22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. 1. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta fer nú að verða dálítið torskilið allt saman. Hæstv. menntmrh. byrjaði ræðu sína með því að lýsa því yfir, að hér yrði eiginlega nánast engin breyting, ekki a.m.k. sem neinu máli skiptir, og alls ekki nein skipulagsbreyting. Fræðslumálastjóri yrði fræðslumálastjóri o.s.frv., þó að löggjöfin um fræðslumálastjórn yrði með öllu felld úr gildi. Og mér var farið að sýnast, að þetta mundi reka sig hastarlega á við það, sem hæstv. fjmrh. sagði rétt áðan, þegar hann sagði, að tilgangurinn með 7. gr. væri sá að fá ákveðna og fasta stefnu varðandi yfirstjórn fræðslumálanna. En svo leiðrétti eiginlega hæstv. menntmrh. þetta í lokin með því, að hann tók einmitt upp næstum alveg sama orð, þ.e. hann sagðist þurfa að fá stefnuyfirlýsingu frá Alþ., en eftir því, sem ég bezt gat heyrt á ræðu hans, er stefnuyfirlýsingin fyrst og fremst um það, að þessar stofnanir skuli vera í sama húsi. En ég held, að allir alþm. geti verið sammála um það, að ekki þurfi löggjöf um það, í hvaða húsi starfsmenn menntmrn. eða fræðslumálastjórnarinnar skuli vera.

En megi maður taka þetta alvarlega, sem hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh. og í lokin hjá hæstv. menntmrh., að hér eigi að marka ákveðna stefnu í yfirstjórn fræðslumála, þá er þetta ekki nokkur málsmeðferð, enda viðurkenndi hæstv. menntmrh., að hér væri um alveg óvenjulega málsmeðferð að ræða. Hann rökstuddi það með því, að nú þyrfti að spara ríkisútgjöldin, en svo kemur það upp öðrum þræði, að það sparast ekkert í ríkisútgjöldum á þessu ári, sem þarna um ræðir aðallega. En sé þetta rétt hjá hæstv. ráðh., að hér sé um að ræða stefnuákvörðun í yfirstjórn menntamála, á ekki að gera það á þennan hátt, heldur á að fjalla um það í sérstöku frv., sem fengi þinglega meðferð og gengi til viðkomandi n., því að það er tvennt eins og ég sagði áðan í fyrri ræðu nú við þessa umr., útgjöld ríkisins á þessu yfirstandandi fjárlagaári og sparnaður á þeim annars vegar og hins vegar yfirstjórn fræðslumála á Íslandi.

Ég get ekki séð eftir að hafa hlýtt á ræður beggja hæstv. ráðh., að neitt mæli gegn því, að brtt. mín varðandi 7. gr. verði samþ. Auk þess, sem ég hef vikið að um 7. gr., þ.e. að afgreiðsla hennar í þessu formi kemur í veg fyrir, að hún fái þinglega meðferð og fari til réttrar n., þá er greinin að öðru leyti og í einstökum atriðum hálfgerður óskapnaður eins og t.d. það, sem kemur fram á einum þremur stöðum og m.a. í 2. tölul. gr., þar sem segir, að tiltekin lög breytist í samræmi við það, sem hér segir, en breytingin er ekki orðuð inn í lögin. Þetta er engin afgreiðsla, og þetta er hreinn óskapnaður að afgreiða mál svona. Ég held, að sú meðferð væri langskemmtilegust og langeðlilegust, er fram kemur í minni brtt., og samþykkt hennar mundi ekki í nokkru koma í veg fyrir það, að hæstv. menntmrh. gæti safnað saman sinni dreifðu hjörð.