26.02.1968
Efri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

138. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég stend nú aðallega upp til að taka fram smáatriði, sem mér láðist að geta við 2. umræðu málsins, en rétt er að hafa bókað í umr. til að koma í veg fyrir hugsanlega deilu um túlkun laganna. Í 2. gr. er komizt svo að orði: „Fé þetta skal skiptast á milli frystihúsanna í hlutfalli við framleiðslu þeirra á árinu 1968 af frystum fiskafurðum, öðrum en síldarafurðum.“ Nú er notkun okkar á orðinu „fiskafurðum“ svolítið á reiki og af fyrstu setningu 2. gr. mætti kannske álíta, að við litum á rækju sem fiskafurðir, því að þar eru sett sérstök ákvæði um styrki til frystihúsanna vegna frystingar á rækju. Spurningin, sem þá vaknar, er sú, hvað sé um humarinn, og ég vil, að það komi skýrt fram, að það er ekki tilætlunin með þessu frv. að veita styrk til humarvinnslu.

Úr því að ég er staðinn upp, vil ég ennfremur aðeins nefna brtt. þá, sem hér er fram komin frá þremur nm, í sjútvn. Í sjálfu sér má segja, að þetta sé ágæt brtt. — Það væri til bóta að koma þessu í framkvæmd. En það vantar það, sem við á að éta — hvernig eigum við að afla peninganna? Það er sumpart búið og sumpart verið að athuga leiðirnar til að afla fjár til að standast kostnaðinn af framkvæmd frv., eins og það nú liggur fyrir, og án þess að bent sé á leiðir til aukinnar fjáröflunar til að standast kostnaðinn, sem leiddi af samþykkt þessarar brtt. á þskj. 324, sér meiri hl. n. sér ekki fært að fylgja till.