06.12.1967
Sameinað þing: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (3092)

43. mál, sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þessi svör hæstv. menntmrh. urðu því miður staðfesting á því, að forusta hans við framkvæmd ályktunar Alþ. um sameiningu safnanna hefur gersamlega brugðizt. Hann skýrði frá því, að það hefði ekki einu sinni verið unnt að koma því í verk að ganga frá lóð undir væntanlega byggingu, hvað þá meira svo að undirbúningsstörf undir byggingu slíks safnahúss eru auðsjáanlega sama og engin.

Hæstv. ráðh. greindi frá því, að í staðinn hefði verið skinuð enn ein n. í fyrra og meginniðurstaða hennar hefði verið sú að benda á álit fyrri n. og lýsa fullu samþykki sínu við það. Hins vegar virðist svo sem bókaverðir hafi í vanda sínum farið að benda ráðh. á ýmiss konar bráðabirgðaráðstafanir og hálfgildings neyðarúrræði, svo sem að geyma bækur í kjöllurum ýmissa bygginga hér, Norræna hússins og Háskólabíós. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt, að þessir bókaverðir grípi til ýmissa ráða til að leysa vandamál sín, sem vaxa með hverju einasta ári. En það er augljóst mál, að slík lausn sem þessi getur hreinlega gert illt verra. Ég vil minna á það, að í því áliti sem lagt var fram fyrir rúmum 10 árum og var forsenda þess, að Alþ. tók þessa einróma ákvörðun, sem við ræddum áðan, var komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárframlög til Landsbókasafns eru alltof lítil til þess, að það geti gegnt öðru aðalhlutverki sínu, því að vera höfuðvísindasafn landsins. Eins og er berst það í bökkum með að gegna þeirri skyldu að vera þjóðbókasafn, þ.e. að eignast og varðveita allt, sem varðar Ísland og íslenzkar bókmenntir. Húsnæði þess er fyrir löngu svo til þurrðar gengið, að horfir til fulls öngþveitis fyrir daglega starfsemi þess, hvað þá að það geti af höndum leyst bráðnauðsynleg verk, er varða bókasafnsmál landsins í heild. Úr þessum vanköntum verður ekki hætt nema með nýju safnhúsi.“

Mér finnst það vera ákaflega hörmulegt framtaksleysi, að ekkert skuli hafa verið í því gert í meira en áratug að framkvæma þá einróma stefnu Alþ., að sameina söfnin og reisa nýtt hús. Á þessum tíma hafa verið þrjár ríkisstjórnir á Íslandi, en svo hefur þó skipazt, að einn og sami maðurinn hefur verið menntmrh. í þeim öllum, þannig að það hefði átt að vera þægilegt tækifæri fyrir hann til að láta haldast í hendur stefnu og ákvarðanir. Á þessu tímabili hefur þjóðin einnig haft meiri fjármuni til umráða en nokkru sinni fyrr, og miklu fé hefur verið varið til alls konar húsbygginga á Íslandi, eins og við vitum. Þegar undan eru skildar íbúðarhúsabyggingar, ber þar mest á hvers kyns peningamusterum og viðskiptahöllum, þar sem iðkað hefur verið næsta yfirgengilegt prjál og hégómaskapur, svo að ekki sé minnzt á finngálknið, sem teygir ófrýnilegan hálsinn æ hærra á Skólavörðuholti.

Við, hinir nýríku Íslendingar, megum sannarlega blygðast okkar í samanburði við forfeður okkar, sem tóku við heimastjórn snauðir í upphafi þessarar aldar. Eitt fyrsta viðfangsefni þeirra var að reisa safnahúsið, en það var risavaxið verkefni, eins og þá var ástatt á Íslandi, og bar vott um mikinn menningarlegan stórhug. Sú bygging kostaði þá 200 þús. kr., en þá var niðurstöðutala fjárlaga um það bil 700 þús. Séu fjárlögin notuð sem mælikvarði, væri hliðstætt átak nú hátt í annan milljarð kr., en það er miklu smávaxnari upphæð, sem lamað hefur athafnaþrek hæstv. menntmrh. og félaga hans í ríkisstj.

Svo sem kunnugt er, eru vísindaleg bókasöfn ein meginundirstaða allrar fræðastarfsemi og vísindarannsókna og gildi þeirra fer sífellt vaxandi. Það er engin bókasafnsstefna í þröngum skilningi að leggja áherzlu á, að komið verði upp einu fullgildu vísindalegu bókasafni á Íslandi með nútímalegum starfsskilyrðum, heldur mjög mikilvægur þáttur í þeirri brýnu nauðsyn, að rannsóknir og vísindi verði í fyrirrúmi í íslenzku þjóðfélagi. Á þá nauðsyn hafa margir lagt áherzlu á undanförnum árum, en talað fyrir daufum eyrum.

Margir urðu til þess að benda á vanefndirnar í bókasafnsmálum, þegar fram kom sú kynlega hugmynd að reisa eitthvert dularfullt þjóðarhús á Þingvöllum í tilefni af ellefu hundruð ára afmæli Íslands byggðar, en sú hugmynd er enn eitt dæmi um það, hvernig okkur hættir oft við að láta hégómaskapinn tróna yfir nauðsyninni. Telji einhverjir, að tilgangslítið sé að minna á þessi verkefni nú, þegar samdráttur hefur orðið á þjóðartekjum okkar, fyrst þeim var ekki sinnt meðan stjórnarvöldin óðu í peningum, tel ég, að það viðhorf sé byggt á misskilningi. Einmitt á slíkum tímum er okkur sérstök nauðsyn að huga að undirstöðuverkefnum, því að nú lifum við á þeirri öld, þegar bókvitið sker öðru fremur úr um það, hvað látið verður í askana. Sé þess ekki að vænta, að hæstv. ríkisstj. hafi þá forustu um þessa framkvæmd, sem henni var falið að hafa fyrir rúmum 10 árum, virðist mér einsætt, að alþm. verði að leiða ríkisstj. þær skyldur fyrir sjónir á mun ótvíræðari hátt en gert var 1957.