07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (2791)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég er hræddur um, að það geti orðið nokkurt álitamál, hver helzt eigi að biðja afsökunar á málflutningi sínum, bæði hér í þessum umr. og undanfarna daga. Það var næsta broslegt að heyra hv. þm. Ólaf Jóhannesson hneykslast yfir því, að ríkisstj. hefði ekki á síðustu árum haft forgöngu um að leggja til hliðar hluta hins háa verðs sjávarafurða til að mæta vandanum nú. Vissulega hefði þetta verið æskilegt, en hv. þm. má ekki gleyma því, að flokkur hans hefur allra flokka harðast stutt alla kröfugerð á hendur útgerðinni undanfarin ár. Hvað ætli Tíminn hefði kallað það ef ríkisstj. hefði tekið þetta fé úr umferð? Við getum gert okkur í hugarlund þau viðbrögð þegar við skoðum afstöðu Framsóknar til gjaldeyrisvarasjóðsins.

Þá reyndi hv. þm. að rangfæra ummæli Alþýðublaðsins um yfirlýsingar tveggja ráðh. um gengislækkun og talaði í því sambandi um slæmt síðferði, sem Framsfl. væri óskiljanlegt. Í Alþýðublaðinu var sagt, að ráðh. hafi vitað að gengislækkun kynni að verða. Er það sama og að segja, að þeir hafi vitað að hún stæði nú fyrir dyrum?

Í fjárlagaræðu minni í haust benti ég á, að við Íslendingar gengjum nú undir örlagaríka prófraun sem ekki ætti að vera okkur ofætlun að standast, en mundi þó reyna á það hvort góðæri og velmegun hefði slævt manndóm okkar og getu til að standast erfiðleika. Þegar ég mælti þessi orð var að vísu gert ráð fyrir, að síldveiði brygðist ekki og vandinn því minni en hann reynist í dag. En það rýrir ekki mikilvægi þessa prófs sem forsendur vel­ sældar okkar eða ógæfu á komandi árum. Fyrsta skilyrðið til þess að falla ekki á prófi er að skilja spurningarnar, sem fram eru bornar, og síðan að sjálfsögðu að geta svarað þeim rétt. Ef við ekki leggjum okkur fram um að skilja eðli þess vanda, sem nú er við að fást, tökum hann ekki réttum tökum frá byrjun erum við að safna í fjórðu gengislækkunina, eins og formaður Framsfl. sagði í gærkvöld, og því miður leiddi málflutningur hans í ljós, að þeir framsóknarmenn ætla ekki að verða smátækir í framlögum í þá söfnun. Þótt gengislækkun sé óhjákvæmileg eins og á stendur, er það einmitt prófraun okkar nú, að bregðast með þeim hætti við gengisbreytingunni og tileinka okkur þau viðhorf í efnahagsmálum, að til frekari gengisfellingar íslenzku krónunnar þurfi ekki að koma. Þetta getum við vissulega gert, ef við kunnum að draga réttan lærdóm af reynslu okkar síðustu áratugi. Í því efni hvílir sú skylda vitanlega á ríkisstj. að hafa ákveðna og trausta forustu en reynslan hlýtur að hafa fært okkur heim sanninn um það að í okkar Iitla þjóðfélagi, sem er margfalt viðkvæmara fyrir hverri truflun á efnahagsstarfseminni en hin stærri þjóðfélög, er heilbrigð efnahagsþróun vonlaus nema einnig komi til skilningur og jákvæð viðhorf allra helztu hagsmunahópa og þjóðfélagsstétta. Niðurrifsstarfsemi og viðleitni til þess að skapa efnahagslega upplausn má ekki vera aðalvopn stjórnarandstöðu gegn ríkisstj., heldur verður barátta stjórnarandstöðu að beinast að því að veita ríkisstj. aðhald og leita eftir trausti þjóðarinnar með jákvæðri stefnumörkun.

Á síðustu árum hafa mikilvæg spor verið stigin í þá átt að veita hlutlæga fræðslu um eðli efnahagsmála. Er þar mikilvægast starf Efnahagsstofnunarinnar, sem með aðstoð annarra stofnana, svo sem Hagstofu og hagdeildar Seðlabankans, hefur lagt grundvöll að upplýsingakerfi um hag atvinnuveganna og þróun þeirra, er óhugsandi hefði verið fyrir fáum árum. Með stofnun kjararannsóknarnefndar hefur verið komið á mikilvægu samstarfi milli launþega og vinnuveitenda, og loks hefur með stofnun hagráðs verið fundinn vettvangur fyrir skoðanaskipti ríkisvalds, stjórnmálaflokka og stéttarsamtaka á grundvelli skýrslugerðar Efnahagsstofnunarinnar. Með þessari nýju starfsemi að upplýsingasöfnun um hag atvinnuveganna, sem ríkisstj. hefur lagt sig fram um að efla og styrkja, hefur verið lagður grundvöllur að því, að stéttarsamtök geti aflað sér nauðsynlegrar þekkingar á eðli efnahagsmálanna, og stöndum við því einmitt nú mun betur að vígi en áður að mæta viðfangsefnunum á réttan hátt. Það er að vísu eðli efnahagsmála, að leiðirnar til úrlausnar þeim eru mismunandi eftir því markmiði, sem þeim er ætlað að ná. En það er ekki lengur auðið að bera á borð margvíslegar fullyrðingar um ástand og þróun efnahagsmála, sem stundum hefur verið uppistaða í deilum um þessi vandamál.

Núverandi stjórnarflokkar hafa samfellt farið með stjórn landsins í 8 ár, sem er lengsta stjórnartímabil frá stofnun innlendrar stjórnar, og hafa þeir hlotið traust meiri hluta þjóðarinnar í þrennum kosningum. Það er því út af fyrir sig ekkert að undrast, þótt stjórnarandstæðingar geri nú enn eina tilraun til þess að koma stjórninni frá, ekki sízt framsóknarmenn sem alltaf hafa kunnað illa við sig utan valdastóla. Það er heldur engin nýjung að heyra úr þeirri átt, að ríkisstj. hafi mistekizt allt og hún hafi raunar lagt sig fram um það annað hvort af fákunnáttu eða þá mannvonzku að valda vandræðum í þjóðfélaginu. Sérstaklega á ríkisstj. að vera umhugað um að valda atvinnuvegunum erfiðleikum og níðast á verkalýð og bændum, og auk þess eiga sérfræðingar hennar annað hvort að vera jafnillgjarnir og ríkisstj, eða þá svo fákunnandi um eðli vandamálanna, að allt gangi á tréfótum. Kaupgjaldið á ekki að skipta. neinu máli fyrir hag atvinnuveganna. hvað þá heldur stórfelldasti tekjusamdráttur þeirra um áratugi, heldur er eini ógæfuvaldurinn verðbólga, sem ríkisstj. ein á að eiga sök á. Það er sannarlega ekki að undra, þótt umhyggjusamir föðurlandsvinir vilji koma slíkum óhappamönnum frá völdum. Þessum dómum stjórnarandstæðinga er þarflaust að svara. Öll þjóðin veit, hvað hefur gerzt síðustu 8 árin Jafnvel forustumenn stjórnarandstöðunnar viðurkenna, að þetta hafi verið mesta framfaraskeið í sögu þjóðarinnar og lífskjörin aldrei verið betri og jafnari. Undraverð afrek hafa verið unnin á þessum árum í alhliða uppbyggingu í þjóðfélaginu. Auðvitað verða mörg mistök, þegar slíkur framkvæmdahraði og velmegunaralda gengur yfir, og ekki alltaf auðvelt að fá menn til að þræða hinn gullna meðalveg. En það eru vægast sagt einsýnir menn, sem ekkert sjá nema gallana á þessari stórfelldu uppbyggingu. Þótt margri krónunni hafi verið eytt í fánýti, hefur á tímabili fyrstu fjögurra ára framkvæmdaáætlunarinnar 24 þús. millj. á verðlagi ársins 1966 verið varið til margvíslegrar fjármunamyndunar, fyrst og fremst í undirstöðuatvinnuvegunum. Tekizt hefur að tryggja síðustu árin samfelldari vinnufrið en áður og fá stéttarsamtök til ábyrgs samstarfs við ríkisvaldið sem fært hefur launþegum mun meiri kjarabætur en hin gamla verkfallastefna. Framhald þeirrar samvinnu er ein veigamesta forsenda þess, að farsællega takist að leysa þann vanda, sem nú er við að glíma.

Því miður hafa ýmsir áhrifamiklir leiðtogar stjórnarandstöðunnar lagt sig fram um að spilla þessu samstarfi og óspart storkað forustumönnum launþega og bænda til að dáta óbilgirnina ráða. Það er rétt, að ríkisstj. hefur ekki tekizt að hafa nægilegan hemil á verðbólgu. En það er rangt, að hún hafi síðustu árin vaxið hraðar en áður. Það er einnig rangt, að stjórnarstefnan hafi stuðlað að verðbólgu. Þvert á móti hefur meginstefnan í fjármálum og peningamálum, binding sparifjár, vextir og myndun gjaldeyrisvarasjóðs, stuðlað að jafnvægi og til að draga úr ofþenslu. Þessar hagstjórnaraðferðir eru notaðar í öllum þróuðum löndum til að vinna gegn verðbólgu, en fyrir fátt hefur ríkisstj. verið meira skömmuð af andstæðingum sínum. En það er á þessu sviði sem öðrum, að eitt rekur sig á annars horn hjá þeim herrum. Ýmist hefur ríkisstj. verið ásökuð fyrir óhefta fjárfestingu eða fyrir að veita ekki miklu meira lánsfé til fjárfestingar, eftir því sem hentara er að halda fram í það og það skiptið Og í ræðu sinni í gærkvöld lét formaður Framsfl. sig hafa það að bera báðar þessar ásakanir fram samtímis. Kaupgjald á ekki að hafa minnstu áhrif til verðbólgumyndunar eða valda atvinnuvegunum erfiðleikum, en þó lét vinstri stjórnin það vera sitt fyrsta verk að taka af launþegum 6 vísitölustig og hrökklaðist frá völdum, af því að verkalýðssamtökin féllust ekki á að gefa eftir 17 vísitölustig til viðbótar. Hækkun á útgjöldum ríkissjóðs er fordæmd af stjórnarandstæðingum, en samtímis flytja þeir nýjar útgjaldatill., sem á undanförnum 8 árum nema samtals ekki hundruðum millj. heldur milljörðum. Talað er um sukk hjá ríkissjóði þó án þess að vísu að benda á nokkra leið til sparnaðar En það er þó fyrst í tíð þessarar stjórnar, að tekin hafa verið upp skipulögð vinnubrögð til þess að koma á meiri hagkvæmni í ríkisrekstrinum og betri hagnýtingu framkvæmdafjár. Ein höfuðsök ríkisstj. á að vera sú að hafa ekki skipulagt betur framkvæmdir í landinu Og það á að vera helzta úrræði hinnar leiðarinnar að raða framkvæmdum. Það er þó fyrst í tíð núverandi stjórnar, að tekið er að gera framkvæmdaáætlanir og lánsfé til framkvæmda fyrst og fremst beint að lánasjóðum atvinnuveganna í samvinnu við bankana. Þannig má lengi telja mótsagnakenndar fullyrðingar stjórnarandstæðinga.

Það er stjórnarflokkunum sannarlega ekkert gleðiefni að hafa þurft að standa að þremur gengislækkunum á 8 árum, og okkur er fullkom­ lega ljós nauðsyn þessa, að svo má ekki áfram ganga. Það er auðvitað alrangt, að stjórnarstefnan hafi valdið þessum gengislækkunum. Gengislækkunin 1960 var óhjákvæmilegt uppgjör á þrotabúi vinstri stjórnarinnar. Gengisbreytingin 1961 var afleiðing af ótímabærri kröfugerð á hendur atvinnuvegunum. Gengisbreytingin nú er aftur á móti af öðrum toga spunnin. Hún er afleiðing hins mikla samdráttar í tekjum útflutningsframleiðslunnar, sem gerir óumflýjanlega verulega tilfærslu fjármagns til atvinnuveganna, ef framleiðslan á að geta gengið með eðlilegum hætti. Hefði sjávarútvegurinn ekki orðið fyrir þessu mikla áfalli, hefði ekki þurft að grípa til svo róttækra aðgerða.

Það er eftirtektarvert við þessar umr., að ekki örlar á réttum skilningi framsóknarmanna á neinu veigamiklu atriði þeirra vandamála, sem við er að glíma. Að því leyti, sem auðið er að átta sig á skoðunum þeirra, sýnast þeir staðnaðir í kenningum, sem engu þróuðu þjóðfélagi dettur í hug að fylgja nú á dögum. Meira að segja hv. þm. Magnús Kjartansson sem annars er ekki sérstakur unnandi okkar lýðræðisskipulags, sýndi mun meiri skilning á eðli vandamálanna, þótt rynni út í fyrir honum, þegar hann ræddi um erlent fjármagn og aðild að EFTA, og hann teldi ríkisafskipti allra meina bót. Þá viðhafði hann þau mjög svo réttu ummæli um eðli verðbólguvandamáls okkar, að orsökin væri sú, að þótt við byggjum í harðbýlu landi, hefðum við sett okkur það mark að halda í við mildu ríkari þjóðir. Þetta er laukrétt. Við heimtum betri lífskjör en jafnvel háþróaðar iðnaðarþjóðir, og fullyrða má, að engin þjóð sem býr við jafneinhæft atvinnulíf og við búi við eins góð lífskjör. Að auki hefur svo síðustu árin hinn mikli munur á greiðslugetu einstakra þátta framleiðslunnar verulega magnað vandann. Stórhækkað verðlag erlendis hefur að verulegu leyti leyst kostnaðarauka einstakra þátta útvegsins, en kauphækkunum í landbúnaði, iðnaði og þjónustugreinum hefur ekki tekizt að mæta með aukinni framleiðni, heldur hefur þeim verið velt yfir í verðlagið. Þess vegna hafa menn ekki viljað una öðru en fá til skipta jafnóðum allan hinn óvenjulega tekjuauka þjóðarbúsins síðustu árin. Þess vegna neyðast menn einnig til þess að bíta nú í það súra epli að mæta með almennri kjaraskerðingu áföllum atvinnuveganna nú, þar eð þeir hafa enga varasjóði upp á að hlaupa.

Eftirtektarverðust var þó sú játning hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar í gærkvöld, að orsök þess, að stjórnarandstæðingum yrði ekki meira ágengt, væri sú, að þá skorti skilning á brýnustu viðfangsefnum. Þessar umr. hafa glöggt leitt í ljós, að þessi hreinskilnislega yfirlýsing á enn við því að þótt ætlazt sé til, að Alþ. víki núv. ríkisstj. frá völdum, hafa stjórnarandstæðingar ekki gert nokkra tilraun til að gegna þeirri sjálfsögðu skyldu að tilgreina, hvernig þeir ætli að leysa vandann, ef þeim væri fengin forusta. Þeir flokkar, sem vilja koma ríkisstj. frá og telja starf hennar og stefnu leiða til ófarnaðar, hljóta að verða krafðir svars um það hvernig þeir ætli að tryggja landinu stjórn og hvernig eigi að leysa vandamálin á réttan hátt. Eða eiga menn að trúa því, að á hinum alvarlegustu tímum, þegar við er að fást örlagarík vandamál, sé aðeins verið að sviðsetja skrípaleik í trausti þess, að till. verði felld?

Þótt prófraunin sé töluvert erfið og almenn kjaraskerðing verði ekki umflúin um sinn, er ástæðulaust að kvíða framtíðinni, ef viðfangsefnunum er mætt af þjóðhollustu og skilningi. Umfram allt verða menn að gera sér ljóst, að hér er ekki um sérhagsmuni ríkisstj. að tefla, heldur veigamikla hagsmuni allrar þjóðarinnar, sem krefjast þess, að allir leggi sitt af mörkum til þess að stuðla að happasælli lausn, sem geri þeim fyrst auðið að jafna metin á ný og halda öruggum skrefum fram til nýrra lífskjarabóta.

Ríkisstj. er ljóst, að miklar kröfur hljóta að verða til hennar gerðar um að reyna eftir föngum að dreifa lífskjaraskerðingunni sem réttlátast, svo að hún verði ekki meiri en brýnust þörf krefur. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson nefndi í gærkvöld nokkur atriði, er hann taldi brýnt að taka til athugunar í þessu sambandi. Ég hef ekki tíma til að ræða hvert einstakt þeirra atriða, en öll voru þau þess eðlis, að sjálfsagt er að gefa þeim gaum, enda flest þeirra í athugun. Hann vakti einnig athygli á þeim staðreyndum, að ef allir fengju fullar bætur, væri gengislækkun tilgangslaus, og veigamest væri að leggja áherzlu á, að halda dýrtíð í skefjum og tryggja, að gengisbreytingin kæmi atvinnuvegunum að varanlegu gagni. Þetta vill ríkisstj. leggja sig fram um að gera. En ég vek enn athygli á því, að við búum í litlu þjóðfélagi með svo veikt ríkisvald, að stjórn efnahagsmála verður alltaf að verulegu leyti undir viðbrögðum stéttarsamtakanna komin. Því teljum við óraunhæft að banna kauphækkanir, heldur verði að treysta því, að árangur gengisbreytingarinnar verði ekki eyðilagður með ótímabærum kaupkröfum. Þótt verðtrygging launa hafi um sinn verið felld úr lögum, er það ekki til frambúðar, heldur eðlilegt, að verðtrygging verði aftur upp tekin eftir að áhrif gengisbreytingarinnar eru fram komin.

Þótt verðlagseftirlit sé ekki æskilegt á venju­ legum tímum, verður ekki komizt hjá að beita. á næsta ári ströngu verðlagseftirliti og leggja

kapp á að tryggja það að engir hagnist óeðlilega á gengisbreytingunni eða hún leiði til spákaupmennsku og brasks. Leggja verður áherzlu á að gæta í hvívetna hagsýni og sparnaðar í ríkisrekstrinum. Síðast en ekki sízt verður að leita allra úrræða til þess að gera rekstur atvinnufyrirtækja sem hagkvæmastan og á það jafnt við í sjávarútvegi, iðnaði, landbúnaði og verzlun. Við megum ekki búast við, að verðlag útflutningsvara okkar hækki á næstunni í það, sem var á árunum 1965—1966. Og því þarf að leggja megináherzlu á betri nýtingu og hagræðingu í rekstrinum. Ýmis vinnubrögð við uppbyggingu fyrirtækja og fjárráðstafanir þarfnast vissulega einnig endurskoðunar og breytinga. Við verðum að ná þeim samningum við efnahagsbandalögin, að verndartollar þeirra valdi okkur ekki varanlegri kjaraskerðingu. Við verðum að halda áfram að finna fleiri stoðir til að skjóta undir atvinnulíf okkar. Vonandi hafa menn einnig lært nægilega af reynslu síðustu ára til þess að koma á því verðtryggingakerfi fyrir sjávarútveginn er geti jafnað hinar óheppilegu verðsveiflur og gert þessum atvinnuvegi kleift að taka við tímabundnum aflabresti án þess að samstundis þurfi að grípa til kjaraskerðingar.

Um þessi viðfangsefni öll verðum við nú að sameina krafta okkar Nú er ekki stund ævintýramennsku eða til að reyna að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum með því að efna til úlfúðar og vandræða. Það er hægt að þrátta og karpa og kenna hver öðrum um þetta eða hitt, þegar um hægist. En við verðum að eiga þann þroska að standa saman þegar þjóðarhagur er í veði. Ef það stuðlaði að lausn vandans, að ríkisstj. færi frá völdum, væri það sjálfsagt. En hver trúir því, að það sé leiðin út úr erfiðleikunum, eftir að hafa hlýtt á þessar umr.? Næstu mánuðir verða erfiðir, en það er ástæðulaust að kvíða framtíðinni, ef rétt er á málum haldið Væri ekki heppilegt, að við reyndum öll til tilbreytingar að tileinka okkur þann hugsunarhátt, sem Kennedy Bandaríkjaforseti túlkaði í innsetningarræðu sinni, er hann sagði:

„Við eigum ekki að spyrja: Hvað getur þjóðfélagið gert fyrir mig, heldur: hvað get ég gert fyrir land mitt?“