28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2781)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ingvar Gíslason:

Góðir hlustendur nær og fjær. Hæstv. menntmrh., sem var að ljúka hér máli sínu, notaði ræðutíma sinn til þess aðallega að kasta fram strákslegum ásökunum í garð framsóknarmanna, en ræddi ekki einu orði að kalla þau málefni, sem fyrst og fremst eru á dagskrá með þjóðinni nú. Þjóðin er því litlu nær eftir ræðu þessa hæstv. ráðh. um það, sem fram undan er í efnahagsmálum, og verður þetta að teljast vægast sagt ómerkilegur málflutningur.

Það er sannarlega ekki vandalaust að átta sig á orðum og yfirlýsingum ríkisstj. og einstakra ráðh. nú að undanförnu. Fyrir nokkrum vikum sögðu ráðh., að gengislækkun skapaði fleiri vandamál en hún leysti. En þessa síðustu daga ber víst að líta á það sem skoðun ríkisstj., að gengislækkun sé allra meina bót í efnahags- og atvinnulífi. Slíkt er þó auðvitað meira en ofmælt. Gengislækkun sú, sem framkvæmd hefur verið, verður aldrei skoðuð sem einhver úrbótaráðstöfun í sjálfu sér, heldur fyrst og fremst sem viðurkenning á ákveðnu ástandi, ófremdarástandi, sem skapazt hefur á alllöngum tíma vegna rangrar stjórnarstefnu. Gengislækkun er ávallt neyðarúrræði, sem aðeins er gripið til, þegar allt um þrýtur, þegar svo er komið, að búið er að grafa undan gjaldmiðlinum og rýra verðgildi hans. Gengislækkun felst ekki í því einu saman að skrá nýtt gengi niðri í Seðlabanka. Gengislækkunin á sér aðdraganda, sem nær yfir mörg ár, og er eins og lokakafli í löngum hrakfallabálki. Gengislækkunin verður hvorki skýrð né skilin nema í ljósi þessara sanninda.

Reynslan ein fær úr því skorið, hvort sá tími, sem fram undan er, verður hagstætt tímabil í atvinnu- og efnahagsmálum eða hvort stefnt er til sama vandræðaástands og ríkt hefur undanfarin ár. Þær aðgerðir, sem ríkisstj. hefur nú framkvæmt, gefa í sjálfu sér engin fyrirheit um blómlegt efnahagslíf, því að eins og þær eru settar fram, eru þær ekki líklegar til þess að eyða frumorsök vandans, sem við er að stríða og lengi hefur þjáð íslenzkt efnahagslíf og fjármálastjórn.

Sá vandi, sem mestur er og enn er óleystur, er vandi verðbólgunnar. Það er sá vandi, sem herjað hefur undanfarin ár og valdið hefur því, að smám saman hefur verið grafið undan gjaldmiðli þjóðarinnar og hann rýrður svo að verðgildi, að nú hefur þótt óhjákvæmilegt að skrá gengi krónunnar upp á nýtt í þriðja sinn á 7 ára tímabili. Og meðan ekki finnast ráð og ekki er fyrir hendi samstaða um aðgerðir til þess að hefta verðbólguþróun, þá er fullsnemmt að spá um það nú í upphafi nýs gengisfellingartímabils, að hér sé um viðunandi efnahagslausn að ræða.

Það hlýtur að vekja undrun, þvílík látalæti eru í kringum þessa gengislækkun. Þeir, sem að henni standa, láta eins og hún komi þeim sjálfum alveg á óvart. Atburðarásin á að hafa verið svo hröð, að þeir hafa ekki haft við að fylgjast með henni. Þetta eru augljós látalæti og gerð í því skyni einu að láta líta svo út sem ástæðan til gengislækkunarinnar eigi rætur í fjarlægum og ófyrirséðum viðburðum einhvers staðar úti í heimi. Það er að vísu staðreynd, að Bretar hafa skert gengi sterlingspundsins og slíkt hlaut að hafa óheppileg áhrif á nokkurn hluta af útflutningsverzlun okkar. En lækkun sterlingspundsins um 5% getur ein saman ekki réttlætt 25% gengislækkun ísl. krónu. Til þess að jafna metin milli gengislækkunar sterlingspundsins og útflutningshagsmuna okkar nægði að fella krónuna um 5% gagnvart hinum brezka gjaldmiðli. Allt það, sem umfram er, þ.e.a.s. um 20%, á sér aðrar orsakir. Og þessar orsakir eru heimatilbúnar og þurfa engum að koma á óvart. Þar er sjálf stjórnarstefnan að verki, verðbólgan og dýrtíðin, röng atvinnumálastefna, röng verzlunanstefna, röng stefna í fjárfestingarmálum, röng bankapólitík. Á meðan ekki er breytt um grundvallarstefnu, á meðan ekki er leitazt við að ráða niðurlögum verðbólgunnar, á meðan gjaldeyrissjóðir tæmast vegna óþarfa innflutnings og heimskulegrar eyðslu, á meðan fjárfestingin er skipulagslaus og eitt rekur sig á annars horn í þeim efnum, á meðan fjármagnið sogast inn í milliliðabraskið, en fjarlægist undirstöðuatvinnuvegina, — á meðan slík öfugþróun ríkir á öllum sviðum og ekki er breytt um grundvallarstefnu í efna­ hagsmálum, þá mun sækja í sama farið og verið hefur öll stjórnarár núv. ríkisstj. Þá er stefnt að nýrri gengislækkun áður en varir, enda er allur ferill ríkisstj. varðaður verðbólgu og gengisfellingum. M.a. stóð ríkisstj. augliti til auglitis við gengisfellingu á síðasta ári, en valdi þá leið að fresta henni þangað til nú. Ríkisstj. kaus að greiða verðbólguna niður beint úr ríkissjóði og kallaði þá ráðstöfun sína verðstöðvan, en réttnefni hennar hefði verið frestun á gengisfellingu fram yfir kosningar. Í kosningabaráttunni í vor ræddu forustumenn stjórnarflokkanna hins vegar um gengislækkun sem fjarstæðu, og allt fram á síðustu stund, nú fyrir viku eða hálfum mánuði afneituðu þeir gengislækkun og sóru fyrir allar slíkar áætlanir. Eigi að síður hefur gengið verið fellt, ekki til samræmis við lækkun sterlingspundsins, eins og ríkisstj. vill fá almenning til að trúa, heldur sem ráðstöfun í beinu samræmi við þróun efnahagsmála s l. 8 ár og sem framhald þeirrar þróunar.

Fyrir 8 árum hófust þessir menn til valda með miklu yfirlæti og fullyrðingum um, að markmið þeirra væri að koma á nýju og fullkomnu efnahagskerfi, sem byggt væri á viðurkenndum og allt að því óyggjandi hagfræðikenningum. Var mjög áberandi í upphafi viðreisnar sú tilhneiging ríkisstj. að setja fræðilegan stimpil á ráðstafanir sínar í efnahagsmálum og kalla til vitnis um ágæti þeirra ýmsa útlenda aðila, bæði einstaka menn og heilar stofnanir, þó að slíkum vitnaleiðslum fari nú fækkandi.

Það væri of langt mál að greina nákvæmlega frá, í hverju þessar ráðstafanir voru fólgnar, enda eru þær flestum í fersku minni, en ástæða er til þess við þessar umr. um vantraust á ríkisstj. að rifja upp, hvert var höfuðmarkmið stjórnarstefnunnar eða hins nýja efnahagskerfis. Markmiðið var í stuttu máli sagt viðreisn atvinnulífsins, verðbólgustöðvun og efnahagslegt jafnvægi, þ .á. m. verndun gjaldmiðilsins. Þessum göfuga og margþætta tilgangi skyldi náð eftir leiðum, sem færustu efnahagssérfræðingar höfðu markað. Þessi boðskapur var því ekki fluttur sem venjuleg stjórnmálastefna, heldur miklu fremur sem hagfræðilegur rétttrúnaður. Viðreisnarstefnan hófst eins og krossferð gegn villutrú þeirra, sem efuðust um, að íslenzka efnahagskerfið yrði alfarið vegið á sömu vog og efnahagskerfi iðnaðarstórveldanna.

Frá því er skemmst að segja, að reynslan hefur sýnt, að viðreisnarráðstafanirnar voru ekki þeim kostum búnar, sem höfundar þeirra og talsmenn vildu vera láta. Hinum göfugu markmiðum um viðreisn efnahags- og atvinnulífs hefur ekki verið náð, heldur hefur þróunin orðið alveg hið gagnstæða. Verðbólgan hefur vaxið mjög ört allan viðreisnartímann og gengi krónunnar hefur verið svo óstöðugt, að leitt hefur til endurtekinna gengisfellinga. Þetta tvennt ætti að vera nægileg ábending um haldleysi viðreisnarstefnunnar, því að vitanlega verður ríkisstj. hvað helzt dæmd eftir því, hvernig henni farnast, að því er tekur til verðlagsþróunar og gengismála.

En stærsti áfellisdómurinn er þó ástandið í atvinnumálunum. Sú stefna, sem upphaflega var sagt að ætti að treysta grundvöll atvinnuveganna, hefur í reynd orðið til þess að grafa grundvöllinn undan þeim. Íslenzkt atvinnulíf verður nú að súpa seyðið af þessari 8 ára tilraunastarfsemi, sem stofnað var til á röngum forsendum og misskilningi á því, hvað hentaði íslenzku atvinnulífi. Skakkt mat á hagsmunum frumatvinnuveganna og hins unga íslenzka iðnaðar, hefur leitt til þess vandræðaástands, sem endar nú í ógöngum gengisfellingar. Ríkisstj. hefur lagt höfuðkapp á að halda uppi svonefndri frjálsri innflutningsstefnu, sem á undanförnum veltiárum hefur leitt til meira álags á gjaldeyrissjóði en þeir reyndust færir um að þola, þegar nokkuð dró úr sjávarafla og verðlagshækkunum. Verzlunarfrelsi af því tagi, sem ríkisstj. hefur hallazt að og barizt fyrir af meiri ákafa en skaplegt má telja, veldur litlu eða alls engu um varanlegan hagvöxt á Íslandi, en hefur hins vegar orðið bein orsök að fáránlegustu eyðslustefnu og gjaldeyrissukki, sem enn er reynt að viðhalda með erlendum lántökum, þegar eiginn gjaldeyrir þjóðarinnar er á þrotum. Það er framleiðslan til landa og sjávar, atvinnulífið í landinu og afkoma frumatvinnuveganna, sem bera uppi lífskjörin á hverjum tíma, en ekki milliliðastarfsemi. En það er eitt af einkennum stjórnarfarsins undanfarin ár, að milliliðastarfsemin hefur blómstrað, fjármagnið hefur leitað í stríðum straumum inn í verzlunina, fyrst og fremst gróðavænlega einkaverzlun og spákaupmennsku, en framleiðsluatvinnuvegirnir hafa verið í fjármagnssvelti. Stefnan í innflutningsmálunum hefur einkum haft óheillavænleg áhrif á þróun innlends iðnaðar, hún hefur kippt fótunum undan fjölmörgum einstökum iðngreinum og átt þátt í að draga úr almennum vexti iðnaðarins. Slík þróun er skaðvænleg, því að innlendur iðnaður er tiltölulega ný atvinnugrein og þarf enn um skeið sérstakrar verndar við. Vissulega er ísl. iðnaður ekki annmarkalaus og stenzt ekki í öllum greinum harða gagnrýni um fjölbreytni og vörugæði. En hann er sá atvinnuvegur, sem flestum veitir fasta, og trygga atvinnu. Það er að langmestu leyti iðnaðinum að þakka, að hægt hefur verið að taka á móti hinni öru fólksfjölgun í landinu, en íbúatalan hefur tvöfaldazt á um það bil þremur áratugum. Þjóðinni hefur fjölgað úr 100 þús. manns í 200 þús. manns á þessum tíma. Án innlends iðnaðar hefði þessi fólksfjölgun tæpast getað átt sér stað og næstum víst, að mikill hluti fólksaukningarinnar hefði neyðzt til að flytjast úr landi og setjast að með öðrum þjóðum, líkt og átti sér stað um og eftir aldamótin, þegar fólkið streymdi þúsundum saman til Vesturheims. Slík þróun á sér stað á Írlandi enn í dag og annars staðar, þar sem lítið er hlúð að innlendum iðnaði og atvinnuframtaki landsmanna sjálfra, en í þess stað mænt upp á útlenda forsjá og erlent auðmagn.

Hlutlaus dómur um stjórnarstefnuna undanfarin ár mundi án minnsta efa leiða til þeirrar niðurstöðu, að öll meginmarkmið hennar í efnahagsmálum hefðu brugðizt. Það væri verðugt verkefni fyrir fræðimenn að útskýra, hvers vegna hagstjórnartæki viðreisnarinnar og grundvallarkenningar boðbera hennar hafa brugðizt svo gersamlega eins og raun ber vitni. Mætti gjarna hugsa sér, að viðskm.- og menntmrh. beitti sér fyrir því, að góðir og hæfir hagfræðingar hlytu sérstakan fjárhagsstyrk til þess að rannsaka sögu viðreisnarinnar og áhrif hennar á íslenzkt efnahagsog atvinnulíf.

Núv. ríkisstj. hefur að baki sér mjög nauman meiri hluta á Alþ. Þennan meiri hluta fékk hún í síðustu kosningum út á þann málflutning sinn, að hún ætlaði að halda áfram verðstöðvun þeirri, sem hún kom á í nóv. í fyrra. Þessi málflutningur var blekkingin uppmáluð og er það sízt í samræmi við lýðræðislegar leikreglur, sem hæstv. menntmrh. þykist kunna öðrum mönnum betur skil á. En hrekklaus almenningur varaði sig ekki á henni, þessari blekkingu, og varð til þess að trúa orðum stjórnarherranna. Vitanlega sáu allir, sem fylgdust með þróun mála, að atvinnu- og efnahagslífið var helsjúkt og verðstöðvunin gat ekki haldið áfram með þeim hætti, sem forustulið stjórnarflokkanna vildi vera láta. Nú er það líka komið í ljós, að ríkisstj. hefur allan tímann stefnt að gengisfellingu og talið hana óumflýjanlega og notar fyrsta tækifærið, sem gefst, til þess að koma henni á. Með öllu er óvíst, hverjar hliðarráðstafanir eiga að fylgja gengislækkuninni. Ríkisstj. hefur enga viðhlítandi grein gert fyrir því, hvað ætla má, að kjaraskerðingin verði mikil hjá almenningi, hjá aldraða fólkinu, hjá öryrkjunum, hjá sparifjáreigendunum. Á þetta hafa hæstv. ráðh., sem hér hafa talað í kvöld, ekki minnzt aukateknu orði. Það eitt er víst, að kjaraskerðingin verður mikil, enda strax farið að auglýsa verðhækkanir ofan á þær hækkanir, sem urðu á matvörum fyrir skömmu. Gengislækkunin er fyrst og fremst talin gerð vegna atvinnuveganna, en ekki liggur fyrir nein áreiðanleg greinargerð um það, hver áhrif hennar verða á einstakar atvinnugreinar. Á það hafa hæstv. ráðh., sem hér hafa talað í kvöld, ekki minnzt einu orði fremur en annað, sem máli skiptir í þessum umr.

Grengislækkunin hlýtur að hafa mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs og afgreiðslu fjárlaga. allan þann tíma, sem gengislækkunarmálin hafa verið til umr. á Alþingi og í dagblöðum, hefur ekki aukatekið orð verið sagt um það, hver ríkisstj. telji að þessi áhrif muni verða. Það er t.d. alls óvíst, að tollar verði lækkaðir, og óvíst, að söluskatturinn verði skertur. Margt bendir hins vegar til þess, að ríkisstj. hugsi sér að gera gengislækkunina að sérstakri gróðaleið fyrir ríkissjóð.

Miðað við alla málavexti, hin fálmandi tök ríkisstj. að undanförnu, ósamhljóða yfirlýsingar hennar og glatað traust hennar hjá almenningi, þá staðreynd, að ríkisstj. hefur ekki áhrifavald né getu til þess að koma í veg fyrir stórfelldar vinnudeilur innan tiltölulega stutts tíma, allt þetta og ótal margt fleira staðfestir þá skoðun, að ríkisstj. beri að leggja niður völd. Það er nauðsynlegt að leita nýrra leiða í því skyni að auka áhrifavaldið að baki þeim úrræðum, sem gera þarf til raunverulegrar viðreisnar íslenzku atvinnu- og efnahagslífi. Sé þess ekki kostur að mynda víðtæk samtök áhrifaafla þjóðfélagsins án undangenginna nýrra kosninga, tel ég ekkert eðlilegra en að alþingiskosningar fari fram á næsta ári og þess freistað að rjúfa þá sjálfheldu, sem íslenzk stjórnmál eru óneitanlega í. — Góða nótt.