18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef skilað sérstöku nál., en það er ekki komið úr prentun enn þá og hefur því ekki verið útbýtt, en í því geri ég nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Eins og þdm. muna, urðu hér mjög litlar umr. um þetta mál við 1. umr. vegna samkomulags, sem um það var gert vegna hins knappa tíma, sem d. réði þá yfir. Skýringar hafa því verið heldur litlar gefnar hér af hv. þdm. á því mikilvæga máli, sem hér liggur nú fyrir.

Ég tel því óhjákvæmilegt að rekja hér nokkuð nánar efni frv. og þau atriði þessa máls, sem ég tel, að skipti mestu máli.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því, að með þessu frv. og reyndar öðru, sem þegar hefur verið samþykkt sem lög varðandi gengislækkunina, er gengið út frá mjög óvenjulegri framkvæmd á gengislækkun. Út frá því er gengið, að allar þær verðhækkanir, sem til falla vegna sjávarvöruframleiðslu ársins 1967 af vörum, sem ekki var búið að greiða, þegar gengislækkunin var ákveðin, jafnvel þótt þær vörur væru þegar fluttar úr landi, að öll sú verðhækkun skyldi tekin og lögð í sérstakan reikning í Seðlabankanum. Þá var einnig gert ráð fyrir því, að allar verðhækkanir, sem yrðu á fyrirliggjandi birgðum útflutningsvara, sem í landinu voru, þegar gengislækkunin var ákveðin, yrðu einnig teknar og lagðar í þennan gengishagnaðarsjóð í Seðlabankanum og einnig var svo ákveðið, að allar verðhækkanir, sem til féllu á þeim framleiðsluvörum sjávarútvegsins, sem framleiddar yrðu frá gengislækkunardegi, 24. nóv., og til ársloka, skyldu einnig teknar og lagðar í þennan gengislækkunarreikning í Seðlabankanum. Nú eru þær upplýsingar gefnar, að talið sé, að verðmæti þessarar framleiðslu, sem undir þessi ákvæði frv. eigi að koma, sé áætlað 1700 millj. kr., og þá er talið líklegt, að verðhækkun vegna hins breytta gengis á þessum útflutningsvörum muni nema í kringum 400 millj. kr. og það er þessi fjárhæð, sem ætlunin er að taka og ráðstafa skv. því frv., sem hér liggur fyrir.

Yfirlýsingar höfðu verið gefnar um það af hæstv. ríkisstj. við afgreiðslu gengislækkunarfrv., sem hér var til umr. á sínum tíma, að þessari upphæð, þessum gengishagnaði, sem nefndur hefur verið, skyldi öllum ráðstafað síðar með löggjöf í þágu sjávarútvegsins eða í þágu þeirra framleiðslugreina, sem þessi hagnaður kemur frá.

Það frv., sem ríkisstj. lagði svo fram í hv. Ed. sem 77. mál þingsins og hér er nú til umr., átti svo að vera til fullnægingar á þessari yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., en ég tel, að á því leiki enginn vafi, að hér hefur orðið mikill misbrestur á hjá hæstv. ríkisstj. að standa við þetta fyrirheit sitt skv. þessum till., sem hún gerir í frv.

Í fyrsta lagi er það svo, að skv. ákvæðum frv., eins og þau voru, þegar það var lagt fram, gerði ríkisstj. ráð fyrir því að taka þegar í ríkissjóð af þessum svonefnda gengishagnaði um 60 millj. kr. skv. f-lið 1. gr. frv. Sá liður var því auðvitað alveg tvímælalaust brot á þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. hafði áður gefið varðandi ráðstöfun á þessum gengishagnaði. En Ed. hefur nú gert breytingu á frv. varðandi þennan lið og lagt til að fella hann niður.

En þá er aftur að athuga aðrar till. þessa frv. Eru þær þess eðlis, að lagt sé til að ráðstafa þessum gengishagnaði í þágu sjávarútvegsins? Ja, það er eflaust hægt að teygja og toga merkingu þessa orðs mikið, hvað sé í þágu sjávarútvegsins, það er jafnvel hægt að tala um, að það sé í þágu sjávarútvegsins að hafa afkomuna hjá ríkissjóði mjög góða og það sé í þágu sjávarútvegsins, að myndaðir séu ýmsir sjóðir, sem komi til með að eiga einhver viðskipti við sjávarútveginn á komandi árum. En ég hafði nú skilið þessa yfirlýsingu þannig, að ætlunin væri að ráðstafa þessu fé á þann hátt að það kæmi til hagnaðar rekstri sjávarútvegsins, en talið var einmitt, þegar rætt var um nauðsyn á gengislækkun, að það þyrfti að lækka gengi krónunnar til þess að gera rekstrarafkomu sjávarútvegsins betri en hún áður var. Það mun láta nærri, að eins og till. voru, þegar þær komu fram hér fyrst í frv., þá megi telja, að ríkisstj. hafi lagt til, að af þessum 400 millj. kr. yrði varið á þann hátt, sem telja má beint til stuðnings sjávarútveginum, upphæð, sem nemur í kringum 145 millj. kr. Langsamlega stærsti hlutinn af þessari fjárhæð átti að renna til vátryggingakerfisins. En um 255 millj. kr. áttu hins vegar að renna í ýmsa sjóði, sem tengdir eru sjávarútveginum. Þannig voru till. í upphafi. Ég tel, að eins og frv. er nú orðið eftir breytingu Ed. á því, láti mjög nærri, að ráðstafað sé beint til sjávarútvegsins upphæð, sem nemur í kringum 170 millj. kr., en hins vegar sé gert ráð fyrir því að ráðstafa í ýmsa sjóði, sem tengdir eru sjávarútveginum, upphæð sem nemur 230 millj. kr.

Ég hef sagt hér, að ég dragi nokkuð í efa réttmæti þess að tala um beinan gengishagnað, sem nemur þessari upphæð, sem hér er nú til skipta. Og það segi ég vegna þess, að auðvitað er ekki hægt að tala um neinn gengishagnað, þó að ákveðinn hluti af þeirri verðhækkun á útflutningsvörum sjávarútvegsins, sem verður eftir gengislækkunardag, sé tekinn inn í þessa upphæð. Auðvitað leggst aukinn framleiðslukostnaður á þá framleiðslu, sem á sér stað eftir gengislækkunardag, og það er því auðvitað alrangt að tala um beinan gengishagnað í sambandi við það. Ég vil líka vekja athygli á því, að það hefur aldrei komið fyrir áður í sambandi við ákvörðun um gengislækkun, að hún hafi verið framkvæmd með þeim hætti, sem nú er ráðgert, að gera á upp við aðila á hinu gamla gengi framleiðslu, sem á sér stað eftir gengisbreytingardag. En nú er það ákveðið, að það á einnig að taka nokkurn hluta af því verðlagi, sem verður á útflutningsvörunum eftir gengislækkunardag og leggja í þennan gengishagnaðarsjóð.

Ég skal nú víkja hér nokkru nánar til útskýringar á þessu máli að því, hvað felst raunverulega í þeim till., sem hér eru gerðar. Samkv. því, sem lagt er til í 1. gr. frv., er gert ráð fyrir því í a-lið 1. gr., að greiða skuli úr þessum gengishagnarsjóði allar verðhækkanir, sem verða, eða allar hækkanir, sem verða á framleiðslukostnaði þeirra vara, sem undir þessi lög koma til með að falla, að því leyti til, sem framleiðslukostnaðarhækkunin stafar af gengisbreytingunni. Þetta þýðir það, að framleiðsla, sem á sér stað eftir gengisbreytingardag, eftir 24, nóv., öll sú framleiðsla kemur til með að eiga kröfu á endurgreiðslu úr þessum sjóði vegna margvíslegrar hækkunar á framleiðslukostnaði, sem á sér stað eftir þessi tímamörk. Við skulum t.d. taka þá framleiðendur, sem hafa staðið í því að salta síld að undanförnu. Þeir hafa verið að salta síld fram á síðustu daga. Þessir aðilar koma allir til með að senda reikninga á þennan sjóð og heimta endurgreiðslur úr honum fyrir aukinn rekstrarkostnað, sem á þá hefur fallið í sambandi við þessa framleiðslu, ekki aðeins þann kostnað, sem til fellur fram að næstu áramótum, heldur einnig á þann kostnað, sem til fellur alveg þangað til varan er farin úr landi og hefur verið greidd að fullu.

Hið sama er að segja um rekstur fiskiskipa t.d. Auðvitað hefur rekstrarkostnaður fiskiskipa hækkað eftir gengislækkunardag. Olían hækkaði strax í verði. Veiðarfæri, sem keypt eru eftir gengislækkunardag, hafa vitanlega hækkað í verði í mörgum tilfellum. Laun hafa hækkað nokkuð og þar af leiðandi svo að segja allur kostnaður við framleiðslustörf. Þessir aðilar eiga rétt á því að senda inn kröfu til þessa sjóðs og heimta endurgreiðslu á þeim kostnaðarauka, sem þarna fellur til. Ég tel fyrir mitt leyti, að þetta sé alveg óhjákvæmilegt, fyrst svona var ákveðið að standa að gengisbreytingunni. Hitt tek ég undir með þeim, sem hér hafa að þessu vikið, að það er ekkert smáræðisdæmi að eiga að reikna þetta út. Það verður heldur skemmtilegt að tína saman alla þá margvíslegu reikninga hjá öllum mögulegum fyrirtækjum, sem geta tilgreint kostnaðarauka við sína framleiðslu, við framleiðslu, sem talið er, að muni nema í kringum 1700 millj. kr. í útflutningsverði, að tína saman alla þá reikninga og úrskurða, hvaða hækkanir hafi átt sér stað af völdum gengisbreytingarinnar við þessa framleiðslu. En auðvitað nær ekki nokkurri lifandi átt að neita þessum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, um þessa endurgreiðslu, fyrst svona óvenjulega er staðið að framkvæmdinni á gengislækkuninni, að hún er látin ná fram fyrir sig og mönnum er gert það t.d. í desembermánuði að búa við allt annað útflutningsgengi en innflutningsgengi. Þetta er auðvitað herfileg mismunun, og það er auðvitað furðulegt, að menn skuli standa að jafnvitlausri löggjöf eins og þessari. En ég vek athygli á því, að á þennan hátt hefur aldrei fyrr verið staðið að gengislækkun á Íslandi, aldrei. Þetta er einasta dæmið um það.

Þá er samkv. þessari 1. gr., b-lið, gert ráð fyrir að greiða skreiðarframleiðendum nokkrar bætur úr þessum sjóði vegna þeirra áfalla, sem skreiðarframleiðendur hafa orðið fyrir. Og það hefur verið gefið upp, að áætlað hafi verið að greiða skreiðarframleiðendum á þennan hátt í kringum 12 millj. kr. Auðvitað er þessi fjárhæð, sem hér er um að ræða, allt of lítil, og það stappar nærri því að tala megi um, að þetta sé háðungargreiðsla, a.m.k. þegar tillit er tekið til þess, að í gildi hefur verið löggjöf um ákveðnar ráðstafanir til fjárhagsstuðnings við útflutningsframleiðsluna, áður en til gengislækkunarinnar kom. Og í þeim l. var gert ráð fyrir því að veita skreiðarframleiðendum tiltekinn fjárhagsstuðning, sem átti að nema í kringum 10 millj. kr. Að vísu var gert ráð fyrir því, að fleiri aðilar gætu þar komið til greina í sambandi við skiptingu á þeirri upphæð, en þó fyrst og fremst gert ráð fyrir því, að þessi upphæð gengi til skreiðarframleiðenda. En nú hefur tekizt svo til, að það er búið að eyða allri þessari upphæð, sem átti að renna til skreiðarframleiðenda samkv. rekstrargrundvelli, sem þeir byggðu á. Það er búið að eyða henni í annað. Og aðstæðurnar hafa auðvitað ekki beinlínis knúið á um það, að skreiðarframleiðendur fengju þessa fjárhæð, af því að þeir hefðu ekki getað flutt út skreiðina. Það hafa ekki verið aðstæður til þess að flytja hana úr landi. Og nú er gert ráð fyrir því samkv. þessu frv. að greiða skreiðarframleiðendum álíka upphæð og búið var áður að viðurkenna, að þeir ættu að fá.

Þá stendur hitt eftir, að skreiðarframleiðendur hafa orðið fyrir feiknalegu tjóni. Þeir verða að liggja með framleiðslu sína, sem nemur nokkuð á 3. hundrað millj. kr., þeir verða að liggja með hana í heilt ár. Það er ekki hægt að selja hana til markaðslandsins, sem er lokað. Vaxtagreiðslur af þessum skreiðarbirgðum munu nema í kringum 20 millj. kr. á ári. Það er beinn skellur, sem þessir framleiðendur verða fyrir. Og auðvitað taka þeir á sig gífurlega áhættu með þessa framleiðslu sína, því að erfitt er að sjá fyrir, hvernig fer með sölu og afgreiðslu hennar eftir allan þennan biðtíma. Norðmenn lentu í sams konar vanda og við. Þeir fóru aðra leið. Þeir hafa selt mikið af sinni framleiðslu til ýmissa Afríkulanda og einnig inn á þetta áhættusvæði, sem við höfum ekki þorað að skipta við, en þeir lækkuðu sitt verð verulega frá því, sem áður var, og tóku á sig skellinn. Og þeirra ríkisvald hefur aðstoðað þá í þessum efnum. En þegar talað er nú um að ráðstafa nokkrum fjárhæðum til stuðnings þeim þáttum framleiðslunnar, sem óneitanlega hafa orðið fyrir skelli, er útkoman sú, að skreiðin á vegna þessara áfalla í rauninni ekki að fá neitt, ekki eins og till. liggja fyrir. Þar er aðeins um það að ræða að bæta það upp, sem áætlað var inn í grundvöllinn áður og búið var að reikna með í rekstrargrundvellinum fyrir nærri ári síðan.

Hæstv. sjútvmrh. hefur að vísu sagt hér í þessum umr., að ríkisstj, geri sér grein fyrir þessum vanda skreiðarframleiðslunnar og að hún geti vel hugsað sér, að þegar þar að kemur, verði það mál tekið upp að nýju. Það er vitanlega hægt að hugsa sér, að það verði hlaupið undir bagga með skreiðarframleiðendum eftir einhverjum öðrum leiðum síðar, ef það verður þá gert, en ég verð að segja, að mér hefði fundizt mjög eðlilegt að ráðstafa nokkrum hluta af þeim fjármunum, sem hér er verið að ráðstafa, í þessu skyni. En það tel ég í rauninni ekki vera gert, eins og staðið er að þessu frv.

Þá kemur c-liður þessarar 1. gr., en þar er gert ráð fyrir nokkrum bótum til síldarverksmiðja, sem vitanlega hafa orðið fyrir miklu tapi á sínum rekstri á þessu ári. Og samkv. upplýsingum er rætt um það að greiða til síldarverksmiðjanna bætur, sem nema í kringum 10 millj. kr. eða það er það, sem hefur verið gefið upp, að menn hafi hugsað sér. Nú liggur það hins vegar fyrir, að Síldarverksmiðjur ríkisins einar hafa upplýst, að fram í októbermánuð var tapið hjá þeim einum orðið um 40 millj. kr. fyrir utan allar afskriftir. Enginn vafi er á því, að miðað við þann starfsgrundvöll, sem nú liggur fyrir, má reikna með því, að tapið hjá Síldarverksmiðjum ríkisins fyrir utan allar afskriftir verði á þessu ári 50–60 millj. kr., og þá koma auðvitað allar hinar verksmiðjurnar þar til viðbótar. Ég tel því greiðsluupphæð eins og þá, sem hér er rætt um, allt of litla og í rauninni alveg broslega, þegar haft er svo aftur í huga, hvað lagt er til samkv. 2. lið að greiða ýmsum öðrum aðilum, sem ekki þurfa á þeim gjöfum að halda, sem þar er lagt til.

Samkv. d-lið 1. gr. frv. er svo lagt til að greiða rækjuframleiðendum samkv. samkomulagi, sem gert hefur verið við þá, upphæð, sem nemur kringum 7 millj. kr. Það hygg ég, að muni vera nokkuð nærri lagi, ef samkomulag hefur verið gert við þá aðila um þessar bætur, en meira skal ég ekki segja um það, því að ég er ekki svo kunnugur því.

Samkv. e-lið 1. gr. er síðan gert ráð fyrir því að innheimta útflutningsgjald af verðhækkunum á þeim vörum, sem fjallað er um í þessu frv., til þess að auka enn við tekjur vátryggingakerfisins, sem nú er komið í fjárþröng, og sagt er, að hin auknu útflutningsgjöld af þessari framleiðslu mundu nema í kringum 16 millj. kr. Það má auðvitað segja, að sú fjárhæð, þessar 16 millj. kr., og einnig sú fjárhæð, sem gerð er till. um samkv. a-lið 2. gr. og áætlað hafði verið, að mundi nema kringum 65 millj. kr. og sem á að renna í þetta vátryggingakerfi, það má auðvitað segja, að þessar tvær fjárhæðir, 65 millj. kr. plús 16 millj. kr., sé sjávarútveginum eða bátaútgerðinni í landinu og togaraútgerðinni beinn fjárhagsstuðningur, því að þessir aðilar eru gerðir ábyrgir fyrir þessu vátryggingakerfi, svo vitlaust sem það er og svo óstjórnlegt sem það hefur verið um langan tíma. En allt um það má þó segja, að þær greiðslur renni út af fyrir sig til sjávarútvegsins.

En síðan koma hinar till. samkv. 2. gr. Þá er lagt til samkv. b-lið 2, gr., að verja skuli 65–70 millj. kr. í því sérstaka augnamiði að gera fiskveiðasjóði kleift að taka þátt í svonefndri endurskipulagningu fiskiðnaðarins til framleiðniaukningar. Það hefur verið rætt nokkuð um það, og það hefur komið áður fram í fskj. hér til Alþingis, að efnahagssérfræðingar ríkisstj. hafa rætt um þessa endurskipulagningu og bent þá á, að hún mundi einkum verða fólgin í því, að viss frystihús kynnu að verða lögð niður eða sameinuð öðrum og fiskvinnslustöðvarnar eða einingarnar stækkaðar frá því, sem verið hefur, og í sambandi við þessar breytingar gæti komið til þess, að víssir lánardrottnar yrðu beinlínis að afskrifa eitthvað af lánum sínum til þeirra fyrirtækja, sem nú eru talin orðin fallvölt. Og það hefur verið gert ráð fyrir því, að ríkisábyrgðasjóður yrði e.t.v. í vissum tilfellum að afskrifa eitthvað af þeim lánum, sem hann á orðið raunverulega hjá þessum fyrirtækjum. En nú er sem sagt horfið að því samkv. þessu frv. að taka af þessum svonefnda gengishagnaði upphæð, sem nemur í kringum 65 millj, kr., og það á að nota þá upphæð til þess að forða þeim aðilum frá því að tapa vissum lánum, sem raunverulega eru búnir að tapa þessum lánum. Ég efast fyrir mitt leyti mjög um það, hvað út úr þessum ráðagerðum um endurskipulagningu fiskiðnaðarins muni koma, en ég tel þó alveg fráleitt, að farið sé að taka af því fé, sem útvegsmenn raunverulega eiga og þurfa á að halda, taka af því til þess að leggja í sérstakan sjóð, sem á að standa undir hugsanlegum töpum, sem upp kunna að koma í sambandi við þessa endurskipulagningu.

Þá er samkv. c-lið 2. gr. gert ráð fyrir því að greiða til fiskveiðasjóðs fjárhæð, sem áætluð hafði verið 65 millj. kr., en hækkar að sjálfsögðu nokkuð eftir að f-liður 1. gr. hefur verið felldur niður. Og gert er þá ráð fyrir því, að fiskveiðasjóði verði afhent þessi upphæð sem beint framlag, sem hrein gjöf, en þó gert ráð fyrir því, að hann noti þetta fjármagn til þess að lána þeim útvegsmönnum, sem orðið hafa fyrir gengistöpum í sambandi við kaup á fiskiskipum, þar sem lánin hafa verið bundin gengisákvæðum. Það er svo enginn vafi á því, að þessar tvær till., sem eru bæði í b- og c-lið 2. gr., eru um það að afhenda fiskveiðasjóði í lægsta lagi 130 millj. kr., sennilega 150–160 millj. kr., sem beint framlag, sem hreina gjöf af þessari upphæð. Nú er spurningin þessi: Stóðu málefni sjávarútvegsins þannig, að nauðsynlegt væri að gera slíka ráðstöfun, að gefa fiskveiðasjóði með einhverjum hætti slíka fjárupphæð? Ég segi hiklaust nei. Fiskveiðasjóður er einn öflugasti sjóður, sem til er í okkar landi. Hann hefur haft miklar tekjur, og hann hefur að langsamlega mestu leyti veitt lán til sjávarútvegsins af sínu eigin fé. Fiskveiðasjóður hefði raunverulega staðið mjög vel að vígi fjárhagslega séð, ef þeir, sem lán taka úr sjóðnum, gætu staðið við sínar skuldbindingar við sjóðinn. Það, sem máli skiptir því fyrir fiskveiðasjóð í þessum efnum, er það, að sjávarútvegurinn sem heild búi við þá rekstrarafkomu, að hann geti staðið í skilum með greiðslur sínar til sjóðsins. Það var því auðvitað eðlilegt að því leyti til, sem menn viðurkenndu það, að nú stóð þannig á hjá fiskveiðasjóði, að hann þurfti á auknu fjármagni að halda, af því að margar greinar sjávarútvegsins höfðu ekki getað staðið í skilum við sjóðinn, það var eðlilegt að reyna að gera þessum greinum kleift að standa við sínar fjárhagsskuldbindingar við sjóðinn, en ekki hitt að fara að gefa fiskveiðasjóði peninga og það meira að segja frá þessum aðilum, sem ekki voru færir um að standa við sínar skuldbindingar. Slíkt er vitanlega að fara aftan að hlutunum og vinna mjög óeðlilega.

Samkv. d-lið 2. gr. frv. er síðan lagt til að verja í minnsta lagi 65 millj, kr. — sennilega 75–80 millj. kr., eftir að f-liður 1. gr. hefur verið felldur niður — í svonefndan verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og gert er svo ráð fyrir í 3. gr. frv. að ákveða nokkru nánar, hvers konar sjóður þetta á að vera. Það hafa verið uppi mjög skiptar skoðanir meðal útvegsmanna um það, hvernig ætti að standa að framkvæmd þessarar hugmyndar um uppbyggingu verðjöfnunarsjóðsins. Og ég held, að þeir séu ekki margir í hópi sjávarútvegsmanna, sem mundu aðhyllast það að standa þannig að uppbyggingu sjóðsins, sem gert var ráð fyrir í till. ríkisstj. í frv., eins og það kom fram. Ed. hefur nú gert verulegar breytingar á 3. gr. og þar með strikað yfir í bili ýmsar þessar hugmyndir, sem þar komu fram hjá ríkisstj. um uppbyggingu sjóðsins. En ég held fyrir mitt leyti, að það sé hrein fjarstæða að ætla að taka þessa fjárhæð frá sjávarútveginum, eins og nú er ástatt hjá honum, til þess að leggja í þennan sjóð, sem enn hefur ekki verið ákveðið um, hvernig skuli byggjast upp eða hvaða hlutverki skuli gegna, nánar tiltekið.

Ég vil í framhaldi af því, sem ég hef sagt, vekja sérstaka athygli á því, að það voru auðvitað meginrökin fyrir því, að lækka ætti gengi íslenzkrar krónu að þessu sinni, að hagur sjávarútvegsins væri með þeim hætti, að hann yrði að fá aukinn fjárhagslegan stuðning. Það voru aðalrökin, og ég minnist þess alveg sérstaklega, að hæstv. forsrh. margendurtók það hér í umr. um þessi mál, að sjávarútvegurinn hefði orðið fyrir feiknalegum áföllum á þessu ári, bæði vegna minnkandi sjávarafla, sem að verulegu leyti hefur stafað af ótíð, og svo vegna lækkunar á verði útfluttra afurða. Og sagt hefur verið af ýmsum talsmönnum ríkisstj., að þessi áföll, sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir á þessu ári, muni nema 1500–2000 millj, kr. í útflutningsverðmætum. Og vegna alls þessa, vegna þess, hversu rekstrarafkoma sjávarútvegsins var orðin erfið og vegna hinna miklu áfalla, sem sjávarútvegurinn hefur orðið fyrir á þessu ári, þótti óhjákvæmilegt að lækka gengi íslenzkrar krónu.

En svo þegar komið er að framkvæmdunum, hvernig standa menn þá að framkvæmdinni? Fyrstu viðbrögðin eru þá þau, að sjávarútvegurinn þurfi ekki á öllu þessu fé að halda. Það megi taka það af honum, sem er óumdeilanleg eign hans, og það sé rétt að ráðstafa meginhlutanum af því fjármagni, sem losnar við gengisbreytinguna, ráðstafa því til þeirra stofnsjóða, sem annars eru mjög fjárhagslega öflugir sjóðir. Auðvitað er það hrein fjarstæða að tala um það, að fjárveiting til fiskveiðasjóðs, t.d. upp á 150 millj. kr., slík fjárveiting sé það sama og beinn stuðningur við sjávarútveginn. Það er hrein fjarstæða. Hvaða manni hefði dottið til hugar að rétta við afkomu sjávarútvegsins með því að leggja aðeins aukið fé inn í fiskveiðasjóðinn? Auðvitað vita allir, að það hefði ekki breytt neinu um afkomu hinna ýmsu greina sjávarútvegsins. Nei, hér er um það að ræða, að verið er að taka fjármuni, sem framleiðslan á, og það er verið að slá því föstu, að hún þurfi ekki á þessum fjármunum að halda og þessir fjármunir skuli færðir yfir til aðila, sem standa fjárhagslega vel að vígi. Það er það, sem um er að ræða. En aðilarnir, sem orðið hafa fyrir þessu mikla áfalli, þeir, sem tapað hafa hundruðum millj. í minnkandi verðmæti framleiðslunnar á einu ári, eiga ekki að fá nema lítinn hluta af þessum eignum, sem þeir raunverulega áttu, að maður tali nú ekki um það, hvernig litið er á málefni sjómannanna, sem alveg óumdeilanlega eiga ákveðinn hluta af þeim peningum, sem hér er verið að ráðstafa, því að vitanlega áttu sjómennirnir að fá hækkaðan aflahlut, a.m.k. á tímabilinu frá 24. nóv., er gengislækkunin var ákveðin, og til áramóta. Á þessu tímabili átti auðvitað hráefnisverðið að hækka og sjómennirnir að fá hækkaðan aflahlut. Það er verið alveg á óréttmætan hátt að hafa af þeim þennan aflahlut, sem þeir áttu að fá.

Ég veitti því athygli, að þegar síðasti almenni fundur Landssambands ísl. útvegsmanna var haldinn nú 6.–9. des., flutti formaður þeirra samtaka, Sverrir Júlíusson, þar ræðu og gerði nokkra grein fyrir útreikningum, sem gerðir höfðu verið um áföll síldveiðiflotans nú á þessu ári vegna minnkandi afla. Og í þessari ræðu sinni skýrði hann frá því, að miðað við útreikninga, sem náðu til 25. nóv., lægi fyrir, að verðmæti síldaraflans upp úr sjó, reiknað bátunum, væri nú rétt í kringum 500 millj. kr. samanborið við 1118 millj. kr. á sama tíma árið á undan. Verðmæti síldaraflans upp úr sjó hafði lækkað samkv. þessum útreikningum landssambandsins um 618 millj. kr. á sambærilegu tímabili í ár. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, að aflahlutur sjómanna á síldveiðiskipunum á þessu tímabili hefur lækkað miðað við árið á undan um rúmar 300 millj. kr. Ég hygg, að það sé enginn vafi á því að aflahlutur síldveiðisjómanna muni verða ekki minna en 350 millj. kr. rýrari í ár en hann var á árinu 1966. Það er því ekkert um það að villast, að þessir menn hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli, og við vitum, að þeir eiga nú í miklum fjárhagserfiðleikum flestir, vegna þess að tekjurnar í ár eru svona miklu minni en áður, en í ár verða þeir að standa undir opinberum gjöldum frá tiltölulega háum tekjum, sem þeir höfðu árið 1966, og í mjög mörgum tilfellum er það svo, að aflahlutur þeirra í ár dugar ekki til þess að greiða skattana frá árinu á undan. Vandamál þessara manna eru því gífurlega mikil. Þetta hafa útgerðarmennirnir sjálfir, sem hafa þessa menn í þjónustu sinni, viðurkennt, því að þeir hafa snúið sér til opinberra aðila til þess að reyna að fá einhvers konar úrbætur til handa sjómönnunum í þessum efnum.

Það er því vitanlega ekki maklegt, heldur mjög ómaklegt að standa þannig að framkvæmd gengislækkunarinnar nú, að verið sé að hafa af sjómönnum beinlínis þann aflahlut, sem þeir áttu að fá eftir gengislækkunardag til áramóta, og það er ansi hart, að það skuli koma í hlut ráðh. Alþfl. að standa að tillögugerð hér á Alþ., sem fer í þessa átt. En það er rétt, að hann og aðrir geri sér grein fyrir því, að þessu er svona farið, þeir verða á þetta minntir, þeir komast ekki undan því. Við 3 þm., sem vorum í minni hl. í fjhn., höfum því flutt brtt. við þetta frv. á sérstöku þskj., og þar gerum við ráð fyrir því, að af þeim gengishagnaði, sem hér er nú verið að ráðstafa, verði nokkrum hluta ráðstafað til þeirra síldveiðisjómanna og til þeirra sjómanna almennt, sem orðið hafa fyrir miklu áfalli í tekjum á s.l. ári. Við leggjum til, að af heildarupphæðinni verði varið 40 millj. kr. til þess að bæta upp tekjutap sjómanna. Þessar till. eru mjög sanngjarnar, því að sannleikurinn er sá, að raunverulega hefði í þessum efnum átt að áætla sjómönnunum miklu meira en við gerum í þessum till. okkar, en við höfðum þessa upphæð ekki hærri í von um það, að meiri líkur væri þá til að fá till. samþykkta.

Í till. okkar á þskj. 176 er einnig við það miðað, að öllum meginhlutanum af því fjármagni, sem hér er verið að ráðstafa, verði ráðstafað beint til sjávarútvegsins, þannig að hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna verði betri eftir en áður. Við viljum gjarnan, að verulegur hluti af því fjármagni, sem hér er um að ræða, renni til fiskveiðasjóðs, en við viljum, að það renni til fiskveiðasjóðs í því formi, að fjárhæðin teljist greiðsla útvegsmanna og útgerðarfyrirtækja á skuldum þeirra til fiskveiðasjóðs. Við teljum eðlilegt að miða skiptingu þessa fjár við vaxtagreiðslu skuldbindinga þessara aðila á árinu 1967. Ég verð að segja, að það er alveg furðulegt sjónarmið, sem upp kemur hér af hálfu ríkisstj. að telja eðlilegt að verja þeim hagnaði, sem hér er um að ræða, þannig, að hann skuli eiga að renna til fiskveiðasjóðs sem óafturkræft framlag, sem bein gjöf til sjóðsins í stað þess að upphæðin verði látin renna til þeirra aðila, sem einmitt hafa orðið fyrir hinum miklu áföllum og sem gengislækkunin var framkvæmd fyrir.

Það hefði einhvern tíma þótt nýstárleg kenning að heyra það, að verið væri að framkvæma gengislækkun til þess að efla tiltekna sjóði í landinu, en það er einmitt það, sem er verið að gera. Það er mjög greinilegt, að það á í þessum tilfellum að ráðstafa upphæðum til þess að efla vissa sjóði. Áður hefur það svo komið fram hér í umr. um þetta mál, að tilhneiging ríkisstj. er óhemjuleg til þess að láta ríkissjóð græða á gengislækkuninni í öllum greinum. Áhuginn fyrir því virðist vera miklu meiri en að koma þeim hagnaði, sem af gengislækkuninni gæti orðið, yfir til þeirra aðila, sem var þó látið í veðri vaka, að gengislækkunin væri gerð fyrir.

Þá gerum við ráð fyrir í okkar till., að varið verði um 80 millj. kr. í sambandi við þau gengistöp, sem kaupendur fiskiskipa hafa orðið fyrir vegna lána, sem þeir eiga bundin við erlenda mynt. Við leggjum til, að helmingur af þessari fjárhæð skuli teljast bein greiðsla fiskiskipaeigenda, en að hinn helmingurinn megi þó teljast lán fiskveiðasjóðs til þessara aðila til þess að standa undir þessum auknu útgjöldum.

Ég vil benda á í sambandi við þennan lið, að það er næsta undarlegt að standa þannig að þessum málum, að sagt er við útvegsmenn: Þið eigið hér nokkrar birgðir af vörum, nokkrar eignir, sem hækka í verði vegna gengisbreytingarinnar. En nú er vitað, að þessir sömu aðilar skulda líka erlendis, og þar verða þeir fyrir gengistapi. Þá þykir sjálfsagt að standa þannig að framkvæmd málsins, að þeim megin, sem kemur fram gengishagnaður hjá þessum aðilum, á að taka hagnaðinn, en hins vegar er sagt við þá: Nei, þar sem kemur fram gengistap, það megið þið eiga, þið skulið bara búa við það á komandi árum að glíma við tapið. Þetta er auðvitað óeðlileg framkvæmd í mesta máta, og það verður að teljast furðulegt, að ríkisstj. skuli halda sér fast við slíkar till. sem þessar. Mér sýnist, að tillögugerð ríkisstj. í sambandi við þetta mál beri það greinilega með sér, að hún telur raunverulega vanda sjávarútvegsins ekki eins mikinn, þegar á á að herða, eins og henni þykir henta að tala um, þegar hún vill leggja byrði á þjóðina í sambandi við gengislækkunarráðstafanirnar. Það þykir henta, þegar er verið að snúa sér að þeim aðilum í landinu, sem á að fórna, að segja við þá: Sjávarútvegurinn þarf á þessu að halda, það þarf endilega að leggja þessar kvaðir á ykkur vegna sjávarútvegsins, það er undirstaða framleiðslunnar í landinu, — en svo þegar búið er að leggja álögurnar á, þá er horfið að því ráði að taka verulegan hluta þeirra fjármuna, sem fram koma, og stinga þeim annaðhvort í ríkissjóð eða þá í ýmsa sjóði, sem ríkisstj. hefur hugsað sér að byggja upp.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta. Ég held, að till. þær, sem við flytjum á þskj. 176, sýni í rauninni mjög glögglega, hver er afstaða okkar í minni hl. í sambandi við ráðstöfun á því fjármagni, sem hér er um að ræða, og það gera till. ríkisstj. út af fyrir sig líka. Ég held því, að það verði býsna lærdómsríkt fyrir ýmsa þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, að sjá, hvernig þessum till. reiðir af, því að afgreiðsla þeirra kemur til með að segja nokkuð skýrt til um það, hvað menn hafa í huga í sambandi við framkvæmd gengislækkunarinnar.