að takast algerlega til endurskoðunar og það heldur fyrr en seinna. En ég vildi þó segja, burtséð frá því, að þetta þurfi að gerast, er þó verjandi að ráðstafa hluta af gengishagnaðinum til þess að standa straum af vátryggingu fiskiskipa. En þegar aftur kemur að b-lið 2. gr., get ég ekki betur séð en hér sé enn verið að taka hlut af þessum gengishagnaði sjávarútvegsins til þess að létta á ríkissjóði eða í þessu tilfelli ríkisábyrgðasjóði, sem er nú raunar eitt og hið sama.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, er verið að ræða um og undirbúa, að því er manni er tjáð, ýmsar skipulagsbreytingar að því er varðar hraðfrystihúsin og fiskiðnaðinn yfirleitt, skipulagsbreytingar, sem eiga að leiða til aukinnar rekstrarhagkvæmni og m.a. hefur verið um það rætt, að í sumum tilfellum þurfi að sameina hraðfrystihús eða fiskverkunarstöðvar, og það verður í ýmsum tilfellum varla eða alls ekki gert nema þá að afskrifa svo og svo mikið af skuldum og létta þannig undir með því, að þessari fyrirhuguðu hagræðingu verði komið á. Hér á sem sagt að taka til þessara býsna nauðsynlegu verkefna hluta af þessum gengishagnaði og létta þar með til að mynda af ríkissjóði eða ríkisábyrgðasjóði byrðum sem hann hefði ella vafalaust orðið að bera í sambandi við þetta verkefni og ég vissi ekki betur en ætlunin væri, að hann bæri a.m.k. að einhverju leyti.

Ég skal ekki fara út í ýmis smáatriði, sem ég mundi nú vilja gera aths. við og fá upplýsingar um í n. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi n. þær upplýsingar, sem um verður spurt, og skal þess vegna stytta þessar aths. mínar mjög og ekki fara út í hin smærri atriði, sem ég hef þó merkt hér við og gert aths. við.

Að lokum vil ég aðeins segja það um 3. gr., að hún er e.t.v. eitt gleggsta dæmið um það, hversu hraðsaumað þetta frv. er allt saman, að ég ekki segi hrákasmíði, en þar er boðuð stofnun nýs sjóðs, verðjöfnunarsjóðs. Hér er óneitanlega um að ræða stórmál, og í prinsipi vildi ég lýsa því yfir, að ég tel, að það sé mjög æskilegt, að slíkum sjóði yrði komið upp eða hefði jafnvel átt að vera búið að því fyrir löngu. Þetta er sem sagt stórmál, sem að mörgu leyti er æskilegt að komist til framkvæmda, en enn sem komið er vantar algerlega löggjöf um þennan sjóð, nema þessar fáu og ég vil segja fátæklegu setningar, sem standa í þessu frv., og þar er í rauninni bara sagt, hverjir tekjustofnar slíks sjóðs eigi að vera og að setja eigi löggjöf um slíkan sjóð. Það er boðað, að sett skuli löggjöf um slíkan sjóð, en jafnframt eru þessum sjóði ákveðnir hér með þessum l. tekjustofnar. Og í sambandi við þá vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvmrh., þar sem talað er um í sambandi við verðjöfnunarsjóð hluta af útflutningsgjaldi sjávarafurða og gert er ráð fyrir að endurskoða l., sem þar um gilda. Er ætlunin að stórhækka útflutningsgjald af sjávarafurðum til þess að afla þessum sjóði tekna? Ef útflutningsgjaldið á að standa undir því, sem það hefur gert til þessa, þá fæ ég ekki séð, hvernig nýr sjóður fengi miklar tekjur af útflutningsgjaldi, nema það hækkaði stórlega. Og ég vil leyfa mér að spyrja: Er ætlunin að hækka útflutningsgjaldið og þá hversu mikið, eða er allt í óvissu um það eins og svo margt annað varðandi þessi mál?

Eins og ég hef vikið nokkuð að virðist mér, að þetta frv. þyrfti rækilegrar athugunar við, það sé athugavert um ýmsa hluti, og væri ekki vanþörf á, að bæði n. og síðan þinginu gæfist sæmilegt tóm til þess að fjalla um málið og sníða af frv. ýmsa agnúa, sem ég held tvímælalaust, að á því séu. En það virðist nú ekki vera ætlun hæstv. ríkisstj. að gefa Alþ. mikið tóm til þessa. En ef á að keyra þetta mál í gegn hér á örfáum dögum, vil ég segja það, að það er enn eitt dæmi þess, hversu virðingarleysi hæstv. ríkisstj. gagnvart Alþ. fer vaxandi með hverju ári, sem líður. Hér er um tiltölulega flókið og stórt mál að ræða. Það er lagt til, að hæstv. ráðh. og raunar tveir hæstv. ráðh., fjmrh. kannske ekki síður en sjútvmrh., fái að ráðskast með stórfé og gera það eftir ákaflega losaralegri löggjöf eins og hér er lagt til í þessu frv. En því nefni ég fjmrh. ekki síður en sjútvmrh., að mér sýnist, eins og ég hef bent á, að ýmis ákvæði frv. gangi inn á það að ná í svo og svo mikið af þessum gengishagnaði, sem á að renna til útgerðarinnar, í ríkissjóð. Og ég óttast það í rauninni í sambandi við þetta mál og framkvæmd þess alla, að hæstv. fjmrh. verði nokkuð harður á stalli og jafnvel fari svo, að hann aféti samráðh. sinn, hæstv. sjútvmrh., og þá menn, sem hann á að bera fyrir brjósti. Og ég spyr nú að lokum: Hvað verður eftir handa ráðh. sjávarútvegsmálanna, þegar hæstv. fjmrh. er búinn að taka þann toll af þessum gengishagnaði, sem hann er auðsjáanlega að sælast í? — [Fundarhlé.]