22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þennan fund lengi. Það er nú búið að ganga frá þessum brtt., sem við bárum fram, 1. minni hl. fjhn., hv. 5. þm. Austf. Vilhjálmur Hjálmarsson og ég, og þarf ekki í sjálfu sér meira um þær að ræða. En þetta var að vísu ekki annað en það, sem ég átti von á, að yrði niðurstaðan, þó að það sé hins vegar svo, að mér var það ekki með öllu sársaukalaust sérstaklega í sambandi við síðustu till., að hún skyldi vera lögð svo snarlega undir hnífinn sem raun bar vitni um.

Eins og menn kannske hafa áttað sig á, fjallaði sú till. um það, að Landnám ríkisins fengi að halda áfram þeirri fjárveitingu á fjárl. yfirstandandi árs, sem því er þar ætluð. Það var lagt til, að sú till. yrði felld — þessi fjárveiting yrði felld niður — og það var gert með þeim rökstuðningi, að ætla mætti, að minna yrði um stofnun nýbýla á næstunni en verið hefur um sinn. Ég get út af fyrir sig alveg fallizt á þann rökstuðning fyrir því að fella þetta niður, ef fjárveitingin væri bundin við stofnun nýhýla fyrst og fremst. En vitanlega þarf það engan veginn að vera þannig, og till. okkar hv. 5. þm. Austf. Vilhjálms Hjálmarssonar fjallaði einmitt um það, að fjárveitingunni, sem Landnáminu var ætluð í þessu skyni, yrði varið til annarra framkvæmda á sviði landbúnaðarins, og í sambandi við það flutti ég í hv. Ed. fyrir nokkru, eða á fyrstu dögum mínum hér á hv. Alþ., till. um að skorað væri á ríkisstj. að fela Landnáminu að hafa forgöngu um í samráði við búnaðarsambönd á vissum landssvæðum að koma upp fóðurbirgðamiðstöðvum í landinu.

Nú er það svo, að við vitum — það er kunnugt öllum hv. alþm. — að mjög verulegur fóðurskortur hefur verið í vissum landshlutum undanfarin haust og það svo, að til hreinna vandræða hefur horft fyrir þá bændur, sem á þessum landssvæðum hafa búið. Það hefur verið brugðizt svo við þessum vanda, að bændum hefur verið útvegað fóður með ærnum erfiðleikum að sjálfsögðu og miklum tilkostnaði, og þar að auki eru slíkar ráðstafanir jafnan ótryggar, því að það er engin trygging fyrir því fyrir fram, að hægt sé að fá nægjanlegt fóður fyrir þá, sem það vantar, annars staðar á landinu. Þess vegna var það, að við vildum beita okkur fyrir því, að komið yrði upp þessum fóðurbirgðamiðstöðvum, og við ætluðum Landnáminu að hafa með höndum þessar framkvæmdir vegna þess, að við töldum, að það væri fyrst og fremst í þess verkahring. Og við ætluðumst til þess, að þær fjárveitingar, sem til Landnámsins rynnu frá ríkisvaldinu, yrðu notaðar í þessu augnamiði. Nú hefur þessi till. verið felld, og það er að sjálfsögðu ekkert við því að segja; það er komið, sem komið er í því efni. En við höfum, af því að svona fór, leyft okkur hér tveir alþm., ég og hv. 5. þm. Norðurl. e. (SV), að bera hér fram, þó að seint sé, brtt. við frv. það, sem hér er til umræðu. Brtt. er við 8. gr. frv. og er þannig, að gr. orðist svo:

„Árið 1968 er ríkisstj. heimilt að fresta árlangt greiðslu framlags á fjárl. um allt að 6 millj. kr. vegna nýbýla samkv. 27. gr. l. nr. 75/1962 og um allt að 1,5 millj. kr. vegna íbúðarhúsa á nýbýlum samkv. 48. gr. l. nr. 75/1962.“

Þetta gerum við til þess að reyna á síðustu stundu að bjarga þessu framlagi þannig, að því verði ekki kippt af Landnáminu, heldur fái það að njóta þess síðar, þótt það komi ekki til útborgunar nú. Þetta er tilgangurinn með þessari till.

Ég lofaði hæstv. forseta því að tefja ekki fundinn lengi, og ég skal reyna að standa við það.