11.12.1967
Sameinað þing: 20. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

1. mál, fjárlög 1968

Frsm. 2. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Um það leyti, sem núgildandi fjárlög voru afgreidd á Alþ., hafði sú verðbólguþróun innanlands, sem leiddi af stefnu stjórnarflokkanna, afnámi verðlagsákvæða og algeru stjórnleysi í innflutnings- og fjárfestingarmálum, komið útflutningsatvinnuvegunum í þrot. Fram til þess tíma hafði aukið aflamagn og síhækkandi söluverð afurðanna hætt þessum atvinnugreinum áföllin af verðbólgustefnunni, en máttur útgerðarinnar til þess að reisa rönd við afleiðingum stjórnarstefnunnar þvarr um leið og tók fyrir stöðugt bætt viðskiptakjör. Mörgum þáttum útflutningsframleiðslunnar varð um megn að standa á eigin fótum, en uppbætur úr ríkissjóði voru látnar fleyta útgerðinni. Alþingiskosningar voru þá á næsta leiti og óvænlegt fyrir ríkisstj.-flokkana að grípa til stórfelldra efnahagsaðgerða og mikilla tekjuflutninga í þjóðfélaginu. Þess vegna var gripið til þess ráðs við afgreiðslu núgildandi fjárl. að berja í brestina með sýndar verðstöðvun á þann hátt að nota þann tekjuafgang, sem ofsköttun á landsmenn hafði fært ríkissjóði, til þess að greiða niður vöruverð fram yfir kosningar. Um þessar ráðstafanir sagði ég m.a. í nál. mínu við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra, með leyfi hæstv. forseta:

„Allt er þetta að sjálfsögðu gert til þess að leyna þjóðina því fram yfir kosningar, í hverjar ógöngur viðreisnarstefnan hefur komið framleiðsluatvinnuvegunum í mestu góðærum, sem þjóðin hefur lifað. Það hvarflar að sjálfsögðu ekki að stjórnarflokkunum, að það sé nokkur frambúðarlausn á vandanum að festa það ástand, sem nú ríkir, með verð- og kaupstöðvun. En tilraun er gerð til þess að leika sama leikinn og minni hl.- stjórn Alþfl. var látin leika fram yfir síðari kosningarnar 1959. Strax og þær kosningar höfðu farið fram, köstuðu núverandi stjórnarflokkar frá sér verðstöðvunarstefnunni, felldu gengið og skertu lífskjörin á margvíslegan hátt og hófu þá verðbólgustefnu, sem nú er að koma atvinnuvegunum í þrot mitt í góðærunum.“

Allt hefur þetta nú komið á daginn. Núgildandi fjárlög voru afgreidd skömmu fyrir alþingiskosningar og báru þess greinileg merki, eins og lýst er í þeim hluta nál. míns frá í fyrra, sem ég las hér áðan. Fjárlög eru að þessu sinni hins vegar afgreidd skömmu eftir kosningar, og fjárlagafrv. ber þess á sama hátt eigi síður greinileg merki. Vandamál atvinnuveganna höfðu enn stórlega aukizt á yfirstandandi ári, en greinilegt var, að það var ætlun ríkisstj. að taka málin í áföngum, láta hagsmuni ríkissjóðs sjálfs sitja í fyrirrúmi og bæta aðstöðu hans um 750 millj. kr. og framvísa þannig til almennings reikningunum frá verðstöðvuninni. Þetta var 1. áfanginn. Höfuðvandamálið, starfsgrundvöllur framleiðsluatvinnuveganna, var geymdur á meðan. Fall sterlingspundsins olli svo því, að þessar ráðagerðir breyttust og báðir áfangar voru teknir í einu með þeirri ákvörðun að fella gengi íslenzkrar krónu langt niður fyrir lækkun sterlingspunds, og í þeirri mynd kemur fjárlagafrv. nú til 2. umr. Brtt., sem af þessu leiðir, fylla heila bók og hefði þess vegna verið fullt eins eðlilegt að haga afgreiðslunni nákvæmlega á sama hátt og eftir kosningar 1959, þegar upphaflegu fjárlagafrv. var hreinlega hent í sorptunnurnar. Blekkingaleikurinn, sem leikinn var nú fyrir kosningar, og ráðstafanirnar að þeim loknum er svo nákvæmlega þræddur frá atburðunum í kringum kosningar 1959, að í rauninni hefði farið bezt á því að haga einnig þessu atriði með sama hætti og þá.

Lífskjör alþýðu manna hafa skerzt stórlega á yfirstandandi ári vegna minnkandi atvinnu og samdráttar. Ofan á það bættist stórhækkun landbúnaðarafurða vegna lækkunar á niðurgreiðslum og nú dynja yfir almennar verðhækkanir vegna gengislækkunarinnar. Það segir nokkuð um það, á hverju almenningur á von í verðhækkunum á næstunni, til viðbótar við þær hækkanir, sem orðnar eru á landbúnaðarvörum, að í brtt. meiri hl. fjvn. við fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að aðrir rekstrarliðir en laun og viðhaldskostnaður hækki um 20%, og við það verður tekjuöflun ríkissjóðs miðuð. Þær aðferðir, sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa valið til þess að bæta hag ríkissjóðs, stórlækkun niðurgreiðslna, hækkun nefskatta, svo sem almannatryggingagjalds og sjúkrasamlagsgjalda, koma verr en líklega nokkrar aðrar hugsanlegar leiðir við þá, sem við örðugustu kjör búa í þjóðfélaginu. Þegar byrðunum er úthlutað, er ekki spurt, hverjir eru það, sem mest hafa matað krókinn í verðbólgunni undanfarin ár, hverjir eru bezt stæðir til þess að taka á sig álögurnar, hverjir eiga mestu eignirnar og hafa mestu tekjurnar? Nei, mælikvarðinn, sem notaður er, þegar þungi byrðanna er ákveðinn, er fjölskyldustærðin. Sá fátæki skal borga tölulega jafnmikið í hækkun nefskatta og sá ríki og með hækkun á brýnustu matvörum skal hver fjölskylda greiða þeim mun meira sem hún þarf fleiri munna að metta. Það var því ekki nema að vonum, að verkalýðsfélögin snerust harkalega gegn svo óréttlátum ráðstöfunum og þeir í verkalýðsstétt, sem einhverjar kröfur gerðu til þingliðs Alþfl., voru sem steini lostnir yfir því, að það skyldi standa að og verja slíkar efnahagsráðstafanir, sem bitnuðu þyngst á efnalitlum einstaklingum og stórum barnafjölskyldum. Og það er táknrænt um það, hvar flokksforysta Alþfl. er á vegi stödd, að á sama tíma og dagblöðin birtu frá verkalýðsfélögunum víðs vegar um landið harðorðar mótmælasamþykktir, sem fylgismenn Alþfl. stóðu að ekki síður en aðrir, birti Alþýðublaðið mynd af pattaralegu forystuliði flokksins, þar sem það var yfir veizluborðum á hádegisverðarfundi í fínu veitingahúsi í borginni að verja þessar aðgerðir, sem sérstaklega var beint gegn hinum fátækustu. Sú stórfellda gengislækkun, sem síðan var framkvæmd, sópar svo miklu fé í ríkissjóðinn, að ríkisstj. taldi sig hafa efni á að fallast á, að greiddar yrðu vísitölubætur á laun vegna hækkunar á landbúnaðarvörum, svo sem lög stóðu til. En þótt þær séu nú greiddar og halda megi því fram, að vísitölufjölskyldan, þ.e.a.s. hjón með tvö börn, fái þessar hækkanir bættar, ef launin eru yfir atvinnulágmarki, vantar mikið á, að stærri barnafjölskyldur fái með vísitöluálagi á laun uppbornar þær hækkanir, sem þær hafa orðið fyrir. Og þar vantar þeim mun meira á, sem fjölskyldan er stærri. Eftir að börn á heimili eru orðin 2 eða 3 ára, hverfa í flestum tilfellum allir möguleikar á tekjuöflun konunnar og vísitöluhækkun á lágar fjölskyldubætur jafnar aðstöðuna engan veginn. Ofan á þessar álögur bætast nú verðhækkanir af völdum gengislækkunarinnar og hagur stærri barnafjölskyldna verður af öllum þessum ástæðum hlutfallslega sífellt lakari. Það er því algerlega óhjákvæmileg nauðsyn, að Alþingi geri sérstakar ráðstafanir vegna stórra barnafjölskyldna og lífeyrisþega í því skyni að tryggja, að efnahagsaðgerðirnar, bæði lækkun niðurgreiðslna og gengislækkunin, auki ekki enn aðstöðumuninn í þjóðfélaginu þessum aðilum í óhag.

Þrátt fyrir þær stórfelldu byrðar, sem lagðar eru á launafólk, og á þann veg, að mest er á þá lagt, sem verst eru settir fyrir, er alls óvíst, hversu allar þessar ráðstafanir ríkisstj. munu duga til þess að treysta grundvöll atvinnulífsins og bera yfirlýsingar frá Landssambandi ísl. útvegsmanna því gleggst vitni. Það, sem er hins vegar fullkomlega ljóst er, að tekjur ríkis- sjóðs munu aukast stórlega, þó svo að ríkisstj. telji sér ekki fært að hrifsa til sín alla þá hækkun, sem yrði á toll- og söluskattstekjum að öðru óbreyttu. En það er ekki síður greinilegt, að sá tekjuauki verði hirtur í rekstrarhítina, sem nú vex um allan helming, þegar verðbólguhjólinu er hrundið af stað að nýju, en dregið verður úr nauðsynlegustu verklegu framkvæmdum að sama skapi. Undanfarin ár hafa verið hin mestu uppgripaár í sögu þjóðarinnar, þótt nokkuð hafi dregið úr þjóðarframleiðslunni á þessu ári miðað við allra beztu árin. Þrátt fyrir þessi hagkvæmu ytri skilyrði, hafa stjórnarvöldin látið undir höfuð leggjast að tryggja stórátök í félagslegum málum, þegar aðstaðan hefur verið langsamlega bezt til þess. Umsvif gróðafjármagnsins hafa verið látin sitja í fyrirrúmi, en fjárfestingarliðir á fjárlögum ríkisins minnka hlutfallslega ár frá ári samhliða óhemju útþenslu rekstrarliða. Tvívegis hefur framkvæmdafé verið skorið niður, eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og skertar fjárhæðir færðar inn á fjárlagafrv. næsta árs. Fjárfestingarliðir á fjárlagafrv. nú eru þannig 10% lægri en á fjárl. þessa árs í áframhaldi af skerðingu á framkvæmdafé, sem framkvæmd var eftir samþykkt fjárl., og í kjölfar gengislækkunarinnar hækka rekstrarliðir fjárl. stórlega, einstakir þættir þeirra um 20%, en fjárhæðir á framkvæmdaliðum standa tölulega í stað og lækka þannig að raungildi. Þetta er þannig orðað í nál. meiri hl. fjvn.: „Gengisbreytingin hefur ekki áhrif á framlög til gjaldfærðs stofnkostnaðar“, þ.e., þeir liðir eiga að standa óbreyttir að krónutölu með enn skert framkvæmdagildi.

Vegna þessarar þróunar undanfarin ár, sem hagkvæmust hafa þó verið til stórátaka, er málum svo komið, að ýmsir hinir mikilvægustu málaflokkar eru í algerri kreppu. Skólahúsnæði skortir hvarvetna, en ekki er enn þá sýnt, að ein einasta króna verði lögð fram til nýrra skólabygginga á fjárlögum næsta árs. Íþróttasjóður er í tugmilljóna króna skuld við sveitarfélögin og sama er að segja um félagsheimilasjóð. Brýn þörf er á stórátökum í heilbrigðis- og sjúkrahúsmálum og vegamálin eru að komast í algjört öngþveiti og svo mætti lengi telja. Ef vel hefði verið á þessum málum haldið á undanförnum gósenárum og framkvæmdir ríkisins á þessum sviðum þá verið hlutfallslega auknar í stað þess að dragast saman, þá ættum við að geta slakað á, þegar þjóðartekjurnar minnka. Þess í stað stöndum við nú eftir öll góðærin frammi fyrir meiri ófullnægðri þörf en nokkru sinni fyrr. Þeim mun meiri þörf er því á að skera niður af rekstrarliðum bruðl og óþarfa, sem látinn hefur verið viðgangast og aukast ár frá ári. Slíkar aðgerðir mundu stuðla að því að veita þeim mun meira fé til að bæta úr vanrækslu á félagslegum framkvæmdum, sem orðið hefur á undanförnum árum. En það er sannarlega ekki stefna stjórnarflokkanna. Gengislækkunina virðist eiga að nota til að sópa milljónatugum og hundruðum inn í ríkissj., en hlutur verklegra framkvæmda er enn minnkaður. Þá vekur það athygli, að þeir rekstrarliðir, sem sérstaklega er reynt að takmarka fjárveitingar til, eru þeir, sem í eðli sínu eru nauðsynlegastir, t.d. hvers kyns heilbrigðisþjónusta og rannsókna- og vísindastörf. Allar till. stjórnar ríkisspítalanna um þróun og endurbætur í rekstri voru lagðar til hliðar og vegna of lágra fjárveitinga til Landspítalans nýtist ekki einu sinni sú fjárfesting, sem þó hefur verið unnið að á undanförnum árum. Eðlileg aukning á læknaþjónustu í samræmi við stækkun sjúkrahússins fæst ekki. Skv. fjárlagafrv. er engin heimild veitt til ráðningar nýrra sérfræðinga. Jarðhitadeild sækir um fjárframlög til þess að vinna að jarðborunum á Krýsuvíkursvæðinu á Reykjanesi og í Námaskarði, en ekkert af því hefur verið tekið í fjárlög eða fjárlagafrv. og þarf þó ekki að skýra það fyrir hv. alþm., hve stórkostleg fjárhagsleg hagsmunamál er hér um að ræða. Þm. Reykjavíkur ætti a.m.k. að vera ljós nauðsyn átaka í þessum málum, þegar haft er í huga, að síðustu dagana a.m.k. virðast höfuðborgarbúar ekki hafa haft þörf fyrir annað fremur en aukinn hitastraum úr neðra. Og þegar um grundvallarrannsóknir í ýmsum vísindagreinum er að ræða, þá er viðkvæðið jafnan það, að við Íslendingar séum svo fáir og smáir, að við getum ekki haldið í við stærri þjóðir. En í bruðlinu og óþarfanum getum við hins vegar skákað þeim öllum. Hvar skyldi t.d. það geta gerzt annars staðar í heiminum, að ráðh. sé sendur með föruneyti til annarra landa til þess að horfa á, þegar skrokk af 450 tn. báti er hleypt af stokkunum, eins og átti sér stað í sambandi við síldarleitarskipið Árna Friðriksson í sumar. Látum vera, þótt ráðh. hefðu veitt svo ágætu skipi virðulegar móttökur og boðsgestum rausn, þegar hingað kom, enda var það víst ekki látið undir höfuð leggjast heldur.

Undanfarin ár hefur afgreiðslu sífellt fleiri þátta fjárlagafrv. verið frestað til 3. umr., og enn heldur sú þróun áfram. Nú bætast framlög til nýbygginga hafna við. Fram til þessa hefur vita- og hafnarmálaskrifstofunni þó tekizt að þeyta till. sínum um skiptingu á hafnarfé á borð fjvn.-manna nokkrum klukkutímum áður en frv. hefur verið skilað til 2. umr. Og nefndarmena hafa haft þann tíma einan til þess að vega og meta till. og til þess að fá staðfestingar frá hinum ýmsu stöðum um mismunandi áreiðanlegar upplýsingar, sem þeim hafa fylgt. Í þetta skipti virðast forráðamenn þessarar stofnunar þó hafa fengið hlaupasting á leiðinni, a.m.k. hafa þeir ekki náð í mark fyrir tilskilinn fima. Till. hafa ekki sézt og þessi mál liggja nú utan dyra til 3. umr. Hvar þessi þróun á að enda, veit ég ekki. Ég hef áður átalið þessi vinnubrögð og ítreka það nú af enn frekara tilefni en fyrr.

Svo sem öllum hv. þm. er ljóst, fer því mjög fjarri, að fjárlagafrv. eins og það er nú lagt fyrir til 2. umr., gefi nokkra heildarmynd. Enn liggja ekki fyrir neinar áætlanir um tekjuhliðina eftir að hún stórraskast við gengislækkunina. Til þess skortir vitneskju um ákvarðanir um tollamál og söluskatt. Þegar ekkert liggur fyrir í þessu efni, er að sjálfsögðu erfitt að gera endanlegar till. um útgjaldaliði, enda eru fjölmargir hinna veigamestu þeirra enn óafgreiddir frá fjvn. svo sem skólamál, tryggingamál, hafnamál o.fl. Mjög hefur sótt í það horfið undanfarin ár, að fjárlagafrv. er lagt fyrir þm. til afgreiðslu við 2. umr., þannig að það er í rauninni alger óskapnaður og ekki í því heil brú. Og þannig, að ekkert er upplýst um veigamestu þætti þess. Nú tekur þó steininn úr og í rauninni er það móðgun við þm. að leggja frv. fram til afgreiðslu í þessari mynd sem nú er gert, en menn fara nú að verða ýmsu vanir úr þessu. Full ástæða er til að átelja harðlega þessi vinnubrögð. Fyrst mál standa í raun og veru svo, að enginn grundvöllur er til þess, að þm. geti rætt um heildarmynd fjárlaga og metið þau í eðlilegu samhengi né heldur um einstaka veigamestu þætti þess, af þeim sökum, að önnur ákvarðandi frv. hafa ekki verið lögð fram, þá á að fresta afgreiðslu fjárlaga, þar til þeir þættir liggja fyrir. Slíka málsmeðferð eins og þm. hefur verið boðið upp á síðustu árin, má þó sízt af öllu gera að reglu eins og nú virðist stefnt að. Vegna þess hvernig að þessu máli öllu er staðið, flytur minni hl. fjvn. nú við 2. umr. aðeins 1 brtt. En vegna þess að hún er aðeins ein, þá væntum við þess, að það verði þeim mun fremur til þess að undirstrika og leggja áherzlu á það vandamál, sem hún fjallar um. Um það er ekki að efast, að margir þeirra, sem sízt mega við lífskjaraskerðingu, verða fyrir verulegum áföllum af völdum gengislækkunarinnar. Gengislækkunin snertir að sjálfsögðu misjafnlega mikið hina einstöku liði í framfærslukostnaði almennings, en hjá þeim, sem dveljast við nám erlendis, hækkar hún alla þætti framfærslukostnaðarins í beinu hlutfalli við gengislækkun ísl. kr. gagnvart gjaldeyri viðkomandi lands. Hjá fjölmörgum námsmönnum hækkar því framfærslukostnaður hreinlega um þriðjung. Nokkur hluti, líklega 1/3 hluti framfærslukostnaðar námsmanna, er greiddur af þeim lið fjárlagafrv., sem kallaður er „til styrktar ísl. námsmönnum.“ Skv. till. meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir, að þessi framlög til námsmanna haldi gildi sínu gagnvart erlendri mynt og hækki svo sem til þess þarf. Ef tekið er tillit til þess, að farmiðaskatturinn, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., er nú felldur niður, gerir meiri hl. fjvn. till. um 3 millj. 756 þús. kr. hækkun á þessari fjárveitingu. Er þá einungis um það að ræða að bæta námsmönnum upp þann 1/3 hluta námskostnaðar, sem svarar til framlags ríkisins. En gert er ráð fyrir, að námsmenn sjálfir og vandamenn þeirra taki á sig bótalaust þá rýrnun, sem verður á verðgildi krónunnar gagnvart 2/3 hlutum námskostnaðarins og fellur á með fullum þunga í réttu hlutfalli við gengisfallið. Minni hl. fjvn. telur óhjákvæmilegt, að ríkissjóður sjái til þess með frekari hækkun á framlagi til námsmanna, að þeir standi jafnréttir eftir gengislækkunina gagnvart öllum sínum námskostnaði. Við flytjum því á sérstöku þskj. till. um, að liðurinn „til styrktar ísl. námsmönnum“ hækki um 7.5 millj. kr. frá till. meiri hl. fjvn. eða í 35 millj. 865 þús. kr. Margir þeirra ísl. námsmanna, sem stunda nám erlendis, hafa unnið hér heima að sumrinu og lagt laun sín inn í banka til greiðslu á yfirfærslum á námskostnaði jafnóðum og hann félli til. Þessar innistæður hafa nú verið rýrðar allt að þriðjungi.

Gengislækkunin leikur ýmsa grátt eins og jafnan fyrr, en líklega enga þó eins og námsmenn, sem verja öllu sínu aflafé og framlögum frá vandamönnum til kaupa á erlendum gjaldeyri. Komi stjórnarvöldin ekki til móts við námsmenn, einnig gagnvart þeim hluta námskostnaðarins, sem þeir verða sjálfir að greiða, er auðsætt, að margir þeirra, sem hafa átt í miklum erfiðleikum til að afla nægilegs fjár til greiðslu námskostnaðar erlendis, hljóta að verða að hverfa frá námi. Einhverjir námsmenn kunna að eiga fjáða vandamenn, en aðrir ekki og víst er, að þeir, sem gengislækkunin hrekur frá námi, veljast ekki úr eftir námshæfileikum, heldur er með þessum ráðstöfunum, ef ekki er að gætt, verið að stuðla að því, að fjárhagsástæður ráði því meira en verið hefur, hver af ísl. ungmennum eigi kost á skólanámi erlendis. Það yrði til þess, að þeim nemendum, sem við erfiðust kjör búa, gæfist ekki kostur á að njóta þess ríkisframlags, sem veitt er til greiðslu námskostnaðar, vegna þess að þá brestur getu til að taka á sig stóraukningu á þeim útgjaldahluta, sem þeir verða að sjá fyrir sjálfir. Það er skylda Alþingis að koma í veg fyrir það í svo ríkum mæli sem unnt er, að fjárhagsástæður ráði því, hvaða þjóðfélagsþegnum gefist kostur á menntun erlendis. Alþingi ber að gera ráðstafanir til þess, að það verði ekki einungis þeir, sem bezta fjárhagsaðstöðu hafa, sem gefst kostur á að njóta þeirra lána og styrkja, sem veitt eru af ríkisfé til styrktar námsmönnum erlendis.

Eins og horfir, verður ekki annað séð en efnahagsaðgerðir ríkisstj. muni skerða mjög hagsmuni sveitarfélaganna í landinu, og aðstaða þeirra var þó fyrir orðin mjög erfið. Verðlagshækkanirnar bitna á þeim af fullum þunga í rekstrarkostnaði samtímis því, sem tekjur íbúanna dragast saman og útsvarsálagningin verður af þeim sökum erfiðari. Það er því mjög óeðlilegt, að ríkisvaldið seilist nú inn á þá tekjustofna, sem eðlilegt er, að sveitarfélögin búi að, en till. um tólfföldun á fasteignamati til eignarskatts jafngildir að sjálfsögðu því, að fasteignir séu í ríkara mæli en áður gerðar að tekjustofni fyrir ríkissjóð. Ofan á þessar aðgerðir til óhagræðis fyrir sveitarfélögin bætist, að eftir ákvörðun menntmrn. var kennslutilhögun í skólum sett upp samkv. nýju skólakostnaðarl., en nú er því lýst yfir, að þau skuli ekki taka gildi fyrr en 1. sept. n.k. og þar mun skakka a.m.k. 15 millj. kr. á kostnaði fyrir það tímabil, sem lendir á sveitarfélögunum umfram það, sem þau höfðu ástæðu til að ætla samkv. yfirlýsingum menntmrn.

Ef ekki fæst fram sú breyting við afgreiðslu fjárl. nú, að nýju skólakostnaðarl. taki gildi um næstu áramót, er a.m.k. óhjákvæmilegt að taka tillit til þessa á einhvern annan hátt til að jafna metin og gera sérstakar ráðstafanir með öðrum hætti, til þess að tryggja bætta afkomu sveitarfélaganna. Það er að vísu þrautreynt, að það er ekki til neins að flytja till. um sparnað á rekstrarliðum við afgreiðslu fjárl. En þó flyt ég sem fyrr nokkrar till., nánast sem ábendingar um nokkra liði, sem spara mætti á millj. kr.

Fyrsta till. er um að fækka stórlega í lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli. Alþýðu manna er sagt, að nú verði hún að draga úr útgjöldum sínum og spara. Þetta er þeim, sem minnst hafa úr að spila, sagt að gera án þess að innt sé eftir því, hvort þeir geti yfirleitt nokkuð sparað. Ef almenningur getur með fyrirskipunum og þvingunarráðstöfunum frá Alþ. dregið úr neyzlu sinni, ætti ríkinu ekki að vera vandara um að spara. Fjárlagafrv. sýnir þess ekki merki. Aukning á kostnaði við skattstofur virðist t.d. óstöðvandi með öllu. Gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn hækki um einar litlar 10 millj. á næsta ári eða um nálega 30%. Hann hefur nú hækkað úr 8.5 millj. 1963 í um 45.5 millj. 1968 eða um 440%. Væri ekki hægt að afla nokkurra millj. kr. upp í þennan óviðráðanlega kostnaðarauka með því að fækka í ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli í staðinn? Er nokkur ástæða til þess að ausa millj. kr. í gæzlu á því herliði, sem okkur er sagt, að hafi það eitt hlutverk að gæta okkar?

Næstu till. miða að því, að þrjú sendiráð á Norðurlöndum verði sameinuð í eitt og sparaðar með því 5.3 millj. kr. á næsta ári, en sá sparnaður yrði að sjálfsögðu meiri, eftir að skipulagsbreytingin væri að fullu komin til framkvæmda. Ég hef áður haldið því fram og ítreka það nú, að ef við teljum okkur hafa efni á að státa af svo mörgum sendiráðum, væri viturlegra að láta eitt duga á Norðurlöndum, en sinna þess í stað betur öðrum hlutum heims, þar sem við eigum mikilla viðskiptahagsmuna að gæta. Í aths. með núgildandi fjárlögum sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og málum er nú háttað, er grundvöllur fjárveitinga að jafnaði rekstur tiltekinna stofnana, sem hafa tilgreindan fjölda starfsmanna. Kostnaður við rekstur stofnunarinnar er síðan áætlaður eftir tilkostnaði eða fjárveitingum síðustu ára með álagi fyrir tilkostnaðarhækkun. Tilvera stofnunarinnar sem skipulagseiningar skyggir þannig á eða dregur athyglina frá þeim verkefnum, sem þessi skipulagseining á að afkasta. Hið rökrétta undirstöðuatriði ríkisrekstrarins hlýtur að vera það safn verkefna, sem unnið er að, en ekki þær skipulagseiningar, sem upp hafa verið settar til að sinna þessum verkefnum.

Ekki verður nú séð, að á þessu hafi orðið nokkur breyting, og ég veit naumast, við hvað þessi orð úr aths. með fjárlagafrv. í fyrra gætu fremur átt en sendiráðin á Norðurlöndum. Það er svo sannarlega um það að ræða, að tilvera stofnunarinnar eða þessara stofnana ræður fjárveitingunum, en ekki hin raunverulegu viðfangsefni. Það er ekki einu sinni svo, að bruðlið með fé almennings í sambandi við sendiráð erlendis sé í svipuðum mæli og í fyrra, heldur stóreykst nú fjárausturinn á sama tíma og krafizt er af almenningi, sem borgar brúsann, að hann herði sultarólina. Nú er sett á stofn sendinefnd í Belgíu, svo að við slitnum ekki úr tengslum við Grikki og Portúgala og aðrar lýðræðishetjur í Atlantshafsbandalaginu, sem hrakizt hafa með starfsemi sína frá Frakklandi. Þessi sendinefnd á að kosta þjóðina 5.1 millj. Ég legg til á þskj. 126, að þessi útgjöld verði spöruð, svo og þær nærri 404 þús. kr., sem ætlað er að verja til þingmannasambands Nato, enda held ég, að flestum þyki óþarft, að almenningur á Íslandi borgi stærstu herveldum heims stórfúlgur fyrir það að leggja þeim til sjálfan heila þessara þingmannasamtaka. Nær væri, að við hefðum tekjur af slíkum útflutningi. Fleiri brtt. hef ég ekki séð ástæðu til að flytja við 2. umr. þessa máls, einkum með tilliti til þess, hversu afgreiðslu frv. er í rauninni skammt komið, þegar 2. umr. lýkur. Fyrir 3. umr. ættu málin að liggja ljósar fyrir, og þá gefst tækifæri til frekari tillöguflutnings eftir því, sem þörf verður þá á.

Á undanförnum árum hafa heyrzt sífellt háværari staðhæfingar um, að störf Alþingis séu í auknum mæli að færast í það horf, að þingið sé afgreiðslustofnun, það sé í vaxandi mæli hlutverk alþm. að samþykkja það, sem fyrir þá er lagt. Þeir eigi sífellt minni kost á að fjalla um málin á frumstigi og móta þau á umræðustigi. Þeirra hlutverk sé að verða það eitt að taka hina formlegu ákvörðun á lokastigi málanna. Þessar staðhæfingar styðjast vissulega við rök, þótt deila megi um, í hve ríkum mæli Alþingi sé orðið einber afgreiðslustofnun og hafa verði í huga, að við almenningi blasa ekki störf innan þingflokka og nefnda. Hitt dylst engum, sem til þekkir, að stærstu till. í efnahagsmálum leggja aðilar utan þings í grundvallaratriðum fullmótaðar fyrir alþm. og því er að jafnaði fyrirfram slegið föstu, hvernig þær skulu afgreiddar, þótt svo að við umr. kæmi fram, að rök stæðu til að breyta þeim. Svo rammt kveður að þessu, að ég hef heyrt stjórnarþm. halda því fram, að þeir menn, sem mestu ráða innan stjórnarflokkanna, séu í rauninni fangar efnahagssérfræðinga sinna og beinar afgreiðsluvélar. Þegar fjvn. stendur nú hv. Alþ. skil á störfum sínum undanfarnar vikur, er full ástæða til þess að leggja á það áherzlu, að afgreiðsla fjárl. er ekki sízt því markinu brennd, sem falið er einkenna meðferð þingmála í vaxandi mæli, og á ég þá ekki einasta við það, að einstakir þm. standi í rauninni frammi fyrir till. meiri hl. fjvn. eða fjvn. allrar, þegar hún flytur sameiginlegar till., sem gerðum hlut, heldur á ég miklu fremur við hitt, að aðstaða fjvn, til þess að hafa áhrif á afgreiðslu einstakra liða fjárl. er næsta takmörkuð, svo að ekki sé meira sagt. Fjvn. kemur ekki nærri undirbúningi fjárlagafrv. Það er lagt fyrir hana fullmótað. Að líkindum er þó til þess ætlazt, að n. geti að loknum störfum milli umr. lagt fram rökstuddar staðhæfingar um einstaka liði fjárl., hvort þeir skuli standa óbreyttir frá því, sem á frv. greinir, hvort þeir eigi að hækka eða lækka og þá hve mikið. Í raun og veru hafa nm. svo til enga aðstöðu til þess varðandi fjölmarga liði. Þótt fundir n. séu æði margir, gefst ekki tími til mikils annars en fara yfir frv. lið fyrir lið, lesa þau fjölmörgu erindi, sem berast, og hlýða á þær óskir, sem einstakir embættismenn og aðrir, sem á nefndarfundi koma, hafa fram að færa um breytingar á frv. Lítill eða nánast enginn tími eða aðstaða er til þess að kanna raunverulega þörf á einstökum framlögum til stofnana, sem ekkert heyrist frá, eða meta óskir þær, sem bréflega eða munnlega eru lagðar fram. Þetta eru atriði, sem ég hygg, að hafi átt við, hver sem farið hefur með ríkisstj., en það er ekki síður ástæða til þess að gefa þeim gaum þess vegna. Þetta endurtekur sig ár eftir ár og aðstaðan er jafnan hin sama. Störf n. hefjast eftir að fjárlagafrv. hefur verið samið, prentað og útbýtt í þinginu og þeim lýkur, þegar það hefur verið samþ. Eftir það bíður n. eftir næsta skammti frá rn. eða ríkisstj. eða hvaðan það nú kemur, til þess að afgreiða hann sem snurðulausast á tilskildum tíma fyrir næstu áramót. Vel má vera, að talið sé, að bætt hafi verið úr þessum vanköntum með aðhaldi og eftirliti hagsýslustjóra, og vissulega skal ég ekki vanmeta það, að embættismanni er fengin aðstaða til þess að sinna einum þeim þætti, sem fjvn. mun ætlað að rækja, þ.e.a.s. að veita aðhald í rekstri og stuðla að aukinni hagkvæmni í starfsemi ríkisins. En þá er líka nauðsynlegt í fyrsta lagi, að sá embættismaður hafi tök á að beita sér í starfinu. Annaðhvort er að veita fullkomna aðstöðu til þess og gera síðan kröfur í samræmi við það eða bera þetta ekki við. Í öðru lagi er nauðsynlegt, að fjvn. og Alþ. sé fullkomlega kunnugt um niðurstöður Hagsýslustofnunarinnar og um till. hennar varðandi einstaka liði fjárl. Um fyrra atriðið er það að segja, að ég er ekki fullkomlega viss um, að starfsaðstaða hagsýslustjóra sé fullnægjandi. Fjárl. spanna æði víða yfir og ég tel, að þessa aðstöðu þurfi líklega að bæta. Er ég ekki þó talsmaður aukinna rekstrarútgjalda eða kannske er það einmitt þess vegna.

Svo hefur tekizt til, að sá, sem tók við starfinu í upphafi, var rétt að komast inn í það, þegar harm yfirgaf embættið og tók við öðru. Þetta ræður sjálfsagt einhverju um árangurinn af þessu starfi, síðan það var stofnað og er ekkert við því að segja eða gera og sá, sem við starfinu tók og byrja verður líka á byrjuninni, er áreiðanlega engu síður til starfsins hæfur og jafnvel lízt mér, að hann geti orðið fullt eins harðhnjóskulegur við þá embættismenn, sem langgrónastir, fastheldnastir og heimaríkastir eru og hafa vanizt því, að vera meira og minna lausir við allt aðhald, en þeir munu áreiðanlega sumir hverjir sízt sækjast eftir því, að nýtilkomnum hagsýslustjóra takist að skera niður þann rekstrarkostnað, sem þeir hafa hlaðið í kringum sig á löngum starfsferli.

Varðandi annað atriðið, það, að till. Hagsýslustofnunarinnar séu lagðar fyrir fjvn., ef einhverjar eru fram yfir það, sem kann að vera fólgið í þeim tölum, sem í fjárlagafrv. birtast, er það að segja, að um engar slíkar hefur fjvn. fengið að vita. Og þykist ég þó hafa hugmynd um, að þar hafi verið um að ræða till. jafnvel, sem nema tugum og þó jafnvel fremur hundruðum millj. kr. En ég ítreka það, að ég tel, að Hagsýslustofnunin gegni alls ekki hlutverki sínu og starf hennar missi að verulegu leyti marks og starfsemi hennar komi ekki að þeim notum, sem til verður að ætlast, ef athafnir þessarar stofnunar og till. eru ekki lagðar fyrir fjvn. a.m.k. Það verður að vera ljóst, hvaða ákvarðanir um rekstur og rekstrarkostnað einstakra stofnana eru teknar samkv. till. Hagsýslustofnunarinnar og hverjar kunna að verða gerðar gegn vilja hennar. Til þess að Hagsýslustofnunin verði ekki einungis handhægt skálkaskjól þeirrar ríkisstj. og þess fjmrh., sem við völd er hverju sinni, þarf fjvn. öll og Alþ. að vita, hverjar eru till. stofnunarinnar við samningu fjárl. og það verður að liggja fyrir, að hve miklu leyti þær hafa verið teknar til greina. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á uppsetningu fjárlagafrv. í þá átt, að samfelldari og skýrari mynd fáist af ríkisrekstrinum, ættu að vera til þess fallnar að auðvelda fjvn. störfin, ef fyrir hendi væru einhverjar forsendur fyrir því, að n. og síðar Alþ. gæti á raunhæfan hátt og raunverulega notað þessar upplýsingar til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir af eigin rammleik. Nauðsynlegustu forsendur fyrir því eru sjaldnast fyrir hendi, og þar gengur að segja má eitt yfir alla, stjórnarsinna sem stjórnarandstæðinga.

Það væri hægt að nefna ýmis dæmi um það, hvernig hlutverk fjvn. er í verulegum mæli það að handlanga fjárlagafrv. frá viðkomandi rn. til 2, og 3. umr. hér í þessum sal, og er einskis spurð, þegar ákvarðanirnar eru raunverulega teknar. Ég skal rekja hérna lítillega eitt þeirra.

Starfsemi bæjarfógetans í Hafnarfirði og sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu hefur um langt skeið verið í algerlega ófullnægjandi húsnæði og þá ekki sízt lögregluliðið í Hafnarfirði. Lengi hefur því blasað við, að ráðstafanir til úrbóta væru óhjákvæmilegar. Hér er ekki um að ræða tímabundna starfsemi, heldur varanlega og vaxandi með örri fólksfjölgun í umdæminu. Hvert mannsbarn hefur því sjálfsagt búizt við því, að ætlunin væri að leysa þetta mál með byggingu eigin húsnæðis ríkisins, ekki sízt þegar haft er í huga, að ríkisvaldið lét sig ekki muna um að kaupa 41/2 millj. kr. íbúðarhús handa sýslumanninum, svo sem frægt varð á sínum tíma.

Með tilliti til hlutverks fjvn. og þess starfs, sem henni er ætlað að vinna, mætti ætla, að þar hefði verið rætt um það, hvort hagkvæmara væri fyrir ríkið að leigja um næstu framtíð húsnæði fyrir þessa starfsemi eða sjá um, að hún yrði áfram sem hingað til í eigin húsnæði, sem ríkið sjálft yrði þá að byggja eða kaupa. En þrátt fyrir allar endurbætur á formi fjárl., sem m.a. eru gerðar til þess, eins og segir í aths. með fjárlagafrv., að auka upplýsingaflæði innan ríkisrekstrarins og gera það virkara, eru starfshættirnir þeir ag upplýsingaflæðið ekki örara en svo, að slíkt mál kemur ekki til kasta n. fyrr en aðrir hafa tekið endanlega ákvörðun með undirskrifuðum leigusamningi við einstakling, sem byggir stórhýsi, sem bæjarfógetaembættið fyllir að verulegu leyti. Ef sérstaklega er spurt, hvað felist í fjárhæðum, sem standa með stöfunum 1330–4050 í fjárlagafrv., kemur í ljós, að háar tölur á þessum liðum stafa af þessari ákvörðun, sem með leigusamningnum var tekin. Og ef enginn spyr, mun fjvn. og alþm. vera ætlað að vita fyrst um ákvörðunina, þegar flutningur embættisins verður auglýstur í daghlöðum eftir áramótin. Svona hljóðlega geta vel smurðar vélar gengið. Um það hefur aldrei verið spurt og verður ekki spurt úr þessu, hvort hv. alþm., sem enn þá er þó ætlað að afgreiða fjárl., kynnu að hafa þá skoðun, að heppilegri fjárhagsráðstöfun væri að verja fé til að tryggja, að embættið gæti verið í eigin húsnæði hér eftir sem hingað til, og þeir kynnu jafnvel að ætla, að ríkisvaldið hefði aðstöðu til lánsfjáröflunar í því skyni til jafns við einstakling, sem tekur að sér að hýsa embættið og leigja því 600 fermetra gólfflöt fyrir líklega 100 kr. fermetrann á mánuði eða 60 þús. kr. mánaðarleigu.

Annað dæmi mætti nefna um það, hverjir ákveða fjárveitingarnar. Aðilar komu til fjvn. til að sækja um styrk til starfsemi sinnar. Jafnhliða þeirri starfsemi leigja þeir viðamiklu ríkisembætti húsnæði. Það kom til tals, að byggingarkostnaður hefði orðið æði mikill og sérstaklega tilnefndu þeir, að innréttingakostnaður vegna ríkisembættisins hefði orðið mikill og sögðu: „Það var heimtað, að allt væri innréttað með harðviði, ekki að tala um annað.“ Hver heimtaði það? Naumast Hagsýslustofnunin. E.t.v. viðkomandi rn. A.m.k. var það ekki fjvn. eða Alþ. En nú og næstu árin standa þeir aðilar frammi fyrir húsnæðiskostnaði embættisins, sem markast af þessari kröfu sem gerðum hlut og án þess að hafa nokkru sinni haft aðstöðu til að leggja annað til málanna en veita formlegt samþykki fyrir árlegum fjárveitingum til þess að borga brúsann. Ef til þess er ætlazt, að fjvn. og Alþ. veiti aðhald og gæti hófs í rekstrarútgjöldum, verður að koma til þeirra kasta, áður en aðrir aðilar hafa slegið útgjöldunum föstum, ekki aðeins fyrir eitt ár, heldur um árabil. Varðandi hina nýju uppsetningu fjárlaga vil ég aðeins taka það fram, að ég tel, að í ýmsum tilvikum veiti hún betri sundurliðun á rekstri ríkisins. T.d. eru, svo ég haldi mig við það dæmi, sem ég var að rekja, hin ýmsu bæjarfógeta- og sýslumannsembætti skráð hvert fyrir sig. Á hinn bóginn er sundurliðunin nú knappari annars staðar, og má þar benda á starfsemi jarðhitadeildar, sem nú er svo til algjörlega felld inn í rekstur Orkustofnunar. Fjárfestingarútgjöldum, sem eru á 20. gr. fjárlaga, er nú deilt niður á hlutaðeigandi stofnanir og koma þar fram sem gjaldfærður stofnkostnaður. Þetta gefur betri mynd af rekstri hinna einstöku stofnana, hins vegar gefur slík uppsetning ekki jafngóða heildarmynd af fjárfestingu allra stofnananna og að því leyti sé ég eftir 20. gr., en úr þessu mætti að sjálfsögðu bæta með því að birta slíkan lista í sérstöku yfirliti til glöggvunar. Það er þó höfuðatriði í mínum augum, að endurbætur á uppsetningu fjárlaga og almennt aukin sundurliðun og skýrari heildarmynd tryggir ekki eitt sér, að það sé Alþ., sem í raun og veru taki ákvarðanirnar. Eftir sem áður er næsta bágborin aðstaða þm., fjvn.- manna sem annarra, til þess að vega og meta kröfur og þarfir einstakra stofnana, einstaklinga og samtaka, og taka síðan sjálfir ákvarðanirnar. Á því hefur engin breyting orðið. Hin nýja uppsetning fjárlaga breytir þar engu um, ef ekkert annað kemur til.

Herra forseti. Þær efnahagsaðgerðir, sem ríkisstj.-flokkarnir hafa nú gripið til, annars vegar þær álögur á almenning, sem felast í ráðstöfunum þeim, sem fylgdu fjárlagafrv., og síðan stórfelld gengislækkun, marka það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Þetta frv. er fyrsta fjárlagafrv. eftir alþingiskosningar og ber þess greinilega merki, eins og ég hef áður sagt. Allar þessar ráðstafanir tryggja það eð sjálfsögðu rækilega, að endar nást saman á fjárlögunum. Allt er hins vegar í óvissu um, hver bót framleiðsluatvinnuvegunum verður að þeim, vegna þess að þær valda nýju steypiflóði verðhækkana í þjóðfélaginu. Það hefur komið fram, að hagur útgerðarinnar eigi fyrst og fremst að felast í kjaraskerðingu hjá sjómönnum, og hv. 10. landsk. þm., form. Landssambands ísl. útvegsmanna, hefur lýst því yfir, að vegna efnahagsráðstafananna sé grundvöllur hlutaskiptanna brostinn, þ.e.a.s., kjarasamningar verða að breytast, sjómönnum í óhag. Flestum útgerðarmönnum munu þó ljós þau sannindi, að þeir geta ekki byggt rekstrargrundvöll útgerðarinnar á kjaraskerðingu sjómanna. Kjaraskerðing sjómanna á yfirstandandi ári er þegar orðin svo alvarleg, að á hana er ekki bætandi, og sízt mun það bæta hag útgerðarinnar, að svo verði gert. Það mun vera algengara en margur hyggur, að sjómenn hafi, það sem af er árinu, sem nú er að ljúka, ekki gert öllu meira en að vinna fyrir sköttunum, sem á þá voru lagðir í vor. Sjómenn munu því almennt ekki eiga þess nokkurn kost að fá útsvör sín, sem álögð eru á þessu ári, dregin frá skattskyldum tekjum við álagningu á næsta ári, ef Alþ. gerir ekki sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja þeim, sem fyrir svo verulegri tekjulækkun hafa orðið, þann rétt, þrátt fyrir ákvæði núgildandi laga um, að útsvör skuli hafa verið að fullu greidd fyrir áramót til þess að þau megi koma til frádráttar. Það eitt mun út af fyrir sig valda sjómönnum stórkostlegu fjárhagstjóni, ofan á allt annað. Ég tel óhjákvæmilegt, að Alþ. geri einhverjar þær ráðstafanir, sem komið gætu til móts við sjómenn í þessu sérstaka vandamáli, t.d. að þeir, sem hafa orðið fyrir 20 eða 25% tekjurýrnun eða meira, fái ekki stórum hærri skatta á næsta ári vegna þess eins, að þeim hafi ekki tekizt að greiða skatta að fullu nú fyrir áramót. Þegar þessar aðstæður sjómanna eru hafðar í huga, er fráleitara en nokkru sinni fyrr að halda því fram, að það séu hagsmunir útgerðarinnar, að launakjör sjómanna séu skert. Blómlegan hag útgerðar er ekki hægt að byggja á lágu kaupi sjómanna. Útgerðin þarf þvert á móti að búa við rekstrargrundvöll, sem gerir henni fært að borga sjómönnum svo rífleg laun, að sjómennska verði eftirsótt starf. Það er t.d. þeim ljóst, sem til þess þekkja, að á næstu vertíð fari bátaflotinn líklega að stunda veiðar með línu meira en verið hefur, vegna þess hversu horfir með sölu skreiðar. Ein ástæðan til þess, að treglega hefur gengið að koma bátum á línuveiðar er sú, að þær veiðar hafa ekki gefið sjómönnum nægan hlut. Er líklegt að úr þessu verði bætt með skerðingu á kjörum sjómanna? Ég held ekki. Og ég er þeirrar skoðunar, að kjaraskerðing þeirra, sem framleiðslustörfin vinna, sé ekki lausn á neinu vandamáli þjóðarinnar. Ef hæstv. ríkisstj, er hins vegar þeirrar skoðunar, eins og ráðstafanir hennar sýna, þá er það aðeins vottur þess, að á undanförnum árum hefur hún ýmsu gleymt, en ekkert lært. Sú ákvörðun ríkisstj. að afnema úr lögum vísitölubætur á laun, um leið og nýju verðhækkunarflóði er steypt yfir launafólk, staðfestir, að sú sé einmitt raunin. Hæstv. ríkisstj. hefur ýmsu gleymt, en ekkert lært, m.a. ekki það, að það er einber óskhyggja, að ríkisstj., jafnvel þótt hún styðjist við meirihlutavald á Alþ., takist að knýja fram afnám grundvallarréttinda, sem verkalýðshreyfingin er einhuga um að verja. Kjaraskerðing hjá launafólki er ekki lausn á neinu vandamáli þjóðarinnar. En meðan hæstv. ríkisstj. slær skjaldborg um þær grundvallarmeinsemdir, sem felast í algjöru stjórnleysi í fjárfestingar-, innflutnings- og verzllunarmálum, afmáir hún ekki afleiðingarnar, sem birtast í óviðráðanlegri verðbólguþróun, sem kallar á sífellt ný neyðarúrræði, gengislækkanir og skattahækkanir, sem magna enn vandann.