18.12.1967
Neðri deild: 46. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

77. mál, ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum

Frsm. 1. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég kom inn á fund hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna um daginn og var þar dálitla stund og hlustaði á hluta af ræðu ráðh., og þá var hann að tala um, að þeim, sem hefðu átt báta fyrir innan 120 tonn, hefði verið gefinn kostur á því að semja um greiðslufrest á vöxtum og afborgunum í fyrra. En það hefðu mjög fáir gert þetta og þetta mundi valda því, að erfitt yrði að gera þeim slíkt kostaboð aftur. Ég vildi upplýsa það, hvers vegna þessir menn gerðu ekki samninga.

Það var heldur hagstætt ár 1966 fyrir útveginn, a.m.k. bátana. Þeir áttu kost á því að fá greiðslufrest á vöxtum og afborgunum með því að bæta því ofan á vexti og afborganir næstu 5 ár, en þeir gerðu sér það alveg ljóst, að þegar þeir gátu ekki borgað þetta 1966, mundu þeir ekki geta bætt þessum upphæðum ofan á venjuleg gjöld næstu 5 árin og þeir vildu ekki vera að gera samninga og skrifa undir loforð, sem þeir voru fyrirfram vissir um, að þeir gætu ekki efnt.

Ég hef tvisvar flutt hér þáltill. um það að lækka dráttarvexti hjá fiskveiðasjóði. Þeir eru 12%, 1% á mánuði. Þeim till. hefur verið vísað til n., og þær hafa aldrei komið úr n. Hvað gerðist svo í fyrra? Sjóðsstjórnin gaf eftir þessa dráttarvexti, af því að hún sá, að það var ógerlegt að innheimta þá, gaf þá eftir að meira eða minna leyti. M.ö.o. hún játar, að þarna hafi verið óviturlega að farið að hafa dráttarvextina svona háa. Er nú ekki betra að stilla vöxtunum í hóf og fá þá greidda en hafa þá heimskulega háa og gefa þá svo eftir, venja menn á að borga ekki það, sem ákveðið er?

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að við vildum, að allt væri gert fyrir alla. Við erum ekkert að biðja um, að það sé neitt sérstakt gert fyrir okkur. Við erum hógværlega að fara fram á það, að við séum ekki hreinlega rændir þeirri eign, sem við raunverulega eigum. Fiskveiðasjóður hefur ekki framleitt þessar sjávarafurðir, það vitið þið vel, og ekki Landsbankinn og ekki Seðlabankinn. Það eru þeir, sem hafa framleitt vöruna, sem í raun og veru eiga þessi verðmæti. Við erum ekkert að fara fram á að fá þetta allt. Við erum að fara fram á pínulítinn hluta af því.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að það ætti að efla fiskveiðasjóðinn, því að hann annaðist skipakaupin fyrir okkur. Vitum við það nú vel. Það er ekkert smávegis, sem er lagt fram til fiskveiðasjóðsins og vitanlega kemur það allt á hráefnið. Það er á annað prósent, það er líklega sem svarar 3–4% á öllu því verðmæti, sem fiskimennirnir leggja á land, sem fer beint til fiskveiðasjóðs til eignar. Við vitum, að við þurfum að hafa fiskveiðasjóð og höfum ekki talið það eftir. En okkur finnst alveg ástæðulaust í svona tilfelli, þegar hagur útgerðarinnar er eins og hann er, að afhenda honum þá svo að skiptir hundruðum millj. Ég hygg, að það sé enginn sjóður í landinu ríkari en fiskveiðasjóður. E.t.v. þó svona ámóta eign hjá atvinnuleysistryggingasjóði. Ég skal ekki fullyrða um það. Það er sennilega rúmur milljarður, sem fiskveiðasjóður á í hreinni eign. Vitanlega má búast við, að það innheimtist ekki allt saman, en það kemur alveg jafnt að gagni fyrir fiskveiðasjóð og er hagkvæmara fyrir hann, að það sé notað til þess að borga skuldir og menn venjist ekki á vanskilin en það sé slett í hann einhverri upphæð fyrir ekki neitt og viðskiptamennirnir hætti að greiða, gefi upp alla von um að geta greitt. Annars skildist mér það á hæstv. ráðh., að hann vildi hafa sem minnstar deilur um þetta, því að hann færði yfirleitt afarlítil rök á móti okkar till. Hann nefndi aðeins staðgreiðslu skatta t.d. Ég skal ekki í þessu tilfelli neitt fara að halda ræðu um það, hvort það er hagkvæmt eða ekki, en það var nú ekki framkvæmt. Þess vegna verða sjómenn að borga svona há gjöld í tekjulitlu ári. Því munu líka fylgja einhverjir annmarkar, þó að staðgreiðslu skatta verði komið á og ýmsir erfiðleikar við það, en það kemur ekki til greina nú. Og þó að sjómenn fengju skattaívilnanir hér um daginn, nær það ekki til ársins í fyrra og þeirra skatta, sem þeir eiga að greiða í ár, þannig að það leysir ekki erfiðleika þeirra nú.

Viðvíkjandi skipakaupum, að það sé þörf á að efla fiskveiðasjóðinn sérstaklega, vegna þess að hann þurfi að kaupa skip, vil ég bara benda á það, að það er í raun og veru þrennt, sem þarf, til þess að okkar útgerð geti verið rekin á heilbrigðum grundvelli. Það þarf að lækka vexti af stofnlánum, það þarf að lækka þá útgjaldaliði, sem hrúgað er á hana að óþörfu og það þarf að skipuleggja fjárfestinguna betur en gert er. Ég veit ekki betur en nú sé verið að kaupa skip, sem eru 300–400 tonn, sem eru eiginlega eingöngu miðuð við síldveiðar, og þó vitum við eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að það er líklegt, að það dragi úr síldveiðunum. Ætli þessi skip kosti ekki núna svona um 30 millj.? Hvernig imyndið þið ykkur, að þessi skip beri sig, þegar skip, sem kosta kannske 12–14 millj. og gefa þeim lítið eftir í afköstum, geta engan veginn staðið undir sínu verði? Er ekki betra að hafa eitthvert hóf á þessu?

Nú vitum við, að blessaðir bankarnir vilja öllu ráða. Þetta frv. er samið uppi í Seðlabanka. Við vitum það. Það er sem sagt bankavizkan og bankavaldið, sem stjórnar þessu landi. Það eru hagfræðingar og lögfræðingar. Það eru ekki mennirnir, sem standa í atvinnulífinu. Það eru mennirnir, sem ekki þekkja atvinnulífið niður í kjölinn, sem stjórna, og þess vegna gengur ýmislegt öfugt í þessu landi.

Ætli væri nú ekki rétt að athuga þetta. Þetta bankavald gat ekki látið fiskveiðasjóð í friði. Stjórninni var grýtt og þrír bankar eiga að fara að stjórna. Og þessi maður, sem hafði mesta reynsluna, hafði reynzt okkur bezt og hafði bezta þekkinguna á þessum hlutum, Elías Halldórsson, var gerður að undirtyllu hjá þeim, þannig að í raun og veru fær hann engu að ráða eða náðarsamlegast er farið eftir till. hans. Áður mun hann hafa ráðið þar mest og í samráði við Útvegsbankann. Nú hefði þetta allt verið í lagi, ef þessi maður hefði nú brotið eitthvað af sér, en það lá ekki fyrir. Það má ekkert vera í friði fyrir þessu blessuðu bankavaldi, ekkert. Þar eru frv. samin og þar er öllu ráðið, og þar er öllu komið í strand.