10.04.1968
Sameinað þing: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

180. mál, tjónabætur til útvegsmanna vegna banns við síldveiðum sunnanlands

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þakka svör ráðh., þau eru skýr og glögg. Ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að bæta neitt það verðmætatjón, sem í því felst, að keypt hafa verið veiðarfæri, gerð fyrir tilteknar veiðar, sem nú hafa ýmist verið bannaðar eða takmarkaðar, og það er eins hrein afstaða og getur verið. En ég vil þegar taka fram, að með fsp. minni er ég á engan hátt að telja, að það hafi verið röng stjórnarráðsákvörðun að banna og takmarka síldveiðarnar sunnanlands, síður en svo. Ég tel, að þau rök, sem fyrir því liggja, að slíkt var nauðsynlegt og hæstv. ráðh. rakti hér að verulegu leyti, séu alveg rétt, það hafi verið óhjákvæmilegt að banna þetta. En það gegndi alveg sama máli á sinni tíð, þegar dragnótaveiðarnar voru bannaðar, þegar landhelgin var færð út. En það breytir ekki því, að ríkisvaldið, sem framkvæmir slíka tilskipun, taldi sig þá hafa skapað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart þeim aðilum, sem bannið bitnaði á.

Hæstv. ráðh. hefur rakið hér, hverjar síldveiðarnar hafi verið á undanförnum árum við suður- og vesturströnd landsins. Á síðustu árum hefur verið veitt síldarmagn, sem sum árin hefur verið nokkuð á annað hundrað þús. lestir, komizt allt upp í 172 þús. lestir. Nú má ekki, hvort sem afli kynni að vera til þess eða ekki, veiða nema 50 þús. lestir, svo að hér sjá auðvitað allir menn, að verðmæti þeirra veiðarfæra, sem til þess voru ætluð að framkvæma þessar veiðar, hafa verulega rýrnað. Ég vil ætla, að það sé ekki síður vert fyrir forráðamenn ríkissjóðs að leiða athygli að því, hvort ekki sé rétt að bæta þetta tjón að einhverju leyti, eins og að gera till. um bætur fyrir almennt veiðarfæratjón, sem greinilega er engin skylda fyrir ríkissjóð að bæta, þótt hann hafi gert það, vegna þess að staða útvegsins er ekki betri en það, að hann má ekki við stórum skakkaföllum í verðmætatapi, hvorki á veiðarfærum né öðrum hlutum.