30.01.1968
Sameinað þing: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (2853)

53. mál, námskostnaður

Flm. (Ingvar Gíslason) :

Herra forseti Till., sem hér er til umr. er flutt af mér og 3 öðrum þm. Framsfl. Á undanförnum 2 þingum hafa þm. Framsfl. flutt till. til þál. um aukna fjárhagsaðstoð við námsmenn, og voru, þær till. að því leyti ýtarlegri en sú, sem við flytjum að þessu sinni, að í þeim var gert ráð fyrir mikilli eflingu námslánasjóðs, auk þess sem stefnt yrði að því að taka upp bein námslaun Var þá höfð hliðsjón af löggjöf, sem sett hefur verið í Svíþjóð og hefur verið í gildi þar í landi um 3 ára skeið. Það er stefna Framsfl. að vinna að því, að námsaðstoðarkerfið verði aukið að því marki, sem áðurnefndar till. gerðu ráð fyrir, þó að flutningsmenn afi með þessari till. valið þá leið að flytja aðeins hluta af málinu í heild, eins og það var fyrst fram borið Má með réttu segja. að hér sé um 2 að

skilin mál að ræða, þótt nátengd séu í eðli sínu Námslánasjóður er fyrst og fremst ætlaður háskólastúdentum, og verði námslaun upp tekin er líklegt, að þau yrðu í fyrstu að minnsta kosti bundin við langskólamenn einvörðungu.

Í sambandi við endurskoðun menntakerfisins, sem allir eru sammála um að beri að hraða sem mest, þá má sízt gleymast að taka allt námsstyrkjakerfið til nýrrar athugunar. þ.e. þær reglur, sem gilda um aðstoð hins opinbera við námsmenn. Vil ég nú endurtaka það sem ég hef áður sagt um þetta efni, að opinbera námsaðstoð þarf að efla sem óhjákvæmilegan lið í framtíðaruppbyggingu og nýskipan skóla og menntamála. Á því þarf að fást full viðurkenning bæði almennings og opinberra aðila að námsaðstoð verður að fara vaxandi, enda er hún í senn réttlætismál gagnvart námsmönnum og vandamönnum þeirra og beinlínis arðbær fjárráðstöfun fyrir ríkið Það er m.a. þjóðhagslegur ávinningur að stytta þann námstíma sem stúdentar verja til náms. Þess er auðvitað skylt að geta, að aðstoð við námsmenn eða stúdenta hefur aukizt að heildarkrónutölu undanfarin ár, en þá verður einnig að hafa í huga að stúdentafjöldinn vex frá ári til árs og þó engan veginn meira en við er að búast og námskostnaður fer einnig vaxandi, Ég skal því láta alveg ósagt um það hvort fjárhagsaðstoð á hvern námsmann hafi vaxið í raun svo að nokkru nemi, en slík viðmiðun gefur ekki síður rétta hugmynd um ástand þessara mála en sú, að miða við heildarupphæð námsaðstoðarinnar nú og áður. Það var ekki ætlun mín að ræða um þetta atriði sérstaklega eða þá aðstoð sem langskólanemendum er einkum ætluð eða yrði ætluð.

Sú tillaga, sem hér er til umræðu fjallar um það að skipuð verði mþn., sem geri till. um fjárhagslegan stuðning við nemendur á skyldunáms- og framhaldsskólastigum, sem óhjákvæmilega verða að vista sig til langs tíma utan heimila sinna vegna skólagöngu. Hér er um býsna mikið hagsmunamál að ræða sem allt of lítill gaumur hefur verið gefinn. Einkum er hér um að ræða hagsmunamál þeirra sem í sveitum búa og í dreifðum þorpum og kauptúnum okkar víðáttumikla lands, stöðum þar sem heimangöngu í skóla verður ekki við komið og nemendur verða því að vista sig til langs tíma utan heimila sinna. Er augljóst og öllum kunnugt, að það er mikill beinn útgjaldaliður fyrir sveitaheimili og önnur, sem líkt eru sett hvað snertir fjarlægð frá skólum, að þurfa að vista börn og ungmenni utan heimilis vegna skólagöngu. Á barnmörgum heimilum er þessi kostnaður afar tilfinnanlegur og veldur að sjálfsögðu mjög óhægri aðstöðu til þess að láta börn og unglinga njóta eðlilegrar skólagöngu. Hér er enn eitt dæmi um mikinn aðstöðumun í fræðslu- og skólamálum í landinu. En það er eitt hið brýnasta verkefni í fræðslumálum okkar, að jafna námsaðstöðu í landinu frá því sem nú er. Eitt hið áhrifaríkasta atriði í því sambandi er einmitt opinber aðstoð við greiðslu hins beina námskostnaðar, t.d. dvalar- og ferðakostnaðar nemenda.

Alkunna er, að nemendur í héraðsskólum og menntaskólum, svo að dæmi sé tekið sem sækja verða skóla langt að, oft í önnur héruð og aðra landsfjórðunga, verða fyrir tilfinnanlegum beinum fjárútlátum af þessum sökum. Það er allt önnur aðstaða að búa heima hjá sér og ekkert svipað því eins dýrt og að kosta sig til náms við þær aðstæður miðað við það að þurfa að vera að heiman og stunda nám marga mánuði ársins á fjarlægum stöðum. Það er erfitt að fullyrða mikið um það hversu hin ójafna námsaðstaða, m.a. að því er snertir námskostnað verður til þess að hindra unglinga á námsbrautinni. Ég get ekki sannað neitt um það með tölfræðilegum skýrslum. Hitt getur hver maður sagt sér sjálfur, að þessi ójafna námsaðstaða hlýtur að leggja stein í götu fjölmargra nemenda og gera þeim erfitt um að stunda nám og kemur beinlínis í veg fyrir oft og einatt, að unglingar geti stundað það nám, sem þá lystir. Þetta á einkum við um unglinga úr sveitum og þorpum og minni kauptúnunum, sem búa við ófullkomnari aðstæður í skólamálum en þéttbýlið býður almennt upp á. Ég held, að það sé alveg sérstakt hagsmunamál fyrir bændastéttina að þessi mál verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar.

Það gefur nokkra hugmynd um kostnað við námsdvöl utan heimila, að heimavistarkostnaður við Menntaskólann á Akureyri er áætlaður í vetur 3000 kr. á mán. Í þessari upphæð er fólginn fæðis- og þjónustukostnaður, en húsaleiga telst engin. Nú hef ég upplýsingar um það, sem ég tek mark á, að kostnaður við heimavistardvöl á Akureyri sé tiltölulega mjög lítill, en eigi að síður 3000 kr. fyrir nemanda á. mánuði eða nálægt 24 þús. kr. yfir veturinn. Þetta þykir ódýrt. Fyrir þá, sem ekki búa í heimavistinni, er kostnaðurinn miklu meiri. Algengt verð á herbergjum úti í bæ á Akureyri er 1000 kr. á mán., og fæði og þjónusta er áreiðanlega ekki ódýrari en gerist í heimavistinni, þannig að nemandi, sem ekki býr í heimavist, sleppur varla við minna en ca. 32 þús. kr. Þannig er þetta í Menntaskólanum á Akureyri. Ég hygg, að kostnaður við námsdvöl í Reykjavík sé miklu meiri en þetta. Ég minnist þess ekki, að nemendur almennra framhaldsskóla eða sérskóla eigi þar kost á heimavist, og má það þó vera. Dæmi veit ég þess, að unglingar utan af landi, sem stunda nám í Reykjavík í vetur, greiði sér til uppihalds 5000 kr. á mán. Í héraðsskólum er þessi kostnaður eitthvað breytilegur. S.l. vetur var heimavistarkostnaður í þeim skóla sem hafði minnstan kostnað, um 15 þús. kr., en í þeim, sem sýndi mestan kostnað, rúm 18 þús. kr. Meðaltalið liggur einhvers staðar þarna á milli. En þess ber að geta, að heimavistarkostnaður á yfirstandandi skólaári verður mun meiri. Þessi kostnaður fer vaxandi eins og annan

verðlag yfirleitt. Ég get sagt frá því vegna þess, að það er frásagnarvert í þessu sambandi, að skólamenn hafa orðið varir við tilfinnanlegan fjárskort hjá námsmönnum í vetur. Nemendur, sem að mestu eða öllu leyti verða að kosta nám sitt sjálfir af eigin vinnu­ tekjum, standa verr að vígi nú í vetur en oft áður. Þar segir til sín aðallega minnkandi atvinna hjá skólafólki. Nemendur, sem verða að vinna fyrir sér sjálfir, urðu að þola atvinnuleysi eða mjög stopula vinnu s.l. sumar. Þess vegna eru brögð að því í skóla, sem ég hef kynni af, að nemendur hafi sagt sig úr skóla vegna fjárskorts, en hugsað sér að lesa utan skóla, ef þeir flosna þá ekki alveg upp frá námi. Ég skal ekki fullyrða, hversu mikil brögð eru að þessu, en þessa eru dæmi. Í þessum hópi eru auðvitað fyrst og fremst þeir, sem verða vegna skólagöngu sinnar að vista sig til langdvalar utan heimila sinna. Þetta ástand minnir á kreppuárin og ástandið eins og það var fyrir 30—40 árum eða fyrr. Þá var algengt, að menn brutust í því að lesa utan skóla fyrir fátæktar sakir, og margir gerðu það með furðu góðum árangri, en yfirleitt er slíkt ástand hin alvarlegasta hindrun á vegi námsmanna. Það er að mínum dómi mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina, einkum sveitir og minni þorp, en einnig hina fjölmennari staði, að það mál, sem ég hef hér gert að umræðuefni, verði tekið til frekari athugunar og leyst með myndarlegum hætti. Ein áberandi ástæða til búferlaflutninga fólks utan af landsbyggðinni til Reykjavíkur og einnig til Akureyrar að vissu marki er sú, hversu dýrt er að senda börn og ungmenni að heiman til skólanáms, ekki aðeins sérskólaeða langskólanáms, heldur venjulegs gagnfræða- eða skyldunáms. Sérstaklega er það þungur baggi fyrir barnmargar fjölskyldur.

Herra forseti. Ég hef í sem fæstum orðum reynt að gera grein fyrir höfuðatriði þessa máls eða þeirrar till., sem hér er fram borin. Ég vænti þess, að málið fái þá athugun hér á hv. Alþ., sem mér finnst því beri, og till. nái fram að ganga. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr, og hv. allshn.