27.02.1968
Efri deild: 63. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (3030)

147. mál, heykögglavinnsla og fóðurbirgðastöðvar

Flm. (Magnús H. Gíslason) :

Herra forseti Þáltill. sú á þskj. 312, sem hér er til umræðu og flutt er af mér og hv. 2. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, er um það að ríkisstj. feli landnámi ríkisins í samráði við viðkomandi búnaðarsambönd að koma á fót, ef athugun sýnir, að það sé hagkvæmt, þremur til fjórum fóðurbirgðamiðstöðvum á Norður- og Austurlandi. Teljum við flm. till. fyllilega tímabært orðið, að hafizt sé handa um undirbúning slíkra framkvæmda með hliðsjón af þeim miklu áföllum, sem bændur í þessum landshlutum hafa orðið fyrir af völdum fóðurskorts að undanförnu.

Fátt eða jafnvel ekkert hefur háð íslenzkum landbúnaði eins frá fyrstu tíð og fóðurskorturinn. Bændur landsins hafa frá öndvörðu og allt til síðustu ára bókstaflega talað átt alla sína efnahagslegu afkomu undir sól og regni. Ef grasbrestur varð verulegur eða nýting heyja slæm sökum brigðullar og harðhnjóskulegrar veðráttu eða af völdum annarra náttúruafla var vá fyrir dyrum þjóðarinnar allrar, svo mjög sem hún hefur allt fram á yfirstandandi öld verið háð viðgangi landbúskapar um afkomu sína. Af fóðurskortinum leiddi tíðum skepnufelli og í kjölfar hans vergang og síðan hungurdauða landsmanna hópum saman.

Hér hefur sem betur fer mikil og góð breyting á orðið. Margháttaðar tæknilegar framfarir og vísindi hafa komið hér til hjálpar sem og á öllum öðrum sviðum framleiðslunnar og þjóðlífsins yfirleitt. Grasvöxtur, sem oft var rýr vegna vorkulda einna saman, á meðan húsdýraáburður var einvörðungu notaður, er nú með aukinni notkun tilbúins áburðar og vaxandi þekkingu bænda á réttri notkun hans tiltölulega tryggur orðinn víða um land, komi kalskemmdir ekki til. Votheysgerð og súgþurrkun stuðla í vaxandi mæli að því að gera bændur smátt og smátt óháðari veðráttunni með verkun heyjanna. Notkun innlends og erlends kjarnfóðurs gerir kleift að komast af með minni heyfeng handa búfénu en áður var unnt, þótt um kjarnfóðurgjöfina í þeim mæli sem hún er nú sums staðar orðin sé deilt og megi deila, og vissulega er þar auðgert að ofgera.

En þrátt fyrir allt þetta hefur þó dýrkeypt reynsla síðari ára sýnt, að enn erum við ærinn spöl frá því marki, að allir bændur séu ávallt öruggir um nægjanlegt, heimafengið heyfóður, hvað sem í skerst. Það hafa hinar gífurlegu og geigvænlegu kalskemmdir í sumum landshlutum undanfarin ár fært okkur heim sanninn um. Þótt við notum nægan áburð og þótt við notum hann skynsamlega, kemur fyrir lítið að bera á dauða jörð, og það er einmitt kalið, sem undanfarin ár hefur gerzt svo harðleikið við tún fjölmargra bænda á Norður- og Austurlandi, að heyfengur þeirra hefur reynzt alls ónógur til að fleyta fram bústofninum. Fjölmargir bændur, kannske ekki hvað sízt á kalsvæðunum, hafa minni bústofn en svo, að hann veiti þeim raunverulega viðunandi lífsafkomu, hvað þá að hann megi við minnkun. Bændur og samtök þeirra hafa brugðizt þann veg við þessum vanda að aðstoða þá, sem harðast hafa orðið úti, um kaup á kjarnfóðri og útvegun heys í þeim landshlutum, sem aflögufærir hafa verið. Sú aðstoð hefur að sjálfsögðu verið bæði erfið og kostnaðarsöm, en í það hefur ekki verið horft, en ljóst er, að leita þarf annarra úrræða til þess að mæta þessari hættu. Fóðurbætisgjöf úr hófi fram er kostnaðarsöm, hvað þá ef til hennar þarf að koma ár eftir ár, og verður að teljast neyðarúrræði. Útvegun heys, kaup á því og flutningur um óravegu, oft við hinar erfiðustu aðstæður er einnig neyðarúrræði, sem þar að auki getur brugðizt.

Bændur, samtök þeirra og þeir vísindamenn, sem í þágu þeirra starfa, velta nú mjög fyrir sér, hvernig bregðast skuli við kalhættunni og afleiðingum hennar. Mér er ekki kunnugt um, að komizt hafi verið í þeim efnum að einhlítri niðurstöðu enn sem komið er. Sú hugmynd hefur hins vegar skotið upp kollinum, að fóðurbirgðamiðstöðvar í líkingu við þær, sem till. okkar hv. 2. þm. Austf. ráðgerir, geti komið að gagni. Mundu þær þá væntanlega ef reynsla bendir til. að hér væri rétt stefnt, rísa upp á nokkrum stöðum norðan- og austanlands og ef til vill víðar. Mér er kunnugt um, að málið er komið á þann rekspöl t.d. í Skagafirði, að það hefur verið rætt þar á búnaðarsambandsfundi og í stjórn búnaðarsambandsins, og ég veit ekki betur en Pálmi Einarsson landnámsstjóri hafi verið þar með í ráðum. Munu þessir aðilar hafa ákveðið landsvæði í huga í þessu augnamiði, þar sem er norðvesturhluti Vallhólmsins. Þarna er um að ræða óhemjuflæmi samfellds, auðræktanlegs lands, sem nú er ekki notað til neinnar hlítar og þar að auki svo vel í sveit sett, að naumast getur betra verið. Ég hygg, að það sé rétt, að undirbúningi málsins norður þar sé ekki lengra komið en hér er frá skýrt og í bili muni hafa steytt á því skeri, að ekki reyndist unnt að ná eignarhaldi á öllu því landi, sem í huga var haft, en vonir standa til, að úr því muni rætast. Á líka lund þykir mér trúlegt að verði farið að annars staðar, ef hugmyndin um slíkar fóðurmiðstöðvar, sem hér er gert ráð fyrir, fær byr. Kosta þarf kapps um að ná eignarhaldi á stórum og sem samfelldustum ræktanlegum landsvæðum, sem liggja vel við samgöngum, og æskilegast væri að sjálfsögðu. ef jarðhiti væri þar í nánd. Vera má, að slík landsvæði liggi ekki alls staðar á lausu, en það kemur að sjálfsögðu í ljós við nánari athugun málsins.

Í till. okkar hv. 2. þm. Austf. er talað um 3–4 fóðurbirgðamiðstöðvar í tveimur landsfjórðungum. Að sjálfsögðu er ógerlegt að slá neinu föstu um þá tölu, nema að undangenginni vandlegri athugun. Hér er einnig aðeins talað um stöðvar norðan- og austanlands. Þar með er þó engu slegið föstu um, að þeirra sé ekki viðar þörf, t.d. vestanlands, en þyngstum búsifjum held ég, að kalið hafi nú um sinn valdið á Norður- og Austurlandi, og því eru þeir landshlutar einkum nefndir hér í þessari till.

Þó talað sé um heykögglavinnslu í sambandi við fóðurbirgðamiðstöðvarnar, er ekki þar með sagt, að horfið yrði að þeirri meðhöndlun fóðursins þegar í upphafi. Byrjunaraðgerðir yrðu að sjálfsögðu í því fólgnar, að tryggja stöðvunum nægjanlegt land og rækta það. framhaldi af því gæti svo komið, til að byrja með að minnsta kosti, að leigja þeim bændum, sem fyrirsjáanlegur fóðurskortur yrði hjá vegna grasleysis, landspildur þessar til heyskapar. Víða er það svo, þar sem ég þekki bezt til, að gott grasár getur verið í góðsveitum, þótt síðar og lakar spretti á annesjum, til dala og á þeim býlum, sem hærra liggja frá sjó en almennt gerist. Bændur á þessum jörðum geta oft ekki hafið slátt fyrr en hálfum mánuði til þrem vikum seinna en aðrir og þaðan af meira. Ættu þeir kost á túnspildum hjá fóðurbirgðamiðstöðvunum, gætu þeir heyjað þar á meðan beðið væri eftir sprettu heima fyrir, lengt þannig heyskapartímann og tryggt sér frekar nægjanlegt fóður til vetrarins. Sjálfsagt vilja einhverjir segja, að slíkum harðbalabýlum eigi ekki að halda í byggð. Þar ber þó eins og endranær að líta til fleiri en einnar áttar. Oft eru þetta góðar beitarjarðir til fjalls og fjöru. Þar getur verið kjarnlendi meira en annars staðar gerist, og þannig er oft hægt að komast þar létt af með sauðfé og hafa það þó vænt. Þar geta verið margháttuð hlunnindi, sem naumast verða nýtt nema á jörðunum sé búið. Þannig getur eitt og annað að því stutt, að jörðinni beri að halda í byggð, þótt til beggja vona geti brugðizt með sprettu á túnum, þegar kaldan blæs.

Flutningur á heyjum frá fóðurmiðstöðvunum og heim til notendanna ætti ekki að vera ýkja kostnaðarsamur né erfiðleikum bundinn, því að að sjálfsögðu færi hann fram að sumrinu. Ég hygg, að þótt ekki sé í upphafi lengra horft en til slíkrar félagsræktunar og heyöflunar hjá fóðurbirgðastöðvunum, gæti hún áður en langt um líður tryggt fóðurþörfina í verulegum mæli, í flestum árum a.m.k. Væri þá mikill sigur unninn.

Hérlendis hefur nokkuð verið fengizt við heymjöls- og graskögglagerð. Klemenz á Sámsstöðum reið þar á vaðið með grasmjölsgerð árið 1948 og framleiddi af því um 30 smálestir á ári næstu 12 ár. Sumarið 1960 hófst Samband ísl. samvinnufélaga handa um framleiðslu grasmjöls í verksmiðju sinni á Stórólfsvelli, og um líkt leyti byrjuðu framkvæmdir ríkisins við fóðurframleiðslu í Gunnarsholti. Var þar í fyrstu um kornrækt að ræða, en sumarið 1964 hófst þar mjöl- og graskögglagerð. Þá hefur og verið komið á fót grasmjölsverksmiðju í Brautarholti á Kjalarnesi. Að því er ég hygg, var þessi fóðurframleiðsla eingöngu bundin við grasmjöl fram til ársins 1964. Óx hún á þessu árabili úr 230 smálestum árið 1961 í 962 smálestir árið 1964. Mest var framleiðslan 1986, 1100 smálestir. Heykögglagerðin hefur verið reynd í þrjú ár. S.l. ár gaf hún 515 smálestir á móti 815 smálestum af grasmjöli. Erfitt er að draga ályktun um eðlilegan kostnað við þessa fóðuröflun af þeirri reynslu, sem fengin er. Framleiðslan hefur verið mjög mismikil frá ári til árs og oft og tíðum lítil miðað við afkastagetu þurrkaranna. Rekstur stöðvanna gefur því mjög ónákvæma mynd af þeim árangri, sem unnt ætti að vera að ná, væri afkastagetan fullnýtt.

Landbúnaðarvísindamenn á Norðurlöndum velta nú mjög fyrir sér hinum mismunandi fóðurverkunaraðferðum. Hefur athygli þeirra nú einkum staðnæmzt við hina, svonefndu hraðþurrkun fóðursins og síðar kögglun. Komið hefur í Ijós, að efnatap hraðþurrkaðs fóðurs er ekki nema 5—10% á móti 10—25% í votheyi og 15—25% í súgþurrkuðu heyi. Kostirnir við hraðþurrkun eru m.a. þeir, að sú heyverkun er algerlega óháð veðurfarinu og efnatapið sáralítið, sem aftur sparar kraftfóðurgjöf, einkum próteinfóðurs. Aftur á móti er hraðþurrkunin nokkuð kostnaðarsöm. Þeir annmarkar hafa komið í ljós á grasmjöli og heykögglum þeim, sem til þessa hafa aðallega verið framleiddir, að ekki er unnt að fóðra á þeim einvörðungu. Nú er hins vegar hafin á Norðurlöndum framleiðsla köggla, sem eru af stærri gerð og þar sem strá og blöð haldast nokkuð heilleg. Talið er, að með þeim kögglum sé óþarft að gefa annars konar heyfóður. Enn er það talið kögglunum til gildis, að mjög mikill vinnusparnaður og verkaléttir er að því að fóðra á þeim miðað við gjöfina á öðru fóðri. Vinnusparnaðurinn og verkaléttirinn við heygjöfina og aukin nýting efna í fóðrinu er talin vega fyllilega á móti því, sem það er dýrara í framleiðslu en annað fóður, eftir því sem rannsóknir, sem fram hafa farið á þessu, benda til.

Hér skal engin tilraun gerð til þess að áætla neinn kostnað við framkvæmd þessa máls. Til þess skortir mig flest gögn, enda má segja, að öll áætlanagerð sé nokkuð í lausu lofti hjá þjóð, þar sem slíkur glundroði og öryggisleysi ríkir í efnahagsmálum og hér og svo snarráðir menn halda um stjórnvöl, að segja má, að enginn viti, er hann sofnar að kvöldi, nema búið sé að fella gengi peninganna, þegar hann vaknar að morgni. Ljóst er þó, að til þess að reisa 3—4 fóðurbirgðamiðstöðvar, eins og talað er um í till., muni þurfa allmikið fé, og það enda þótt ekki yrði þegar í upphafi horfið að heykögglagerð.

Ég hygg, að þegar litið er til þess annars vegar, hversu dýrt og erfitt hefur verið að bæta úr fóðurskortinum, og hins vegar þess öryggis, sem slíkar fóðurmiðstöðvar eiga að geta veitt, verði stofnkostnaðurinn ekki svo ýkjaþungur á metum. Hér yrði efalaust í upphafi aðeins um að ræða stofnun einnar slíkrar stöðvar í tilraunaskyni, eins og segir í till. En trú mín er sú, að sú tilraun muni leiða af sér áframhald á sömu braut.

Okkur tillögumönnum sýnist eðlilegt, að ríkisstj. feli Landnámi ríkisins að hafa á hendi forgöngu um þetta mál. enda hefur það með höndum framkvæmd skyldra verkefna, og leita til þess samvinnu við búnaðarsamböndin í þeim landshlutum, þar sem stöðvarnar eru reistar. Þarf ekki að efa, að þau yrðu fús til þess samstarfs.

Horfur eru á, að stofnun nýbýla verði í minna mæli nú um sinn en verið hefur undanfarin ár, enda sjálfsagt umdeilanlegt, hversu réttmætt sé að fjölga býlum í landinu, eins og sakir standa. Af þessum sökum má ætla, að Landnámið hafi þegar á þessu ári nokkurt fé afgangs frá venjulegum framkvæmdum, og er ósýnt, að því verði betur varið á annan hátt en til byrjunaraðgerða í þessu máli. Ég vænti þess, að hv. alþm. taki þessari till. vinsamlega. Þegar allt kemur til alls, er þjóðin öll á einum báti Þegar að kreppir hjá einni stétt, er það ekki einkamál hennar. Þjóðin öll geldur þess með einum eða öðrum hætti. Þess vegna er það ekki aðeins lífshagsmunamál bændastéttarinnar, að hún verði aðstoðuð við að verja búfénað sinn fóðurskorti, heldur er það hagsmunamál alþjóðar. Og í trausti þess, að sá skilningur ríki hér innan veggja hv. Alþ., læt ég máli mínu lokið.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að mælast til þess, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. landbn.