14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (2955)

156. mál, lausn verkfalla

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér aðeins að nota mér rétt þingskapa til að bera af mér sakir. Því var haldið hér fram af 5. þm. Vestf.. að ég hefði vitnað rangt eða villandi í forustugreinina í Skutli og því til sönnunar las hann upp niðurlag þessarar forustugreinar, en ég held, að það, sem einmitt kom fram í þessu niðurlagi, styrki það, sem ég var að halda fram. Ég sagðist draga þá ályktun af þessari grein í Skutli, að hv. þm., sem er ábyrgðarmaður þessa blaðs, gæti ekki verið andvígur efnislega þeirri till., sem hér hefur mest verið rætt um. En sú till. fjallar einmitt um það, að það sé fallizt á þá till. verkalýðsfélaganna að lögfesta verðlagsuppbót á lága kaupið, en það komi engin uppbót á kaup, sem er umfram 11.000 kr. á mánuði. Það vita allir, að það er þetta, sem till. fjallar raunverulega um. Og það, sem kemur fram í niðurlagi þessarar greinar í Skutli, er einmitt það, að það eigi að fara þessa leið. Þetta sýnir einmitt þess vegna miklu betur en sú tilvitnun, sem ég las upp hér áðan, að hv. þm. hlýtur að vera efnislega samþykkur þessari till., sem hér liggur fyrir, því að ég sé, að hv. þm. er að lesa till., en hún er um það, að lögfest sé verðtrygging launa í samræmi við það, sem verkalýðsfélögin hafa sett fram. Og það er átt við það, sem verkalýðsfélögin hafa sett fram nú í samningum sínum við atvinnurekendur, en ekki hinar upphaflegu kröfur, sem bornar voru fram. Þetta hefur verið margskýrt af flm. till., m.a. af Ólafi Jóhannessyni í sjónvarpinu í gær og við önnur tækifæri. Sem sagt, till. er fullkomlega í samræmi við niðurlagsorðin í Skutli, sem hv. þm. var að lesa hér upp áðan og taldi að fælu í sér hina réttu lausn á málinu. Þetta er aukin sönnun fyrir því, að þessi hv. þm. hlýtur að vera þessari till. samþykkur efnislega, og ég hygg, að hið sama hljóti að gilda um marga aðra hv. þm. Alþfl. Það hefur komið fram bæði í verkalýðsnefnd þeirra og víðar, að þeir telja eðlilegt og sanngjarnt, að fallizt sé á þessar lágmarkskröfur verkalýðsfélaganna.

Ég ítreka því aftur, að þessi till. á að koma sem fyrst til umr. á Alþ. og úrskurðar, vegna þess að það er öll ástæða til að álita, að það sé meiri hl. þm. að baki hennar, ef hún kæmi hér til meðferðar.