05.02.1968
Efri deild: 50. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

121. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar fjárlög voru til lokameðferðar í Alþ. fyrir jól, lýsti ég því yfir, að ríkisstj. hefði hug á því að nota það fé, er kynni að verða aflögu hjá ríkissjóði á árinu 1968, til þess að mæta afleiðingum gengisbreytingarinnar og létta áhrif þeirra fyrir almenning. Var þá jafnframt frá því skýrt, að það sem fyrst og fremst væri haft í huga í þessu sambandi væri tollalækkun á ýmsum nauðsynjavörum, er leitt gæti til þess, að verðlagshækkanir yrðu ekki eins miklar og ella hefði orðið. Það var gert ráð fyrir því, þegar þessi orð voru sögð, að ríkissjóður kynni að hafa á árinu 1968 200–250 millj. kr. til ráðstöfunar, sem var áætlaður greiðsluafgangur ríkissjóðs, miðað við þær útgjaldahorfur, sem voru við afgreiðslu fjárlaga.

Þegar var hafizt handa um undirbúning frv. til tollabreytingar á grundvelli þessarar fjárhæðar, og þegar Alþ. kom saman um miðjan jan. hafði verið undirbúið frv., sem fól í sér 270 milljón króna tekjulækkun hjá ríkissjóði, ef það frv. hefði verið samþ. á Alþingi. En það hafði mjög breytt um varðandi tekjuhorfur ríkissjóðs, vegna þess, eins og hv. þdm. er kunnugt, að ljóst var, að gera yrði enn frekari ráðstafanir en gengisbreytinguna eina til þess að styrkja hag sjávarútvegsins. Hefur þetta leitt til þess, að framlagningu tollskrárbreytingar hefur seinkað, þar eð ekki var auðið að leggja frv. fyrir Alþ. fyrr en öll kurl voru til grafar komin varðandi styrki til sjávarútvegsins og gert hafði verið upp dæmið, þannig að sýnt yrði, með einhverjum hætti yrði auðið að standa straum af þeim tekjumissi, sem veruleg tollalækkun hefði í för með sér.

Það liggur nú fyrir að auka útgjöld ríkissjóðs á þessu ári vegna sjávarútvegsins. Þau munu nema um 320 millj. kr. Sé gert ráð fyrir, að það komi til frádráttar í fjárveitingu í fjárl. til Fiskveiðasjóðs, mundi engu að síður þurfa að afla rúmlega 290 millj. kr. til þess að ríkissjóður geti staðið straum af skuldbindingum, sem fyrirhugað er að leggja til, að á ríkið verði teknar í sambandi við aðstoð við bátaútveginn og frystihúsin.

Þar sem tekjuhorfur ríkissjóðs fyrir næsta ár bentu ekki til þess, að um gæti orðið að ræða nema um 250 millj. kr. tekjuafgang, er sjáanlegt, að það vantar 40–50 millj. kr. til þess að endar náist saman, enda þótt engin tollabreyting kæmi til, og er þá vert að hafa í huga, að miðað er við tekjuhorfur hjá ríkissjóði miðað við áætlun Efnahagsstofnunarinnar í nóvembermánuði, en síðan hafa horfur allverulega versnað, þannig að sýnt er, að tekjulíkur ríkissjóðs á næsta ári eða árinu í ár eru verri en gert hafði verið ráð fyrir. Það dæmi hefur þó ekki verið endurskoðað, og er þá gengið út frá því, að horfurnar séu svipaðar og þær voru þá. Þessi útkoma leiddi að sjálfsögðu til þess, að taka varð málið í heild til athugunar.

Það þótti mjög nauðsynlegt af eðlilegum ástæðum að koma við tollabreytingu, og af þeim sökum hefur ríkisstj. að því unnið nú síðustu vikurnar að íhuga úrræði til þess, að auðið væri að koma fram allviðtækri tollalagabreytingu, enda þótt tekjuhorfur ríkissjóðs hafi breytzt svo mjög sem raun ber vitni um. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er niðurstaða þeirra athugana, og er hér lagt til, að samþykktar verði tollalækkanir, sem áætlað er að muni kosta ríkissjóð á yfirstandandi ári um 160 millj. kr., og er það um 110 millj. kr. lægri upphæð en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir í frv. því, sem undirbúið hafði verið í þingbyrjun.

Tollskrárnefnd, sem er föst n. á vegum fjmrn. og skipuð embættismönnum rn., er sérstaklega fara með tollamál, og ýmsum öðrum sérfræðingum í tollamálum frá öðrum stofnunum og ráðuneytum og enn fremur fulltrúum iðnaðar og verzlunar, hefur undirbúið þetta frv. Jafnframt tók fulltrúi frá ASÍ þátt í störfum n. og fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda fékk einnig að fylgjast með undirbúningi málsins.

Í grg. frv. eru upp talin þau meginsjónarmið, sem fylgt hefur verið við samningu og undirbúning frv., en höfuðlínan, sem n. var gefin var sú, að það ætti að leggja áherzlu á að lækka tolla á nauðsynjavörum, sem gætu talizt veigamiklar, einkum í vísitölu. Hér er að sjálfsögðu ekki um neina blekkingu að ræða í því efni, vegna þess að miðað er þá við hina nýju vísitölu, sem ég hygg að sé nokkurn veginn samkomulag um að telja nokkuð öruggan mælikvarða á neyzluvenjur almennings nú um þessar mundir, eða að undanförnu, þannig að það ætti að vera nokkuð eðlileg niðurstaða, sem fæst út úr vísitölulækkun eftir þeirri leið, þar eð það séu fyrst og fremst þær vörur, sem taldar eru almennar neyzluvörur, sem hafi áhrif á vísitöluna til lækkunar. Meginsjónarmiðið var sem sagt það, að hér yrði fyrst og fremst leitazt við að lækka tolla á helztu nauðsynjavörum almennings. Þetta er nauðsynlegt að leggja áherzlu á, vegna þess að auðvitað geta ýmis önnur sjónarmið komið til greina í sambandi við breytingar á tollalöggjöf, en þetta var meginsjónarmiðið.

Það var ekki ætlunin með þessu frv. að leysa sérstaklega vandamál iðnaðarins á þann hátt að auka tollvernd iðnvarnings, enda hefur það ekki verið stefnan á undaaförnum árum og getur í rauninni ekki orðið stefnan í tollamálum. Engu að síður er rétt að vekja athygli á því, að það er auðvitað um að ræða mjög mikla aukna vernd iðnaðarins í sambandi við gengisbreytinguna sjálfa, og er sú vernd um það bil samsvarandi gengsbreytingunni, eða frá 16–33%, en frv. dregur að sjálfsögðu nokkuð úr þessum verndarauka, talið í prósentum, þegar tollprósentur allar lækka. En því meginsjónarmiði var fylgt varðandi iðnaðinn við undirbúning frv., að tollaprósenturnar yrðu ekki látnar nálgast hvor aðra, þannig að ef um lækkun væri að ræða á fullunninni vöru, yrðu hráefni til viðkomandi iðngreina lækkuð um sömu prósentutölu. En þótt frv. kunni þannig nokkuð að draga úr verndinni, sem iðnaðurinn hefði fengið að óbreyttri tollalöggjöf, þá má reikna það á móti, að vitanlega leiðir lækkun tolla á hráefni til iðnaðarins til þess, að minni fjármagnsþörf verður hjá iðnfyrirtækjunum, og í því er að sjálfsögðu talin mikil hagræðing og bein aðstoð við iðnaðinn. Enn fremur er þess að geta, að sums staðar er beinlínis um aukna tollvernd að ræða í frv., fyrst og fremst í ýmsum greinum vefnaðariðnaðarins. Í sambandi við járnsmíðaiðnaðinn er lagt til að framkvæma verulegar lækkanir á ýmsum helztu hráefnum til þess iðnaðar. Það byggist á því, að járnvöruiðnaðurinn á við mikla erfiðleika að stríða og það kom enda sérstaklega fram ósk um það í tollanefndinni hjá fulltrúa Alþýðusambandsins eða launþegasamtakanna, að reynt yrði að lækka hráefni til járnvöruiðnaðarins, enda þótt hann féllist að sjálfsögðu á það sem eðlilegt sjónarmið, að brýn nauðsyn væri, almennt séð, að leggja áherzlu á lækkun neyzluvörutollanna. En járnvörurnar eru í rauninni sú eina undantekning, sem gerð er frá því meginsjónarmiði, sem ég áðan lýsti og frv. byggist á, að um sé að ræða eingöngu lækkun á helztu nauðsynjavörum almennings og þá að sjálfsögðu sambærilegar lækkanir á hráefnum til þeirra iðngreina, sem frv. tekur til, þannig að aðstaða þeirra verði ekki rýrð.

Ég skal þá víkja nokkrum orðum að því helzta, sem í frv. felst, og skal leitast við að eyða ekki of löngum tíma í það, enda er í rauninni nægilegt í meginefnum og varðandi öll einstök atriði að vísa til mjög ýtarlegrar grg., sem frv. fylgir, og jafnframt að benda á það, að til hagræðingar fyrir hv. þm. hefur sú tollaprósenta, sem er í gildi núna, verið prentuð við hvert einasta tollskrárnúmer jafnframt þeirri tollprósentu, sem lagt er til að verði lögfest, þannig að mjög auðvelt er um samanburð. Eins og ég gat um, er gert ráð fyrir því, að frv. þetta, ef að lögum verður, hafi í för með sér um 160 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð á þessu ári, og gert er ráð fyrir því, að vísitöluáhrif af þessum ráðstöfunum verði um 1,56%. Það er hins vegar fróðlegt að gera sér grein fyrir því, að fyrri till., sem fyrir lágu í sambandi við tollabreytingar, gerðu ráð fyrir sáralítið meiri lækkun vísitölu. Þær 110 millj., sem um var að ræða, leiddu aðeins til um 1.65% lækkunar á vísitölu, sem stafar af því, að þar var um að ræða vörutegundir, sem þótti af ýmsum ástæðum æskilegt að gera tollabreytingar á, en hafa engin afgerandi áhrif á vísitöluna.

Til þess aðeins að gefa nokkra mynd af því, hvaða áhrif frv. hefur í einstökum atriðum, skal ég nefna hér nokkra flokka. Meginbreytingin í frv. er í sambandi við ávexti og ýmsar matvörur, hreinlætisvörur til heimila, ýmis heimilistæki, sjónvarpstæki, útvarpstæki, prjónavélar, spunavélar og eitt og annað slíkt, en langstærsti liðurinn, sem er um 2/3% þessarar breytingar, er fatnaður og þar af leiðandi alls konar tegundir vefnaðarvöru, hráefni til fatagerðar, dúkagerðar og annað þess konar. Til þess að nefna dæmi um þessar breytingar, má á það benda, að t.d. nýjar appelsínur og bananar lækka úr 40% í 15%, þurrkaðir ávextir úr 70% í 40%, niðursoðnir ávextir úr 100% í 50%, te úr 50% í 10%, snyrtivörur ýmiss konar úr 125% í 100%, en það er breyting, sem gerð hefur verið gegnumgangandi í frv., að lækka hæstu tolla úr 125% niður í 100% og eru snyrtivörur í þeim flokki og jafnframt gert ráð fyrir því í sérstakri heimild að ráðh. verði heimilað að lækka tolla á snyrtivörum enn þá meira, en það stafar af því, að hér er um vörur að ræða, sem eru taldar smyglvörur í allstórum stíl og þar af leiðandi æskilegt að lækka verulega tolla á þeim.

Hreinlætisvörur almennt til heimila lækka úr 110% í 80%, leður úr 40% í 20%, tilbúinn fatnaður úr 90% í 65% og ýmsar vörur úr vefnaði, tjöld, svefnpokar o. fl. úr 100% í 80%. Dúkar, aðrir en gólfteppi, lækka úr 50–65% í 40%, garn úr gerviþráðum úr 30%. í 10%, vélar og tæki til sútunar úr 25% í 10% og sjónvarpsviðtæki og útvarpsviðtæki úr 100% í 75%, boltar og rær úr 50% í 35% og plötustafir og prófilar, sem snerta járniðnaðinn, úr 15% í 5%. Þetta er til þess að gefa nokkra ábendingu um það, hvað hér er um að ræða.

Það hefur verið lögð áherzla á það að hagga ekki samræmi í tollskránni og af því leiðir, að það verða gerðar ýmsar breytingar, sem eru til samræmingar við önnur tollskrárnúmer, en falla ekki beint undir þau sjónarmið, sem ég hef verið að ræða um. Þá koma einnig önnur atriði til greina, sem vikið er að í grg. frv. og hafa varð hliðsjón af í sambandi við þetta mál. Í fyrsta lagi, eins og ég gat um, að til viðbótar hinum almennu neyzluvörutollum, sem eru lækkaðir, þurfti að lækka tolla á ýmsum hráefnum, en það hefur verið talið mjög æskilegt til þess að vinna gegn kaupum erlendis að geta lækkað t.d. toll á fatnaði, ekki ofan í 65%, heldur niður í 50%. En þá komum við að einu mjög miklu vandamáli, sem ég skal ekki fara langt út í hér, það yrði of langt mál, en sem stafar af því, að við erum með margar greinar iðnaðar í landinu og framleiðslu, sem einmitt falla undir fataiðnaðinn. Þar undir koma fyrst og fremst skulum við segja saumastofur, sem sauma úr innfluttum dúk eða fataefni. Þar fyrir neðan kemur innlend dúkagerð. Þar fyrir neðan kemur svo innlend garnframleiðsla, þannig að það kom á daginn, að það var engin leið að koma þessari tollalækkun, þó að við hefðum viljað, lengra niður en í 65% á innfluttum, tilbúnum fatnaði vegna hagsmuna þessara mörgu greina, sem við þessa framleiðslu eru riðnar hér innanlands. Og kemur í ljós þarna, að hér er um ærið mikið og flókið vandamál að ræða, þegar á að fara að breyta tollskránni.

Þá var, eins og ég áðan sagði, gert ráð fyrir að lækka hæstu tolla úr 125% í 100%, sem eru nú ærið háir tollar samt. Þá er nú lækkað á ýmsum vörum af tollgæzluástæðum. Það eru t.d., eins og ég gat um, snyrtivörur, dýrir málmar, ilmvötn og eitt og annað slíkt, sem er sáralítið flutt inn af. Það er ekki reiknað með neinni tekjurýrnun af þessum ástæðum, vegna þess að það er reiknað með því, að þetta skili sér í betri tollheimtu.

Þá er enn þess að gæta, að vegna aðildar okkar að GATT-samkomulaginu hefur orðið að gera vissar breytingar á tollskrá. Er þar um tvíþættar breytingar að ræða, annars vegar vissar tollabreytingar, sem leiða af viðræðum okkar innan GATT og samkomulagi við Breta og Bandaríkin, þar sem Íslendingum voru veittar víssar ívilnanir á frystum fiski í Bandaríkjunum og síldarlýsi í Bretlandi. Á móti varð að sjálfsögðu að bjóða vissar tollalækkanir, sem eiga að ganga í gildi á 5 ára bili að vísu, en það vill svo til, að ýmsar þær tollalækkanir falla innan ramma þeirra meginsjónarmiða, sem að var stefnt með tollabreytingunum almennt, þannig að það er talið æskilegt, að þær komi til framkvæmda strax. Sumar eru aftur á móti þess eðlis, að það er hægt að láta þær koma til framkvæmda með venjulegum hætti, og þá er sérstök heimild hér í frv. um, að tollana megi lækka í áföngum í samræmi við þetta samkomulag. Þá er loks í frv. lagt til, að binda megi tolla á allmörgum tollskrárnúmerum. Það er einnig í sambandi við GATT-samkomulagið, en til þess að gerast aðilar að stofnuninni eru aðildarríkin skuldbundin til að lækka ekki tolla á verulegum hluta síns innflutnings. Og þetta ákvæði er sett í sambandi við nauðsyn þess að afla heimildar í þá átt.

Loks er svo þess að geta, að það eru framkvæmdar ýmsar breytingar á tollskránni til samræmingar. Að lokum er svo um að ræða, að leitað er heimilda til ýmissa aðgerða. Ég sé ekki ástæðu til þess að skýra þær heimildir. Þær eru mjög rækilega skýrðar í grg. frv., en ég vil þó aðeins taka fram, að þ. á m. er um heimild að ræða til að endurgreiða að hluta tolla af hráefni til fataframleiðslu, sem tollafgreitt er eftir 1. jan. 1968. Þetta er nauðsynlegt, vegna þess að það var óumflýjanlegt hjá ýmsum greinum fataiðnaðarins að fá leyst inn hráefni til fatagerðar og auðvitað ósanngjarnt að láta innleysa það með hinum háa tolli, sem að óbreyttri heimild eða l. um það efni hefði orðið að gera, og því er þessarar heimildar leitað.

Það væri ástæða til þess að ræða langtum meira um tollafrv. sjálft, en af því að ég tel mjög æskilegt, að það geti komizt nú til n. og ekki allt of langur tími til umráða, mun ég ekki rekja þær breytingar nánar, nema frekara tilefni gefist til hér í umr. En miðað við það, sem ég sagði í upphafi míns máls, að í rauninni væru horfnar allar þær tekjur, sem ríkið hefði aflögu til að standa undir fyrirhuguðum tollabreytingum, er að sjálfsögðu eðlilegt, að sú spurning vakni hjá hv. þdm., hvernig sé þá ætlunin að mæta þeim auknu útgjöldum, sem hér er um að ræða, og það er eðlilegt, að ég geri í stórum dráttum grein fyrir því.

Aðalúrræðið, sem ríkisstj. hefur til þess að mæta tekjuþörf vegna þessa frv., er það, að leitað mun verða heimildar Alþingis til þess að draga úr útgjöldum ríkisins á þessu ári, sem nemur um 100 millj. kr. Ég mun á þessu stigi ekki gera frekari grein fyrir því á hvaða sviðum þetta er. Það mál hefur að sjálfsögðu verið kannað. En þessi ráðstöfum mun leiða til þess, að það verður vitanlega í flestum þessum greinum að leita heimildar Alþingis með einhverjum hætti til að draga þannig saman útgjöld ríkissjóðs. En það, sem fyrst og fremst hefur verið haft hér í huga að draga saman, eru ýmis rekstrarútgjöld ríkissjóðs. Að vísu kann það nokkuð að grípa inn á fjárfestingarútgjöldin einnig, en þó í mikla minna mæli. Í einstökum atriðum mun verða gerð grein fyrir þessu máli, þegar það kemur hér fyrir Alþ., sem verður eins fljótt og auðið er, en ýmsar þær aðgerðir eru með þeim hætti, að það tekur nokkurn tíma að undirbúa slíkt frv. En þar er sem sagt um að ræða í kringum 100 millj. kr., sem við hugsum okkur að ná með þessum hætti. Því, sem á vantar, hefur verið ætlunin að ná að verulegu leyti með því að hækkað hefur nú verið verð á áfengi og tóbaki um 10%, sem líklegt er að geti gefið um 50 millj. kr. Það lætur því mjög nærri, miðað við þetta frv., að séð sé fyrir tekjum til að mæta þeim lækkunum, sem af þessum breytingum leiða, en það er um leið rétt að leggja á það ríka áherzlu, að það eru engir möguleikar til þess að hafa þessa tollalækkun meiri, nema þá að gera sérstakar ráðstafanir til nýrrar tekjuöflunar. Þetta tel ég nauðsynlegt að taka fram, og sé um að ræða einhverjar breytingar, sem máli skipta, tel ég ekki auðið að framkvæma þær á þessu frv., nema því aðeins að annaðhvort sé séð fyrir nýjum tekjum um leið eða þá að dregið sé úr útgjöldum, sem af frv. leiða í öðrum greinum þess, en í því sambandi vil ég vekja á því sérstaka athygli, að samning nýs frv. er geysimikið vandaverk og það þarf að gæta margra atriða til þess að raska ekki samræmi og skapa vandræði, enda veit ég, að öllum hv. þm. er það vel ljóst, hversu flókið mál það er.

Ég hefði gjarnan viljað, að það hefði verið hægt að verja enn meira fé til tollabreytinga og að ekki hefði komið til þeirra nýju útgjalda, sem ríkið stendur andspænis. En um það þýðir ekki að fást. Ástandið er eins og það er og ekki er hægt að ganga lengra heldur en hér er lagt til. Það vantar enn tekjuöflun fyrir ríkissjóð auk þess, sem ég hef hér greint frá, vegna þess að það eru a.m.k. 50 millj. kr., sem út af standa enn vegna aðstoðarinnar við sjávarútveginn, og það er nú í athugun, með hverjum hætti það bil verður brúað og er einnig að vænta till. um það innan tíðar. En ríkisstj. hefur að sjálfsögðu gert sér grein fyrir, að þeim vanda þarf einnig að mæta.

Ég vil svo að lokum aðeins ítreka þá meginstefnu frv., sem frá upphafi var unnið út frá, og hún var sú, að tollalækkunin miðaði að lækkun neyzluvörutolla og að ekki væri ætlunin að stefna að aukinni tollvernd iðnaðarins, en hins vegar heldur ekki ætlunin að rýra tollvernd hans prósentulega, þannig að lækkanir skyldu gerðar á hráefnum í samræmi við þá lækkun, sem var gerð á fullunninni vöru. Ég legg jafnframt áherzlu á það, að gengisbreytingin sjálf hefur aukið mjög og bætt aðstöðu íslenzks iðnaðar með stóraukinni vernd.

Ég tel, að miðað við horfur í tollamálum og nauðsyn okkar að ná einhverri samstöðu við viðskiptabandalög, séu allar líkur til, að við þurfum að halda áfram breytingu á okkar tollalöggjöf, en ég tel, að það sé eðlilegt, að því meginsjónarmiði verði þar fylgt, sem áður hefur verið skýrt frá og markað, að þar verði um að ræða nauðsynlegan aðlögunartíma fyrir iðnaðinn og tollabreytingar verði gerðar með nokkurra ára áætlun. Og þetta er það, sem nú er að unnið. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, breytir í engu þeirri stefnu gagnvart iðnaðinum, og það er að sjálfsögðu sérstætt, vegna þess að það er miðað við það sérstaka ástand, sem hefur leitt af gengisbreytingunni, og hefur því ekki jafnframt verið hægt að taka til heildaryfirvegunar í því framtíðarstefnuna í tollamálunum, heldur er það mál, sem er umfangsmeira og þarf að gefa meiri gaum.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. fjhn. reyni að hraða þessu máli svo sem kostur er á. Vitanlega er ekki hægt að ætlast til annars en menn kynni sér í meginefnum, hvað hér er um að ræða. Það er eðlilegt og sjálfsagt og sanngirniskrafa. En því miður hefur þetta mál dregizt úr hömlu meira en æskilegt hefði verið. Það hefur valdið stórvandræðum varðandi eðlilega tollafgreiðslu vara og það væri því mjög æskilegt, að meðferð þess í þinginu gæti orðið á sem skemmstum tíma. Og ég vildi í því sambandi leyfa mér að óska eftir því, og hef farið fram á það við formann fjhn. Nd., að sú n. ynni með n. þessarar hv. d. að frumathugun málsins. Þeir embættismenn, sem að undirbúningi málsins hafa unnið, eru að sjálfsögðu til ráðstöfunar varðandi allar upplýsingar og rn. mun vitanlega leggja alla áherzlu á að afla allra þeirra upplýsinga, sem hv. þm. kunna að óska í sambandi við meðferð málsins.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.