15.12.1967
Neðri deild: 42. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. okkar, sem í minni hl. erum, á þskj. 156, þá boðuðum við það, að við mundum við 3. umr. málsins flytja hér brtt., ef ekki fengist fram sú megintill. okkar, að 2. gr. frv. yrði felld niður.

Við flytjum því hér tvær brtt. við frv. Sú fyrri er við 2. gr. frv., og er lagt til, að hún verði umorðuð á þessa leið:

„Í kaupstöðum með yfir 3 þús. íbúa skal virðing á fasteignum til eignarskatts skv. 22. gr. A-lið laganna miðuð við gildandi fasteignamat nífaldað. Í öðrum kaupstöðum og kauptúnum skal miðað við fasteignamatið sexfaldað. Virðing á bújörðum með tilheyrandi íbúðar- og peningshúsum og öðrum mannvirkjum skal þó fara eftir fasteignamatinu margfölduðu með þremur.

Ákvæði þessarar greinar skulu gilda, þar til nýtt fasteignamat hefur tekið gildi.“

Þetta var brtt., sem við flytjum við 2. gr. Síðari brtt. okkar er við 3. gr. frv. og hún er þannig, að í stað 200 þús. kr. komi 400 þús. kr. Við teljum, eins og þegar hefur komið fram í umr. um þetta mál, að eðlilegt sé, ef á að leggja þennan skatt á, eins og gert er ráð fyrir skv. þessu frv., að gera hér nokkurn mun á útreikningi fasteignamatsins í hinum stærstu kaupstöðum landsins og minni kaupstöðunum og þorpunum. Sérstaklega teljum við, að það sé verulegur munur á því að leggja fasteignamatið til grundvallar við svona skattlagningu í þorpum landsins og aftur í stærri kaupstöðunum. Ég vil taka það fram, að áður þegar slík margföldun hefur verið viðhöfð, hefur þetta einmitt verið gert, að hafa þetta nokkuð mismunandi, einnig á milli þorpa og kaupstaða. Við teljum alveg sjálfsagt, að fram sé tekið hér í gr., að þessi skattlagning eigi ekki skv. þessum reglum að standa lengur en þar til nýtt fasteignamat tekur gildi. Ég hygg líka, að ætlunin sé að hafa það svo, en þá þykir okkur einsýnt, að það sé réttast að taka það skýrt fram í lögunum.

Um seinni brtt. okkar er það að segja, að við vildum hækka hinn skattskylda frádrátt úr 200 þús. í 400 þús. kr. til þess að hlífa þeim nokkuð við þessari skattlagningu, sem lítið eiga fram yfir allra nauðsynlegustu íbúð yfir höfuðið á sér og sínum. Við teljum rangt að leggja hér á skatt, sem að verulegu leyti er íbúðarskattur, en ef heimildin til frádráttar væri hækkuð úr 200 þús. upp í 400 þús., mundi þetta þó lagast allverulega frá því, sem ráðgert er í þessu frv.

Þessar brtt. okkar í minni hl. eru lagðar fram skriflega og of seint, og ég vil afhenda hæstv. forseta þær og óska eftir, að þær geti komið hér til afgreiðslu.