18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um ráðstöfun á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum, hefur verið til meðferðar í hv. Ed., áður en það er hingað komið. Sjútvn. beggja deilda héldu einn sameiginlegan fund um málið til þess að kynna sér efni frv., og á þeim sameiginlega fundi voru gerðar við það ýmsar aths. Ed.- n. hélt síðan áfram athugun sinni á málinu og átti viðræður um það við ýmsa aðila, sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við málið, og í framhaldi af þessu varð niðurstaðan sú, að í meðförum Ed. var frv. verulega mikið breytt frá því, sem það upphaflega var.

Þær breytingar, sem gerðar voru þannig á frv., voru að sjálfsögðu gerðar í samráði við þingflokka Alþfl. og Sjálfstfl. og þ. á m. auðvitað fulltrúa þessara flokka í sjútvn. þessarar hv. d., og var þessi háttur á afgreiðslu málsins um samstarf sjútvn. beggja d. á hafður að tilmælum hæstv. sjútvmrh. til þess að flýta afgreiðslu málsins í þinginu. Enda fór það svo, að eftir að frv. hafði verið breytt í verulegum atriðum, eins og ég sagði áðan, í hv. Ed., var það afgreitt þaðan með shlj. atkv. til þessarar d.

Þegar svo málið var komið til d. og sjútvn. fjallaði um það, varð hún aftur á móti ekki sammála um afgreiðslu málsins, eins og fram kemur á þskj. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. n., Lúðvík Jósefsson, Björn Pálsson og Jón Skaftason, hafa flutt við það brtt. og skila séráliti.

Við 2. umr. um málið í Ed. rakti frsm. sjútvn. þeirrar d., hv. 4. þm. Reykn., þær breytingar, sem gerðar voru á frv., og skal ég nú leyfa mér að rekja þær breytingar mönnum til glöggvunar í þessari hv. d. og styðst þá í aðalatriðum við ræðu hv. 4. þm. Reykn., sem hann flutti við 2. umr. í Ed.

Fyrsta breytingin, sem gerð var, er við a-lið 1. gr. og er eingöngu orðalagsbreyting til þess að gera skýrara það, sem þar stendur, að ekki sé aðeins átt við fiskvinnsluna, heldur einnig fiskveiðarnar, og þess vegna er sagt „við öflun og vinnslu“ í stað framleiðslu, eins og stóð í upphaflega frv.

Það sama gildir um aðra breytinguna, sem gerð var á frv. við 1. gr., a-lið. Þar er talað um flutningsgjald, en bent var á í þeim viðtölum, sem sjútvn. Ed. átti við þá aðila, sem hún ræddi við, að þarna gætu komið til fleiri útgjaldaliðir, svo sem vátryggingariðgjöld, gjöld til umboðsmanna erlendis og e.t.v. eitthvað fleira, og þess vegna var þess óskað, að þarna yrði bætt við vátryggingariðgjaldi og öðrum sambærilegum kostnaði.

Þá var c-lið einnig breytt til þess að koma til móts við tilmæli frá Félagi síldarverksmiðja á Suður- og Vesturlandi, sem óskaði þess, að Austur- og Norðurlandi væri ekki ívilnað og vildu, að þessi stafl. gæti einnig átt við verksmiðjur á Suður- og Vesturlandi. Þær verksmiðjur, sem þetta nær þannig til eftir breytinguna, hafa að vísu lítið verið reknar á því tímabili, sem þarna ræðir um, en þær sitja við sama borð og aðrar verksmiðjur eftir breytinguna, sem gerð hefur verið.

Við e-liðinn var einnig gerð breyting, sem eingöngu stafar af því, að hann var ekki talinn vera nægilega skýrt orðaður, og hygg ég, að enginn ágreiningur hafi verið um, að þörf væri á að breyta liðnum, þannig að hann væri betur skiljanlegur.

Þá er það f-liðurinn, sem skiptir þarna mestu máli. Samkomulag varð um að fella hann alveg niður, og er það ein veigamesta breytingin, sem gerð var á frv. í meðferð Ed.

Í sambandi við greiðslu á rekstrarkostnaði til útvegsins samkv. 1. gr. frv. varð samkomulag um að skipa nefnd til aðstoðar sjútvmrh. við að leysa þau vandamál, sem upp kunna að koma, þegar til þess kemur að ákveða þær. Var upphaflega gert ráð fyrir í till. Ed.- n., að þarna yrði um þriggja manna n. að ræða, en því var svo á síðara stigi málsins breytt í það horf, að n. verður, eins og frv. liggur nú fyrir, skipuð fimm mönnum.

Þá er það 2. gr. frv. Þar stóð upphaflega, að gengishagnaðarsjóði skuli ríkisstj. heimilt að ráðstafa í þágu sjávarútvegsins þannig: Allt að 1/4 samkv. a-lið og 1/4 samkv. b-lið og 1/4 samkv. c-lið. Orðalagið: „heimilt að ráðstafa“, þótti fulllaust í reipunum og varð samkomulag um að breyta því í það horf að segja: „Ríkisstj. skal ráðstafa“, eins og nú stendur í gr., og er þetta þannig ótvíræðara heldur en áður var, en þýðir þá um leið, að hlutföllin, 1/4 á hvern lið, eru ekki hagganleg.

Þá er það stafl. b í 2. gr. Þar stóð áður í frv., að varið skyldi allt að 1/4 til Fiskveiðasjóðs Íslands og ríkisábyrgðasjóðs til að greiða fyrir endurskipulagningu fiskiðnaðarins til framleiðniaukningar. Um þetta fórust frsm. sjútvn. Ed. orð á þessa leið:

„Það er enginn vafi á því, að hér er um það að ræða, að þessum fjármunum skuli varið til lána og kannske í sumum tilfellum til eftirgjafar skulda í samræmi við tilgang 10. gr. l. nr. 4 1967, um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins. Og þar eru bæði fiskveiðasjóður og ríkisábyrgðasjóður aðilar. Hins vegar er ómögulegt að hafa tvær stjórnir yfir sama sjóði, og því leggjum við til, að þessir peningar renni til fiskveiðasjóðs og verði ráðstafað þar sem sérstakri deild, þannig að það er hægt að fara eftir öðrum og mildari reglum en almennt er í þeim sjóði um ráðstöfun á þessum fjármunum. Og við óskum þess að sjálfsögðu, að þar sé höfð hin fyllsta samvinna við ríkisábyrgðasjóð, ef um það getur verið að ræða, að liðka þurfi fyrir um eftirgjafir á einhverjum skuldum til þess að koma rekstri fyrirtækja á skynsamlegan grundvöll. Bæði um þennan lið og um c-lið 2. gr. voru frammi óskir frá bæði LÍÚ og fiskiðnaðinum um, að frekar væru veittir styrkir en lán. N. getur ekki fallizt á það sjónarmið, en óskar að taka það fram í sambandi við c-liðinn, að hún væntir þess, að þar verði sýndur skilningur á þörfum útvegsins og að þær lánveitingar, sem þar verður um að ræða, verði ekki nein bráðabirgðalán, heldur löng lán, sem virkilega verði til varanlegrar stoðar fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli.“

Þannig fórust frsm. hv. sjútvn. Ed. orð um þetta atriði. Hann gerði einnig grein fyrir tilmælum, sem bárust frá íslenzkum skipasmíðastöðvum um, að tekið yrði tillit til eigenda þeirra skipa, sem byggð eru innanlands í íslenzkum skipasmíðastöðvum, ef þau skulda erlendis vegna skipabyggingarinnar. Taldi frsm., að í þessu efni þyrfti ekki breytingu á viðkomandi gr., því að þar væri talað um gengistap af lánum til fiskiskipa, sem bundin eru gengi erlends gjaldeyris, og þetta gæti því eins átt við, hvort sem skipin væru byggð erlendis eða innanlands.

Þá hefur 3. gr. frv. verið breytt allverulega, eins og menn sjá, og var tekið upp alveg nýtt orðalag á henni. Sagt var um þessa gr. við 1. umr. í Ed., að hún væri e.t.v. fremur þáltill. en lagagr., og út frá því sjónarmiði hefur gr. verið breytt allverulega. Eins og hún er nú orðuð, er aðeins ákveðið, að sjóðurinn, sem skuli stofnaður til verðjöfnunar, skuli geymdur í Seðlabankanum, þar til sett hafa verið lög um sjóðinn. Og það er talið rétt, að þegar í stað sé tekið fram, að gert sé ráð fyrir, eins og reyndar var í upphaflegu frvgr., að sjóðnum skuli skipt í deildir eftir tegundum afurða, og þessar deildir hafi aðskilinn fjárhag. Fyrir þessu gerði frsm. sjútvn. Ed. ljósa grein í sinni ræðu, og sé ég ekki ástæðu til að rekja það frekar. En eins og ég tók fram áðan, varð samkomulag um málið í Ed., eftir að þessar breytingar, sem ég hef lauslega farið yfir, höfðu verið gerðar á frv.

Ég vil taka það fram, að í meðförum sjútvn. þessarar hv. d. á frv. báðu nm. mig að ræða við sjútvmrh. um bætur þær, sem ráðgert er, að skreiðarframleiðslan fái samkv. frv., og kom fram það álit, að sú aðstoð, sem skreiðarframleiðslunni væri þar ætluð, væri ekki nægilega mikil. Ég ræddi þetta við hæstv. ráðh., og hann lýsti því yfir við mig og leyfði mér að flytja þau skilaboð til n., að á þetta sérstaka vandamál, sem alls ekki er tengt gengisbreytingunni sem slíkt, yrði litið alveg sérstaklega, ef það sýndi sig, að sá vandi, sem þar er á ferðum, héldi áfram að vaxa. Enn sem komið er hafa skreiðarbirgðirnar ekki legið mikið lengur óseldar en venjulegt er. Ef svo kynni að fara, að skreiðin yrði ekki seljanleg innan nokkurra mánaða, er augljóst mál, að þeir, sem eiga skreiðina nú, verða fyrir miklu tjóni og miklum erfiðleikum. Sem betur fer hygg ég þó, að það sé þannig, að skreiðin geymist allvel, a.m.k. við góðar aðstæður, og að gefizt geti allgott svigrúm til þess að kanna betur allar aðstæður og hvers með kunni að þurfa, þegar frá líður.

Í heildinni vil ég segja um þetta frv., að með því er öllum gengishagnaði af vörubirgðum í landinu, þegar gengisbreytingin var, og af því, sem kann að hafa verið ógreitt af útfluttum afurðum, ráðstafað í þágu sjávarútvegsins alls. Það hygg ég, að sé viðurkennt af öllum, að þannig sé þessu farið. Hitt má svo aftur deila um, hvernig eigi að skipta þessu fé. Áætlað hefur verið, að þarna muni vera nálægt 400 millj. kr., sem eigi að skipta milli einstakra greina sjávarútvegsins, og þegar ég segi sjávarútvegsins á ég að sjálfsögðu bæði við útgerðina sem slíka og fiskvinnslustöðvarnar. Um þetta má náttúrlega deila í það óendanlega, og því miður tókst okkur ekki í sjútvn. d. að verða sammála um þessa skiptingu, og ég sé, að minni hl. n. hefur útbýtt hér í d. allróttækum brtt. á sérstöku þskj. Ég skal ekki fara út í að ræða þær till., enda fjölluðum við ekki um þær í einstökum atriðum í sjútvn., en ég leyfi mér að vona, að þar sem hér er á ferðinni mjög mikið og brýnt hagsmunamál fyrir sjávarútveginn, verði þessu frv. greidd leið gegnum þingið, þrátt fyrir þann skoðanamun, sem fyrir liggur um skiptingu gengishagnaðarins.

Sé ég svo ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, en leyfi mér að mæla með því fyrir hönd meiri hl. sjútvn., að frv. verði samþ. óbreytt.