28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1134 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

141. mál, fjáraukalög 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem segir í grg. þessa frv., er það samið í samræmi við niðurstöður yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1966, og þeir hafa lagt til, að aukafjárveitingar séu veittar fyrir þeim umframgreiðslum, sem ríkisreikningurinn sýnir. Ríkisreikningurinn sjálfur hefur verið lagður fyrir Alþ., og hv. þm. hafa haft hann til athugunar tölulega síðan í haust, en hvað aths. snertir, hafa þær nýlega verið lagðar fyrir Alþ. ásamt frv. um staðfestingu á ríkisreikningnum. Það hefur verið áður í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1968 gerð grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1966 og skýrðar allar orsakir bæði til umframgreiðslna og jafnframt til þeirra umframtekna, sem orðið hafa.

Ég sé því ekki ástæðu til þess að fara að orðlengja frekar um frv., en leyfi mér að leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjvn.