19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

1. mál, fjárlög 1968

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég kveð mér hér hljóðs, er till., sem komin er fram á þskj. 202 frá Gunnari Gíslasyni, 2. þm. Norðurl. v., Ágúst Þorvaldssyni, 2. þm. Sunnl., Magnúsi Kjartanssyni, 6. þm. Reykv. og Jóni Árm. Héðinssyni, 5. landsk. þm. Þar er lagt til, að tekinn verði upp á fjárlög nýr liður til kaupa á bókasafni Boga Ólafssonar, 600 þús. kr. Nú er það svo, að það er ugglaust ágætt mál að kaupa verðmæt bókasöfn, en hér er aðeins um eina greiðslu af þremur að ræða. Bókasafnið á að kosta 1,8 millj. og þetta er baggi, sem við bindum okkur ekki eingöngu í ár, heldur næsta ár og þar næsta ár, og meðan við höfum ekki efni á því að byggja yfir dýrmæt bókasöfn, sem þegar eru í eigu ríkisins eða eigu héraða úti á landi, finnst mér hæpið að styrkja eða samþykkja þetta hér að svo stöddu máli. En það er annað bak við þetta, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér einnig hljóðs. Þingræðið byggist á því, að til sé meiri hl. í viðkomandi þjóðþingi, og sá meiri hl. samanstendur iðulega af einstaklingum með mismunandi skoðanir. Þeir verða oft kannske að greiða atkv. með því, sem þeim er ekki ljúft, eða jafnvel fá ekki það fram, sem þeir gjarnan vildu. Hins vegar, þegar fjárlög eru samin fyrir hvert starfsár, er það eins og veggur, sem maður hleður upp, en ef einum steininum er kannske kippt úr veggnum og öðrum ætlað að koma þar í staðinn eða kannske mörgum öðrum steinum, getur hleðslan bilað. Ég vil þess vegna lýsa yfir undrun minni á þeirri aðferð, sem hér hefur verið höfð með þessa till. Hún kemur ekki gegnum meiri hl. fjvn. og hefur þar ekki náð samþykki, en síðan koma tveir þm. úr stjórnarliðinu og flytja hana með tveimur stjórnarandstæðingum og telja sér sjálfsagt skylt að fylgja þessari till. En ef svo er, að sumir þeir, sem að fjárl. er ætlað að standa, telja sér leyfilegt að fylgja liðum, sem ekki hafa komið í gegnum fjvn. eða í þeim fjárl., sem hér liggja frammi, hljóta aðrir þm. að álykta sem svo: Okkur er þá leyfilegt að greiða atkv. með ýmsum liðum, sem þar standa ekki, en aðrir hafa borið fram.