21.11.1967
Efri deild: 18. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um breytingu á 33. gr. stjórnarskrárinnar á þá lund að lækka aldursmark við kosningar til Alþ. úr 21 ári í 20 ár. Jafnframt felst í frv., að 5 ára búseta í landinu sé ekki skilyrði fyrir kosningarrétti. Á síðasta Alþ. var shlj. frv. borið fram af ríkisstj. og samþ. En þar sem hér er um breytingu á stjórnarskránni að ræða, þarf samþykki tveggja þinga með alþingiskosningum á milli, til þess að breytingin öðlist stjórnskipulegt gildi. Af þeim sökum er þetta frv, flutt hér á nýjan leik.

Hinn 22. apríl 1966 var samþ. á Alþ. þál., er mælti svo fyrir, að gerð skyldi athugun á því, hvort ekki væri tímabært og æskilegt að lækka kosningaraldurinn, og yrðu þá jafnframt endurskoðaðar aðrar aldurstakmarkanir í lögum á réttindum unga fólksins. Þessi athugun var síðan framkvæmd af 7 manna nefnd, sem Alþ. kaus. Meginniðurstaðan af athugun þessarar nefndar er svo frv. það, sem hér liggur fyrir.

Hér á landi hefur kosningarréttur til Alþ. miðazt við 21 árs aldur frá því árið 1934, en þá var hann lækkaður úr 25 árum. Í Evrópu og Ameríku hefur þróunin verið í þá átt síðustu áratugina að lækka kosningaraldurinn. Að vísu er hann víðast hvar bundinn við 21 árs aldur nú, en er þó sums staðar kominn niður í 18 ár. Það orkar ekki tvímælis, að unga fólkið nú á dögum gerist virkir þegnar þjóðfélagsins fyrr en áður tíðkaðist. Það fer fyrr að heiman, stofnar fyrr til hjúskapar og heimilishalds og sjálfstæðrar atvinnu. Það aflar sér meiri tekna og hefur í reynd sjálfstæðari fjárhag en jafnaldrar þess höfðu fyrir 10–20 árum. Með frv. þessu er réttilega viðurkennt, að tvítugt fólk hafi til að bera þroska og þekkingu til þess að hafa áhrif á gang þjóðmálanna með því að kjósa til Alþ. Þessi niðurstaða styrkist af þeirri staðreynd, að ýmis hagsmunamál unga fólksins eru nú á tímum ofar á baugi í stjórnmálabaráttunni heldur en áður var. Menn greinir að vísu á um það, hvort unga fólkið sjálft óski eftir þessari rýmkun kosningarréttarins. Sumir telja, að unga fólkið sé áhugalítið um stjórnmál. Ég er hins vegar sannfærður um það, að þegar kosningaraldurinn hefur verið á annað borð færður niður, mun þetta unga fólk fullmóta stjórnmálaskoðanir sínar af íhygli og ábyrgðartilfinningu, mæta vel á kjörstað og neyta þess réttar, sem því er veittur.

Í kjölfar þeirra breytinga, sem frv. þetta felur í sér, hljóta að fylgja samsvarandi breytingar á aldurstakmörkum í lögum og réttindum ungs fólks, svo sem lækkun aldursmarks við sveitarstjórnarkosningar og lækkun lögræðisaldurs. Frv. um þessi efni hafa nú fyrir skömmu verið lögð fram hér á Alþ.

Um frv. það, sem hér liggur fyrir til breytinga á stjórnarskránni, hefur náðst víðtæk samstaða stjórnmálaflokkanna. Samþykkt frv. mun tryggja það, að við næstu alþingiskosningar njóti þeir, sem þá eru tvítugir að aldri kosningarréttar og kjörgengis. Frv. þessu var visað til allshn., og var n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. svo sem fram kemur í nál. á þskj. 66.