16.12.1967
Efri deild: 37. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég mun ekki halda hér langa ræðu um þetta frv. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og hefur nokkuð verið rætt þar og ég skal láta mér nægja að gera nokkrar almennar aths. við frv., en þótti þó rétt að fara um það nokkrum orðum, áður en það færi til n. Eins og hæstv. ráðh. tók fram, eru raunar ekki nema tvö megin-efnisatriði í þessu frv.

Annars vegar það ákvæði 1. gr., að sjómannafrádráttur, sem hingað til hefur aðeins gilt fyrir fiskimenn, skuli nú gilda fyrir alla skipverja á íslenzkum skipum, þá, sem hafa verið lengur skipverjar en 6 mánuði á hverju skattári. Þennan frádrátt, sem á að vera 3 þús. kr. fyrir hvern mánuð, tel ég eðlilegan. Ég fellst alveg á þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir því, að það sé eðlilegt, að allir sjómenn njóti þessa frádráttar, enda er það svo, að þetta ákvæði mun vera lögfesting á samkomulagi, sem gert var við farmenn í vinnudeilu þeirra, sem lauk í nóvembermánuði s.l. Og eftir því, sem ég hef skilið þá samninga, var einmitt þetta atriði meginréttarbótin, sem farmenn fengu í þeim samningum. Tekjuskattsstigunum er þann veg farið hjá okkur, að menn eru mjög fljótir að komast í háa skattstiga, ef þeir hafa allsæmilegar tekjur og þess vegna er það auðvitað veruleg kjarabót að fá einhverja slíka fjárhæð dregna frá tekjuskatti. Um það, hvort hér sé leið eða brotinn ís fyrir aðrar stéttir til þess að rétta hlut sinn, skal ég ósagt látið, en tel þó alveg vafalaust, að einnig aðrar stéttir í þjóðfélaginu hljóti að taka eftir þessari afgreiðslu og það komi a.m.k. sterkt til álita, hvort kjarabaráttan geti að einhverju leyti færzt yfir á þetta svið, ekki sízt þar sem nú er búið að afnema það samband milli framfærslukostnaðar og launa, sem áður var þó nokkur trygging fyrir launþega í þessum efnum.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um 1. gr. Ég geri ráð fyrir því, að það séu allir hv. þdm. á einu máli um að mæla með samþykkt hennar.

Allt öðru máli gegnir um hitt aðalákvæði frv., það ákvæði, sem felst í 2. gr. þess og er efnislega á þann veg að hækka fasteignamat til eignarskatts úr sexföldu fasteignamati í nífalt í kaupstöðum, en margföldun með 4,5 skuli gilda í sveitum. Ég hygg, að það séu flestir á því, að ekki liggi svo mjög á fyrir ríkissjóð einmitt nú að taka upp þessa hækkun á eignarskatti. Hæstv. fjmrh. upplýsti hér áðan, að aðalfasteignamat það, sem ákveðið var með l. nr. 28 frá 1963, að fram skyldi fara, mundi sjá dagsins ljós á næsta ári, á 5. ári eftir samþykkt laganna, og má vissulega segja, að það sé ekki fyrr en skyldi. Og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að hv. Alþ. sé nú að setja ákvæði um margföldun fasteignamatsins til eignarskatts, þegar í fyrsta lagi svo stutt er eftir til aðalfasteignamats og í öðru lagi með hliðsjón af því, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. hér áðan, að ríkissjóður þarf ekki á þessum tekjum að halda nú.

Þessi margföldun fasteignamatsins er leifar af efnahagsmálafrv. hæstv. ríkisstj., sem lagt var fram hér í þingbyrjun og var talið nauðsynlegt til þess að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög. Nú hefur ýmislegt á dagana drifið síðan á fyrstu dögum nóvembermánaðar, eins og kunnugt er, m.a. það, eins og hæstv. fjmrh. vék að hér áðan, að hagur ríkissjóðs hefur gerbreytzt. Og hann, sem áður hafði áhyggjur af því að geta afgreitt greiðsluhallalaus fjárlög, tekur það nú hér fram í þessari hv. þd., að ríkissjóður þurfi ekki á þessu fé að halda. Eðlileg afleiðing af þessum breytingum hlýtur að vera sú að fella niður þessa skattheimtu. Það er alveg nóg að gert til kjaraskerðingar fólks, þó að þessum lið sé sleppt. Hér er að vísu ekki um mjög háa fjárhæð að ræða, 30 millj. kr., sem þessi skattauki á að gefa ríkissjóði, en þetta er þó umtalsverð útgjaldaaukning einmitt hjá einstaklingum, þó að ríkissjóð muni að sjálfsögðu mjög lítið um þessa fjárhæð á sínu 6000 millj. kr. fjárlagafrv., sem væntanlega verður að fjárlögum innan skamms. Hér er um það að ræða í mörgum tilfellum, að eignarskattur hækkar verulega. Ég hef nú ekki við höndina upplýsingar um það, hversu miklu þetta nemi í einstökum tilvikum. Þegar talað var um margföldun á verði eða mati til eignarskatts í sambandi við efnahagsmálafrv., sýndist mér, að slíkt gæti í mjög mörgum tilfellum haft í för með sér u.þ.b. þreföldun á eignarskatti venjulegs íbúðareiganda. Með skírskotun til þess og með hliðsjón af því, að hér er um ónauðsynlega fjáröflun til ríkissjóðs að ræða, hygg ég, að við ættum að geta orðið sammála um að fella þessa skattheimtu niður að þessu sinni.

Það er fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi, en þetta, sem nú hefur verið nefnt, og þá fyrst og fremst það í mínum huga, að ég hef talið að gjöld af fasteignum ættu fyrst og fremst að vera tekjustofn handa sveitarfélögunum. Það er vitað, að mörg sveitarfélög eiga nú í erfiðleikum með að afgreiða fjárhagsáætlanir vegna þeirra stórfelldu hækkana sem fyrirsjáanlegar eru á útgjöldum þeirra og eru afleiðingar af nýafstaðinni gengisfellingu.

Þannig veit ég að muni vera um Reykjavíkurborg og þar eru erfiðleikar á því að koma fjárhagsáætlun saman, og það verður ekki gert nema með því að draga úr verklegum framkvæmdum, a.m.k. í reynd. Það er nýlega búið að nota til fulls ákvæði laga um ákvörðun fasteignagjalda í Reykjavík. Ég man ekki nákvæmlega, hvað mörg ár eru síðan, en það er ekki langt síðan.

Það kann að vera nokkuð til í því, sem hæstv. fjmrh. sagði hér, að gengislækkun sé ekki óhagstæðust fyrir þá, sem fasteignir eiga, ég get vel fallizt á það, og það sé þess vegna ekki kannske mjög ósanngjarnt, að ein afleiðing gengislækkunar sé nokkur hækkun á fasteignagjöldum. En með hliðsjón af fjárhagsástandi ríkissjóðs annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar tel ég það augljóst mál, að sú hækkun, sem telst sanngjörn á fasteignum sem afleiðing gengisfellingarinnar, renni til sveitarfélaganna. Þar eru opinberir aðilar, sem vissulega hafa þörf fyrir tekjuaukningu, hins vegar er ríkissjóður, sem samkv. yfirlýsingu hæstv. fjmrh. þarf ekki á þessu fjármagni að halda. Sveitarfélögin verða fyrir útgjaldahækkun, eins og segir í aths. með frv., og sem viðurkenningu á því er talað um, að sveitarfélögunum muni verða veitt leyfi til þess að hækka virðinguna til álagningar eignarútsvara til samræmis við það, sem lagt er til um eignarskattinn til ríkisins. Ég skal ekki segja, hvað mikið sú breyting kann að gefa sveitarfélögunum, en ég veit, að þau hafa fulla þörf fyrir hana og að þau hefðu fulla þörf fyrir að fá alla þá hækkun, sem teldist sanngjarnt að leggja á fasteignir, vegna þess að útsvarsbyrðin er áreiðanlega, a.m.k. í Reykjavík, nægilega þung fyrir því.

En þar að auki leyfi ég mér að benda á, að það verður fyrirsjáanleg útgjaldahækkun hjá fleirum en ríkissjóði og sveitarfélögunum vegna gengislækkunarinnar. Það er fyrirsjáanleg stórkostleg útgjaldaaukning hjá öllum almenningi, hjá borgurum landsins, og þeir geta ekkert sótt fjármagn, þeir geta ekki lagt skatt á neinn til þess að standa undir þeirri útgjaldahækkun. Þvert á móti er búið að búa svo um hnútana, að þeir skuli nú mæta henni bótalaust, og þess vegna tel ég, að undanþáguákvæði 3. gr. um þá eign, sem undanþegin skuli vera skattgjaldi, sé of lág, þar sem hér er ákveðið, að miðað sé við 200 þús. kr. Það er að vísu sama tala og var í efnahagsaðgerðafrv., þegar þó var gert ráð fyrir meiri hækkun á fasteignamati til eignarskatts heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir, en samt tel ég, að hér sé allt of lág undanþága, vegna þess hve fasteignir eru orðnar dýrar og vegna þess þar af leiðandi, hversu lítil eign það er, 200 þús. kr., sem á að vera undanþegin eignarskatti í þessu sambandi. Og ég hefði viljað athuga það í hv. n., sem fær málið til meðferðar, hvort ekki geti náðst samkomulag um að hækka þennan frádrátt, ef ekki heppnast að fá samstöðu um það að leggja þessa óhæfu skattheimtu algerlega niður. Ég tel ekki óeðlilegt, að t.d. helmingur verðs meðalíbúðar, svona u.þ.b. sú upphæð, sem menn þurfa að leggja fram, þeir, sem hæstra lána njóta úr almenna veðlánakerfinu, að það yrði talin hæfileg viðmiðun í þessu sambandi, og þess vegna tel ég, að sú brtt., sem borin var fram í hv. Nd., um, að þessi tala yrði ákveðin 400 þús. í staðinn fyrir 200 þús., eins og hér er gert ráð fyrir, sé algert lágmark.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Ég tel það sem sagt ósanngjarnt að bæta þessum álögum núna á fólk, sem verður að taka bótalaust á sig þungar klyfjar. Ég bendi á það, að fyrir liggur, að ríkissjóður fær mjög auknar tekjur og þarf skv. játningu hæstv. fjmrh., sem bar sig vel hér yfir fjárhag ríkissjóðs áðan, ekki á þessum auknu tekjum að halda. Ef það telst hins vegar nauðsynlegt eða réttlátt að hækka kvaðir á fasteignaeigendur, vegna þess hagræðis, sem þeir kynnu að njóta af gengisfellingunni, tel ég hiklaust, að sú aukna skattheimta eigi að renna til sveitarfélaganna.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að lengja þessa umr. meira en orðið hefur.