10.10.1968
Sameinað þing: 0. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (1)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hinn 21. september 1968 var gefið út svo hljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 10. október 1968.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gert að Bessastöðum, 21. september 1968.

Kristján Eldjárn.

Bjarni Benediktsson.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 10. október 1968.“

Samkv. bréfi því, sem ég hef nú lesið, lýsi ég því yfir, að Alþingi Íslendinga er sett.

Fyrsti stórviðburður sögu vorrar næst landnáminu sjálfu var stofnun Alþingis, sem vér höfum fyrir satt, að yrði árið 930 á Þingvöllum við Öxará, og eru þá liðin 1038 ár síðan. En frá því, að Alþingi var endurreist hér í Reykjavík eftir að hafa legið niðri um skeið, eru 123 ár. Frá þeim tímamótum er þetta 104. samkoma Alþingis, en síðan Alþingi fékk löggjafarvald 1874 er þetta hið 89. þing í röðinni, en 71. aðalþing.

Hálf öld er nú liðin síðan Ísland varð fullvalda ríki. Árið 1918 ber hátt í sögu þings og þjóðar og vér minnumst þess sérstaklega á þessu ári. Upprifjun nokkurra ártala við setningu Alþingis er til þess fallin að minna á hina löngu og merku sögu, sem þessi stofnun á að baki. Í þjóðfélagi voru eru flestar stofnanir ungar að árum, þar á meðal margar af mikilvægustu og virðulegustu stofnunum landsins. Alþingi er hins vegar nokkurn veginn jafngamalt þjóðinni sjálfri. Þótt saga þess sé ekki með öllu í órofnu samhengi og gengið hafi á ýmsu um völd þess og virðingu á ýmsum skeiðum þessa langa tíma, er það þó eigi að síður sama stofnunin frá upphafi vega og fram á þennan dag.

Hlutverk þess nú er hið sama og þá, að setja þjóðinni lög, greiða veg hennar í hverjum vanda, sem að höndum ber, og finna nýjar leiðir henni til heilla í veraldlegum og menningarlegum efnum. Til Alþingis lítur þjóðin um úrræði og forystu og þeirrar ríkisstj., sem ábyrgð ber fyrir því. Til þess sækja aðrar stofnanir styrk sinn. Hjá Alþingi vonast þjóðin eftir frumkvæði að góðum málefnum og stuðningi við góð málefni, sem fram koma utan þingsala. Störf og áhrif Alþingis varða líf og hag hvers manns í landinu. Þau ráð, sem það ræður, eru samtvinnuð öllu þjóðlífinu. En hagur og viðgangur þjóðar á hverri líðandi stund er undir ýmsu kominn. Margt er í því efni, sem mannlegur máttur fær ekki við ráðið. Veður ræður akri, sögðu fornmenn, og það gerir það enn. Auðlindir nýtast misjafnt frá einu skeiði til annars og frá ári til árs og um það getum vér Íslendingar úr flokki talað, sem búum við harla misjafnt árferði til lands og sjávar. Liggur í augum uppi, hve mjög heill og gengi þjóðarinnar er háð áhættusömum atvinnuvegum vorum. Þótt nú ári ekki vel, kennir sagan oss, að harðari veðráttu getur verið að vænta en nú er þessi árin og er rétt að láta sér ekki sjást yfir það. En sagan kennir einnig, að góð og vond ár, erfið og hagsæl tímabil skiptast á. Góðu árin eiga að bæta hin upp, og það er stjórnvizka að stuðla að því, að svo verði.

Veður ræður akri, en vit syni, kváðu fornmenn og vissu, að hvoru tveggja gat brugðið til beggja vona. Það vitum vér einnig og reyndar meira. Vér vitum, að vit sonarins í víðri merkingu á að bæta úr þeim misbresti, sem óhjákvæmilega verður á akrinum öðru hverju. Vér eigum að vísu mikið undir veðrum og vindum, en þó á þjóðin, þegar á allt er litið, mest undir sjálfri sér, hvernig hún vinnur verk sín, að hver hönd njóti sín að hagnýtu starfi og njóti sín sem bezt. Það skiptir mestu máli. Búið þarf margs við og störfin eru margvísleg, en öllum er þeim það sameiginlegt, að svo farnast búinu bezt, að þau séu vel unnin. Til þess þarf menntun og kunnáttu í starfi, hvert sem það er, og það siðferði að vilja vinna verk sitt vel og kunna að meta það, sem vel er gert.

En þótt sagt sé, að vel unnin verk, hverju nafni sem þau nefnast, séu undirstaðan að góðu gengi þjóðarinnar, er því ekki að neita, að misjafnlega mikil ábyrgð fylgir störfum manna. Þeir, sem hljóta að taka mikilsverðar ákvarðanir, sem varða hag allrar þjóðarinnar, eru í sérstöðu að þessu leyti, því að árangurinn af góðri viðleitni hinna getur farið eftir því, hvernig þeim tekst til.

Alþingismenn eru öðrum fremur í slíkri ábyrgðarstöðu. Þjóðin hefur kjörið yður, góðir alþingismenn, sem fulltrúa sína og trúnaðarmenn til vandasamra starfa í elztu og virðulegustu stofnun sinni. Þar vinnið þér yðar verk.

Stundum er á orði haft, að Alþingi njóti ekki þess álits í vitund almennings, sem það ætti að gera og eitt sinn var. Úr því held ég, að sé of mikið gert. Hitt er heldur, að menn hafa e.t.v. ekki til hlítar áttað sig á, að Alþingi vinnur nú öðruvísi en áður, meðan viðfangsefni voru færri og fábreyttari en nú. Alþingi styðst nú í ríkara mæli en áður var við sérfræðilega þekkingu utanþingsmanna, og störf þingmanna gerast fullt eins mikið á umræðufundum og í nefndum eins og í málstofum þingsins. Þótt þannig beri minna á einstökum alþingismönnum en áður var, hygg ég, að fólk viti, að þeir skilja veg sinn og vanda og líti í trausti til þeirra um forystu mála sinna.

Ég veit, að alþingismenn þurfa engrar brýningar við eða áminningar um þær skyldur, sem á þá eru lagðar. En það getur aldrei verið að ófyrirsynju að minna á, hve mikið þjóðin á undir því, að Alþingi og ríkisstj. farnist giftusamlega störf sín. Og allra sízt er það að ófyrirsynju við setningu þessa þings, sem á fyrir höndum að glíma við alvarlegri vandamál en við hefur verið að etja lengi. Um þau vandamál hafa ráðamenn þjóðarinnar rætt opinskátt mánuðum saman. Engum dylst, að þjóðin á í miklum efnahagsörðugleikum og þarf mikils með til að verjast stóráföllum. Og það dylst heldur engum, að þetta þing verður að takast á við vandann. Þá bjartsýni verður að leyfa sér, að vona að því auðnist að finna þær leiðir, sem færastar eru eftir öllum málavöxtum. Sú er von þjóðarinnar og sú er ósk mín þessu þingi til handa.

Eins og yður er kunnugt, er ég fyrir skömmu kominn til þessa embættis, sem færir mér þá skyldu og virðingu að höndum að setja Alþingi Íslendinga. Margir yðar, sem ég stend nú frammi fyrir, eiga að baki yður langan feril í þessari stofnun. En þó að ég sé nýliði hér, er mér það ánægjuefni að hafa um langt skeið verið persónulegur kunningi margra alþingismanna, þar á meðal margra yðar, sem nú eigið sæti á Alþingi. Og vegna þess embættis, sem ég gegndi áður, hef ég átt góð samskipti við marga yðar alþingismanna úr öllum stjórnmálaflokkum. Það embætti, sem þjóðin hefur nú kjörið mig til, felur í sér nýtt og annars konar samstarf við yður. Til þess samstarfs hygg ég gott eitt.

Ég býð yður alla heila til þings komna. Ég óska þess, að heill og blessun megi fylgja störfum Alþingis. Ég bið yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp, og forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, mælti: „Heill forseta vorum og, fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkv. 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi, þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf., að ganga til forsetastóls.

Forseti Íslands tók sér síðan sæti í þingsalnum, en aldursforseti, Sigurvin Einarsson, 1. þm. Vestf., gekk til forsetastóls og tók við fundarstjórn.