19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

1. mál, fjárlög 1968

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð. Hæstv. fjmrh. vék hér nokkuð með almennum orðum að þeim brtt., sem við, sem í stjórnarandstöðunni erum, flytjum hér, og hann hafði reiknað út, að ef þær yrðu allar samþykktar, gætu þær numið í kringum 200 millj. kr. Það má vel vera, að svo sé, ég hef ekki lagt það saman. En í sambandi við hans aths. vildi ég sérstaklega mótmæla þeirri skoðun, sem fram kemur hjá honum og er að vísu ekki ný hér. Hann setur dæmið upp á þann veg, að það sé okkar till. að hækka útgjöldin um þessar 200 millj. kr. Málið er ekki svo einfalt, að það sé eitthvert útlistað hlutverk meiri hl. eða ríkisstj. að ráða ein yfir útdeilingu fyrst á 6000 millj. kr., og ef einhverjir aðrir koma þar með einhverjar till. um, hvernig skuli verja þessum útgjöldum, þýði það allt til hækkunar við það, sem þeirra till. gera ráð fyrir. Auðvitað er það svo, að við í minni hl. erum á móti mörgum þeim útgjöldum, sem fylla þessa 6000 millj. kr. fjárhæð ríkisstj. Við höfum auðvitað rétt til þess að leggja fram ýmsar till. um það, sem við viljum leggja áherzlu á og við vildum miklu fremur, að inni í frv. væri, en margt það, sem þarna er. Þannig ber vitanlega að meta þær till., sem minni hl. er hér að gera. En það má vel vera, að það sé hins vegar afstaða meiri hl. að segja sem svona: Allar þær till., sem eru í frv., skulu að okkar áliti hafa forgang fram yfir þær till., sem minni hl. er að flytja, og í krafti þess er rétt að fella þær allar. Það er annað mál. Það er þeirra skoðun.

Ég tel líka, að það hafi ekki komið fram nein sennileg rök frá hæstv. fjmrh. eða þeim, sem hér hafa talað fyrir meiri hl., fyrir því, að tekjuáætlun á þessu frv. sé eðlileg. Mér er það alveg ljóst, að vissulega getur farið svo, að tekjurnar verði ekki meiri en áætlað er. Ég er ekki í neinum vafa um, að það, sem ræður úrslitum um það, hvernig fer með tekjuöflun ríkissjóðs, er það, hvernig framleiðslulíf okkar gengur á næsta ári. Búum við við sæmilega hagstætt veðurfar og getum stundað okkar framleiðslu og verður framleiðslan rekin hér undir eðlilegum kringumstæðum eða ekki? Ef það gengur allt vel, verða tekjur ríkissjóðs miklar. Það hefur alltaf farið þannig. Sannleikurinn er sá, að það er reginmisskilningur að halda það, að einhver gjaldeyrisvarasjóður geti ráðið einhverjum úrslitum um, það, hvernig innflutningi kemur til með að verða hagað á árinu. Það er heildarframleiðslan, það er þjóðarafkoman, sem kemur til með að ráða því. Og þær áætlanir, sem gerðar eru, m.a. af Efnahagsstofnuninni, um það, að það verði að vísu nokkur aukning á framleiðslunni frá því óhagstæða ári, sem við búum við í ár, þær gera þó ráð fyrir stórminnkandi framleiðsluverðmætum frá því, sem verið hefur á undanförnum árum. Ég er það hjartsýnn, að ég álít, að það séu öll skilyrði til þess, að ef ekki koma til einhver sérstök glöp í stjórnarstefnu, geti framleiðslan á næsta ári skilað okkur miklu meiri verðmætum heldur en hún gerir á þessu ári. Mér sýnist því, að miðað við skaplegar forsendur séu tekjuliðir frv. áætlaðir mjög lágir, og það séu allar líkur til þess, að hér verði um verulegan tekjuafgang hjá ríkissjóði að ræða. Hæstv. ráðh. segir, að þá hugsi ríkisstj. sér að ráðstafa þessu, eins og hann sagði hér, til þess að reyna að draga úr þeirri kjaraskerðingu, sem fólkið í landinu yrði annars fyrir. Það er nú svo. Ég álít, að það sé Alþingis að ráðstafa þessum fjármunum, en ekki ríkisstj. á eftir. Það á að reyna að gera fjárl. eins rétt úr garði og mögulegt er, en ekki þannig, að allar líkur séu til þess, að hér verði um verulegan tekjuafgang að ræða, til þess að ríkisstj. geti síðan ein ráðstafað honum.

En fyrst ég er kominn hér upp í ræðustólinn, þykir mér ástæða til þess að vekja athygli á einum hlut. Ég hef setið hér og hlustað á þessar umr. eins og ég hef getað í kvöld. Þó brá ég mér út úr salnum stuttan tíma og missti því af nokkru af því, sem hér fór fram, en þegar ég kom aftur inn í salinn, heyrði ég, að hér glamraði nokkuð í handjárnum, sem æði oft hafa verið nefnd í sambandi við afgreiðslu fjárl. Og þegar betur var að gáð var hér í ræðustól hv. 9. landsk. þm., einn af þm. Alþfl., og hann bar sig greinilega mjög illa undan þeim járnum, sem á honum voru. (Gripið fram í.) Það ber ekki mikið á því. Ég verð að segja það; að mér þótti það, sem ég heyrði frá þessum þm., alveg furðulegt, og mér fannst satt að segja menn vera farnir að leggjast æðilágt að koma svo hér fram í ræðustól á Alþ. og segja frá þessu á þann hátt, sem þarna var verið að gera. Er það virkilega svo, að stjórnarþm. þurfi að kvarta undan því hér á Alþ., að þeir hafi ekki lengur leyfi til þess að greiða atkv. samkv. samvizku sinni, samkv. sinni eigin afstöðu til þeirra mála, sem er verið að greiða atkv. um, að þeir megi ekki samþykkja hér smátill., sem vitanlega geta ekki haft nein úrslitaáhrif um afgreiðslu fjárl.? Er það virkilega orðið svona? Ég verð að segja það, að það hefur lengst af verið svo þann tíma, sem ég hef verið á Alþ., að þá hafa verið samþ. hér við afgreiðslu fjárl. nokkrar till. frá stjórnarandstæðingum. Það er aðeins nú síðustu árin, sem það hefur verið alveg útilokað. Og alla jafna hafa líka verið samþ. nokkrar till. frá stjórnarstuðningsmönnum, sem flutt hafa þær till. ýmist einir eða þá með stjórnarandstæðingum. Og það hefur ekki verið talið saknæmt. En nú gerist það, að hér hafa stjórnarstuðningsmenn gerzt sekir, eins og þar er talað um, um það að flytja hér brtt., sem ekki hafa farið þá réttu boðleið að ganga gegnum fjvn. og verið formlega samþ. af ríkisstj. Og þá koma aðrir stjórnarstuðningsmenn hér fram og kvarta sáran undan þessu og eru svona með smáhótanir í leiðinni, að e.t.v. fari þeir nú að brjóta af sér böndin líka. Það hefur vakið nokkra athygli okkar ýmissa, að greinilegt er, að einn af hv. þm. hér, reyndar nýr þm. hér, hv. 4. þm. Reykn., hefur ekki hlýtt algerlega þeim reglum, sem ég var satt að segja farinn að taka eftir, að virtust vera orðnar nokkuð algengar hér í þinginu nú síðustu árin. Það var mjög greinilegt, að hann t.d. beitti sér fyrir því í Ed. að vinna það, sem hefur hingað til verið talið nú síðustu árin algerlega til óhelgi, að hreyfa við stjórnarfrv., breyta því, jafnvel stjórnarfrv., sem samið hafði verið niðri í Seðlabanka. En það algenga hefur sem sagt verið það, að það hefur ekki einu sinni mátt gera á slíkum frv. óhjákvæmilega leiðréttingu. Villurnar hafa orðið að fara í gegn. Það er sýnilegt, að stuðningsmönnum ríkisstj. hefur ekki einu sinni verið trúað fyrir því að vinna að slíkum breytingum. Og framhaldið á þessu er svo það, að þm. og það nýir þm., sem hér koma inn, túlka þetta á þá leið, að þeir hafi ekki heimild til þess að samþykkja smátill., sem þeir vilja gjarnan standa með, af því að þá reikna þeir með, að öll bygging fjárlagakerfisins hrynji.

Nei, þetta er auðvitað þannig, að það er ómögulegt annað en vekja athygli á því, hvers konar hugsun er orðin hér á bak við. Skyldi það nú ekki rugla allri fjárlagaafgreiðslu hér, ef till. upp á 600 þús. kr. kynni eð verða samþ. eða þá að till. um það að fella niður 800 þús. kr. eða 1 millj. til ákveðinnar stofnunar, sem skagar býsna hátt hér í borginni, yrði felld niður? Skyldi ekki allt fjárlagakerfið ganga úr skorðum við það?

Nei, ég held, að sá hv. þm., sem hér var að kvarta undan járnunum, ætti að vinna að því, að stjórnarþm. hefðu svona skaplegt frelsi í þessum efnum. Við því er vitanlega ekkert að segja, að þeir, sem standa saman um að stjórna, hafa vissa samábyrgð um það að ganga frá samþykkt fjárlaga í öllum meginatriðum og gera það auðvitað. En slíkt, að menn megi hér hvorki flytja till. né samþykkja minni háttar breytingu, er að gera sig að miklu minni manni heldur en alþm. hafa leyfi til að gera.

Ég vildi vænta þess, að svo harkalega þurfi ríkisstj. ekki að standa að afgreiðslu fjárl., að hún þurfi að pína menn á þennan hátt, sem mér virtist að kæmi fram í ræðu þessa hv. þm. Ég skil ekki, að hún þurfi á slíku að halda.