07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur Jóhann Hafstein var hér enn einu sinni að vitna í gjaldeyrissjóðinn. Sá sjóður er nú svo samanskroppinn, að hann dugar rétt rúmlega til að mæta erlendum lausasku3dum, sem myndazt hafa á viðreisnartímanum. Það er nú allur árangurinn af góðærinu.

Hæstv. ráðh. hafa verið að segja hér, að menn greindi á um orsakir gengisfellingarinnar Þetta held ég, að sé ekki rétt, nema að mjög litlu leyti. Því hefur verið haldið fram án mótmæla, að um það bil fimmtungur hennar eigi rætur sínar að rekja til þess, að sterlingspundið var fellt hinn 18. þ.m. Að öðru leyti var lækkunin framkvæmd fyrst og fremst til að jafna þann halla, sem verðbólguþróun undanfarandi ára hafði komið á atvinnuvegina. Um þetta eru að minnsta kosti flestir sammála. Þegar vel gekk, stóð ekki á að eigna sér það Nú segir hæstv. utanrrh., að stjórnarstefnan eigi mjög óverulegan þátt í því, sem gerzt hefur. Það er raunar fleira en lækkun gengis, sem læra má af Bretum. Í kvöld var frá því skýrt, að fjmrh. James Callaghan hefði sagt af sér embætti vegna þess. að áður en pundið var fellt, hafi hann blekkt svo marga með því að afneita gengislækkun fram á síðustu stund. Geta nú ekki einhverjir hér lært eitthvað af þessu? Eða eru íslenzkir ráðh. kannske upp yfir svona siðareglur hafnir? Þegar gengið hefur verið fellt áður, meira að segja í tíð núv., stjórnarflokka, hafa jafnan verið gerðar ýmsar ráðstafanir til að tryggja, að skaðleg áhrif gengislækkunar yrðu sem minnst, það ranglæti, sem alltaf vill sigla í kjölfar þessarar hallærisráðstöfunar, yrði eins lítið og frekast er kostur Nú er þessi háttur ekki á hafður. Nú er gengislækkunin ákveðin einhliða. Lagasetning hefur að vísu verið boðuð en engar upplýsingar fást um efni hennar. Þau l., sem fram að þessu hafa verið sett, eru síður en svo líkleg til að hafa áhrif í framangreinda átt, eins og ég mun sýna.

Lögfest hefur verið að sú verðlagsuppbót, sem launafólki er ætluð fyrir allri þeirri verðhækkun sem orðið hefur síðan 1. ágúst, eigi aðeins að verða 3.4%. Þetta er gert með því að taka upp nýjan vísitöluútreikning, sem launþegum er til muna óhagstæðari en sá gamli, að minnsta kosti í fyrstu lotu. Þessi 3.4% verða að nægja til að bæta upp þá stórfelldu verðlagshækkun sem leiðir af því, að í okt. s.l. voru stöðvaðar niðurgreiðslur á ýmsum landbúnaðarvörum, sem námu hvorki meira né minna en 410 millj, kr. Auk þess eiga þær að standa undir fjölmörgum hækkunum öðrum, sem orðið hafa á umræddu tímabili, Þessi rök hafa því engin áhrif í þá átt að draga úr áhrifum gengislækkunarinnar á kjör launafólks. Þau eru aðeins til að mæta þeirri kjaraskerðingu, sem orðin er þegar af öðrum ástæðum, og hrökkva þó hvergi nærri til. Hagspekingar stjórnarinniar hafa áætlað 7% verðhækkun vegna gengisfellingarinnar, en flestir aðrir telja víst, að hún verði miklu meiri. Engar upplýsingar fást um það, hvernig þessi tala sé fundin.

Undanfarna daga hafa margar tilraunir verið gerðar til þess hér á Alþ. að fá að vita, eitthvað um það, hvaða hliðarráðstafanir séu ráðgerðar, en hæstv. ráðh. verjast allra frétta og rembast við að þegja. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson sem í ræðu sinni í gærkvöld vitnaði jöfnum höndum í Bergþóru Skarphéðinsdóttur og Sigurð Ingimundarson leyfði sér að gagnrýna þm. stjórnarandstöðunnar fyrir það að spyrja um fyrirhugaða framkvæmd þessara mála. Þjóðin á þó ótvíræðan rétt á slíkum upplýsingum. Gengislækkun er ekkert einkamál ráðh., og mig furðar á því, að Bragi Sigurjónsson og aðrir þm., stjórnarflokkanna skuli ætla að votta þeirri ríkisstj. traust, sem virðir Alþ. ekki einu sinni svars, þegar örlagaríkustu mál þjóðarinnar eru rædd. Það er fyrst nú í kvöld, að því brá fyrir hjá einum stjórnarþm., Jóni Þorsteisyni, og raunar hjá hæstv., dómsmrh. líka, að líklega þurfi nú að huga að einhverjum þeirra atriða, sem stjórnarandstæðingar hafa verið að klifa á að undanförnu En allt var það þó mjög loðið

Í l., sem samþ. voru í gær, er fleira en það sem nú hefur verið talið. Þar er jafnframt ákveðið að rofin skuli tengslin milli kaupgjalds og verðlags og þar með niður felld sú eina trygging, sem launþegar hafa haft gegn því að kaffærast í verðbólguflóðinu. Hér eftir skal það vera samningsatriði milli verkalýðsfélaga og a,tvinnuveitenda, hvort verðlagsuppbætur á laun séu greiddar eða ekki. Það breytir vitanlega engu í reynd fyrir launþega, hver hluti af kaupi hans er kallaður grunnlaun og hver verðlagsuppbót. Eftir breytinguna verður launþeginn að sækja allan rétt sinn til atvinnuveitandans, ekki bara grunnkaupið eins og verið hefur, heldur afleiðingarnar af verðlagsþróuninni líka, og hljóta þá allir að sjá, hversu aðstaðan er stórum verri en áður. Halda menn þá, að svona aðgerðir séu til þess fallnar að bæta vinnufriðinn? Nei, áreiðanlega ekki, enda skýra forustumenn verkalýðsfélaganna nú frá því, að þeir hafi aðeins verið að fresta aðgerðum, þegar þeir aflýstu boðuðum verkföllum um daginn Baráttan er eftir, segja þeir, baráttan fyrir rétti launþeganna, og sú barátta verður auðvitað þeim mun harðari, sem ósamræmið er meira á milli kaupgjalds og verðlags.

Fram að þessu hefur mér yfirleitt virzt allir vera sammála um, að gengislækkun sé neyðarúrræði. T. d. sagði forsrh. ekki alls fyrir löngu að gengislækkun skapaði fleiri vandamál en hún leysti. En undanfarna daga hefur kveðið við nýjan tón í stjórnarblöðunum um þetta. Þess hafa víða sézt dæmi, og hér var minnzt á forustugreinina í Vísi s.l. laugardag, sem einna opinskáast hefur lýst þessari nýju hagspeki. Fyrirsögn greinarinnar, sem fjallaði um neyðarráðstöfun þá, sem gengisfelling nefnist, ber heitið „Birtir upp“, og efni hennar er að sanna, hversu gengislækkun sé allra meina bót, nýtt líf færist í atvinnufyrirtækin og nýir viðreisnartímar væntanlega á næsta leiti. En engin er rós án þyrna, og ríkisstj. hefur ekki komizt hjá því að stinga sig ofur lítið því að síðar í greininni segir orðrétt:

„Það er sjálfsagt gert gegn betri vitund sinni, að ríkisstj. leggur nú jafnframt fram lagafrv., þar sem gert er ráð fyrir, að vísitöluhækkanir fyrir 1. des. n.k. verði reiknaðar inn í laun eins og verið hefur undanfarin ár.“

Já, það er vafalaust gert gegn betri vitund hæstv. ráðh. að setja svona l., sem fela í sér hvorki meira né minna en 3,4% verðlagsuppbót á laun í landinu á sama tíma og erlendur gjaldeyrir er hækkaður í verði um 32.6%. Menn sjá af þessu hvernig hæstv. ríkisstj. vildi helzt hafa framkvæmt gengislækkunina. Hér sannast því enn hið fornkveðna, „að gera verður fleira en gott þykir“.

Hvernig skyldi svo ganga að standa við stóru orðin eins og t.d. það að þeir, sem knýja fram gengislækkun til þess að hagnast á henni, skuli fá að borga brúsann? Er það þá verkafólkið sem hefur knúið þessa gengis­ lækkun fram? Nei, kaupmáttur tímakaups hefur lítið sem ekkert vaxið á viðreisnartímabilinu. Eða kannske að það séu sparifjáreigendurnir? Tæplega mun það því að enginn tapar meira á þessu en einmitt þeir, sem hafa verið að reyna að spara saman á undanförnum árum. Hvað þá um opinbera starfsmenn og bótaþega trygginganna? Ef til vill hafa þeir knúið þessa breytingu fram? Illa hygg ég að ganga muni að færa rök að þeirri fullyrðingu því að þessir hópar hafa enga möguleika á að rétta hlut sinn, hafa ekki einu sinni samningsrétt hvað þá verkfallsrétt. Eða unga fólkið sem á að borga húsnæðislánin sín með verðlagsálagi, einnig eftir að uppbótin á kaupi þess hefur fallið niður. Hvað um það? Varla má það líklegt þykja, að hér séu þeir fundnir, sem mest hagnast á gengislækkun og fylgifiskum hennar. Nei, þetta er ekki fólkið sem knúði gengislækkunina fram. En þetta er fólkið sem verður að borga brúsann. Það er hins vegar augljóst mál, að gengislækkun þessi er m, a. knúin fram til þess að afla ríkissjóði tekna. Stjórnin gat ekki komið saman hallalausum fjárlögum, nema með því að leggja á enn þá nýja skatta. Gengislækkun án tollabreytinga eykur tekjur ríkissjóðs um mörg hundruð millj. Hér er því einn aðili fundinn, sem hagnast á breytingunni. Til þess að standa við stóru orðin, þó að ekki væri nema að hluta, ætti því ríkisstj. nú að stórlækka tolla og draga jafnframt úr útgjöldum ríkissjóðs. Það er lítið samræmi í því að krefjast fórna af almenningi, en auka fjárausturinn hjá því opinbera. Með endurskipulagningu ríkisrekstrarins má koma fram gífurlegum sparnaði. Þenslan í skrifstofubákninu þarf að hverfa, en hagsýni og ráðdeild að koma í staðinn Væri þetta gert, er einhver von til þess, að gengisfellingin verði atvinnuvegunum sú lyftistöng, sem vonazt er eftir, án þess að byrðar almennings þyrftu að verða óbærilegar Að öðrum kosti er vandséð hver ávinningurinn verður

Herra forseti. Þessum umræðum er nú lokið. Ég vona, að þær hafi orðið til þess að skýra að nokkru þau mál, sem rædd hafa verið fyrir hv. hlustendum. Lítill vafi er á því, að þm. Sjálfstfl. og Alþfl. muni verja ríkisstj. vantrausti í atkvgr. hér á eftir. En það er sannfæring mín að núna, þegar blekkingarhjúpnum frá í vor hefur verið burtu svipt og það liggur ljóst fyrir og staðfest, m.a. með játningu Alþýðublaðsins, að engum, engum var það ljósara þá en einmitt ráðherrunum Bjarna Benediktssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni, að gengislækkun var fram undan að þetta vantraust mundi ekki verða fellt af kjósendum, ef þeir hefðu atkvæðisrétt, heldur samþykkt með miklum meiri hluta,. — Góða nótt.