17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm., sem ég vildi segja örfá orð um. En það var það, sem hann ræddi um einkennilega framkvæmd félmrn. á máli eins sveitarfélags, sem honum væri kunnugt um. Ég held, að ég viti nokkurn veginn, við hvaða sveitarfélag hann á, og án þess að ég vilji nú fara að ræða hér á þingi málefni einstakra sveitarfélaga, vil ég þó, að það komi fram, til þess að það líti ekki út eins og þarna hafi átt sér stað einhver mjög óskiljanleg afgreiðsla máls, að umrætt sveitarfélag var ekki talið hafa — samkv. þeim reglum, sem fylgt var af félmrn. í sambandi við ákvörðun aukaframlaga þörf á slíku framlagi, þ.e. að útgjöld sveitarfélagsins, eins og þau voru lögð til í fjárhagsáætlun, væru þess eðlis, að töluverður hluti af þeim — ég vil ekki segja stór hluti, en a.m.k. nægilega stór hluti af þeim — hefði verið strikaður út, áður en hefði komið til þess, að aukaframlag yrði veitt. Og það var ekki sjáanlegt, að það þjónaði neinu sérstöku hlutverki að vera að heimila sveitarfélaginu að fara upp í 20% álag, ef það ekki fengi neitt úr jöfnunarsjóði og það var nú, að því er mér skildist, ekki tilætlun umrædds sveitarfélags að það færi upp í 20% álag og þar yrði látið við sitja. En sem ég segi, þar sem það varð niðurstaðan, að þarna væri verið að leggja fé til ýmissa útgjalda, sem ekki hefðu verið viðurkennd sem grundvöllur fyrir framlagi úr jöfnunarsjóði — því að honum er vitanlega alls ekki ætlað að veita sérstaka aðstoð til meiri háttar fjárfestingar eða stóraukinna kostnaðarliða, sem ekki leiðir af eðli málsins að þurfi að sinna — þá var ekki sýnilegt, að það þjónaði neinni skynsemi fyrir umrætt sveitarfélag að vera að fá heimild til 20% álags, enda var það svo, að vegna verðstöðvunarinnar var þeirri meginreglu fylgt á s.l. ári við ákvarðanir um allar beiðnir um hækkun útsvara, að slíkar hækkanir voru ekki leyfðar, nema því aðeins að sýnilegt væri, að það væri gersamlega óumflýjanlegt að heimila umbeðna hækkun. Það er því í rauninni ekki eins kátbroslegt og hv. þm. taldi, að í lokin, þegar sótt var um aukaframlag, væri vitnað til þess, að það hefði ekki verið lagt á, en áður hefði verið búið að neita um það, eins og orð hans hefðu getað bent til, því að kjarni málsins er, eins og ég sagði, að það var ekki talin ástæða til samkv. þeim meginreglum, sem við fylgdum, að veita heimild til hækkunar umfram þau 10%, sem notuð höfðu verið hjá umræddu sveitarfélagi. Og ég tel líka mjög ólíklegt, að sveitarstjórnin þar hefði notað sér 20% heimildina, ef hún hefði jafnframt vitað, að hún fengi ekkert úr jöfnunarsjóði, þó að hún færi upp í 20% álag.