21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í D-deild Alþingistíðinda. (3163)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Umræður hafa orðið allmiklar um þetta mál, og ég ætla ekki að bæta neinu verulegu þar við. En ég hafði kvatt mér hljóðs fyrir viku og ætlaði þá að drepa á einhver atriði, sem þá voru í huga mínum, en hafa nú eitthvað hripað niður. Ég man ekki svo glögglega allt, sem fram hefur komið, en þó eru viss atriði, sem mig langar til að minna á og ég tel í þessu sambandi, miðað við þá fsp., sem hér hefur verið gerð, að það sé rétt að drepa á og ég vil rifja upp. Og það er m.a. það, sem upplýst var raunar í svari hæstv. fjmrh., að Norðurlandsáætlunin, sem nú er um rætt, á sér þann aðdraganda, að gert var samkomulag í júnímánuði 1965, að því er mig minnir, eða 1964 við Alþýðusamband Norðurlands um það, að gerð skyldi slík áætlun um atvinnulega uppbyggingu á Norðurlandi. Þetta var sem sagt eins konar samkomulag þá við verkalýðsfélögin norðanlands. En svo kemur það fram í ræðu hæstv. fjmrh., að lítið sem ekkert er gert í þessari áætlunargerð frá því í júní 1965, má ég segja, fram í marz 1966, en þá tekur Efnahagsstofnunin þetta mál að sér, og ráðinn er sérstakur maður til þess að hafa verkið með höndum, og sá maður er Bjarni Einarsson viðskiptafræðingur og starfsmaður Efnahagsstofnunarinnar. Bjarni vinnur síðan að þessu máli, að því er virðist einvörðungu eða mikið til frá því í marz 1966 og líklega fram í marz 1967, því 1. apríl 1967 er hann ráðinn bæjarstjóri á Akureyri, og raunar var það vitað snemma upp úr áramótum, að Bjarni mundi hverfa frá störfum hjá Efnahagsstofnuninni og taka starf sem bæjarstjóri á Akureyri frá 1. apríl. Frá 1. apríl 1967 og fram að þessum tíma hygg ég, að ekkert hafi verið gert, ekkert hafi verið unnið í þessari áætlun, engum sérstökum manni verið falið það verkefni sérstaklega að vinna að áætluninni. Mér telst svo til, að það séu liðnir 32 mánuðir eða svo síðan samkomulagið var gert um Norðurlandsáætlunina, og þar af hefur verið unnið 12 mánuði að áætluninni að nokkru gagni.

Það eru þessi atriði, sem ég sérstaklega rek augun í og mér finnst ástæða til að benda á án þess að ég ætli að fara að hefja miklar umræður um atvinnumálin á Norðurlandi. Það er búið að gera það mjög rækilega, og ég veit ekki, hvort ég bæti þar nokkru við. Það er þetta, sem ég vil sérstaklega benda á að hér hefur verið unnið mjög slæglega og það er áberandi, hve mikill seinagangur hefur verið á þessu máli, og það er vonandi, að þegar nú er aftur búið að ráða nýjan mann til þess að fara með þessi mál, hann á að taka til starfa í vor, að því er sagt er, þá er vonandi, að málið gangi hraðar fyrir sig en verið hefur hingað til, þar sem segja má, að öllum þessum tíma hafi að miklu leyti verið eytt til lítils sem einskis.

Um Norðurlandsáætlunina og landshlutaáætlanir almennt vil ég aðeins segja það, að vissulega gerum við okkur miklar vonir um, að slíkar áætlanir komi að gagni, og ekki aðeins það, við megum telja það fulla vissu, að slíkar áætlanir verði til verulegs gagns fyrir atvinnulega uppbyggingu í landshlutunum og yfirleitt fyrir framfarir í landshlutunum, ef þannig er að áætlunum staðið, að þær séu meira en pappírsgagn eitt, ellegar um mjög afmörkuð svið. Hér verður að standa myndarlega að verki og gera áætlanir, sem eru allvíðtækar að efni, ekki efnisrýrar, því að það, sem ræður framförum á einum stað í einu landi, einum landshluta, héraði eða hvar sem er, er það, að alhliða framfarir eigi sér stað, bæði atvinnulegar framfarir og félagslegar og menningamegar framfarir. Vitanlega er hér atvinnan undirstaðan, en hitt er líka augljóst, að það, sem lýtur að hinu félagslega og menningarlega, skiptir einnig höfuðmáli.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti, enda er tími minn þrotinn.