21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

134. mál, nefnd til að rannsaka ýmis atriði herstöðvamálsins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Má ekki vænta þess, að hæstv. utanrrh. komi hér og verði viðstaddur umr.? Ég ætlaði að svara nokkrum atriðum í ræðu, sem hann flutti, þegar málíð var hér seinast á dagskrá. (Forseti: Ég lét hæstv. utanrrh. vita um, að umr. mundi hefjast hér kl. 5, svo að ég á von á honum nú á hverri stundu. Ég skal hins vegar láta ítreka það við hann, að umr. sé hafin og þess hafi verið óskað, að hann væri hér nærstaddur.)

Já, herra forseti. Í umr. að undanförnu hafa komið fram tvenns konar andmæli gegn því, að kjörin verði rannsóknarnefnd til þess að kanna tiltekna þætti hernámsins. Hæstv. utanrrh. hefur lagzt gegn till. með þeim rökum, að ekkert sé athugavert við þau atriði, sem talin eru upp í till., og því sé rannsókn ástæðulaus. Hv 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson, hefur hins vegar andmælt hugmyndinni um rannsóknarnefnd á þeim forsendum, að lítils árangurs sé af rannsókninni að vænta vegna þess, hvernig Alþ, er skipað, eða m.ö.o., vegna þess að hernámssinnar hafi verið í meiri hl. hér á þingi, sé þn. ekki treystandi til þess að framkvæma haldgóða rannsókn.

Báðar eru þessar mótbárur byggðar á misskilningi á eðli rannsóknar. Rannsókn á auðvitað ekki að vera fólgin í því, að menn gefi sér niðurstöður fyrir fram og leiti síðan að þeim röksemdum einum, sem samrýmast hinni gefnu niðurstöðu. Það þætti lélegur rannsóknardómari, sem byrjaði á því að kveða upp dóminn, en tæki síðan að rannsaka málavexti og hagnýtti það eitt úr rannsókninni, sem honum hentaði. Að rannsókn verða menn að ganga opnum huga í þeim tilgangi að komast að öruggri niðurstöðu um flókin vandamál eða reyna að skera úr um ágreining. Um það ættu naumast að vera skiptar skoðanir, að hernámsmálin eru mjög örlagarík fyrir Íslendinga og allir vita, að mikill ágreiningur er um þau efni, sem talin eru upp í till. Einmitt af þeim ástæðum er farið fram á rannsókn.

Það er gjörsamlega órökrétt hjá hæstv. utanrrh., þegar hann leggst gegn rannsókn á þeim forsendum, að hún muni örugglega sanna, að hann hafi á réttu að standa í hernámsmálunum. Ef hæstv. utanrrh. er í rauninni þeirrar skoðunar, ætti hann að vera manna áfjáðastur í að láta framkvæma slíka rannsókn án tafar. Andstaða hans stafar annað tveggja af órökréttri hugsun eða skorti á heilindum. Það er einnig algerlega röng afstaða hjá hv. 1. þm. Vestf., þegar hann telur rannsókn því aðeins koma að gagni, að eintómir hernámsandstæðingar framkvæmi hana. Í því er fólgið það viðhorf að kveða upp dóminn á undan rannsókninni. Það er Alþ. Íslendinga, sem eitt hefur vald til þess að taka ákvarðanir um hernámsmálin og alla þætti þeirra, og því er það verkefni Alþ. eins og það er skipað hverju sinni að afla sér sem gleggstrar vitneskju um öll þau vandamál. og alþm. ber eins og öðrum að virða þá reglu að hafa það heldur, sem sannara reynist. Ef niðurstaða rannsóknar rekst á fyrri skoðanir manna, ber að breyta þeim skoðunum.

Ég skil að vísu efasemdir hv. 1. þm. Vestf. um það, að íslenzkir stjórnmálamenn bregðist þannig við. Það hefur lengi verið siður stjórnmálamanna hérlendis að ríghalda í fornar skoðanir, enda þótt þróunin sjálf hafi gengið af þeim dauðum. Hér er það t.d. mjög vinsæl ræðuaðferð að berja andstæðinga í höfuðið með 10—20 ára gömlum tilvitnunum og telja það ámælisvert, að menn haldi ekki áfram að tönnlast á slíkum staðhæfingum fram á grafarbakkann. En þvílíkar ásakanir eru oft ómaklegar með öllu. Raunsæir stjórnmálamenn hljóta að meta vandamál hvers tíma á sjálfstæðan hátt. Grundvallarskoðanir þeirra eiga ekki að vera neinar formúlur, heldur leiðsögn til athafna. Úrræði, sem einu sinni var talið rétt, getur orðið alrangt 10—20 árum síðar. Og þetta á einmitt alveg sérstaklega við um hernámsmálin. Á því sviði hafa orðið ákaflega gagngerar breytingar á undanförnum 17 árum. Jafnvel þótt menn séu enn þeirrar skoðunar, að þeir hafi tekið réttar ákvarðanir, þegar þeir kölluðu hernámið yfir okkur 1951, geta þeir talið, að hernámið eigi engan rétt á sér 1968. Einmitt þess vegna er farið fram á rannsókn, svo að málavextirnir sjálfir skeri úr í stað steinrunninna skoðana sem ekki eru í neinum tengslum við nútímann. Ég álít það fráleitt með öllu að telja, afstöðu hernámsflokkanna þriggja óumbreytanlega; því aðeins ræðumst við við hér á þingi, að við gerum okkur vonir um að geta haft áhrif hver á annan. Og því mundi ég telja það feng, ef Alþ. skipaði n. til þess að rannsaka hernámsmálin, eins þótt andstæðingar mínir hefðu meiri hl. í n. Um þetta efni getum við mikið lært af öðrum þjóðum. T.d. ef Bandaríkjamönnum, svo ég víki að fyrirmynd, sem ætti að vera ýmsum þm. að skapi. Bandarískar þingnefndir gera mjög mikið að því að ástunda rannsóknarstörf, jafnt fastanefndir þingsins sem sérstakar rannsóknarnefndir. Nú nýlega hefur utanrmn, öldungadeildarinnar t.d. rannsakað ýmsa þætti Víetnam-styrjaldarinnar og yfirheyrt utanrrh. landsins klukkutímunum saman fyrir opnum tjöldum. Þessi síðasta rannsókn var m.a. merkileg að því leyti, að þar kom í ljós, að allur þorri nm. hafði skipt um skoðun á styrjöldinni í Víetnam. N. hafði með rannsóknum sínum fengið vitneskju um staðreyndir, sem urðu til þess, að menn hurfu frá skoðunum, sem reyndust byggðar á sandi. Þannig eiga að vera viðbrögð manna, sem eru vandir að virðingu sinni Ég tel því fulla ástæðu til að halda fast við till. um rannsóknarnefnd. Hitt fyndist mér sjálfsagt að taka upp viðræður um það, hvort breyta ætti orðalagi till. eða tiltaka verksvið rannsóknarnefndarinnar á annan hátt en þar er gert, eins og 1. þm. Vestf. mæltist til. Gætu einhverjar slíkar breytingar stuðlað að samstöðu um till., er einsætt að fallast á þá málsmeðferð.

Í ræði sinni s.l. þriðjudag vék hæstv. utanrrh, enn að efnisþáttum till. og endurtók aðeins fyrri sjónarmið sín án þess að bæta nokkru nýju við, og ég sé ekki ástæðu til að fara í neitt endurtekningakapphlaup við hæstv. ráðh. Þó langar mig enn að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. ráðh. sagði um ráðstafanir til að koma í veg fyrir kjarnorkuslys. Hæstv. ráðh. taldi það enn sem fyrr fullnægjandi að hafa fengið munnlegar yfirlýsingar bandaríska sendiherrans og hernámsstjórans á Keflavíkurflugvelli þess efnis, að það væri stefna Bandaríkjastjórnar um þessar mundir að hafa ekki kjarnorkuvopn á Íslandi og láta flugvélar með slík vopn ekki fljúga í íslenzkri lofthelgi. Endurtekningar hæstv. ráðh. á þessum atriðum sýna, að honum hefur ekki enn tekizt að gera sér grein fyrir því, í hverju vandinn er fólginn. Hér er einmitt um það að ræða hvert öryggi er fólgið í yfirlýsingum af þessu tagi. Ástæðan til þess, að hér eru hafnar umr. um þetta mál, er sú, að hliðstæðar yfirlýsingar höfðu reynzt gagnslausar að því er tók til Grænlands. Bandaríkin höfðu heitið Dönum því hátíðlega, að kjarnorkuvopn væru ekki höfð á Grænlandi og ekki flogið með slík vopn um grænlenzka lofthelgi. Samt rigndi fjórum helsprengjum yfir Grænland, og er enn verið að leita að geislavirkum brotum. Þegar hæstv. ráðh. er spurður, hvaða aðgerðir hann geti hugsað sér til þess að koma í veg fyrir, að slíkir afburðir gerist hér á landi, stoðar ekki fyrir hann að vitna í nýjar yfirlýsingar, því að það hefur einmitt sannazt í verki, að yfirlýsingarnar standast ekki. Það þarf meira til, og ég spyr hæstv. ráðh. enn, hvaða öryggisráðstafanir telur hann vænlegar fyrir Íslendinga á þessu sviði?

Hæstv. ráðh. gat þess í ræðu sinni, að kjarnorkuslysið við Thuleflugvöll hefði stafað af tilraun til neyðarlendingar. Flugmaðurinn hefði verið að reyna að bjarga lífi sínu, og var svo að heyra sem þetta ætti að vera réttlæting á atburðinum. Ber þetta svo að skilja að hæstv. ráðh. mundi telja það heimilt, að bandarískar flugvélar með kjarnorkuvopn nauðlentu hér á landi, í Reykjavík, Keflavík, Akureyri eða annars staðar, ef flugmennirnir lentu í vanda? Auðvitað er neyðarlending hættulegust allra lendinga, ef kjarnorkuvopn eru innanborðs. Ef menn hafa ekki stjórn á farartæki sínu, er langmest hætta á því, að slys hljótist af. Að sjálfsögðu hefði það verið eitt af því, sem hæstv. ráðh. hefði þurft að brýna fyrir bandarískum valdamönnum, að slíkar flugvélar mættu ekki undir neinum kringumstæðum nauðlenda á Íslandi. Ef menn fljúga með slík vopn, mega þeir ekki taka lífsvon sína fram yfir öryggi annarra.

En fyrst við erum farnir að tala um kjarnorkumál, er rétt að víkja örlítið nánar að þeim, því að hæstv. ráðh. hefur ekki enn gert neina skýra grein fyrir stefnu íslenzkra valdamanna á þessu sviði. Ég geri ráð fyrir, að yfirlýsingar hans um kjarnorkumál og kjarnorkuvopn á Íslandi séu hugsuð sem ítrekun á þeirri samþykkt Atlantshafsbandalagsins frá 1957, að ekki skuli höfð kjarnorkuvopn í nokkru ríki bandalagsins, án þess að stjórnarvöld þess ríkis hafi samþ. það. Hinar loðnu yfirlýsingar hæstv, ráðh. eru einvörðungu innan þess ramma. Mér þykir hins vegar ástæða til þess að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. hafi ekki sjálf neina frambúðarstefnu í þessu máli. Er ríkisstj. Íslands reiðubúin til þess að lýsa yfir því, að Ísland sé og verði kjarnorkuvopnalaust svæði? Að hér séu ekki kjarnorkuvopn og þau verði ekki heimiluð hér heldur framvegis? Slík stefna væri í samræmi við yfirlýsingar, sem þegar hafa verið gefnar af ýmsum löndum heims. Hún væri tvímælalaust í samræmi við vilja meginþorra þjóðarinnar og frambúðaröryggi landsmanna, og hún mundi samrýmast einkar vel þeirri stefnu kjarnorkurisanna að standa gegn dreifingu kjarnorkuvopna í heiminum um þessar mundir. Ég vil fara þess á leit við hæstv, utanrrh., að hann gefi skýr svör um þetta atriði.

Í ræðu minni, sem ég flutti hér áður um þetta mál, kvaðst ég vilja nota tækifærið til þess að ræða hernámsmálin almennt, og ég skoraði á málsvara annarra flokka að gerfl slíkt hið sama. Ég benti á, að þess væri enginn kostur að réttlæta hernámið með sögulegum röksemdum frá, 1951, vegna þess hve stórfelldar breytingar hefðu orðið á alþjóðamálum og hernaðartækni á þeim tíma. Ég reyndi að setja mig í spor þeirra manna, sem kölluðu hernámsliðið inn í landið, og sýndi fram á, að þau rök, sem þá voru notuð, duga engan veginn nú. Þeir menn, sem vilja sætta sig við hernámið 1968, verða að færa að því ný rök, og þeim ber skylda til þess að gera þjóðinni skýra grein fyrir stefnu sinni. Íslendingar mega ekki hvika frá þeirri grundvallarafstöðu, að þeir vilji búa einir og óháðir í landi sínu. Frávik frá þeirri stefnu verða að vera tímabundin, og þeir menn, sem mæla með slíkum frávíkum, verða að færa fyrir því rök, sem þeir telja fullgild. Engin slík rök hafa heyrzt frá fulltrúum hernámsflokkanna um langt skeið. Aðeins endurtekning á staðhæfingum, sem urðu til við allt aðrar aðstæður.

Þrír þm. Framsfl, hafa gert grein fyrir afstöðu sinni í þessum umr. Hv. þm. Magnús Gíslason og Sigurvin Einarsson fluttu hér mjög skýrar og afdráttarlausar ræður. Og ég tel sérstaka ástæðu til að fagna málflutningi þeirra, vegna þess að ég veit, að hann er í samræmi við skoðanir yfirgnæfandi meiri hl. framsóknarmanna um land allt. Hins vegar stóðu þessir þm. ekki að ákvörðuninni um hernámið 1951. Þeir voru andvígir þeirri ákvörðun þá og hafa verið það æ síðan. Það voru önnur öfl í flokknum, sem mótuðu hina opinberu stefnu og tóku á sig ábyrgð á þeim ákvörðunum, sem teknar voru 1951. Einmitt þess vegna taldi ég hina stuttu ræðu. sem hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, formaður þingflokks Framsfl, flutti hér, mjög athyglisverða. Eysteinn Jónsson lýsti yfir því, að hernámsmálin þörfnuðust ýtarlegrar endurskoðunar miðað við ný viðhorf og okkar eigin reynslu, og hann bætti því við, að nýtt mat þyrfti að leiða til endurskoðunar varnarmála. Í orðum þessa þm. fannst mér einmitt birtast það opna viðhorf, sem ég var að lýsa eftir. Og mér finnst ástæða til að vænta þess, að þessi hv. þm. og aðrir þeir framsóknarmenn, sem stóðu að ákvörðuninni 1951, geri fljótlega nánari og skýrari grein fyrir breyttri afstöðu sinni.

Af hálfu Sjálfstfl hefur enginn tekið þátt í þessum umr. enn sem komið er. Þó hefur verið skorað sérstalega á hæstv. forsrh. að skýra frá skoðunum sínum, vegna þess að hann hefur öðrum mönnum frekar mótað stefnu flokksins í utanríkismálum. En auðvitað ættu fleiri þm. Sjálfstfl. að vera sjálfgefnir þátttakendur í slíkum umr. Ég vil minna á það, að hæstv. forseti þessarar d., Matthías Á. Mathiesen, hefur að undanförnu verið formaður Þingmannasambands Atlantshafsbandalagsins og hefur eflaust aflað sér margvíslegrar og fróðlegrar vitneskju í því starfi. Því aðeins höfum við not af því að eiga fulltrúa í alþjóðlegum stofnunum af þessu tagi, að þeir leyfi Alþ. Íslendinga að njóta góðs af. Þar á ekki að vera um neitt einkafyrirtæki að ræða. Svo stórfelldar breytingar hafa orðið á högum Atlantshafsbandalagsins að undanförnu, að Alþ. Íslendinga verður að vega þær og meta á sjálfstæðan hátt. Ég vil því ítreka þá áskorun mína til málsvara Sjálfstfl., að þeir geri grein fyrir afstöðu sinni til hernámsmálanna í samræmi við aðstæðurnar um þessar mundir. Hins vegar má vel vera, að fulltrúar stjórnarflokkanna vilji síður taka þátt í almennum umr. um þessi mál í sambandi við till. um rannsóknarnefnd. Ef svo er, er sjálfsagt að leita samkomulags um aðra tilhögun. Hæstv. utanrrh. sagði t.d. í síðustu ræðu sinni hér, að hann vildi við þessa umr. einvörðungu binda sig við þau efnisatriði, sem rakin eru í till. um rannsóknarnefndina. Og hann bætti því við nokkurn veginn orðrétt, að hann teldi æskilegt að taka hernámsmálin til umr., þegar tími til þess væri ákveðinn sérstaklega. Ég gæti mjög vel fallizt á slíka tilhögun. Þá væri eðlilegast, að sá háttur væri á hafður, að hæstv. ráðh. flytti Alþ. skýrslu um þessi mál og um viðhorf og stefnu ríkisstj. í sambandi við þau, og síðan færu fram almennar umr. Mundi ég þá telja eðli1egt, að hluti af þeim umr. yrði fluttur á einhvern hátt í hljóðvarpi og sjónvarpi, eins og tíðkast í ríkjum, þar sem það er talið sjálfsagt verkefni fjölmiðlunartækja að kynna almenningi hin brýnustu vandamál hverju sinni. Ég tek sem sé undir þessa till. hæstv. utanrrh. og vænti þess, að hann geri nánari grein fyrir henni hér á eftir, hvenær hann gæti hugsað sér, að slík umr. færi fram, og hvernig henni yrði háttað.