18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (3008)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. dró það í efa áðan, að n. eins og sú, sem hér er gerð till. um, hafi verið sett á laggirnar áður hér á Alþ. Þetta er einhver gleymska hjá hæstv. ráðh. Ég minnist þess t.d., að fyrir ekki ýkjamörgum árum var ákveðið að stofna sérstaka rannsóknarnefnd til þess að rannsaka okurstarfsemi á Íslandi, meðan sú iðja varðaði enn þá við lög. Þessi n. var kjörin, og þessi n. starfaði, og þessi n. náði býsna miklum árangri. Ég tel, að það sé ljóður á ráði Alþ., hversu lítið við hagnýtum okkur þetta ákvæði. Ég vil t.d. benda hæstv. utanrrh. á það, að í Bandaríkjunum, sem hann hefur sérstakar mætur á, eru mjög mikil brögð að því, að þing setji n. til þess að rannsaka öll möguleg mál. Þetta er einn ríkasti þátturinn í starfsemi bandaríska þingsins, og ég held, að við ættum að gera miklu meira að því heldur en við höfum gert að hagnýta okkur þessi ákvæði, en þau hafa sem sagt verið hagnýtt, eins og ég tók fram.

Annars er það mjög til marks um afstöðu hæstv. ráðh. til Bandaríkjanna, að hann telur gagnrýni á bandarískri utanríkisstefnu, á bandarísku leyniþjónustunni, á styrjöld Bandaríkjanna í Víetnam, til marks um fjandskap í garð Bandaríkjanna. Þetta er alger misskilningur. Bandaríkin sjálf eru sundurtætt í afstöðunni til þessara mála. Hvergi er harðari andstaða og hvergi harðari gagnrýni á stefnu Bandaríkjastjórnar í Víetnam og ýmsum þáttum í bandarísku stjórnarfari en innan Bandaríkjanna sjálfra, og þeir menn, sem halda uppi slíkri gagnrýni, gera það ekki af neinum fjandskap til þjóðar sinnar, heldur þvert á móti. Þeir vilja hefja hana upp úr þeirri niðurlægingu, sem valdamenn hafa sökkt henni í að undanförnu.

Hæstv. ráðh. tók atriði þessarar till. fyrir lið fyrir lið og taldi allt ástæðulaust í þessu sambandi m.a. taldi hann sig vera búinn að ganga úr skugga um það, að engin hætta væri á, því, að hér yrðu kjarnorkuslys, og hin einfalda aðferð var sú, að hæstv. ráðh. hafði kallað til sín bandaríska sendiherrann og bandaríska hernámsstjórann og spurt þá að því, hvort það væri ekki rétt, að Bandaríkin flygju ekki yfir Ísland eða í íslenzkri 1ofthelgi með kjarnorkuvopn, og þeir sögðu honum, að þetta væri rétt, og þetta er algerlega fullnægjandi að mati hæstv. ráðh. Hann bætti því raunar við, að McNamara hefði sagt, að almennt flug með kjarnorkuvopn væri fellt niður. Þetta er engan veginn rétt. Það er ekki búið að lýsa því yfir, að þetta flug verði fellt niður til neinnar frambúðar, heldur aðeins skamma stund. Ég er ekki einn um þetta mat, og þetta er ekki mat manna, sem hæstv. ráðh. telur einhverja andstæðinga Bandaríkjastjórnar. Ég las t.d. fyrir nokkrum dögum forystugrein um þetta í Berlingske Tidende, þar sem þeir minna á, að einnig hafi verið fellt niður slíkt flug með kjarnorkuvopn, eftir að atburðirnir gerðust á Spáni, en síðan tekið upp á nýjan leik. Og Berlingske Tidende létu í ljós áhyggjur af því, að þetta, flug kynni að verða tekið upp aftur.

Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh., að við Íslendingar getum ekkert gert til þess að tryggja okkur öryggi á þessu sviði annað en spyrja bandaríska ráðamenn. Við höfum hér á Íslandi ríkisstj. til þess að stjórna málum. Og ef við viljum tryggja það, að ekki sé flogið með kjarnorkuvopn yfir Ísland og kjarnorkuvopn séu ekki leyfð á Íslandi, ber okkur sjálfum að gera ráðstafanir til þess að ganga úr skugga um þessi atriði. Auðvitað getum við gert það eins og hver önnur þjóð. Við getum komið upp okkar eftirlitskerfi, og það ber okkur að gera. Við gerum okkur að hreinum aumingjum, ef við teljum okkur ekki vera nokkurs megnuga annars en hlusta á yfirlýsingar einhverra bandarískra ráðamanna.

Það er vafalaust rétt hjá hæstv. ráðh., að það fer nú að nálgast svona smátt og smátt, að hernámsliðið á Keflavíkurflugvelli standi við það loforð, sem átti raunar að koma til framkvæmda að fullu á s.l. hausti, að dátasjónvarpið yrði bundið við herstöðina eina. Það var tiltekinn ákveðinn dagur, sem þetta átti að gerast, en það gerðist ekki, og það er aðeins vegna þess, að þetta framtaksleysi hefur verið gagnrýnt, að hernámliðið hefur verið að gera vaxandi ráðstafanir til að takmarka þessar útsendingar. Hitt tel ég samt miklu alvarlegra í þessu máli til athugunar fyrir Alþ., og það er sú ósanna vitneskja, sem fyrirrennari hæstv. ráðh. lét Alþ. í té. Ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. viti það allir, að a.m.k. á þjóðþingum erlendis er litið á þingið sem ákaflega virðulega stofnun, og það er ekki þolað, að ráðh. gefi þjóðþingum ranga vitneskju. Hæstv. ráðh. telur, að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi ekki gert þetta vitandi vits. Ég er ekki sömu skoðunar. Það þurfti ekki mikla athugun til fyrir menn, sem fóru að kanna þetta mál, til þess að afla sér á svipstundu vitneskju um, að þær litlu stöðvar, sem hæstv. ráðh. kannaðist ekki við, voru notaðar á herstöðvum hér allt umhverfis okkur.

Það er eflaust rétt hjá hæstv. ráðh., að það getur verið ýmsum vandkvæðum bundið að rannsaka áhrifin af hernáminu, m.a. fjármálaspillingu og áhrif á menningu Íslendinga og á það æskufólk, sem elst upp í nágrenni herstöðvanna og sumt er farið að líta á enskuna sem móðurmál sitt. En þó að þetta sé erfitt, er þetta verkefni, sem okkur ber að vinna. Við verðum ævinlega að minnast þess, að vegna fámennis okkar er okkur mikill vandi á höndum, og við verðum af fullri ábyrgðartilfinningu að takast á við þann vanda, þó að hann sé erfiður. Og mér finnst einmitt, að þeir menn, sem kölluðu hernámslið inn í landið, ættu að vera öðrum frekar vakandi fyrir þessu vandamáli.

Heldur voru það fátækleg rök hjá hæstv. ráðh., þegar hann sagðist vera þess fullviss, að hernámsliðið hér tryggði okkur aukið öryggi og mundi vernda okkur frá háska í styrjöld, vegna þess að telja mætti, að hernámslið hefði í síðustu styrjöld bjargað okkur frá slíkum háska. Það hafa gerzt býsna miklir atburðir síðan þá. Síðan hafa orðið algerlega byltingarkennd umskipti í hertækni og hermálum, og að ætla að fara að meta ástand nú út frá ástandinu, sem var í síðustu styrjöld, er auðvitað hreinn barnaskapur, og ekki sízt þegar hæstv. ráðh. bætir því við, að hann telji, að svona muni þetta verða um alla framtíð eða um langa framtíð. Það er skylda okkar að vega og meta hlutina í samræmi við þá þróun, sem orðin er, og ég mun víkja að þessu svolítið betur síðar í ræðu minni.

Hæstv. ráðh, sagðist ekkert hafa heyrt um það, að gerðar hafi verið áætlanir um íhlutun Atlantshafsbandalagsins um málefni aðildarríkja, ef á þyrfti að halda. Mér þykir leitt að heyra að hæstv. ráðh. fylgist ekki betur með en þetta. Þessi mál hafa verið mikið rædd í ýmsum öðrum aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins. M.a. er ekki ýkjalangt síðan þau voru mikið til umr. í Noregi. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að vita, ef hann fylgist með, og ég verð að segja, að um þessi atriði tel ég ekki fulltrúa Íslands hjá NATO vera neitt öruggt vitni. Ég mundi jafnvel vilja taka flest önnur vitni fram yfir hann, þó að ég þekki hann og viti, að hann er ágætismaður. En staða hans hjá þeirri stofnun gerir það að verkum, að hann er allra manna sízt til þess fallinn að gagnrýna þætti í starfsemi stofnunarinnar.

En í sambandi við þessar umr., sem sprottið hafa af till. okkar, hefði verið ákaflega þarflegt, ef fulltrúar stjórnmálaflokkanna hefðu rætt þessi hernámsmál á dálítið breiðari grundvelli en gert er ráð fyrir í till. Við skulum minnast þess, að enn er í gildi sú yfirlýsing þriggja stjórnmálaflokka, staðfest af bandarískum stjórnvöldum, að hér skuli ekki vera erlendur her né erlendar herstöðvar á friðartímum, þau fyrirheit þessara flokka að hernámið væri ill nauðsyn, sem skyldi aflétt, þegar er aðstæður leyfðu. Síðan þandarískur her kom hingað öðru sinni, eru liðin 17 ár, og allar þær forsendur, sem notaðar voru til þess að réttlæta hernámið, eru gerbreyttar. Samt hafa þeir flokkar, sem stóðu að því að kalla herinn hingað, sárasjaldan séð tilefni til þess að ræða um hernámið og gera grein fyrir því, hvers vegna það sé talið nauðsynlegt enn, þrátt fyrir þessar gerbreyttu aðstæður í veröldinni. Þeir tala raunar ekki um hernámið, nema þeir séu tilneyddir, 1íkt og það sé orðinn hluti af þeim veruleika sem ekki verður breytt af mannavöldum.

Þegar herinn var kvaddur til Íslands 1951, var sú ráðstöfun fyrst og fremst rökstudd með Kóreu-styrjöldinni. Heldur var sá rökstuðningur þó langsóttur, ekki aðeins vegna þess, hversu fjarlægur sá vígvöllur var okkur, heldur og vegna hins, að einmitt um sömu mundir og Bandaríkjaher kom hingað, var Kóreu-styrjöldin að fjara út. Víglínurnar voru að læsast fastar um þau vopnahlésmörk, sem síðan hafa orðið varanleg. En hvað sem menn vilja segja um þetta tilefni 1951, geta sagnfræðileg rök af því tagi ekki réttlætt hersetuna 1968.

Annar rökstuðningur fyrir hernáminu 1951 var hættan á stórstyrjöld milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, og sú fjarskalega einfalda áróðursmynd í hvítum lit og svörtum, sem dregin var upp í því sambandi. Því var haldið fram, að Bandaríkin og stuðningsríki þeirra væru vammlausir málsvarar frelsis og

lýðræðis og sjálfstæðis smáþjóðanna, en Sovétríkin væru ímynd alls hins illa, kúgunar, einræðis og ósjálfstæðis. Þessi bernskuviðhorf eru nú rokin út í veður og vind fyrir löngu. Hvað sem öllum stjórnmálaágreiningi líður, gera raunsæismenn sér ljóst, að heimsvandamálin eru miklu flóknari en þetta. Og raunar eru þeir menn orðnir afar fáir, sem telja bandarísk stjórnarvöld rísa undir þeirri trúarlegu dýrkun, sem reynt var að umvefja þau hér á landi 1951. Ákvörðun, sem m.a. var reist á svona hæpnum siðferðilegum forsendum, verða menn óhjákvæmilega að endurmeta með hliðsjón af reynslunni. Nú er einnig svo komið, að menn hafa ekki fyrst og fremst áhyggjur af því, að Bandaríkin og Sovétríkin hefji stórstyrjöld sín á milli. Ýmis ríki í báðum herbúðum hafa síðustu árin miklu frekar haft áhyggjur af hinu, að risaveldin nái allsherjarsamningum sín á milli, skipti heiminum í áhrifasvæði og takmarki þannig sjálfsákvörðunarrétt annarra ríkja. Menn geta haft mismunandi skoðanir á þeim viðhorfum öllum. En um hitt verður naumast deilt, að aðstæðurnar eru allar aðrar en þær voru 1951, og hernámsflokkunum þremur ber skylda til að gera grein fyrir því, hvernig þráseta hins erlenda liðs verður rökstudd með aðstæðunum nú, en ekki með neinum sagnfræðilegum rökum.

Önnur ríki hafa breytt stefnu sinni á undanförnum árum vegna breyttra aðstæðna, og mætti rekja um það mörg dæmi Það dæmi, sem mesta athygli hefur vakið, er breytt stefna Frakka. Þeir voru í upphafl. aðalstoð Atlantshafsbandalagsins á meginlandi Evrópu. En nú hafa þeir slitið allri hernaðarsamvinnu við bandalagið, sagt Bandaríkjamönnum að hypja sig úr öllum þeim herstöðvum, sem þeir höfðu á franskri grund, rekið aðalstöðvar Atlantshafsbandalagsins úr landi og tekið hersveitir sínar í Þýzkalandi, 70 þús. manns, undan yfirstjórn bandalagsins. Þessar einhliða aðgerðir Frakka hafa gersamlega raskað öllum hernaðaráætlunum Atlantshafsbandalagsins; þær hafa hreinlega hrunið í rúst, og við blasir nýtt ástand, sem öll Evrópuríki verða að vega og meta í samræmi við hin breyttu viðhorf. Forsendan fyrir aðgerðum Frakka er að sjálfsögðu það mat, að sú styrjaldarhætta, sem menn töluðu um í Evrópu, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað, sé ekki lengur í samræmi við veruleikann, enda hefur hin hernaðarlega upplausn bandalagsins síður en svo stuðlað að minna öryggi í Evrópu. Frakkar telja hins vegar, að það verkefni, sem nú er nærtækara, sé, að Evrópuþjóðir losi sig í vaxandi mæli undan húsbóndavaldi Bandaríkjanna. Þar sé einnig um að ræða óhjákvæmilega öryggisráðstöfun, vegna þess að utanríkisstefna Bandaríkjanna sé í sífellu að tengja önnur ríki Atlantshafsbandalagsins við styrjaldarátök, sem Evrópuþjóðir hafa enga samúð með.

Þegar Frakkar sundruðu í verki öllum fyrri hernaðaráætlunum Atlantshafsbandalagsins, hefðu fyrri kenningar um árásarhættu átt að leiða til þess, að önnur bandalagsríki teldu óhjákvæmilegt að taka á sig nýjar hernaðarbyrðar í Evrópu. En sú hefur engan veginn orðið raunin. Öllu heldur hefur þróunin orðið sú að undanförnu, að dregið hefur úr hervæðingu á ýmsum sviðum í Evrópu. Bretar hafa lækkað hernaðarútgjöld sín og ætla í ár að kalla heim um 6 þús. manna af herliði sínu í Þýzkalandi. Einnig hafa Bandaríkin sjálf takmarkað hernaðarviðbúnað sinn í Evrópu, lagt niður herstöðvar, sem voru taldar úreltar, og munu í ár kalla heim frá Þýzkalandi um 35 þús. manna og nokkurn hluta af flugflota sínum. Sameiginleg fækkun á herafla Bretlands og Bandaríkjanna í Þýzkalandi verður í ár um 10%. En í Bandaríkjunum er nú mikið rætt um, að fækka þurfi miklum mun meira í bandaríska herliðinu í Evrópu. Eisenhower, fyrrv. forseti, sem eitt sinn var yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, lagði til 1966, að hersveitum Bandaríkjanna í Evrópu yrði fækkað úr 6 herdeildum niður í tvær, og sérfræðingar telja að á næstu árum verði stefnt að því marki. Ein af forsendunum fyrir þessari ráðabreytni er sú stórfellda aukning, sem orðið hefur síðustu árin á flutningagetu flugflotans. Heræfingar hafa sannað, að hægt er með sáralitlum fyrirvara að flytja hersveitir og hergögn frá Bandaríkjunum til Evrópu, og er nú hluti af þeim her, sem staðsettur er í Bandaríkjunum, talinn heyra til Evrópuhernum. Þessi fækkun í liði Breta og Bandaríkjamanna í Evrópu hefur ekki orðið til þess, að Vestur-Þjóðverjar fjölguðu í sínu líði, heldur hið gagnstæða. Þegar Vestur-Þjóðverjar voru teknir í Atlantshafsbandalagið 1955, var fastmælum bundið, að her þeirra mætti vera 500 þús. manns. En 1966 var ákveðið að lækka þetta hámark niður í 460 þús. manns. Ýmis smáríki hafa þegar fylgt þessu fordæmi stóru ríkjanna, nú síðast Danmörk. Íslenzkum valdamönnum ber skylda til að fylgjast með þessum aðstæðum öllum, vega þær og meta og spyrja sig í sífellu þeirrar samvizkuspurningar, hvort dvöl erlends hers á Íslandi sé enn þá ill nauðsyn, og gera grein fyrir niðurstöðunum frammi fyrir almenningi.

Ein af ástæðunum fyrir þeirri breytingu, sem orðið hefur síðustu árin á hernaðarviðbúnaði í Evrópu, er sú stórfellda stökkbreyting á hernaðartækni, sem orðið hefur eftir stríð, og ber þar að sjálfsögðu hæst þróun kjarnorkuvopna og eldflauga sem geta flutt kjarnavopn heimsálfa á milli Bandaríkjamenn hafa nú glatað þeirri aðstöðu, sem þeir höfðu í upphafi Atlantshafsbandalagsins, að telja sig óhulta í heimalandi sínu, og hefur sú staðreynd haft mjög viðtæk áhrif á utanríkisstefnu þeirra í samskiptum við Sovétríkin. þessi breytta hernaðartækni hefur orðið til þess, að margs konar hernaðarkenningar hafa orðið úreltar með öllu, þ. á m. kenningarnar um gildi útvarðstöðva og herstöðva sem næst hugsanlegum andstæðingi, og í samræmi við það hafa Bandaríkin lagt niður úreltar herstöðvar víða um lönd. Breytingarnar á hernaðartækni hafa einnig haft víðtæk áhrif á herstöðvarnar hér, án þess þó að þau mál hafi nokkru sinni verið rædd málefnalega af hálfu hernámsflokkanna, og íslenzk stjórnarvöld virðast yfirleitt hafa verið óvirkir áhorfendur að breytingunum. Þegar Bandaríkin knúðu Íslendinga til að gera Keflavikursamninginn, var ástæðan m. a. sú, að flugþol flugvéla var þá svo takmarkað, að óhjákvæmilegt var talið að hafa millilendingarstað á miðju Atlantshafi til þess að ferja flugvélar frá Ameríku til Evrópu. Þær aðstæður eru fyrir löngu gerbreyttar, og Keflavíkurflugvöllur ekki notaður lengur til þeirra þarfa.

Þegar herlíðið kom hingað 1951, var bæði um að ræða landher, flugher og flota. Landherinn hafði með sér skriðdreka og aðrar vigvélar, og það lið gat ekki haft annan tilgang en að takast á við her, sem gengi hér á land, - eða a.m.k. að halda þeirri skoðun að Íslendingum, að slík landganga væri hugsanleg. Þessi landher er horfinn héðan fyrir löngu með vígvélar sínar, og þar með hafa Bandaríkin staðfest í verki það mat sitt, að Íslendingar þurfi ekki að búast við neinni erlendri innrás. Landherinn var að sjálfsögðu hið eiginlega „varnarlið“, og þegar hann fór héðan, hefði mátt vænta þess, að hernámsflokkarnir tækju öll hernámsmálin upp til endurskoðunar. En svo varð þó ekki. Það var raunar táknrænt, að Íslendingar fréttu fyrst um það í almennum fréttastofufregnum frá Bandaríkjunum, að landherinn væri að fara. En þegar þáv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, var spurður um málið hér á þingi, reyndist hann ekkert um það vita. Bandaríska herstjórnin virtist taka ákvarðanir sínar, án þess að láta svo lítið að bera þær undir íslenzk stjórnarvöld.

Nokkru síðar hvarf flugherinn héðan einnig, en flotinn varð eftir. Hann hefur hér stjórnarmiðstöð til þess að fylgjast með ferðum kafbáta á Norður-Atlantshafi. Sú stjórnarmiðstöð var áður á Nýfundnalandi, og virtist hún einvörðungu hafa verið flutt hingað vegna þess, að Bandaríkin höfðu ekki orðið neina raunverulega þörf fyrir herstöðvarnar hér og urðu að búa til handa þeim verkefni. Þá er Ísland einnig smávegis hlekkur í ratsjárkerfi Bandaríkjanna, en einnig það kerfi er nú að verða gersamlega úrelt vegna nýrrar tækni. Njósnarhnettir þeir, sem nú svifa sífellt umhverfis jörðina, eru að taka við af þessum ratsjárkerfum á landi.

Þannig er full ástæða til að ætla, að þau herfræðilegu rök, sem notuð voru í öndverðu til þess að réttlæta hernám Íslands, séu nú orðin úrelt með öllu. Og þetta er að sjálfsögðu mjög veigamikið atriði. Forustumenn hernámsflokkanna hafa m;argsinnis lýst yfir því, að hernámið ætti ekki fyrst og fremst að tryggja einangraðar varnir Íslands, heldur væri Ísland hlekkur í keðju; við yrðum að leggja fram okkar hlut í þágu hinna sameiginlegu varna. En ef íslenzki hlekkurinn skiptir ekki lengur neinu máli, ef hinar svokölluðu sameiginlegu varnir eru nákvæmlega jafnöflugar þótt engar herstöðvar séu hér, hvað þá? Eigum við engu að síður að sætta okkur við erlent hernámslið um ófyrirsjáanlega framtíð?

Við skulum gera okkur það fullkomlega ljóst, að Bandaríkjaher fer ekki héðan nema við eignum frumkvæði að brottför hans. Það mun ekki gerast, að hernámsstjórinn komi í heimsókn í stjórnarráðið og segi þar, að vegna breyttra aðstæðna þurfi Bandaríkin ekki á herstöðvunum hér að halda, þakki fyrir sig og fari. Í nærri aldarfjórðung hefur Íslendingum verið kunn sú staðreynd, að bandarísk stjórnarvöld vilja til frambúðar líta á Ísland sem hluta af yfirráðasvæði sínu. Haustið 1945, í lok styrjaldarinnar, meðan Bandaríkin og Sovétríkin voru enn nánir samherjar og ekkert kalt stríð var hafið, fóru bandarísk stjórnarvöld fram á að fá að halda herstöðvum hér í heila öld. Sú málaleitun verður ekki rökstudd með neinu því, sem síðar hefur gerzt. Hún sýnir ofur einfaldlega, að Bandaríkin litu á Ísland sem hluta af sigurlaunum sínum í síðustu styrjöld. Full ástæða er til að halda að Bandaríkin haldi enn fast við þessa stefnu sína, að hinir fjölbreytilegu samningar, sem gerðir hafa verið við okkur, hafi fyrst og fremst þann tilgang að framkvæma þessa yfirráðastefnu í áföngum. Á það bendir einnig sú staðreynd, að Bandaríkin hafa reynt að seilast til áhrifa á hin ólíklegustu svið þjóðlífsins hér, reynt að gera hernámið að hluta hins rúmhelga dags, svo að menn hættu að veita því athygli. Þeim hefur orðið mjög mikið ágengt á því sviði, en þeir fóru raunar yfir markið með starfsemi dátasjónvarpsins og vöktu til umhugsunar fjölmarga sem áður uggðu ekki að sér. En eru forustumenn hernámsflokkanna þriggja ekkert farnir að huga að þessum staðreyndum? Er þeim ekki Ijóst, að sú svokallaða öryggisstefna sem var boðuð 1951, er í verki augljóslega að breytast í óvefengjanlega yfirráðastefnu, þá hina sömu og opinberuð var 1945? Eða vilja þeir e. t. v. sætta sig við þá þróun til frambúðar? Svona munu mál óhjákvæmilega þróast, ef íslenzk stjórnvöld hafa þá afstöðu, að frá okkur megi ekkert frumkvæði koma, að við séum ekki dómbærir á hernámsmálin, heldur verðum að sætta okkur við þrásetu hins erlenda liðs, meðan Bandaríkjunum þóknast að hafa það hér.

Mér er kunnugt um það, að þessar staðreyndir eru að verða ýmsum mönnum innan hernámsflokkanna sívaxandi umhugsunarefni. Og vafalaust er það til marks um þrýsting af þessu tagi, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. í þingbyrjun var vikið lauslega að sérfræðilegri athugun að frumkvæði Íslands á þessum vandamálum, en í svari við fsp. frá mér gaf hæstv, forsrh. síðast þá skýringu á þessu, að ætlunin væri að sérmennta einhvern eða einhverja Íslendinga til þess að vera hæstv. ríkisstj. til halds og trausts, og hæstv. utanrrh. komst eins að orði hér áðan. Ekki skal ég vanmeta gildi sérfræðinga á þessu sviði frekar en öðrum. En hér er um svo örlagaríkt stórmál að ræða, að stjórnarvöldin geta ekki velt ábyrgðinni af sér yfir á neina sérfræðinga. Það er skylda stjórnarvaldanna sjálfra að fylgjast með allri þróun þessara mála og mynda sér skoðanir á þeim, enda er það fráleit firra, að íslenzka stjórnmálamenn skorti hæfileika til að fylgjast með alþjóðamálum og hermálum og meta þau á sjálfstæðan hátt. En leiðarvísir að slíku mati verður ævinlega að vera sú yfirlýsta afstaða Íslendinga, þ. á m. hernámsflokkanna þriggja að hér megi ekki vera erlendur her eða erlendar herstöðvar á friðartímum.

Mér finnst vera ástæða til þess í tilefni af þeim umr., sem hér eru hafnar, að skora á forustumenn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. að gera grein fyrir afstöðu sinni til hernámsvandamálsins alls. Ekki með neinum sagnfræðilegum rökum frá tímabili kalda stríðsins, heldur með því að taka tillít til þeirra aðstæðna, sem nú eru. Ég vil skora sérstaklega á hæstv. utanrrh. að ræða hernámsmálin frá þessu m forsendum, og ég vil beina því mjög eindregið til forsvarsmanna Sjálfstfl. og Framsfl., að þeir geri þjóðinni grein fyrir því, hvernig þeir meta þessi vandamál nú.