12.12.1967
Efri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

23. mál, almannatryggingar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var ýmislegt athyglisvert, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Austf. og ég skal nú ekki fara ítarlega út í það, en það eru þó aðeins örfá atriði, sem mig langaði til að gera aths. við.

Eins og þetta frv. var úr garði gert í upphafi, var ekki talið, að það legði neinar nýjar kvaðir á sveitarfélögin og ég man, að heilbr.- og félmn. sendi það m.a. til umsagnar Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem mælti með samþ. þess. Hins vegar kemur nú þessi breyt., þar sem 65% eru hækkuð í 85%. Það er út af fyrir sig rétt, að þarna koma hækkuð gjöld á sveitarfélögin, en í staðinn losna sveitarfélögin við hallarekstur af sjúkrahúsunum, þannig að sveitarfélögin í heild koma sennilega svipað út eftir þessa breyt. Hitt getur verið rétt, að ef maður lítur á hagsmuni sveitarfélaganna innbyrðis, þá verði þetta heldur í þá áttina að bæta hag þeirra sveitarfélaga, sem reka sjúkrahús, og þá heldur til útgjaldaauka fyrir önnur, sem ekki reka sjúkrahús og þurfa því að senda sjúklinga sína frá sér.

En ég held, að þegar maður skoðar þetta mál betur, hljóti það að teljast heilbrigð stefna, að þetta sé allt tekið undir tryggingakerfið og að sjúkrahúsin fái þá dagpeninga eða þau rekstrargjöld, sem eðlilegt er að vel rekið sjúkrahús fái, þannig að ef við ætlum að koma þessu öllu undir tryggingakerfið, er ekki nein önnur leið en að gera þetta þannig, og ég álít, að það væri ákaflega varhugavert, en þó ekki óhugsandi, að fara að hafa prósentuna innbyrðis á milli sveitarfélaganna misjafna. Þau sveitarfélög, sem reka sjúkrahús, hafa enga örugga tryggingu fyrir því, þótt þetta frv. verði samþ., að það verði ekki hallarekstur, sem þau verða að bera. Ég held, að þau líti ekki svo á, að það sé neinn sérstakur hagur fyrir sig að reka sjúkrahús. Að vísu er þar starfsfólk, sem þau geta lagt á gjöld, en ég held, að það sé ekki neitt umtalsefni. Sjúkrahúsin borga enga skatta, útsvör eða önnur slík gjöld, eins og eðlilegt er.

Það var annað, sem hv. þm. var að tala um. Honum fannst hér ekki um mikla breytingu að ræða á því, hver úrslitum réði um daggjöldin til sjúkrahúsanna, en ég er nú ekki alveg sammála. Þarna kemur inn í þessa n., þennan dómstól, fulltrúi frá Landssambandi sjúkrahúsa og einnig fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þannig að þeir hafa þarna báðir atkvæðisrétt um það, hver daggjöldin skuli vera. Þannig mun rödd þessara aðila heyrast, en áður var það heilbrmrn. eitt, sem réði þessu. Og ég hef a.m.k. skilið það þannig, þar sem segir í 1. tölul. brtt.: „N. ákveður daggjöld og gjaldskrá á þann hátt, að heildartekjur stofnananna miðist við að standa straum af eðlilegum rekstrarkostnaði, enda séu gjöldin í samræmi við hagkvæman rekstur og þá þjónustu, sem stofnunin veitir,“ þá verði þessi n. að láta fara fram einhverja rannsókn á því og fylgjast með þessum hlutum. Öll sveitarfélög eru í Sambandi ísl. sveitarfélaga og þannig mundi fulltrúi þeirra auðvitað ekki síður eiga að gæta hagsmuna hinna smáu sveitarfélaga út um landið en þeirra sveitarfélaga, sem eiga eða reka sjúkrahús.