16.12.1967
Efri deild: 37. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki heldur lengja þessar umr., enda var ég með ósk um það, að málinu yrði hraðað. En mér þótti ánægjulegt að hlusta á ræðu hv. 11. þm. Reykv., enda hefur hann, vegna sinnar sérþekkingar á þessum málum, tvímælalaust glögga hugmynd um það, hvað er rétt og eðlilegt í þessum efnum. Hann tók það fram sem sína skoðun, sem ég taldi vera aðalrökin fyrir þessu máli, að miðað við slíkar verðlagsbreytingar, sem nú verða, sé það rétt, að fasteignir hækki í verði og því geti verið fullkomlega eðlilegt út frá þeim sjónarmiðum, að auknar séu kvaðir á fasteignum. Við vitum það líka, að á tímum verðhækkana er það mjög eftirsótt, og hefur verið hér um langan aldur, að koma fjármunum sínum í fasteignir, vegna þess að það hefur þótt miklu arðbærara og öruggara til þess að treysta verðgildi peninganna. Og miðað við það ástand er auðvitað ekki óeðlilegt, að lagðar séu þá einhverjar auknar kvaðir einmitt á fasteignaeigendur, þegar það er ljóst, að enda þótt reynt hafi verið að bæta hag sparifjáreigenda með háum vöxtum, hefur það engu að síður ekki nægt til að rétta þeirra hlut, þannig að þeir hafa orðið fyrir verulegu tjóni á móts við það, sem fasteignaeigendur hafa orðið fyrir, þar sem þeir hafa getað haldið eignum sínum í fullu verði og ríflega það, enda fjárstraumurinn legið þangað.

Mér sýnist því, að efnislega sé enginn ágreiningur okkar á milli, hv. þm. og mín, um það, að hugsunin í þessari skattálagningu geti verið eðlileg. Það, sem okkur ber í rauninni á milli, er það, hvort ástæða sé til þess að hafa þessa skattheimtu til ríkisins eða hvort eigi að hafa hana í ríkara mæli til sveitarfélaganna en gert er ráð fyrir. Ég ætla ekki að fara að ræða hér fyrirhugað frv. um sveitarfélögin að öðru leyti, en ég skýrði frá því, af því að ég taldi rétt, að það kæmi hér fram, en mér sýnist ekki, að ágreiningur muni verða á milli okkar hv. þm. um það mál út af fyrir sig, heldur hitt, að hér sé verið að taka fé í ríkissjóðinn.

Í því sambandi vildi ég aðeins láta það koma fram, til þess að það ylli ekki misskilningi, þar sem hann ítrekað vitnar í mín ummæli um það, að ríkið hefði ekki þörf fyrir þessa peninga, að það er út af fyrir sig rétt, eins og ég sagði, að tekjuauki ríkissjóðs verður það mikill, að hann gæti verið án þessa fjár, ef litið er einhliða á málið. En ég lagði áherzlu á, að það, sem þyrfti að taka hér til greina og væri aðalröksemdin fyrir því, að lagt væri til að viðhafa þessa skattlagningu til ríkisins, væri það, að ríkið þyrfti á því að halda til þess að mæta afleiðingum gengisbreytingarinnar, ekki fyrir sig sjálft, heldur fyrir almenning í landinu, og það væri einmitt eðlilegt að taka hér nokkurt fé af þeim aðila, sem hagnast á gengisbreytingunni, og færa yfir til þeirra, sem hafa tjón af henni. Þetta er hugsunin, sem á hak við þetta liggur, þannig að þó að ríkið þurfi ekki beint á peningunum að halda vegna sinna eigin þarfa, er þessi skattheimta hugsuð til þess að notast aftur til að létta byrðar almennings vegna gengisbreytingarinnar.

Að síðustu var svo eitt atriði, sem hann gat um og sagðist mundi vilja beita sér fyrir, en það væri að hækka hina skattfrjálsu upphæð fasteigna, og taldi, að það væri a.m.k. lágmark, að miðað væri við húsnæðismálalán. Ég held, að þetta byggist á ákaflega miklum misskilningi hjá hv. þm., vegna þess að fasteignir eru í dag metnar eftir allt öðrum grundvallarreglum, þannig að hús eða íbúð, sem í dag er 1 milljón kr. virði, er ekki metin nema á tiltölulega mjög lága upphæð, þannig að þegar við tölum um skattfrjálsa upphæð 200 þús. kr., nemur það auðvitað raunverulega miklu hærri upphæð en húsnæðismálaláninu, eins og það er í dag.

Menn þurfa sem sagt, þegar þeir eru að íhuga þetta, að gera sér grein fyrir því, hvaða skalar það eru, sem eignirnar eru metnar eftir, og það eru þessir lágu skalar, sem gilda enn að verulegu leyti í dag. Og þegar kemur að eignaútsvörunum, mun það líka koma í ljós, að hér er um verulegar hagsbætur að ræða, vegna þess að eins og það dæmi lítur út í dag, er skattfrjáls upphæð við álagningu eignarútsvars miklu lægri en hér er gert ráð fyrir, en hins vegar er nú áformað, að upphæðin verði sú sama bæði við eignaskattinn og eignaútsvarið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, enda sýnist mér ekki, að efnislega beri ákaflega mikið á milli, nema þetta atriði, að hv. þm. telur, að það sé ekki eðlilegt, að ríkið innheimti þetta, en hins vegar erum við sammála um, að það geti verið fullkomlega eðlilegt að skattleggja fasteignir á svipuðum tímum og nú eru.