26.01.1968
Sameinað þing: 30. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

196. mál, lánveitingar úr Byggingasjóði ríkisins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði hér, að hann teldi, að það hefði verið staðið fullkomlega við það samkomulag, sem gert var við verkalýðshreyfinguna í byggingamálum, þegar m.a. var samið um framkvæmdirnar á vegum byggingaráætlunarinnar. Ég er ekki sammála þessu, og ég held, að þeir séu anzi fáir. Ég veit ekki annað betur en að þetta samkomulag, sem var gert í júlímánuði 1965, hafi verið um það, að á næstu 5 árum þar á eftir skyldu byggðar með sérstökum hætti 250 íbúðir á ári eða 1250 íbúðir alls. En nú mun það vera svo, að í byggingu eru samkv. þessari áætlun eitthvað rétt um 300 íbúðir. Komið er þegar fram á árið 1968, og þegar minnzt er á framhaldandi áfanga í þessum efnum, er sagt, að það muni ekki gerast fyrr en á árinu 1969. Það er því alveg augljóst, að hér hefur allt dregizt úr hömlu og er langt á eftir þeim áætlunum, sem gerðar voru, og því samkomulagi, sem gert var við verkalýðshreyfinguna. Auk þess er svo það, að hér var auðvitað um það að ræða, eins og margsinnis hefur komið fram, og ég hef aldrei heyrt ríkisstj. heldur neita því, að hér var verið að semja um það að byggja með sérstökum hætti ódýrar íbúðir umfram hið almenna veðlánakerfi, sem fyrir var í landinu, og það var búið að gera hér sérstakar ráðstafanir til að afla því kerfi allmikilla nýrra fjármuna og með hinum stórhækkaða skyldusparnaði, launaskatti og ýmsu fleiru var búið að koma fótunum undir það kerfi, þannig að miklar líkur voru til þess, að það gæti starfað, þó að það veitti ekki nema þessi mjög takmörkuðu lán, sem allir þekkja, lán, sem varla eru nema í kringum 30%, þegar bezt lætur, af heildarstofnkostnaði. En nú er þetta samkomulag við verkalýðshreyfinguna framkvæmt þannig, að það er ekki nóg með, að það sé langt á eftir áætlun, heldur eru peningarnir teknir úr hinu almenna veðlánakerfi, frá þeim, sem áttu að njóta lána þaðan, með miklu lakari kjörum, eða kringum 30%, og peningarnir eru þá teknir úr hinu almenna veðlánakerfl til þess að standa undir þeim takmörkuðu framkvæmdum á vegum byggingaráætlunar, sem fram hafa farið. Og það er einmitt þessi mismunur, sem þarna kemur fram, að þeir mörgu aðilar víðs vegar á landinu, sem áttu, eftir að búið var að skjóta nokkrum tekjustofnum undir húsnæðismálakerfið, að hafa möguleika á að fá þau knöppu lán, sem þar átti að veita. Þeir fá nú ekki lán sín afgreidd, vegna þess að það hefur þurft að taka af þessum fjármunum veðlánakerfisins til þess að standa undir framkvæmdum í Breiðholti. Það kemur líka í ljós, eins og hæstv. ráðh. hefur upplýst hér, að þar er þegar búið að veita út á þær hálfbyggðu íbúðir, sem þar eru í framkvæmd, um og yfir 300 þús. kr. lán á hverja íbúð, á sama tíma sem aðrir komast ekki á blað.

Ég held því, að það sé mikill skakki frá hinu rétta, þegar hæstv. ráðh. segir, að það hafi verið staðið við samkomulagið, sem gert var við verkalýðshreyfinguna varðandi þessi byggingamál. Þar er um stórkostlegar vanefndir að ræða og það er enginn vafi á því, að ríkisstj, verður að taka sig á í þessum efnum. Þetta misrétti, sem þarna er að skapast núna það verður ekki þolað, auk þess sem það er augljóst, að það er gengið hér á snið við það samkomulag, sem gert var við verkalýðshreyfinguna um að byggja með sérstökum hætti hér á 5 árum 1250 íbúðir.

Ég sé ástæðu til þess að minna sérstaklega á þetta vegna þeirra orða, sem hér féllu hjá hæstv, ráðh., því að það er ómögulegt, að þetta fari fram hjá honum. Þetta er svona. Hér hallast alvarlega á.